Lesbók Morgunblaðsins - 27.04.2002, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 27.04.2002, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. APRÍL 2002 E f það er eitthvað sem höfundar greinaflokks Lesbókar á þessu vori gætu sammælst um er það hve fjölbreytileg heimspeki samtímans er. Þróun vestrænn- ar heimspeki á 20. öld hefur ver- ið eitt samfellt fjölþættingar- ferli sem erfitt er að henda reiður á. Hér verður ekki gerð tilraun til að setja fram heildarsýn á heimspeki samtímans. Slík sýn er ævinlega mótuð af tiltekinni hug- mynd um eðli og hlutverk heimspekinnar og getur því aldrei annað en gefið brotakennda hugmynd um hana. Allar tilraunir til að meta stöðu heimspekinnar reyna hins vegar að draga fram sérstöðu þessarar fræðigreinar sem fyrr- um var talin móðir allra vísinda, en hefur nú á dögum hæverskara hlutverki að gegna í sam- félagi vísindanna. Meðan heimspekin var í for- ystuhlutverki, og jafnvel enn lengur, var frum- spekin sú grein hennar sem var í drottningarstöðu. Frumspekin var hin „fyrsta heimspeki“ sem hafði að viðfangi hinstu rök veruleikans og lögmál alls sem er. Hún fékkst við stóru spurningarnar um eðli veruleikans og tilgang lífsins og var af þeim sökum talin „hið allraheilagasta í hofi heimspekinnar“. Þessi trúarlega skírskotun í mynd þýska heimspek- ingsins Hans-Georg Gadamers af frumspekinni er órækur vitnisburður um að hún er það svið heimspekinnar sem hefur verið í nánastri snertingu við guðdóminn. Viðleitni heimspek- inga síðari hluta 19. aldar til að skilja sundur trú og þekkingu hefur þess vegna gengið næst frumspekinni af öllum undirgreinum heim- spekinnar. Engin grein hefur sætt jafnmikilli gagnrýni og verið jafn oft dæmd dauð og ómerk og frumspekin. Sá heimspekingur sem í lok 19. aldar lagði línurnar fyrir frumspekigagnrýni 20. aldar var Friedrich Nietzsche. Aðrir hafa fylgt eftir gagnrýni hans, bætt við hana og breytt sem hefur gert að verkum að hún hefur kvíslast í ýmsar áttir. Í ljósi þess að erfitt reynist að öðl- ast yfirsýn yfir hina fjölþættu frumspekigagn- rýni 20. aldar ætla ég að einskorða mig við gagnrýni Nietzsches. Ég mun velta fyrir mér áhrifum hennar og spyrja um afdrif frumspek- innar á 20. öld. Gerði gagnrýni Nietzsches stóru spurningarnar um hinstu rök lífsins brottrækar úr heimspekinni? Gekk hann þar með af frumspekinni dauðri eða á hún sér við- reisnar von eftir þessa atlögu? Með því að spyrja þessarar einu heimspekilegu spurningar um mátt eða vanmátt frumspekinnar nú á dög- um er gefið lítið dæmi um þá fjölbreytilegu iðju sem heimspeki er við upphaf nýrrar aldar, sem er tilgangurinn með þessum greinaflokki. „Hin fyrsta heimspeki“ Þegar talað er um endalok frumspekinnar er átt við þá hefð frumspekinnar sem lagður var grunnur að í heimspeki Platons og Aristóteles- ar. Nafngift þessarar greinar heimspekinnar er þó ekki komin frá hinum forngrísku spekingum sjálfum. Frumspeki eða „metaphysika“ er rak- in til bókfræðilegrar flokkunar Andronikosar frá Rhodos á ritum Aristótlesar. Andronikos kallaði verkið sem kom á eftir náttúruspeki (physika) Aristótelesar „ta meta ta physika“, þ.e. einfaldlega ritið „á eftir“. Aristóteles sjálf- ur leit á rit sitt sem „hina fyrstu heimspeki“ vegna þess að það fjallaði um grundvallarlög- mál verunnar. Í heimspeki Platons eru slík lög- mál talin yfir náttúruna hafin. Þetta hafði tví- þætt mótunaráhrif á heimspekina. Í fyrsta lagi er náttúran sjálf ekki hinsti vitnisburður um eðli heimsins enda vantreystu hinir fornu spek- ingar heimi sýndarinnar sem maðurinn hefur aðgang að með skilningarvitunum. Þeir voru sér þess fullvissir að skilningarvitunum væri ekki treystandi og að veruleiki sýndar væri ein- mitt sýndarveruleiki. Þess í stað taldi Platon heim frummyndanna hin raunverulega heim verunnar. Afleiðingin varð því í öðru lagi tveggjaheimakenning: Maðurinn er borgari í tveimur heimum, heimi sýndar og hinum eilífa, guðlega heimi verunnar sem hann getur öðlast innsýn í fyrir tilstilli skynsemi sinnar. Þessi yf- irnáttúrlegi heimur var bjargið sem öll veru- og þekkingarfræði hvíldi á og frumspeki af þess- um toga hefur því verið kölluð bjarghyggja (eins og Þorsteinn Gylfason hefur þýtt „founda- tionalism“.) Þótt bjarghyggjan hafi vissulega tekið breytingum á miðöldum og fram eftir ný- öld og var almennt ekki lengur rökstudd með beinni skírskotun til hins yfirskilvitlega, var vísun í einhvers konar æðri máttarvöld sjaldn- ast langt undan. Segja má að þýski heimspek- ingurinn Hegel hafi verið síðasti meistarahugs- uðurinn sem tók sér fyrir hendur að smíða heimspekikerfi sem gæti rúmað allan veru- leikann, hinn náttúrlega jafnt sem hinn yfir- náttúrlega, en hann taldi að hugrænt lögmál, andinn, væri drifafl allrar sögulegrar þróunar. Hegel dó árið 1831 og því er heimspekileg hugsun eftir hans daga iðulega auðkennd sem heimspeki „eftir frumspekina“, sem merkir nánar tiltekið heimspeki eftir bjarghyggjuna. Annað einkenni frumspeki af hefð bjarg- hyggju er markhyggjan sem er innbyggð í hana. Hinstu lögmál veruleikans eru í senn merking hans og tilgangur. Kristin kenning yf- irtekur tveggjaheimakenningu platonismans og umbreytir markhyggju aristótelískrar heimspeki um að allt sæki í átt til fullkomnunar í fyrirheit um hinn efsta dag. Síðarnefnda atriðið á raunar einnig við um hug- hyggju Hegels sem lítur á sögulega þróun and- ans sem ferli í átt til fullkominnar sjálfsþekk- ingar mannsandans. Það eru þessi tvö atriði frumspekinnar — bjarg- og markhyggjan — sem Nietzche leitast við að grafa undan. Til- raun hans og síðari tilraunum um grundvall- arlögmál lífsins má lýsa sem misvelheppnuðum tilburðum til að losa sig úr viðjum frumspek- innar. Allar tilraunir til að hefja sig upp yfir frumspekina eru nefnilega því marki brenndar að þær eru sjálfar frumspekilegar. Jafnvel hrein efnishyggja sem hefur eðlisfræðina sem rannsókn á lögmálum hinnar lifandi náttúru upp í hásæti frumspekinnar er frumspekileg þar sem sönnun þess að allt sé náttúrlega skil- yrt liggur utan verksviðs eðlisfræðinnar. Hug- um því nánar að gagnrýni Nietzsches til að ganga úr skugga um hvers eðlis sú frumspeki er sem er laus við mark- og bjarghyggju og er þess vegna afhelguð eða náttúruvædd. Botninn fer úr með dauða Guðs Afhelgun frumspekinnar má skoða í ljósi greiningar Nietzsches á andlegum tilvistarskil- yrðum nútímamannsins á tímum framþróunar vísinda sem á stóran þátt í vaxandi guðleysi að dómi hans. Slagorð Nietzsches, „Guð er dauð- ur“, felur í sér afhjúpun á hinu guðfræðilega inntaki frumspekinnar. Þar sem hið guðlega sameinar bjarg- og markhyggju frumspekinn- ar tekur við tilgangsleysi, lífið glatar æðri til- gangi. Nútímamaðurinn er á frumspekilegum vergangi. Þessu ástandi lýsir Samuel Beckett öðrum betur í leikriti sínu um flækingana sem bíða eftir Godot, en þá bið má hæglega túlka sem bið eftir guði. Þetta er ástand tómhyggju eða nihilismans, en „nihil“ sem merkir neind, ekkert eða tóm gefur til kynna að lögmál frum- spekinnar hafi verið reist á sandi fremur en á raunverulegu bjargi. Þetta bjarg var tilbúning- ur, tóm, ekki neitt. Nietzsche kemst að þeirri niðurstöðu að sannleiksleit heimspekinginna sem efast um allt hafi að lokum beinst gegn sjálfri sér og sínum eigin forsendum. Bjargföst lögmál sannleikans hafi sýnt sig vera skýja- borgir. Fyrst skýjaborgirnar eru ekki annað en uppspunninn heimur ályktar Nietzsche að öll tvíhyggja veru og birtingar sé tilbúningur. Hann olli svosem ekki hugmyndafræðilegum jarðskjálfta með þeirri frétt. Immanuel Kant hafði löngu áður sýnt fram á að frumspekilegar hugleiðingar sem teygðu sig út yfir mörk mannlegrar skynsemi, sem er endanleg skyn- semi og ekki fær um að höndla hið óendanlega, komast ekki hjá því að flækja sig í mótsagnir. Nýmælið í gagnrýni Nietzsches á frumspeki tveggja heima er öðru fremur hin sálfræðilega innsýn að hún hafi gert gagn með því að hjálpa manninum að halda velli í viðsjárverðum heimi. Handanheimar hafi sætt manninn við jarð- neska, endalega tilvist sína þar sem þeir hafi gefið fyrirheit um eilíft líf. Maðurinn sé hins vegar búinn að sjá í gegnum slíkt og því sé kom- inn tími til raunsæis eða „uppeldis til raunveru- leika“ eins og Sigmund Freud kallaði það síðar. En vitaskuld er jarðsetning hins æðra, þ.e.a.s. vísun þess til fæðingarstaðar síns í sköpunarmætti mannsins, meira mál en svo og Nietzsche gerir sér fullkomlega grein fyrir því. Hann segir að tvíhyggja frumspekinnnar gegn- sýri alla hugsun okkar sem sést á því að við hugsum og tölum iðulega í alls kyns tvenndum og andstæðum. Sannleiksviðmið okkar og rök- fræðin sem er innbyggð í formgerð tungumáls- ins eru af sama meiði. Þetta leiðir Nietzsche til að kasta fram þeirri fleygu fullyrðingu að við losnum ekki við Guð meðan við trúum á mál- fræðina. Með þessari gagnrýni gerist Nietzsche forveri málgreiningargagnrýni á frumspekina sem Ludwig Wittgenstein hrundi af stokkunum fáeinum áratugum síðar. Wittgenstein sá að mörg stærstu vandamál heimspekinnar mátti rekja til þess hve tungu- málið hefur tælt heimspekinga í ógöngur. Frumspekileg hugtök voru þess vegna að hans dómi iðulega skrumskælingar sem áttu rætur í afvegaleiddu tungutaki. Hlutverk málgreining- argagnrýni var því að lækna heimspekina af þessum kvilla með greiningu hugtaka. Í kjölfar- ið varð frumspeki að skammaryrði. Verksvið heimspekinnar þrengdist hins vegar til muna með þessari þróun og átti hún nú einungis að vera aðferð til að leysa hnúta orða og hugtaka án þess að halda nokkru fram sjálf. Þessi mein- lætislega afstaða leiddi til algerrar gerilsneyð- ingar heimspekinnar í rökfræðilegri raun- hyggju heimspekinga í hópi Vínarhringsins. Það leið samt ekki á löngu þar til málgreining- arheimspekin opnaði sig á ný fyrir óræðum vandmálum, eins og sjá má í síðari verkum Wittgensteins. Í framhaldi af því fór rökgrein- ingarheimspekin, svolítið feimnislega í fyrstu, að fást við greiningu á hugtökum og vanda- málum af frumspekilegum toga. Vera og tóm Á meginlandi Evrópu var einnig unnið að því að vinda sig út úr viðjum hefðbundinnar frum- speki. Tengslin við frumspekigagnrýni Nietzches eru hér mun augljósari. Martin Heidegger, sem er fæddur sama ár og Witt- genstein, skrifaði tveggja binda verk þar sem hann færði rök fyrir því að Nietzsche hafi bund- ið endahnút á frumspeki okkar heimspekihefð- ar. Það athyglisverða við túlkun Heideggers er hins vegar að hann telur Nietzsche sjálfan ekki hafa komist út úr frumspekinni heldur vera þrælbundinn henni. Grundvallarlögmál heim- speki Nietzsches um viljann til valds, sem er að verki í öllu lífi og á að vera hreyfiafl þróunar og valdabaráttu sem allt líf einkennist af, er að dómi Heideggers ekki annað en umsnúinn plat- onismi. Viljinn til valds er samkvæmt túlkun Heideggers náttúrlegt frumspekilegt lögmál á sama hátt og frummyndir Platons eru yfirskil- vitleg lögmál um eðli veruleikans. Með þessari gagnrýni vildi Heidegger eink- um sýna að honum sjálfum hefði með sinni heimspeki tekist að leysa sig úr hlekkjum hefð- bundinnar frumspekilegrar hugsunar. Við- fangsefni hans var sjálf veran, eða réttar sagt Veran. Heidegger taldi að frumspeki allt frá tímum Platons og Aristótelesar hefði gleymt verunni sem ætti að vera megin viðfangsefni heimspekinnar. Viðleitni þeirra og síðari tíma frumspekinga undir áhrifavaldi þeirra hefði miðast við að henda reiður á veru eða eðli hlut- anna með kerfisbundinni rökvísi. Sú hugsun sem þannig kemur böndum á veruna sjálfa ger- ir sig seka um að hlutgera hana. Veran, aftur á móti, lætur ekki höndla sig með slíkum hætti. En hvað er þessi vera? Í fyrri verkum sínum gerir Heidegger grein fyrir henni út frá neind- inni eða tóminu. Vera birtist okkur sem neind, þ.e. sem ómöguleiki alls sem er. Reynsla mannsins af neindinni (t.d. andspænis eigin dauðleika) opinberar hina fjarverandi veru. Til- gangur hugsunarinnar á að vera íhugun um veruna. Öll síðheimspeki Heideggers er hug- leiðing um veruna og það hlutverk mannsins að opna sig fyrir henni og vera reiðubúnn að taka við henni. Veran verður því nokkurs konar staðgengill fyrir Guð enda hefur síðheimspeki hans oft verið talin hálfgerð uppbótar guðfræði. Jafnvel þótt torvelt reynist að skilja hvað Heid- egger á við með hugmynd sinni um veruna er HVAÐ VARÐ UM STÓRU SPURNINGARNAR? UM AFDRIF FRUMSPEKINNAR Á 20. ÖLD OG FRAMTÍÐ HENNAR „Frumspekileg iðja er tjáning á annars konar frelsi sem engin samfélagsleg höft geta hamið. Frelsi mannsins til að eiga sér umhugsunarefni sem eru handan hins áþreifanlega. Sem er jafnframt frelsið til að hugsa um það sem er „óhugsandi“ og getur þess vegna verið andóf æðri gerðar gegn vanköntum veruleikans sem við búum við.“ E F T I R S I G R Í Ð I Þ O R G E I R S D Ó T T U R

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.