Lesbók Morgunblaðsins - 27.04.2002, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 27.04.2002, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. APRÍL 2002 7 M argir halda að sum stríð séu réttlát.1 Á Vestur- löndum hafa allt frá miðöldum verið til lærðar kenningar um rétt stríðs og friðar.2 Þær greina rétt til stríðs (ius ad bellum) frá rétti í stríði (ius in bello). Réttlátt stríð er stríð fyrir réttlátum málstað háð með réttlát- um hætti. Einn af helztu höfundum þessarar lærdómshefðar var Hollendingurinn Hugo Grotius (1583-1645). Grotius er jafnframt einn frumsmiður nútímahugmynda um alþjóðalög yfirleitt. Og viti menn: á síðustu tímum býr heimurinn við sæg alþjóðlegra sáttmála eða laga, meðal annars um stríð. Þessi stríðsréttur hefur gert skelfingar nútímastyrjalda að ein- hverju leyti bærilegri en ella. Nú dynja þær ásakanir á Ísraelsmönnum að hernaður þeirra í Palestínu sé brot gegn þessum stríðsrétti. Ætla mætti að ef farið væri í einu og öllu að alþjóðalögum í stríði hefðum við réttlátt stríð. Ég ætla að færa fáein rök að því að hugmyndin um réttlátt stríð sé hæpin, jafnvel þegar við hyggjum að henni í ljósi þeirra laga sem við búum við um stríð. Stríðsréttur fyrr og nú Gamla stríðsréttarhefðin rís af tveimur meginreglum.3 Önnur kveður á um grið ábyrgðarlausra (sem eru oftast kallaðir sak- leysingjar), hin um griðleysi ábyrgra. Þessar reglur eru auðvitað innbyggðar í allt okkar sið- ferði og réttarfar. Fólk sem hefur ekkert af sér gert – sakleysingjar – á að sjálfsögðu að fá að vera í friði, til dæmis fyrir yfirvöldum. En brotamenn megum við hefta og ef við refsum einhverjum, refsum við sekum en ekki sak- lausum. Í stríði eru konur og börn, gamalmenni og sjúklingar ábyrgðarlausir sakleysingjar og því má ekki skerða hár á höfði þeirra.4 Hermenn eru ábyrgir frekar en ábyrgðarlausir og þess vegna þarf ekki að vera neitt ranglátt við það að þeir slátri hver öðrum, frekar en það þarf að vera neitt ranglátt við einvígi sem tíðkuðust um aldir meðal aðalsins í Evrópu. Við sjáum að þessi gamli stríðsréttur er allur reistur á sið- ferðilegum forsendum, til dæmis um sekt og sakleysi og þar með um réttlæti og ranglæti í viðteknum skilningi þessara orða. Munurinn á sekum og saklausum, ábyrgum og ábyrgðar- lausum, er siðferðilegur greinarmunur, líka þegar hann er felldur í landslög. Í stríðsrétti okkar daga kemur greinarmun- ur á hermönnum og óbreyttum borgurum, eða öllu heldur á vopnuðum og óvopnuðum, í stað gamla greinarmunarins á ábyrgum og ábyrgð- arlausum, sekum og saklausum. Þessi munur á vopnuðum og óvopnuðum er auðvitað ekki sið- ferðilegur munur. Hann kemur siðferði ekkert við. Um eitt meginatriði ber hefðunum þó sam- an. Það má ráðast á seka samkvæmt gömlu hefðinni, en ekki á saklausa. Það má ráðast á vopnaða, en ekki á vopnlausa, eftir þeirri nýju.5 Samt eru hefðirnar ólíkar. Samkvæmt gömlu hefðinni – og almennu siðferði – hefur brotlegur maður engan rétt til valdbeitingar. Slíkan rétt hafa sakleysingjar einir, til dæmis í krafti lögreglu í réttarríki. Í nýja stríðsrétt- inum er það höfuðatriði að vopnleysingjar hafa engan slíkan rétt og ef þeir taka sér hann verða þeir sjálfkrafa griðlausir. Þar hafa vopn- aðir einir réttinn til valdbeitingar. (Í samræmi við þetta er stranglega bannað að fara með hermenn eins og við förum með sakamenn að venjulegum rétti. Stríðsföngum má til dæmis ekki refsa.) Drögum nú saman.6 Vopnaður maður er eins og sekur maður að því leyti að það er leyfilegt að ráðast á hann, en hann er að því leyti eins og saklaus maður að hann hefur rétt til valdbeit- ingar eða árásar. Óvopnað fólk nýtur griðleys- is sakleysingjans gagnvart árásarliði, en því leyfist ekki fremur en hinum seka að beita valdi. Við sjáum hér dæmi þess hvernig nútíma stríðsréttur hliðrar sér hjá, eða víkur frá, öllu siðferði. Þessar reglur koma réttlæti og rang- læti lítið við. Það sjáum við bezt ef við berum saman stríðsrétt og venjuleg landslög. Eftir venjulegum lögum er gersamlega fráleitt að brotamaður hafi rétt til valdbeitingar, en sak- laus þegn ekki þótt hann þurfi að verja sig og sína, til dæmis með því að fleygja innbrotsþjófi á dyr. Réttur í stríði Nú má andmæla mér og segja að stríðsrétt- ur okkar daga geymi fjölmargar siðferðilegar reglur. Til dæmis þá að ekki megi hefta för sjúkrabíls með rauðan kross eða hálfmána, hvað þá skjóta á hann. Hér höfum við vitaskuld siðferðilega reglu, í venjulegum skilningi þeirra orða. Ég fellst á þetta. Ég kannaðist við það þegar í upphafi máls míns að nútímastríðs- réttur hefði gert skelfingar nútímastyrjalda að einhverju leyti bærilegri en ella. Það hefur hann einkum gert með því að gera ýmsar sið- ferðilegar reglur að sínum. En þetta þýðir ekki að í heild sinni sé stríðs- rétturinn siðferðilegur réttur. Það þýðir ekki einu sinni að hann sé ekki siðlaus. Segjum að maður hyggist fremja morð. Hann ætlar að skera fórnar- lamb sitt á háls. En fyrst deyfir hann það. Þetta er að sjálfsögðu mannúðlegt af honum og í fyllsta samræmi við siðferðið. Mannúðin sú breytir engu um rétt morðingjans. Réttur til stríðs Eitt er að heyja stríð eftir ein- hverjum reglum, af sama tæi og þeim sem heimurinn býr nú við, og annað að efna til stríðs í krafti réttláts mál- staðar. Réttur til stríðs er allt annað en réttur í stríði. Hinn fyrrnefndi er öllum þorra fólks áreiðanlega mun hugstæðari. Við viljum vita hvort Bandaríkjamenn höfðu yfirhöfuð nokk- urn rétt til að berjast í Víetnam eða í Afganist- an núna eða í Írak innan skamms, eða hvort Ísraelsmenn hafa eitthvað sem líkist réttlátum málstað gagnvart Palestínumönnum. Réttur til stríðs – réttlæti málstaðarins frekar en hernaðarins – var fyrirferðarmikið viðfangs- efni hinnar gömlu siðferðilegu hugmyndahefð- ar um styrjaldir. Hinn nýi stríðsréttur hefur lítið að segja um rétt til stríðs. Ástæðan er sú að hinn viðamikli réttur í stríði hefur útrýmt réttinum til stríðs. Það hefur gerzt með þeim hætti meðal annars að þessi stríðsréttur hefur útrýmt siðferðis- hugmyndum gömlu höfundanna, um ábyrgð eða sekt og ábyrgðarleysi eða sakleysi, úr hug- myndaheimi sínum. En þau eru hugtökin sem við þurfum ef við viljum tala um réttlátan mál- stað í stríði. Við þetta bætist að stríðsréttinum er öllu öðru fremur ætlað að vera hlutlaus réttur. Einn munurinn á gamla réttinum og þeim nýja er sá að eftir gamla réttinum þurftu vissulega ekki að vera sekir beggja vegna víglínu þótt það gæti gerzt. Í réttlátu stríði eru þeir bara öðrum megin við hana. En vopnaðir menn eru ævinlega beggja vegna víglínunnar og stríðs- rétturinn gildir sjálfkrafa um þá alla. Hann er hlutlaus. Hann er eins og einvígisreglur. Ég skora þig á hólm, þú velur vopnin og svo fram- vegis. Einvígi, háð eftir settum reglum í góðu sam- komulagi, eru heimskuleg. Þau þurfa alls ekki að vera ranglát. Þau eru eiginlega utan alls sið- ferðis. Lítið atvik sem Dostojevskí segir frá í Karamazovbræðrum er til marks um það. Þeg- ar Zosíma, ein söguhetja hans, var ungur mað- ur hætti hann við einvígi í miðju kafi og fleygði byssu sinni frá sér og langt inn í skóg. Það var æpt að honum. „Herrar mínir!“ sagði ég. „Getur verið að það sé svo sjaldgæft á okkar tímum að hitta mann sem iðrast sjálfur heimsku sinnar og lýsir sig sekan að því sem hann hefur þegar brotið af sér opinber- lega?“ – „En ekki í miðju einvígi!“ æpti félagi minn aftur.7 Eins og einvígi held ég að stríð, eftir nútíma- skilningi á því fyrirbæri, sé utan alls siðferðis ef við lítum aðeins á rétt í stríði eða rétt til stríðs. Þess vegna er hugmyndin um réttlátt stríð á okkar dögum hæpin. Stríð og einvígi Ég er tvívegis búinn að bera stríð saman við einvígi. Guðmundur Finnbogason vildi gera stríð að einvígjum forustumanna þjóðanna og skrifaði um þetta í útlend blöð milli stríða svo að nokkra athygli vakti.8 Þetta mundu flestir telja tóman barnaskap hjá Guðmundi. Ekki sízt forustumenn þjóðanna. Hitt kann að reynast umhugsunarvert, ef við viljum bera saman stríð og einvígi, að hefð- bundin einvígi hafa horfið úr sögunni í okkar heimshluta.9 Saga Dostojevskís er orðin fram- andleg og ofurlítið spaugileg. Hún er saga um heimsku en ekki um heiður. Gætu nú stríð horfið úr sögunni með svip- uðum hætti? Hvað þurfti til að einvígi lögðust af? Eitt svar gæti verið að til þess hafi þurft að leggja allan aðal niður í Evrópu.10 Hvað þarf þá til að stríð leggist af? Þarf að leggja öll ríki nið- ur? Þarf eina alheimslögreglu? Ég ætla ekki að reyna að svara því. Ranglæti stríðs Stríðsréttur er ekki siðferðilegur réttur. Hann er leikreglur eins og einvígisreglurnar. Stríð er þá eins konar leikur. En það er djöf- ullegur leikur. Það þurfa einvígi ekki að vera þótt þau séu heimskuleg. Fyrir djöfulskapinn er stríð siðlaust. Að þessu eina leyti eru stríð ekki utan alls siðferðis. Hvernig eru stríð siðlaus? Hver er djöful- skapurinn? Ef hugmyndin um réttlátt stríð getur ekki gengið er ekkert réttlátt stríð til. Þá eru dráp í stríði ekki réttlætanleg manndráp, eins og til að mynda manndráp í sjálfsvörn eða líknardráp geta verið. Þau eru ótínd morð. Fjöldamorð. Þar með er stríð ranglátt í sjálfu sér því að morð er hið svívirðilegasta ranglæti. En auðvitað er það sams konar barnaskapur og hjá Guðmundi Finnbogasyni að halda að það breyti einhverju að segja þetta. Það er hægt að gera eitt og annað við glæp- um. Til dæmis höfum við lögreglu og dómstóla. Það má líka ráðast að orsökum glæpa, eins og fátækt og annarri eymd svo sem eiturfíkn. En hvað er hægt að gera við stríðum? Clausewitz Karl von Clausewitz (1780–1831) var prúss- neskur hershöfðingi sem samdi frægustu her- fræði allra tíma, ritið Vom Kriege (Um stríð) í tíu bindum.11 Fyrsti kafli þess er skilgreining á stríði. Clausewitz á þá eftir að gera ýmsa fyr- irvara. En fyrirvaraleysið í fyrsta kaflanum hefur orðið til að fjöldi fólks hefur sannfærzt af honum um að stríð sé glæpur þótt sú hafi alls ekki verið ætlun höfundarins. Stríð er slátur- tíð. Svo er stríð í eðli sínu takmarkalaust, segir Clausewitz. Þar er fólki slátrað með öllum ráð- um og hverri dáð.12 Í stríði er enginn málstaður annar en málstaður stríðsins sjálfs, segir Hall- dór Kiljan og gæti vel verið að bergmála vit- andi vits hinn herklædda heimspeking þeirra Prússa.13 Herstjórnarlist snýst auðvitað ekki um að gera öðrum það sem þú vilt að þeir geri þér. Hún gengur út á að gera öðrum það sem þú heldur að þeir muni gera þér, og verða fyrri til. Hér er þess að gæta að landvinningamenn unna friði umfram allt, segir Clausewitz, og lætur þess getið að Napóleón Bónaparte hafi oft sagt þetta um sjálfan sig. Friðelskandi menn kjósa ekkert fremur, þegar þeir ráðast inn í land, en að mæta engri mótspyrnu. En ef við veitum mótspyrnu hljótum við að kjósa stríð.14 Þá verður að bregðast við í nafni frið- arins. Einn af ráðamönnum Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu bar fram tilbrigði við þessa kenningu. Hann var að gagnrýna bandarísk ungmenni sem sögðust elska friðinn. „Make love, not war.“ Hann sagði ekki að Napóleón hefði líka elskað friðinn. Hann minnti heldur á Fjallræðuna. Þar stæði ekki: „Sælir eru frið- elskendur.“ Öðru nær. Kristur segði skil- merkilega: „Sælir eru friðflytjendur.“ Hann hefði ekki sízt haft þá í huga sem flyttu friðinn með vopnavaldi til framandi landa. Við sjáum á þessum dæmum að stríð er öðr- um þræði spaug. Það er afar erfitt fyrir heil- brigða sál að lesa lengi í Clausewitz án þess að skella upp úr. Reyndar hafa snjallir höfundar á Vesturlöndum séð í hendi sér hvað her- mennska er skopleg umfram allt: Cervantes í Don Kíkóta, Voltaire í Birtíngi, Jaroslav Hašek í Svejk og Halldór Kiljan Laxness í Gerplu. Það er lítil von í að kalla stríð siðlaus, en kannski ekki eins vonlaust að reyna að gera þau hlægileg. Gamanið getur orðið grátt. End- um á annarri tilvitnun í Halldór Kiljan af því að hann er hundrað ára um þessar mundir: Hversu skemtileg iðja sem morð kann að vera, hafðu það samt fyrir fasta reglu, kæri kristni bróð- ir, að drepa aldrei fleiri menn en svo að þú ásamt fjölskyldu þinni treystir þér til að éta þá; því að hin eina frambærilega réttlætíng þess að vér drepum dýr, er sú að vér ætlum að éta þau.15 Heimildir og athugasemdir: 1 Greinin er að miklu leyti samhljóða erindi sem flutt var á málþingi um réttlátt stríð í Borgarleikhúsinu fimmtu- dagskvöldið 11ta apríl 2002 á vegum leikhússins og Sið- fræðistofnunar. Þar talaði líka Karl Th. Birgisson blaða- maður og fjallaði sérstaklega um rétt í stríði. Og þar urðu fjörugar umræður. Ég hef tekið tillit til athuga- semda sem bæði Karl og Vilhjálmur Árnason gerðu við mál mitt. 2 Sbr. Hugo Grotius: De iure belli ac pacis, Oxford 1925. Um sögu hefðarinnar sjá Frederick H. Russell: The Just War in the Middle Ages, Cambridge University Press, Cambridge 1975. 3 G.E.M. Anscombe fylgir að mestu gömlu hefðinni í þremur frægum ritgerðum um þetta efni: „The Justice of the Present War Examined“, „Mr Truman’s Degree“ og „War and Murder“ í Collected Philosophical Papers III: Ethics, Religion and Politics, Basil Blackwell, Ox- ford 1981. Michael Walzer fer frjálslegar með hana í Just and Unjust Wars, Basic Books, New York 1977. 4 Um tilvitnun Grotiusar í Maímónídes um umsátur (að- eins má sitja um borg á þrjá vegu) sjá Walzer: Just and Unjust Wars, 168. 5 Sjá Nicholas Denyer: „Just War“ hjá Roger Teichmann: Logic, Cause and Action: Essays in Honour of Elizabeth Anscombe, Cambridge University Press, Cambridge 2000, 137-151. Ég styðst mjög við Denyer. 6 Nicholas Denyer: „Just War“, 150. 7 Fjodor Dostojevskí: Karamazovbræðurnir, Ingibjörg Haraldsdóttir þýddi, Mál og menning, Reykjavík 1990, I, 330-331. 8 Guðmundur Finnbogason: Stjórnarbót, Bókaverzlun Ár- sæls Árnasonar, Reykjavík 1924, 162-167. Sbr. Finnboga Guðmundsson: „Um aðferð Guðmundar Finnbogasonar til að koma í veg fyrir stríð“ hjá Jóhanni Haukssyni: Hugur ræður hálfri sjón, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1997, 78-84. 9 Um nútímastríðsrétt má nefna í þessu viðfangi að stríð eru næstum horfin úr sögunni hjá honum. Í staðinn höf- um við – í alþjóðasáttmálum um stríðsrekstur – það sem kallað er „vopnuð átök“ („armed conflict“) og heitir á ís- lenzku, að ég held, bara „skærur“. Árið 1977 var orðið „stríð“ strikað alls staðar út úr Genfarsáttmálanum um styrjaldir og „skærur“ sett í staðinn. Þetta er ein leiðin til að afnema stríð: að kalla þau annað. En það eflir naumast friðinn. 10 Nicholas Denyer: „Just War“, 150-151. 11 Karl von Clausewitz: Vom Kriege I-X, Berlín 1832-1837. 12 Sbr. Michael Walzer: Just and Unjust Wars, 22. 13 Halldór Laxness: „Mankilling is the King’s Game“ (úr New York Times 18da mars 1971) í Yfirskygðum stöð- um, Helgafell, Reykjavík 1971, 151. Sbr. Kristnihald undir Jökli, Helgafell, Reykjavík 1968, 151. 14 Michael Walzer: Just and Unjust Wars, 53. 15 Halldór Kiljan Laxness: „Íslensk hugleiðíng í tilefni frið- arþíngs þjóðanna“ (1952), Dagur í senn, Helgafell, Reykjavík 1955, 160. STRÍÐ OG RÉTTLÆTI E F T I R Þ O R S T E I N G Y L FA S O N „Hvernig eru stríð siðlaus? Hver er djöfulskapurinn? Ef hugmyndin um réttlátt stríð getur ekki gengið, er ekkert réttlátt stríð til. Þá eru dráp í stríði ekki rétt- lætanleg manndráp, eins og til að mynda manndráp í sjálfsvörn eða líknardráp geta verið. Þau eru ótínd morð. Fjöldamorð. Þar með er stríð ranglátt í sjálfu sér því að morð er hið svívirðilegasta ranglæti. En auðvitað er það sams konar barnaskapur og hjá Guðmundi Finnbogasyni að halda að það breyti einhverju að segja þetta.“ Höfundur er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Hugo Grotius Karl von Clausewitz

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.