Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 10.08.2002, Qupperneq 14

Lesbók Morgunblaðsins - 10.08.2002, Qupperneq 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. ÁGÚST 2002 F YRSTU kynni Richard Vine af Íslandi voru fyrir tveimur árum, en þá flutti hann fyrirlestra um samtímalistir í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi og Listasafninu á Akureyri. Hann kom hingað öðru sinni nýverið og gaf sér þá tíma til að setjast niður með blaðamanni og spjalla um íslenska samtímalist og þá auknu möguleika sem falist gætu erlendis fyrir íslenska listamenn – í það minnsta ef miðað er við aðstæður hér á landi þar sem tæpast er hægt að segja að til sé eig- inlegur listmarkaður. Richard segir að sitt sjónarhorn, sem ut- anaðkomandi aðili að íslensku myndlistarlífi, mótist að sjálfsögðu af stöðu hans hjá Art in America. „Tímaritið reynir að gera listum skil í alþjóðlegu samhengi og ég ferðast því tölu- vert um heiminn. Reynslan hefur kennt mér að alþjóðavæðing er staðreynd sem við verð- um hreinlega að horfast í augu við. Það er sama hvort við lítum til tvíæringsins í Buenos Aires fyrir tveimur árum eða í Shanghai þar sem ég tók sjálfur þátt í umræðunum – allir eru að velta þessari þróun fyrir sér. Umræðan er einna áköfust í Kína um þessar mundir – og varla nema von – þar sem öll utanaðkomandi áhrif mættu mikilli andstöðu þar um langa hríð á þeim forsendum að það styrkti sjálfs- mynd þjóðarinnar. Listheimurinn þar hefur verið mjög einangraður og jafnvel í samtíma- listum má enn sjá glögg merki þeirrar ein- angrunar. Sjálfur verð ég þó að viðurkenna að ég á erfitt með að taka þessa umræðu um kosti og galla alþjóðavæðingar alvarlega, því að mínu mati er alþjóðavæðingin í listum svo augljós- lega þegar orðin að staðreynd að ekki verður aftur snúið. Listheimurinn á sér í rauninni einn sameiginlegan vettvang í dag og „tungu- tak“ listanna er alls staðar hið sama. Ef ís- lenskur listamaður býr til innsetningu þá er það sjónræna tungumál sem hann notar ná- kvæmlega það sama og listamaður frá Kína eða Argentínu myndi nota. Auðvitað má finna frávik í hverju landi þar sem listamenn nota t.d. efnivið frá heimaslóðum sínum eða ákveð- in form sem tilheyra sértækari hefðum, en þegar á heildina er litið er þar frekar um að ræða „mállýskur“ en ólík tungumál. Þjóðleg einkenni hverfandi Sú hefð sem nú er mest áberandi í heim- inum tilheyrir því í raun ekki neinu ákveðnu þjóðerni, hún á miklu fremur rætur sínar að rekja til framúrstefnuhreyfingarinnar sem hófst í París í lok nítjándu aldarinnar. Hún hefur sett mark sitt á listir um allan heim alla tíð síðan, og eftir því sem ég fæ best séð mark- ar hreyfingin enn ramma þeirrar sköpunar sem á sér stað í listum. Það má ef til vill trega þann missi á þjóðlegri einkennum sem átt hef- ur sér stað samfara þessari þróun,“ segir Richard, „en hann er samt staðreynd.“ Hann ítrekar að hann sé enginn sérfræð- ingur í íslenskum listum, „og þar að auki er ég alltaf meðvitaður um það sjóngler sem ég horfi óneitanlega í gegnum. Eðlilega tek ég fyrst eftir því sem kemur mér kunnuglega fyr- ir sjónir og því má vera að í íslensku listalífi séu þættir sem vísa sérstaklega til þjóðlegra einkenna ykkar án þess að ég hafi tekið eftir þeim – hreinlega af því ég skil ekki „tungutak- ið“. Ég samsama mig og bregst að sjálfsögðu mest við þeim verkum sem myndu t.d. eiga vel heima í galleríi í Chelsea í New York. Ég held þó að þau viðbrögð séu ekkert einkennandi fyrir mig umfram aðra.“ Sem dæmi um það hversu þjóðerni virðist skipta litlu máli í samtímalistum, segir Rich- ard frá því er hann gekk eitt sinn inn á sýn- ingu sjö ástralskra listamanna í Soho, sem um langt skeið var miðstöð samtímalista í New York. „Sýningin var mjög áhugaverð,“ segir hann, „en þegar ég yfirgaf staðinn fékk ég þó yfirþyrmandi tilfinningu um að þessi ástr- ölsku verk væru nákvæmlega eins og það sem ég hefði búist við að sjá í hvaða galleríi sem er á mínum eigin heimavelli þarna í Soho. Ég hafði enga tilfinningu fyrir því að hafa komist í snertingu við framandi skynjun.“ Hann skellihlær þegar hann er spurður hvort það þjóni tilgangi að spyrna við þessari þróun með einhverjum hætti. „Það hefur ekk- ert upp á sig. Í samtímalistum eru nú ákveðnir þættir að verki sem munu að lokum hafa yfir- höndina og við eigum bara tvo möguleika í stöðunni; að láta draga okkur nauðug áfram eða fylgja flæðinu viljug og af áhuga. Ég hef satt að segja enn ekki orðið var við neitt afl í listheiminum sem komið gæti í staðinn fyrir þessa alþjóðavæðingu.“ Ísland utan alfaraleiðar í listheiminum Richard Vine segist vera þess fullviss að þeir listamenn sem hér starfa þurfi að koma sér á framfæri og láta að sér kveða á alþjóða- vettvangi, einfaldlega vegna þess að mark- aðurinn hér er svo lítill. Þar sem lítið sést til íslenskra listamanna erlendis segir hann Ís- land hjúpað dálítilli dulúð í hugum þeirra sem, eins og hann sjálfur, starfa í stærra samhengi. „Við þekkjum t.d. ítalska, þýska og ástralska listamenn,“ segir hann, „en það er afar fágætt að rekast á íslenska þátttakendur á tvíær- ingum eða alþjóðlegum sýningum. Nafnið Ís- land er því enn litað af rómantískum hug- myndum og leyndardómum – enda leggja afar fáir leið sína hingað. Sjálfum finnst mér þó að tilhneiging okkar sem störfum við Art in America sé sú að leggja sífellt minni áherslu á þjóðerni í um- fjöllun okkar. Fyrir nokkrum árum síðan gættum við þess vandlega að geta þess í öllum okkar greinum hvaðan listamenn kæmu, en á síðustu árum hefur það orðið mjög erfitt. Fólk fæðist á einum stað, lærir annarsstaðar, býr á þriðja staðnum og sýnir á alþjóðavettvangi. Hvernig er þá hægt að skilgreina það öðruvísi en sem alþjóðlega listamenn? Það sama á við um íslenska list. Ef maður rekst á hana fyrir tilviljun, þá get ég ekki sagt að hún skeri sig úr með nokkrum hætti. Hún hefur greinilega þróast í takti við alþjóðlega strauma. Íslensk list er hluti af orðræðu hins alþjóðlega list- heims, það er augljóst að sú orðræða hefur sett mark sitt á listamennina sjálfa rétt eins og ef þeir byggju í Arizona.“ Það leikur því enginn vafi á því að þátttaka á alþjóðavettvangi er mikilvæg fyrir íslenska listamenn að mati Richard Vine, að öðrum kosti verður ekki eftir þeim tekið. „Tilhneig- ingin til að taka eftir hápunktunum – bæði hvað varðar listræn gæði og fjárhagslegt bol- magn – í alþjóðalistum er mjög sterk. Viðmið okkar mótast óneitanlega af þeim stöðum sem segja má að séu háborgir menningar í heim- inum. Listamaður sem starfar í Köln kemur því fyrr upp í huga okkar heldur en einhver sem t.d. vinnur í Oklahomaborg þrátt fyrir að hann sé landi okkar, einfaldlega vegna þess að Oklahoma tilheyrir „dreifbýlinu“ í listrænum skilningi og er fyrir utan alfaraleið þeirra sem ferðast um listheiminn. Staður eins og Reykjavík á auðvitað raun- verulegt val um stefnumótun á þessu sviði þar sem borgin gæti mjög auðveldlega orðið einn áfangastaða í hinum alþjóðlega listheimi. Með réttri markaðssetningu og nægilegum fjár- festingum gæti Reykjavík auðveldlega orðið ein þeirra borga sem eru manni efst í huga þegar samtímalistir ber á góma. Forsendan er þó samstillt átak allra sem hlut eiga að máli og þátttaka úti í hinum stóra heimi. Það þýðir ekkert að framleiða bara góða listamenn og bíða svo í rólegheitum eftir því að umheim- urinn taki eftir þeim.“ Óhjákvæmilegt að taka þátt í tvíæringum Richard segir alla gera grín að því hversu margir tvíæringar eru orðnir til í heiminum. „Sannleikurinn er þó sá að þeir eru undirstaða hræringanna í listheiminum. Ef markmiðið er að afla íslenskri listsköpun viðurkenningar þá er óhjákvæmilegt að taka þátt í þessum tvíær- ingum og stóru alþjóðlegu listsýningum. Einnig verður að ýta undir gagnkvæmt flæði til og frá Íslandi, þannig að íslenskir lista- menn komist erlendis í gestavinnustofur eða nám, og jafnframt að safnstjórum og sýning- arstjórum sé boðið hingað í heimsókn til að hitta íslenska listamenn og kollega – og fylgj- ast með þróuninni.“ Spurður um grundvöll þess að halda tvíær- ing hér eins og komið hefur til tals, svarar hann því til að tvíæringur sé auðvitað mjög viðamikið verkefni. „En Reykjavík hefur þó það aðdráttarafl um þessar mundir sem dugað gæti til að draga hingað fjöldann allan af fólki. Ég tek eftir því hversu mikið er fjallað um borgina í erlendum blöðum þar sem höfðað er til ungs fólks og áherslan lögð á lífsstíl. Þar er auðvelt að finna út hvaða íslensku hljómsveitir eru að fikra sig áfram og hvaða skemmtistaðir eru vinsælastir í augnablikinu. Hvað mig sjálf- an varðar, get ég einnig borið vitni um það að þegar ég segist vera að fara til Íslands, vekur það mikinn áhuga hjá fólki – það veltir því fyr- ir sér hvers konar staður landið sé eiginlega, hvað sé um að vera þar o.s.frv. Hvað markaðs- setningu á listum varðar eiga Íslendingar mikla möguleika í augnablikinu, sem auðvelt væri að nýta ef áhuginn væri fyrir hendi.“ Ein ástæða þess að Richard Vine lagði leið sína hingað til lands að þessu sinni var sýn- ingin Mynd í Listasafni Reykjavíkur, Hafn- arhúsi, en hún var liður í dagskrá Listahátíðar í vor. Hann segir þá sýningu dæmigerða fyrir það sem við höfum verið að ræða, „sérstaklega má nefna innsetningarnar sem virðast mjög kunnuglegar hvað tjáningarmátann varðar og fyllilega sambærilegar við það sem sést ann- arsstaðar.“ Hann vísar til fyrri orða sinna um fram- úrstefnuhreyfinguna og segir áhrif hennar á tengsl samtímalista og áhorfenda enn mjög áberandi. „Þáttur í því er að listirnar eru vís- vitandi á skjön við ríkjandi menningu, en einn- ig má nefna þörf fyrir að vera ögrandi og framandi á einhvern hátt. Hluti af sál list- heimsins hneigist alltaf í þessa átt, en sá þátt- ur togast um leið á við þörf fyrir viðurkenn- ingu og tengsl við umheiminn. Þessar tvær tilhneigingar þrífast því hlið við hlið og af- hjúpa vel þá tvístrun sem ríkir í heimi listanna. Hinn almenni áhorfandi er þó fullkomlega fær um að laga sig að þessu myndmáli ef hon- um er gefið tækifæri til þess, tungumál listanna er sjónrænt og um leið og áhorfand- inn er orðinn því kunnugur getur hann túlkað það. Í söfnum í Bandaríkjunum eru reknar stórar deildir sem sinna menntunarhlutverki safnanna gagnvart áhorfendum. Áhorfendur taka við sér að því marki að jafnvel ungir krakkar þekkja verk samtímalistamanna. Ég get því ekki komið auga á neinar augljósar hindranir á milli listheimsins og áhorfenda – ef vel er staðið að fyrstu kynnum áhorfenda af listum er björninn unninn.“ Óhugsandi annað en að hafa samtímalistasafn Richard segir að þegar land á borð við Ís- land er heimsótt hafi tímarit á borð við Art in America fyrst og fremst áhuga á að gefa les- endum sínum tilfinningu fyrir heildarmynd listsamfélagsins. Fjallað er um söfnin, þau gallerí sem þar starfa, en einstakir listamenn dragast inn í umfjöllunina með þeim hætti. Aðspurður játar hann að það komi sér nokkuð á óvart að hér skuli ekki vera samtímalista- safn. „Í þeim löndum þar sem listheimurinn hefur náð að þróast og er orðinn fullþroska er óhugsandi annað en að hafa starfandi sam- tímalistasafn – eða í það minnsta samtíma- listastofnun þar sem erlend verk eru sýnd með reglulegum hætti samhliða innlendum verkum. Ef landinu ykkar og höfuðborginni á að vaxa fiskur um hrygg í alþjóðlegu sam- hengi er að mínu mati mjög mikilvægt að koma slíkri stofnun eða safni á laggirnar hér.“ Þótt alþjóðlegi listheimurinn virðist stór og jafnvel fjarlægur hér á landi, segir hann mik- ilvægustu upplýsingarnar þar berast frá manni til manns, rétt eins og annarsstaðar. „Ég myndi því ekki hika við að bjóða mark- visst hingað til lands þeim sýningar- og safn- stjórum sem eitthvað kveður að í heiminum. Kostnaðurinn sem yrði því samfara er í raun- inni mjög lítill miðað við t.d. hvað það kostar að kaupa venjulegar auglýsingar í áhrifamikl- um miðlum. Árangurinn af heimsókn yrði hins vegar miklu meiri – það er ekki hægt að líkja áhrifamætti persónulegrar reynslu af ís- lenskri list sem slíkir gestir upplifa saman við óbeinan áhrifamátt auglýsinga eða bæklinga, þótt það sé allt saman góðra gjalda vert. Vit- undarvakning um eitthvað nýtt í listheiminum sprettur ætíð fyrst og fremst upp af beinni og persónulegri reynslu, hræringar í hina eða þessa áttina má í langflestum tilfellum rekja þannig. Ég og kollegar mínir göntumst stundum með það að eina leiðin til að koma listamanni á framfæri sé að koma nafni hans inn í kollinn á áhrifamiklum sýningarstjórum í heiminum. Þegar allt kemur til alls er auðvitað mikilvæg- ur sannleikskjarni í slíku gríni, svona virkar listheimurinn hreinlega,“ segir Richard og hlær við, „þeir velja og hafna. Áhrifamesta leiðin til að koma sér áfram felst því án efa í að afla sér persónulegra sambanda. Ég veit sjálf- ur hversu sú list sem ég hef séð og upplifað er miklu meira lifandi í huga mér heldur en það sem ég hef einungis séð myndir af. Ef íslensk list á að rata á alþjóðamarkað, þarf að gera al- þjóðlegum sýningarstjórum kleift að koma hingað til að skoða góð verk, hitta listamenn- ina og mynda nauðsynleg tengsl.“ TUNGUTAK LISTANNA ER ALLS STAÐAR HIÐ SAMA Listgagnrýnandinn Richard Vine hefur um langt skeið verið með fingurinn á púlsi hins alþjóðlega listheims. Leið hans lá hingað til lands fyrir skömmu og FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR ræddi við hann um stöðu íslenskra lista í hinum alþjóðlega listheimi. Morgunblaðið/Jim Smart Richard Vine segir að með réttri markaðssetningu og nægilegum fjárfestingum gæti Reykjavík auðveldlega orðið ein þeirra borga sem eru mönnum efst í huga þegar samtímalistir ber á góma. Forsendan er þó samstillt átak allra sem hlut eiga að máli og þátttaka úti í hinum stóra heimi. fbi@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.