Lesbók Morgunblaðsins - 10.08.2002, Side 16

Lesbók Morgunblaðsins - 10.08.2002, Side 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. ÁGÚST 2002 E NGLENDINGAR hafa af ein- hverjum ástæðum ekki átt sömu velgengni að fagna í tón- smíðum og mörgum öðrum list- greinum. Meðan skáld eins og Shakespeare, Byron og Wilde hafa haldið heiðri breskrar rit- listar á lofti gegnum aldirnar var lengi fátt um fína drætti í ensku tónlistar- lífi. Á tuttugustu öldinni eignuðust þeir Ben- jamin Britten. Til að finna annað eins tónskáld sem markað hefur djúp spor í tónlistarsöguna þarf hins vegar að leita aftur um þrjú hundruð ár. Iðinn við tónsmíðar og drykkju Árið 1659 fæddist Thomas Purcell og konu hans sveinbarn. Hann hlaut nafnið Henry. Fjölskylda hans hafði mestöll starfað við tón- list svo ekki var óeðlilegt að hann legði stund á sömu iðju. Sem drengur söng hann í kór Kon- unglegu kapellunnar, en varð að hætta þegar hann fór í mútur. Honum til happs fékk hann stöðu aðstoðarorgelsmiðs við kapelluna og tók reyndar seinna við stöðu aðalorgelsmiðs og hljóðfæravarðar konungs við kapelluna. Ung- ur sýndi hann mikla hæfileika við iðn sína og var aðeins átján ára er hann var skipaður hirð- tónskáld hinnar konunglegu fiðlusveitar. Hann hafði hlotið tilsögn hjá meistaranum John Blow og tók tvítugur við stöðu hans sem org- anisti hinnar sögufrægu kirkju, Westminster Abbey. Stuttu eftir það giftist Purcell Frances nokkurri Peters, og þó ekki fari mörgum sög- um af konu þeirri, frekar en konum annarra stórmenna fyrr á öldum, má þó sjá glöggt að hún hafði þau áhrif á hann að uppfrá þessu tók hann í æ ríkara mæli að semja leikhústónlist þá er hann varð einna helst þekktur fyrir. Sönglög og tónþætti fyrir leikhús, seinna fimm „hálfóperur“ og svo þekktustu tónsmíð hans, óperuna Dido og Eneas, sem er fyrsta alvöru óperan á enskri tungu. Purcell var iðinn við kolann í tónsmíðum sín- um, og öðrum tónlistarstörfum. En hann var líka iðinn í öðrum málefnum, svo sem vín- drykkju, og segir sagan að hann hafi ávallt haft pyttlu sér við hlið er hann lék á orgel í messum. Jafnframt að hann hafi látið hanna sérstakt hólf í orgelið í Westminster Abbey, þar sem koma mátti fyrir vínpela. Hann varð ekki lang- lífur frekar en margir aðrir tónlistarandans risar. Aðeins þrjátíu og fjögurra ára var hann allur, en hafði þó tekist að semja tónlist við krýningarathafnir tveggja konunga og sálu- messu einnar drottningar á tímum þegar rík- isarfar voru síst langlífari en tónjöfrar þeirra. Á þessu stutta æviskeiði náði hann að marka svo djúp spor í tónlistarsöguna að fáir geta tal- ist hans líkar. Hvað er það við tónlist þessa manns sem heillar okkur svo, sem skýtur ljósgeisla gegn- um aldirnar og snertir jafnvel okkur verald- arvana nútímamenn rakleiðis í hjartastað? Eitt af því kann að vera það hversu óhemju vel honum fékkst að tónklæða texta. Þegar söngv- ari syngur hendingu eftir Purcell hljómar hún eins eðlilega og hún væri töluð af ræðusnill- ingnum Demósþenesi. Hvert orð, hver hugsun er svo snilldarlega mótuð að það verður hverj- um flytjanda létt verk og löðurmannlegt að túlka innihald og boðskap textans. Ef til vill hefur enginn átt til þetta mikla innsæi í með- ferð texta í tónlist, nema ef vera skyldu Wolf- gang Amadeus Mozart og Hugo Wolf. Það sem gerir laglínur og hljómferli Purcells enn at- hyglisverðara er á hvaða tímum hann lifði. Ekki var annars í tónlist þessa tíma lögð eins ríkuleg áhersla á að texti og laglína fylgdust svo að. Það sem skipti meginmáli var fagurlega mótuð laglína, og svo skipti engu máli hvort textinn var amore, amore eða Halleluja. Hvað skyldi hafa orðið til þess að Purcell var svona mikið í mun að koma textanum á framfæri? Ekki var það alltaf svo að ljóðskáld sem sköff- uðu honum texta væru sérlega snjallir. En eins og Schubert seinna var eins og honum tækist að lyfta jafnvel ambögulegasta texta upp á æðra plan. Ekki er þó nógu mikið vitað um ævi hans til þess að vangaveltur um slíkt verði ann- að en getgátur. Hirð- og leikhústónlist Purcell samdi eins og áður sagði annars veg- ar tónlist fyrir hirðina og svo leikhústónlist. Hann hafði öruggt lifibrauð af tónlist sinni, en hugurinn leitaði víðar. Í Englandi hafði hin ítalska óperuhefð aldrei náð fótfestu og ef til vill öfundaði Purcell kollega sína suður í álf- unni, þá Agostino Legrenzi og Allessandro Scarlatti. Meðan Þjóðverjar lágu kylliflatir fyrir hinni ítölsku hefð, voru Englendingar meira fyrir kórtónlist og svo var að sjálfsögðu leikhúshefðin þar mjög sterk. Hann lét það þó ekki aftra sér að semja eitt mesta snilldarverk óperubókmenntanna. Það var Óperan Dido og Eneas sem er eina eiginlega óperan sem eftir hann liggur. Almennt hefur verið talið að Pur- cell hafi samið Dido & Eneas fyrir Chelsea- stúlknaskólann árið 1689. Þetta eru menn nú ekki á eitt sáttir um, og virðist vera að því meir sem þessi maður er rannsakaður, því minna vitum við um hann. Besta heimildin um ævi tónskálds hlýtur þó ávallt að vera verk hans. Þannig að hver sá sem vill kynnast hinum leyndardómsfulla Henry Purcell verður að gera það með því að kynna sér verk hans. Dido og Eneas Óperan Dido & Eneas byggist á hetjukvæði hins rómverska Virgilíusar. Þótt þessir elsk- endur sem þar eru gerðir að umfjöllunarefni hafi alls ekki verið samtímafólk, hindraði það ekki þennan rómverska skáldajöfur að tefla þeim saman í sögu sem um margt minnti á að- stæður húsbónda hans, Ágústusar Rómarkeis- ara. Ágústus var nýskilinn við konu sína, Scriboníu, og hugsanlega var Virgilíus að rétt- læta skilnað húsbónda síns, er hann lét Eneas yfirgefa Dido til að framfylgja örlögum sínum. Dido var í raun og veru fönísk prinsessa, El- issa að nafni, en Dido merkir meyja á pún- versku. Elissa þessi á samkvæmt sögninni að hafa stofnað Karþagó á Nílarbökkum, en hún hafði flúið Tyros undan bróður sínum, Pygmal- ion, sem eldri heimildir herma að hafi einnig látið myrða eiginmann hennar. Yfirkomin af sorg kýs hún að vera honum trú til dauðadags, og fremur en að giftast afrískum prinsi tekur hún sitt eigið líf. Virgilíus lætur þennan prins í kvæði sínu vera stofnanda Rómaborgar, Eneas prins af Tróju, sem kemur til stranda Karþagóar á flótta undan stormi á leið til að reisa nýja Tróju. Hann verður ástfangin af Dido og er ást hans endurgoldin. Gyðjurnar Júnó og Venus, sem reyndar er móðir Eneasar, vinna að því að koma sambandi elskendanna á með ýmsum ráðum, en í lokin neyðist Eneas að yfirgefa heitmey sína því Júpíter, æðstur guða, sendir Merkúr, sendiboða sinn að minna Eneas á kall skyldunnar, hann eigi að stofna nýja Tróju, það er að segja Rómaborg. Yfirkomin af harmi tek- ur Dido sitt eigið líf. Virgilíus tengir þannig samband elskend- anna við sögulegar illdeilur Rómar og Kar- þagóar, sem náðu hámarki sínu í hinum þremur púnversku styrjöldum, en í þeirri annarri var Hannibal sigraður árið 202 f. Kr. og í þeirri síð- ustu var Karþagó lögð í eyði, það var árið 146 f. Kr. Í Eneasarkviðu er Dido hindrun á vegi Eneasar á leið hans til stofnunar Rómaborgar. Ef hann hefði ekki yfirgefið hana hefði Róm aldrei verið stofnuð, og Karþagó hefði drottnað yfir Miðjarðarhafi. Með því að sigrast á löng- unum sínum og hlýða kalli skyldunnar hefur Eneas þannig stuðlað að því hversu voldugt Rómarveldi var orðið á tímum Virgilíusar og Ágústusar keisara. Þetta hefur keisaranum og öðrum rómverskum fallið í geð. Purcell og textahöfundur hans, Nahum Tate, fylgja lauslega þeim söguþræði sem finna má í Eneasarkviðu Virgils. Ýmsu er þó breytt, til dæmis eru guðirnir sjálfir fjarri góðu gamni. Í þeirra stað sem örlagavaldar eru komnar öllu norrænni verur; Nornir sem minna á örlaga- nornir Shakespeares í Makbeð. Þær senda fals- sendiboða til að villa um fyrir Eneasi, dulbúinn sem Merkúr, en hinn raunverulegi Merkúr kemur þar hvergi nærri. En endalok óperunnar eru þó á sömu leið og Didoar þáttur Eneas- arkviðu Virgils. Hin stolta drottning tekur líf sitt í einni átakanlegustu og fegurstu aríu tón- bókmenntanna. Kall skyldunnar eða hjartans Dido er í meðferð Purcells mikil kona sem tekur örlög sín í eigin hendur. Hún hrífst af hinni trójönsku hetju, en er staðföst er hann hyggst yfirgefa hana. Hún gefur honum afar- kosti, hún muni ekki una því að hann fari, en vill þó heldur ekki að hann verði kyrr. Úr því hann fyrst hafði ákveðið að yfirgefa hana, sé ást hans ekki sönn. Hún fórnar sorg sinni yfir látnum eiginmanni fyrir ástir hans, en hann launar henni greiðann með því að yfirgefa hana. Eneasi er þó vorkunn. Hann veit hvað örlögin hafa boðið honum, og hann er því milli tveggja elda. Hvort á hann að hlýða kalli skyldunnar eða hjartans? Hann tekur í raun aldrei ákvörð- un um það. Sú ákvörðun er tekin fyrir hann. Hvað sem öðru líður hafa örlögin sinn gang, og hinar illu skapanornir sigra. Nornirnar eru því þjónar örlaganna og kannski ekki alslæmar. Mestur er þó harmur Didoar. Henni er fórnað á altari örlaganna. Stíll þessarar óperu Purcells er knappur. Það er farið nokkuð hratt yfir sögu, og miklir at- burðir gerast, og miklar tilfinningar eru sýndar í klukkutíma langri sýningu. Ef síðra tónskáld en Purcell hefði verið þar á ferð, er alls víst að óperan hefði orðið ærið brokkgeng og brota- lamir margar. En á einhvern undursamlegan hátt þræðir Purcell einstigi tilfinningatinda, með dyggri hjálp hins ágæta skálds, Nahum Tate, sem skilur okkur, sem á hlýðum, eftir í djúpri undran og einlægri hrifningu. Morgunblaðið/Jim SmartEneas í hópi lagsbræðra. Dido ásamt fylgimeyjum sínum. TILFINNINGA- TINDAR PURCELLS Í kvöld verður frumsýnd í Borgarleikhúsinu óperan Dido & Eneas eftir Henry Purcell. Hér er ævi þessa merka tónskálds skoðuð og skyggnst inn í umfjöll- unarefni einu óperu hans, Dido & Eneas. Höfundur er söngvari og einn af aðstandendum Sumaróperu Reykjavíkur. E F T I R H R Ó L F S Æ M U N D S S O N Eftir Henry Purcell. Flutt á ensku. Söngvarar: Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Hrólfur Sæmundsson, Valgerður Guðnadóttir, Ásgerður Júníusdóttir. Kór: Hjördís Elín Lárusdóttir, Dóra Steinunn Ármannsdóttir, Bentína Sigrún Tryggvadóttir, Nathalía Druzin Halldórsdóttir, Hafsteinn Þórólfsson, Aðalsteinn Bergdal, Jóhannes H. Jóhannesson. Hljómsveit: Edward Jones, Halla Steinunn Stefánsdóttir, Kathryn Templeman, Guðrún Hrund Harðar- dóttir, Hanna Loftsdóttir. Leikstjóri: Magnús Geir Þórðarson. Hljómsveitarstjóri: Edward Jones. Leikmynd/búningar: Snorri Freyr Hilmarsson. Danshöfundur: Sveinbjörg Þórhalls- dóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Dido og Eneas

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.