Lesbók Morgunblaðsins - 17.08.2002, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 17.08.2002, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. ÁGÚST 2002 3 LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 3 0 . T Ö L U B L A Ð - 7 7 . Á R G A N G U R EFNI Grant Morrison er einn áhrifamesti myndasöguhöfundur samtímans. Hann heldur fyrirlestur í Grófarhúsi í kvöld og í tilefni þess fjallar Úlfhildur Dagsdóttir um helstu verk hans og áhrif á þróun myndasögunnar síðustu áratugi. Louise Bourgeois er á tíræðisaldri en heldur samt áfram að koma á óvart í verkum sínum. Halldór Björn Runólfsson fjallar um þennan magn- aða myndhöggvara sem að mörgu leyti hef- ur gengið þvert á hugmyndir manna um list og listamenn. Guðrún Eva Mínervudóttir hefur vakið athygli fyrir smásögur og skáldsögur en hún sendi nýlega frá sér skáldsöguna Albúm sem segir frá þroska- sögu stúlku sem á ýmislegt sameiginlegt með höfundinum. Þröstur Helgason ræddi við Guðrúnu Evu um bókina en í henni seg- ist hún hafa náð einhvers konar hámarki í léttleika-rannsóknum. Óperan Parsifal eftir Richard Wagner í leikstjórn Peters Stein og hljómsveitarstjórn Claudios Abb- ado er eitt glæsilegasta atriðið á listahátíð- inni í Edinborg sem hófst í síðustu viku. Hafliði Hallgrímsson segir frá Wagner og upplifun sinni af sýningunni. FORSÍÐUMYNDIN er fengin úr teiknimyndasögunni Arkham Asylum: Serious House on Serious Earth eftir Grant Morrison og myndlýst af Dave McKean. BENEDIKT GRÖNDAL KVÖLDVÍSA Hnígur hlýskjöldur, heimsljósið bjarta, seint á vesturvegu, hinstum lystur himingeisla yfir frjóvga fold. Döggvuð rís fyrir dásemd þinni rós af blómgum beð, ljúf eru þau litaskipti hógvært heims um kvöld. Sit ég einn í ægisheimi og yfir löndin lít, sofna taka nú sorgir mínar í eyglóar örmum. Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (1826–1907) orti í anda rómantísku stefnunnar og var ötull talsmaður hennar. E R EITTHVERT vit í þessum risavöxnu virkjunarfram- kvæmdum, sem stjórnvöld eru nú að búast til að ráðast í fyrir austan og annars staðar um landið? Þessi spurning brennur heitt á landsmönnum um þess- ar mundir, þótt ekki væri nema vegna þess, að framkvæmdirnar eru svo dýr- ar, umhverfisraskið svo mikið og ávinning- urinn svo óljós til langs tíma litið. Hér er ekki lítið í húfi. Hvað á fólki að finnast? Hvað finnst mér? Byrjum á byrjuninni. Fossavirkjunaráform Einars Benedikts- sonar skiptu þjóðinni í tvær andstæðar fylk- ingar á sinni tíð. Skemmst er frá því að segja, að fylking Einars varð undir. Það er stundum sagt um Einar Benediktsson, að hann hafi verið á undan samtíð sinni. Hitt sýnist mér vera nær sanni, að Einar hafði hárrétt tíma- skyn: hann sá enga ástæðu til þess, að Íslend- ingar héldu að sér höndum í orkumálum, á meðan frændur okkar Norðmenn helltu sér af alefli út í virkjunarframkvæmdir. Enda voru ýmsir helztu samverkamenn Einars í fossa- málunum einmitt norskir virkjunarmenn. Þeim tókst ætlunarverkið í Noregi, en ekki á Íslandi. Einar Benediktsson var ekki á undan tímanum; andstæðingar hans voru á eftir tím- anum. Þetta var rétti tíminn, árin kringum 1920. Hefðum við þá strax hafizt handa um að virkja fossana hér heima, þá værum við nú vænt- anlega á leiðinni út úr orkufrekri stóriðju og sigldum hraðbyri inn í nýjan heim hátækni, verzlunar og þjónustu. Má ég minna lesand- ann á það, að í Noregi vinna miklu fleiri við forritun en fiskveiðar og vinnslu? Norður- Atlantshafssvæðið virðist henta vel til hug- búnaðarframleiðslu: frændur okkar Írar og Skotar eru í fararbroddi í þeirri grein á heims- vísu. Ég er að gera að gamni mínu: land- fræðilegan skiptir Íra og Skota auðvitað engu máli í þessu viðfangi, heldur skiptir menntun mannaflans höfuðmáli. Atvinnuþróun Íslands hefði orðið önnur en hún varð, hefðum við byrjað að virkja fossana í tækan tíma: þá væri þjóðin væntanlega ekki skuldum vafin vegna langvarandi hallarekstrar þjóðarbúsins, held- ur ættum við nú vænar eignir í útlöndum eins og Norðmenn. Við kusum að hafna stóriðju, þegar hún var tímabær, og gera sjávarútveg heldur að aðal- útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar. Og nú er vægi útvegsins í efnahagslífinu á niðurleið, svo sem fyrirsjáanlegt var – og fyrirséð. Og þá eru viðbrögðin þessi: að byrja nú loksins á at- vinnurekstri, sem aðrar þjóðir með svipaðar tekjur eru að draga sig út úr. Bandaríska ál- fyrirtækið Alcoa er að búa sig undir að loka tveim álverum þar vestra, eins og fram hefur komið í fréttum, af því að það borgar sig betur fyrir þá að hafa slíka framleiðslu í Afríku og víðar og kannski einnig á Íslandi; það kemur í ljós innan tíðar. Í Afríku skeyta menn yfirleitt ekki mjög um umhverfisspjöll, þeir telja sig ekki hafa efni á því. Þessu verði gjöldum við þess nú, að for- feðrum okkar tókst að keyra virkjunaráform Einars Benediktssonar í kaf á sínum tíma. Hvað gekk þeim til? Það er löng saga. Efa- semdir umhverfisverndarmanna um ágæti stóriðju höfðu sitt að segja, eins og eðlilegt er. Í þessum hópi var Þorsteinn Erlingsson. Grundvallarágreiningur um atvinnumál vó þó trúlega þyngra. Talsmenn landbúnaðar litu svo á, að orkufrekur stórrekstur ógnaði hefð- bundnum landbúnaði og sveitamenningu. Talsmenn sjávarútvegs, sem var að vaxa úr grasi við hlið landbúnaðar, litu iðnað einnig hornauga með svipuðu hugarfari, að því er virðist. Því þarf engum að koma það á óvart eftir á að hyggja, að bæði Jónas Jónsson frá Hriflu og Ólafur Thors voru á öndverðum meiði við Einar Benediktsson í fossamálunum og áttu sinn þátt í að keyra áform hans end- anlega í kaf á alþingi. Því fór sem fór: við byrj- uðum ekki að virkja fossana að neinu ráði fyrr en á viðreisnarárunum eftir 1960 – 40 árum of seint, sýnist mér, en þó kannski ekki allt of seint. Við töpuðum tíma. Talsverður hluti þjóð- arinnar vandist þeirri hugsun, að menn þurfi helzt að drepa sér til matar. Land og sjór urðu okkar ær og kýr; þetta stóð miklu lengur en efni stóðu til – og stendur jafnvel enn, myndu sumir segja. Og nú, þegar útvegurinn er á undanhaldi, þá reynist samband þjóðarinnar við jörðina býsna seigt: ef við getum ekki leng- ur stundað land og sjó, segja menn, þá verð- um við að snúa okkur að því að beizla orkuna og búa til ál og aðra málma, eitthvað áþreif- anlegt. Iðnaður skal það þá vera. Sem sagt: við ætlum að halda áfram að yrkja jörðina, hvað sem það kostar. Undangenginn manns- aldur hafa iðnríkin þó verið að draga sig út úr iðnaði til að rýma fyrir verzlun og þjónustu. Þjónusta af ýmsu tagi stendur nú á bak við tvo þriðju hluta efnahagslífsins í iðnríkjunum: tveir af hverjum þrem vinna við þjónustu. Hlutdeild þjónustunnar í atvinnulífinu á eftir að aukast enn frekar í löndunum í kringum okkur næstu ár. Við stefnum í öfuga átt. Við eigum það þar að auki á hættu, að ótímabær áherzla á stóriðju, sem er dvínandi atvinnuvegur úti í heimi, standi í vegi fyrir framþróun verzlunar og þjónustu með líkum hætti og ofríki fyrir hönd landbúnaðar og sjávarútvegs stóð í vegi fyrir æskilegri iðn- væðingu landsins á sinni tíð. Hitt er þó einnig hugsanlegt, að stóriðja glæði verzlun og þjón- ustu, þegar frá líður. Svo er annað: við þurfum að gera skýran greinarmun á skerfi væntanlegra virkjunar- og stóriðjuframkvæmda til þjóðarbúsins og væntanlegum skerfi stóriðjunnar, sem verið er að stofna til. Á því er vitaskuld enginn vafi, að framkvæmdirnar munu hleypa fjöri í efna- hagslífið á byggingartímanum, vonandi þó án þess að setja allt á annan endann með gamla laginu, en þær eru þó því aðeins réttlæt- anlegar, að stóriðjan geti borið viðunandi arð til langs tíma litið. Mönnum hættir til að rugla þessu tvennu saman, eða svo hefur mér sýnzt: þeir réttlæta sumir iðnvæðinguna jöfnum höndum með framkvæmdafjörinu á bygging- artímanum og arðinum af stóriðjunni, þegar upp er staðið. Þetta er röng hugsun: enginn húsbyggjandi með réttu ráði telur bygging- arkostnaðinn sér til tekna, enda þótt þeir, sem vinna verkið, hafi tekjur af smíðinni um bygg- ingartímann. Svo er eitt enn: það er engin leið að vita, hvort væntanleg stóriðja verður okkur heima- mönnum hagkvæm eða ekki, nema ljóst sé, á hvaða verði við ætlum að selja orkuna til stór- iðjunnar. Upplýsingar um verðið liggja ekki fyrir. Orkulindin er þjóðareign, en söluverð hennar er leyndarmál. Helzt ættum við auð- vitað ekki að selja orkuna undir heimsmark- aðsverði eða því sem næst. Nútíminn gerir þar að auki kall og kröfu til þess, að viðunandi bætur komi fyrir umhverfisspjöll. Ekki verð- ur séð, að til standi að koma til móts við þetta sanngjarna sjónarmið. Hvort tveggja er til þess fallið að vekja tortryggni og efasemdir um, að stóriðjunni sé ætlað að þrífast á við- teknum markaðsbúskaparforsendum, enda eru miklir stjórnmálahagsmunir í húfi. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Eigum við þá að hætta við allt saman? Því er vandsvarað, eins og allt er í pottinn búið. Við skulum í öllu falli reyna að skoða málið í samhengi við sögu landsins. Við skulum einnig velta því fyrir okkur, hvort það væri ekki hægt að byggja upp björgulegt atvinnulíf um landsins breiðu byggð með því að efla mennt- un fólksins og skapa með því móti skilyrði til blómlegrar verzlunar og þjónustu í sátt við landið, bæði umhverfi og efnahag. Hefðum við hugsað fyrir þessu í tæka tíð, þá þyrftum við ef til vill ekki á stóriðju að halda, því að heim- urinn hefur breytzt. ALLT HEFUR SINN TÍMA RABB Þ O R V A L D U R G Y L F A S O N gylfason@hi.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.