Lesbók Morgunblaðsins - 17.08.2002, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 17.08.2002, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. ÁGÚST 2002 G UÐRÚN Eva Mínervu- dóttir vakti þegar at- hygli fyrir fyrstu bókina sína, smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey (1998). Í kjölfarið komu skáldsög- urnar Ljúlí, ljúlí (1999) og Fyrirlestur um hamingjuna ( 2000) og í vor kom út þriðja skáldsagan er nefnist Albúm og hefur hún verið talsvert umrædd. Það er engin geðshræring í frásögnum Guð- rúnar Evu þótt persónur hennar glími oft við erfiðar tilfinningar og vandasamar aðstæður. Sögurnar í Á meðan hann horfir á þig ertu María mey fjalla um viðkvæm samskipti fólks eða nánar tiltekið það að vera til í augum, gjörðum, orðum, hlátri og ást annarra og eru sagðar í stíl sem einkennt hefur bækur Guð- rúnar Evu síðan og er í senn einfaldur og yf- irvegaður eða jafnvel heimspekilegur. Ljúlí, ljúlí fjallar um eldfimt ástarsamband mennta- skólastúlku við einn af vinum föður síns en öll kúldrast þau saman í lítilli íbúð í Reykjavík ásamt þremur öðrum vinum föðurins. Fyrir- lestur um hamingjuna segir frá þroskaárum í lífi lítils drengs, Haraldar, og fjölskyldu hans og mismunandi krókóttar leiðir hennar að hamingjunni. Þessar bækur glíma allar við hefðbundin viðfangsefni – mannleg samskipti, hamingj- una, ástina – en þær gera það á frumlegan hátt. Og það sama á við um Albúm þar sem rakin er þroskasaga stúlku í 99 stuttum text- um. Bókin minnir á persónulegt myndaalbúm. Sagan er sögð í fyrstu persónu og fáum dylst að stúlkan sem fjallað er um er höfundur sjálf- ur eða á að minnsta kosti margt sameiginlegt með höfundinum. Blaðamaður ræddi við Guðrúnu Evu um bókina og höfundarskapinn en hún er nú stödd á Ísafirði að leggja síðustu hönd á nýja skáld- sögu sem væntanleg er síðar á þessu ári og nefnist Sagan af sjóreknu píanóunum. Kannski lifum við á tímum ósmekklegra játninga Þú kallar Albúm skáldsögu en sjálfsagt vefst það fyrir sumum lesendum sem sjá fyrst og fremst sjálfa þig í henni og spyrja: ertu ekki að skrifa um sjálfa þig og er þetta þá ekki sann- sögulegt frekar en skáldskapur og þá sjálfs- ævisaga frekar en skáldsaga? „Það er eiginlega sama hvort ég svara þessu af eða á, svarið mun hljóma eins og eitthvað sé gruggugt við það. Sannleikurinn er fremur gruggugur hvað þetta varðar. Ég ætla ekki að þræta fyrir að sögurnar í bókinni eru fiskaðar upp úr minninu, en vandinn er sá að ég treysti ekki eigin minningum. Ég veit hversu vand- lega þær eru mengaðar af alls kyns áhrifum. Það stóð aldrei annað til en að úr þessu efni yrði skáldsaga og þess vegna var ég heldur ekki alltaf trú eigin svikna eða ósvikna minni. Steypti saman tveimur eða fleiri persónum og gerði að einni, til að bókin yrði léttari og ein- faldari og svo framvegis. Hefði ég ætlað að skrifa sjálfsævisögu hefði ég farið öðruvísi að. Í fyrsta lagi hefði ég beðið með það í nokkra áratugi og í öðru lagi hefði ég fjallað af meiri trúfestu um helstu vendipunkta sögunnar. Það eina sem ég gerði var að grípa brot úr hvers- dagsleikanum eins og ég mundi hann og mat- reiða úr honum lystuga bita.“ Sumir vilja kalla bókina skáldævisögu eins og Guðbergur nefndi „minningar“ sínar í Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar og Eins og steinn sem hafið fágar. Þetta er ákaflega gott orð hjá Guðbergi því það opinberar samspil minnis og sköpunar í skáldskap sem höfundar hafa margir verið feimnir við í gegnum tíðina. Gunnar Gunnarsson eyddi til dæmis miklu púðri í að sverja af sér náin tengsl við Ugga Greipsson í Fjallkirkjunni og vildi halda því fram að hann væri umfram allt skálduð per- sóna. Mig langar til að spyrja þig hvort þú haldir að það sé eitthvað í tímanum sem veldur því að persónulegt minni fái nú meira rými í skáldskap. Sumir segja að við lifum á tímum játninga. „Það getur verið og þó er ég ekki viss. Kannski höfum við alltaf lifað á tímum játn- inga, eða að minnsta kosti tímum sem heimila fólki að segja frá sjálfu sér. Það er ekki langt síðan ég uppgötvaði minningabækur Ingunnar Jónsdóttur þar sem hún segir frá bernsku sinni og kynnum við eftirminnilegt fólk. Mér þykir þær ívið meira spennandi en hefðu þær verið skáldsögur með svipuðum persónum. Það bætir heilmiklu við frásögnina að vita að höfundurinn er að segja sannleikann eftir bestu samvisku og getu. En þegar þú talar um að við lifum á tímum játninga kemur þegar í stað eitthvað neikvætt upp í hugann. Poppstjörnur á unglingsaldri að gefa út ævisögu sína, líkt og þau haldi að þau séu þegar búin að lifa merkilegasta hluta mannsævinnar. Biturt miðaldra fólk að opin- bera helstu viðburði lífs síns, bersýnilega til að klekkja á einhverjum. Og svo framvegis. Kannski lifum við á tímum ósmekklegra játninga. Og þá erum við kannski komin að kjarna málsins. Höfundur getur fjallað um eig- in reynslu, saklausa eða erfiða, án þess að gera það með ósmekklegum hætti. Það er tilgang- urinn með skráningunni sem gerir játningarn- ar smekklegar eða ósmekklegar.“ Léttleikinn og hversdagurinn vanmetni Þú sagðir brot úr hversdagsleikanum sem er kjarnyrt og góð lýsing á bókinni. Hvers vegna valdirðu þetta form og hvers vegna þetta sjón- arhorn á ævihlaupið? „Líklega fyrst og fremst af því að ég hef mikið verið að velta fyrir mér léttleikanum og hvers hann er megnugur. Með þessari bók held ég að ég hafi náð einhvers konar hámarki í léttleika-rannsóknum. Hvað varðar sjónar- hornið á ævihlaupið er það mjög samhljóma sjónarhorni mínu á eigið ævihlaup. Mér finnst að ég hafi átt góða ævi. Allur sársauki og vaxt- arverkir sem voru erfiðir meðan á þeim stóð eru kómískir og góðir þegar maður hugsar til þeirra mörgum árum síðar. Mér finnst fráleitt þegar ég er spurð hvort þetta hafi ekki allt saman verið erfitt, þetta eilífa flakk um landið og furðuleg fjölskyldumynstur. Fólk hefur nú lifað annað eins og miklu miklu meira. Auðvitað átti ég efnivið í mun erfiðari og óþægilegri bók en þessi átti einfaldlega ekki að verða þannig. Hún átti að dansa á öldutopp- unum og ég held henni hafi tekist það. Þar að auki hefði mér fundist sumur sann- leikur vera lygi ef ég hefði sett hann í þessa bók. Sumt hljómar eins og það sé mun hræði- legra og erfiðara en það raunverulega er. Það rak ég mig á til dæmis með skáldsöguna Ljúlí ljúlí. Frá minni hendi fjallaði hún um skemmti- lega ruglað og dálítið barnslegt fólk en já- kvæðu dómarnir um hana fjölluðu helst um það hvað allt þetta fólk ætti bágt og þá sér- staklega sú persóna sem mér þótti bera í sér mesta von.“ En bókin er líka rannsókn á hversdagsleik- anum og það er raunar ekkert nýtt í skrifum þínum. Og hvunndagurinn er reyndar umfjöll- unarefni fleiri höfunda síðustu ár, til dæmis Péturs Gunnarssonar og Braga Ólafssonar. Er þetta einhver flótti frá stóru spurningunum eða bara ný nálgun á þær? „Stundum er erfitt að sjá mun á stórum og litlum spurningum. Hver einasti dagur hlýtur að vera fullur af litlum spurningum sem fela í sér þær stóru. Ég get auðvitað ekki svarað því hvað þessir menn sem þú nefndir eru að hugsa, en mér finnst sterkara að fjalla óbeint um mik- ilfenglega hluti. Albúm fjallar meðal annars um það krafta- verk að eitt einasta atvik sem lætur lítið yfir sér geti breytt manneskju varanlega. Þó hef ég ekki hugsað mér að staðna í hvunndagsrannsóknum fremur en öðrum rannsóknum. Í haust mun ég að öllum líkind- um gefa út skáldsögu sem jafnt er full af dramatískum atburðum sem og hversdeginum vanmetna. En þar kemur léttleikinn til bjargar dramatíkinni og hjálpar henni að hitta í mark. Dramatísk frásögn af dramatískum atburð- um er dæmd til að slökkva á lesandanum og kæla hann niður undir frostmark. Eins er ég með í bígerð nokkrar bækur sem þú myndir seint segja að hefðu hvunndaginn að umfjöllunarefni. En eins og gefur að skilja hef ég ekki hugsað mér að ljóstra meiru upp um þær.“ Fræðimennska og villimennska Nei, það væri mikil einföldun að segja að bækur þínar væru einungis rannsókn á hvers- dagsleikanum en þær hafa hins vegar flestar ef ekki allar verið nokkurs konar rannsóknir, til dæmis á masókisma í fyrstu bókinni, Á meðan hann horfir á þig ertu María mey, og endur- tekningunni og hamingjunni í þriðju bókinni, Fyrirlestri um hamingjuna. Titill síðastnefndu bókarinnar gefur reyndar til kynna að hún sé rannsókn eða byggð á rannsókn. Mætti ég spyrja þig hvernig þú sjálf myndir lýsa skrif- um þínum eða aðferð? „Ætli ég sé ekki ein af þeim sem demba sér ofan í einhverja laut og eru þar í dálítinn tíma. Þess vegna, til dæmis, gengur mér heimspeki- námið svona seint. Mér finnst skemmtilegast að skoða aðeins eitt í einu og skoða vandlega. Þetta hefur smitast inn í bækurnar án þess að ég endilega átti mig á því fyrr en eftir á. Það er rétt að þegar ég skrifaði fyrstu bókina var ég mikið að velta fyrir mér sadó-masókisma eins og Sartre skrifaði um hann. Vangavelturnar í Fyrirlestrinum voru enn- þá duldari, svo ég var jafnvel sökuð um að leiða fólk á villigötur með titlinum. En það var allt í lagi því ég er sannfærð um að því fínlegar sem hugmyndirnar eru ofnar inn í textann, því bet- ur hefur tekist til. Þegar fólk er að böggla ein- hverri hugmyndafræði inn í skáldskap getur útkoman verið skelfileg, skáldskapurinn líður „TREYSTI EKKI EIGIN MINN- INGUM“ „Albúm fjallar meðal annars um það kraftaverk að eitt einasta atvik sem lætur lítið yfir sér geti breytt mann- eskju varanlega,“ segir Guðrún Eva Mínervudóttir um nýja skáldsögu sína, Albúm, sem vakið hefur talsverða athygli í sumar. ÞRÖSTUR HELGASON ræddi við Guðrúnu Evu um bókina og fyrri verk hennar, aðferðir hennar, sannleika og lygi, hefðina og samtímann og gamla tímann sem hún syrgir. Ég held ég einfaldlega læri af þeim höfundum sem voru á und- an mér og um leið læri ég að varast að endurtaka þá. Ég hef af- ar litla þörf fyrir að brjóta og bramla í þeim eina tilgangi að brjóta og bramla. Á hinn bóginn fengi ég mig aldrei til að segja eitthvað aftur sem hefur áður verið sagt með svipuðum hætti. Ekki frekar en ég nenni að skrifa sömu bókina tvisvar. Þó nokkrir hafa haft orð á því að bækurnar mínar séu ólíkar og það þykir mér vænt um að heyra. Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörns „Það var árið 1980 sem allt breyttist, allt varð einnota og fljótt að úreldast og við innleiddum nýja tegund af ljótleika sem ekki hafði áður sést,“ segir Guðrún Eva.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.