Lesbók Morgunblaðsins - 12.10.2002, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 12.10.2002, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. OKTÓBER 2002 E KKI svo gott að hið víðfræga Kröller Müller safn sé í alfara- leið, en þó auðvelt að komast þangað eins og annarra staða í Hollandi, vegalengdir stuttar, landið flatt og samgöngur góð- ar. En safnið er ekki þannig staðsett að ef menn eru á leið suður á bóginn, geti þeir hoppað af lestinni eina dagstund til að skoða það og þjóðgarðinn stóra, Hoge Veluwe, þann stærsta í Hollandi, þó helst eigi þeir leið til Parísar. Lengi verið draumur minn að nálgast safnið sem á sér mikla sögu og er mjög auðugt af núlistum síð- ustu aldar, einkum verkum módernismans, rættist þó undarlegt nokk fyrst í ágústmánuði er mér var ekið á staðinn af gestgjöfum mín- um í Rotterdam. Illu heilli skeði það á tímum hins mikla úrhellis á meginlandinu sem útilok- aði gaumgæfilega skoðun höggmyndagarðsins stóra, en í staðinn var ekið um nágrennið á vit sögufrægrar húsagerðarlistar. Þar er af ýmsu að taka og hér ber einnig að nefna, að frum- drög að sjálfu safninu skara nöfn eins og Þjóð- verjanna Peter Behrens (1868–1940) og Lud- wig Mies van der Rohe (1886–1969), Hollendingsins H.P. Berlage (1856–1934) og Belgíumannsins Henri van de Velde (1863– 1957). Er þá ekki í kot vísað um stjörnuarki- tekta tímanna, loks var hinn svonefndi ridd- araskáli fyrir smáskúlptúra hannaður af eng- um öðrum en Gerrit Rietveld (1888–1964), og reistur 1955. En uppköst hinna fyrrnefndu komust ýmissa hluta vegna aldrei lengra en í fullkomin módel og upprunaleg hugmynd Veldes um risasafn sem hann hafði hannað í minnstu smáatriðum og hafið var að byggja 1920, varð illu heilli að hætta við í efnahags- kreppunni er skall á árið eftir. Hins vegar gnæfir hin hringlaga St. Hubertus húsasam- stæða yfir í nágrenninu, ævintýralegt sveita- setur og veiðihús með háum turni sem P.H. Berlage hannaði jafnt að utan sem innan 1916. Þennan vota eftirmiðdag þá okkur bar að, hafði því miður verið tekið fyrir aðgengi í hús- ið vegna einkasamkvæmis af hárri gráðu að mér skildist. Dokuðum þó um stund við úti- dyrnar sem einar sér eru frábært dæmi um æskustílinn í sinni upphöfnustu mynd ásamt því að litast um í íðilfögrum garðinum og skoða hina mikilfenglega byggingu frá ýmsum sjónarhornum. Það liggur mikil saga verslunar og skipa- félags að baki Kröller-Müller-safninu, hófst raunar í Þýskalandi, nánar tiltekið Düssel- dorf, þar sem fyrir var skipafélagið Müller, sem einn góðan veðurdag færði út kvíarnar og opnaði útibú í Rotterdam. Varð þá Willem nokkur Kröller hluthafi í fyrirtækinu sem fékk þá nafnið Müller og félagar, Müller & Co. Seinna er Anton bróðir Willems dvaldi á að- alstöðvum fyrirtækisins í Düsseldorf, gagn- gert til að setja sig inn í starfsemi þess kynnt- ist hann Helenu dóttur eigandans, felldu þau hugi saman og giftust 1888. Við óvænt og skyndilegt fráfall tengdaföðursins ári seinna og alvarleg veikindi bróðurins kom það í hlut Antons að leiða fyrirtækið og í höndum hans þróaðist það á heimsvísu. Aldamótaárið flutti Anton höfuðstöðvarnar til Haag og næstu árin bjó Kröller–Müller-fjölskyldan í tígulegri byggingu við hafið í Scheveningen er nefndist, Huize ten Vijver, Hús lífsins, og það var þar sem Helena eiginkona hans hóf listaverka- söfnun sína árið 1907. Áhugi og ást Helenu á listum hafði aukist og dýpkað á námskeiðum listsögu- og listuppeld- isfræðingsins P.H. Bremmer. Veturinn 1906– 07 höfðu þau hjónin ásamt dóttur sinni sótt námskeið sem Bremmer hélt á heimili sínu á sunnudögum, en að því kom að hann flutti kennslustundirnar inn á heimili þeirra, og varð er fram liðu stundir mikilvægasti ráðgjafi fjölskyldunnar við kaup listaverka frá 17. öld. Einnig myndverka frá seinni helmingi nítjándu aldar sem þá voru enn ný og fersk. Þegar árið 1909 festi Helena kaup á málverki eftir van Gogh í sitt ennþá litla safn, var senni- lega um að ræða, Visnaðar sólfylgjur, sem var upphafið af röð frábærra verka eftir málarann sem komust í eigu Kröller- Müller-safnsins, á eftir fylgdu Sáðmaðurinn, gert eftir málverki Millets og Kyrralíf með flösku sítrónum og appelsínu. Alls urðu myndverkin áður en yfir lauk 272 (!) og teljast að sjálfsögðu hjarta og blóðrennsli safnsins. Einstök myndverkanna kunnugleg frá sýningum á verkum van Goghs og enn fleiri úr bókum og þær veisla að sjá í frumgerðinni Hin fagra Helena Kröller-Müller hafði miklar og stórar áætlanir um viðgang safnsins og byggingu yfir það, eins og ráða má af upp- köstunum sem hún fékk nafnkenndustu arki- tekta tímanna til að útfæra, hvern á fætur öðr- um. En það var engan veginn fyrir óáægju með þau að ekki varð úr framkvæmdunum, flest annað kom til sem ekki verður vikið að hér þar sem ýmislegt virðist á reiki. En þótt lengi vel yrði ekkert úr draumi Helenu um viðamikla safnbyggingu var mögulegt að nálg- ast verkin eftir samkomulagi í húsi hjónanna og fyrirtækisins að, Lange Voorhout, í Haag. Vísar til löngunar hennar til að deila þessum ríkdómi með almenningi, mennta hann og auðga. Er aldurinn fór að færast yfir þau hjón- in ákváðu þau að gera safnið að stofnun og seinna eða 1935 var það afhent hollensku þjóð- inni. Til endurgjalds var byggt yfir safnið þótt byggingin væri hvorki stór né vegleg, að því menn hugðu einungis til bráðabirgða. Arki- tektinn var sem fyrr Henri van de Velde, en nú var svipmót byggingarinnar meira lokað, samsvarandi, knappt og klárt. Safnið var svo loks opnað almenningi 13. júlí 1938. Stórhug Helenu Kröller-Müller sér þó stað í einstæðri myndverkaeign safnsins og grunninnum að fyrirhugðu safnbyggingunni við rætur svo- nefnds „Franse Berg“ sem hætt var við 1921. Þar hugðist hún á myndarlegan hátt opna al- menningi aðgengi að þróun nútímalistar. Arkitektinn Henri van de Velde var fæddur í Antwerpen en lést háaldraður í Zürich, hafði þá víða dvalið og starfað m.a. Dresden, Berlín og Weimar. Var allt í senn málari, formsköp- uður, arkitekt og höfundur bóka um listir, í knöppu máli, einn andríkasti maður sinnar samtíðar í orði og athöfnum. Í hárri elli kom út sjálfsævisaga hans, er nefnist í þýskri þýðingu Hans Curjels, skrásetjara hennar; Geschicte meines Lebens, (Lífssaga mín) og út kom frá forlagi R. Piper í München 1962. Er bráð- skemmtileg aflestrar og inniber einhverjar best rituðu, hlutlægustu og skilvirkustu heim- ildir um tímana sem ritaðar hafa verið, koma að auk frá fyrstu hendi. Hér var um mikinn áhrifavald og persónuleika að ræða og lífs- hlaup hans sköruðu menn eins og Toulouse Lautrec, Rodin, James Ensor, skáldin Mall- armé og Verlaine, hann var vinur Meier- Graefe og Kesslers greifa, einhverra mestu stuðningsmanna og áhrifavalda framsækinna lista í Evrópu, var í nánu sambandi við mál- arana Max Lieberman, Ernst Ludwig Kirchn- er og Edward Munch, stórnmálamanninn Walther Rathenau og við sögu koma einnig skáldin Hugo von Hoffmensthal, Rainer Mar- ie Rilke, Gabriele d’Annunzio og endalaus röð andans manna samtíða honum. Þá var það Henri van der Velde, sem öðrum fremur lagði grunninn að Bauhaus með vinnu sinni í Weim- ar, var ráðinn þangað frá Berlín af Wilhelm Ernst stórhertoga af Saxlandi-Weimar, að undirlagi Kessler greifa, Wertherns greifa og Elisabeth Förster Nietsche. Stórhertoginn hafði mikinn metnað hvað uppbyggingu lista og listíða snerti í ríki sínu, hugmyndin var að undirbyggja og ryðja braut þriðja tímabili list- handverks og listiðnaðar í Weimar. Þótt ekki sé viðlíka hátt til lofts og vítt til veggja í safninu í Otterlo og Helenu Kröller- Müller dreymdi um, er þar viðamikið úrval frábærra myndlistarverka innandyra, frá Lúkasi Cranach eldri til módernista framan af öldinni, auk höggmynda af öllu tagi innan sem utan dyra. Gesturinn fær svipaða tilfinningu í fyrstu heimsókn og er hann kemur á Lousiana safnið í Humlebæk í nágrenni Kaupmanna- hafnar, og engan veginn ólíklegt að ostakaup- maðurinn Knud W. Jensen hafi sótt hugmynd- ir þangað. Vissa mín er þó, að öllu fleiri höggmyndir séu í garðinum í Otterlo, þær spanna tímabil frá Rodin, Maillol og Bourdelle til Joseph Beuys, Donald Judd og Bruce Nauman. Elstu höggmyndirnar eru þó, Maður og kona, frá 12. öld og er verk Khmera. Eft- irkomendur hafa fylgt stefnu Helenu Kröller- Müller um ný aðföng jafnt í málverki sem höggmyndalist og gert það á þann menning- arlega og víðsýna hátt að vafalítið myndi hún kinka kolli mætti hún líta þróunina til dagsins í dag. Skiljanlegt að hér er um uppáhaldssafn margra að ræða, einnig listamanna af yngri kynslóð, enda opinberun að sækja það og stað- inn heim. Þremenningarnir að baki safninu í Otterlo: Anton Kröller (1862–1941), Helena Kröller Müller (1869–1939) og listsögu- og listuppeldisfræðingurinn H.P. Bremmer (1871–1956). Fyrstu málverk Helenu. Paul Gabriel: Landslag í sveit, um 1887, van Gogh: Fölnaðar sólfylgjur, 1887, sami: Kyrralíf með flösku, sítrónum og appelsínu 1880, og Sáðmaðurinn 1889. UNDRIÐ Í OTTERLO Kröller-Müller-listasafnið í Otterlo er með nafnkennd- ustu söfnum Evrópu og hefur frá stofnun haft fram- sækna myndlist á stefnuskrá sinni. Staðsett í stærsta friðaða landflæmi Hollands, þjóðgarðinum Hoge Vel- uwe ofan Arnhem. Safnið sjálft nokkurn veginn mið- svegar á milli borganna Ede, Apeldoorn og Arnhem. Þangað hefur BRAGI ÁSGEIRSSON lengi verið á leiðinni, draumurinn rættist fyrst á liðnu sumri. Morgunblaðið/Bragi Ásgeirsson Það rigndi og rigndi i Otterlo sem víðar á meginlandinu og olli flóðum og hörmungum. Rauði skúlptúrinn, K. Piece, er eftir Mark de Suvero (1972), en bronsstyttan af manninum fyrir framan hana, Monsieur Jaques, er eftir Oswald Wenckebach (1956).

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.