Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.2002, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.2002, Blaðsíða 6
E F ég, August Sander, maður sem er vel á sig kominn lík- amlega og andlega, þykist sjá hluti eins og þeir eru en ekki eins og þeir ættu að vera eða gætu verið, þá vona ég að mér verði fyrirgefið en ég get ekki gert þetta öðruvísi. Ég hef ver- ið ljósmyndari í 30 ár og helgað mig starfinu af allri þeirri alvöru sem mér er fært að gefa; leiðin hefur verið misjöfn, en hún hefur kennt mér að sjá mistök mín. Sýningin í Listahöll- inni í Köln er afrakstur rannsókna minna og ég vonast til þess að ég sé á réttri leið. Mér er ekkert meira á móti skapi en sykursæt ljós- myndun með tilgerð, uppstillingum og brell- um. Af þessum sökum leyfði ég mér að segja sannleikann af einlægni um samtíma okkar og manneskjurnar. Þetta skrifar August Sander árið 1927 í tengslum við fyrstu opinberu sýninguna á portrettmyndum hans, Maður tuttugustu ald- arinnar, sem haldin var í Listahöllinni í Köln. Portrettmyndum hans var ætlað að vera spegill samtímans, sjónræn og listræn heim- ild um lagskiptingu þýsks samfélags, og sýna á sem hlutlausastan og nákvæmastan hátt fólk úr öllum stéttum og stöðum þjóðfélags- ins. Sýningin í Listahöllinni í Köln hafði orðið að veruleika að undirlagi framsækinna lista- manna borgarinnar og naut Sander mikillar virðingar meðal þeirra. Útgefandinn Kurt Wolff heillaðist af raunsærri þjóðfélagssýn Sanders og gaf út árið 1929 fyrstu bók hans, Andlit tímans, sem innihélt 60 portrettmyndir frá árunum 1910–1929. Heildarverkið Maður tuttugustu aldarinnar var hins vegar ekki gefið út í kjölfar fyrri bókarinnar eins og Wolff og Sander höfðu ætlað sér. Kom þar til að Wolff seldi útgáfu- fyrirtækið sitt árið 1930 og neyddist til að yf- irgefa Þýskaland þegar Hitler komst til valda árið 1933. Verk Sanders féllu í ónáð því að sú mynd sem hann dró upp af þýsku þjóðfélagi þótti stríða gegn þeirri sem var þjóðernissósí- alistum, nasistum, að skapi. Árið 1936 gerðu nasistar upptæk þau eintök sem prentuð voru af Andliti tímans og öll prentmót sem tengd- ust bókinni voru eyðilögð. Rétt er að hafa í huga að sögulegur bak- grunnur er afar mikilvægur þegar lesa skal úr verkum Sanders; verkefnið þróast í takt við stjórnmála- og efnahagslegar hræringar í Þýskalandi en einnig samhliða listsköpun annarra listamanna tímabilsins og sárri per- sónulegri reynslu Sanders. Samband stjórnmála og lista Versalasamningurinn sem gerður var í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var áfall fyrir Þjóðverja sem þótti samningurinn afar órétt- látur. Þeir töldu sig alls ekki vera eina um að bera ábyrgðina á stríðinu og urðu að sætta sig við niðurlægjandi kröfur sigurvegaranna og greiða háar stríðsskaðabætur. Með afsögn Vilhjálms annars féll þýska rík- ið og við tók Weimarlýðveldið. Saga Þýska- lands á millistríðsárunum næstu ár er lituð af baráttu og harðri andstöðu, til að kollvarpa hinu unga lýðveldi. Gremja spratt af Versala- samningnum og óx við hersetu Frakka í Ru- hrhéraði sem og stofnun þýska Weimarlýð- veldisins á grunni sem voru rústir einar, í þjóðfélagi sem bauð aðeins upp á efnahags- hrun og eymd að stríði loknu. Heimskreppan hafði skelfilegar afleiðingar í Þýskalandi. Árið 1932 voru sex milljónir Þjóðverja atvinnu- lausar. Það var einmitt í þessari efnahagslegu ringulreið og örvæntingu sem þjóðernissósía- listar með Hitler í broddi fylkingar náðu eyr- um almennings. Hitler höfðaði til þjóðern- iskenndar og ljúfsárra minninga um liðna tíma og lofaði vinnu og brauði. Árið 1933 setti Hindenburg forseti Hitler í kanslaraembætt- ið. Weimarlýðveldið leið undir lok og Þriðja ríkið kom í staðinn með alræðisstjórn sem brennimerkti þýsku þjóðina. Það skyldi því engan undra að listin og stjórnmálin hafi verið eins samofin og raun ber vitni. Það var einkum eftir fyrri heims- styrjöldina sem listamenn almennt fóru að horfa gagnrýnum augum á samtíma sinn. Framúrstefnuhópa fer að gæta sem gagnrýna 6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. NÓVEMBER 2002 þau gildi og hefðir sem áður voru í mestum metum. Allt var nú tekið til end- urskoðunar í listinni og varð að viðfangs- efni, ekki síst hjá Dada í Berlín og listamönnum nýju hlutlægninnar, lista- stefnu sem kom fram í Þýskalandi á þriðja áratugnum. Í nýju hlutlægn- inni voru það eink- um listmálararnir Georg Grosz og Otto Dix sem gagnrýndu samtímann hvað ákafast og í verkum þeirra mátti finna ljótleikann sem þeir upplifðu í umhverfi sínu. Um átta millj- ónir manna höfðu fallið í fyrri heims- styrjöldinni og helm- ingi fleiri voru ör- kumlaðir til lífstíðar. Því gátu þeir ekki gleymt og vildu minna samtímann á það. Þeir máluðu myndir af vændis- konum og örkumla hermönnum sem enginn vildi sjá orðna að betlurum, lifandi sönnun um grimmd mannanna og tilgangsleysi stríðsins. Til að und- irstrika fáránleikann og öfgar samfélags- ins sjást svo gjarnan hjá Dix góðborgarar stíga dans sér til skemmtunar, líkt og til að undirstrika fá- ránleika, siðfræði- lega ringulreið og hræsni. Þá nær listamaðurinn Anton Räderscheidt í verk- um sínum fram þessari tilvistarkreppu og ör- væntingu sem einkenndi tímabilið. Hér birtast fátæktin og sársaukinn í ofur- raunsæi og eymd hjá listamönnunum. Þótt verk Dix og Grosz hafi vakið mikið hneyksli í Weimarlýðveldinu voru þau umborin. En 1933, þegar Hitler komst til valda, var öll framúrstefnulist og allar gagnrýnisraddir flokkaðar sem „bolsjévikamenning“; verk Dix og annarra í nýju hlutlægninni eru flokkuð sem úrkynjuð list. Sander og sannleikur hans Sander var helsti fulltrúi nýju hlutlægn- innar í ljósmyndun í Þýskalandi og með verk- efni sínu Maður tuttugustu aldarinnar vildi hann „segja sannleikann af einlægni um sam- tíma okkar og manneskjurnar“ með hjálp nýju ljósmyndunarinnar. Þrátt fyrir hlutleysi og nákvæmni rannsóknarmannsins, sem Sander er hvað þekktastur fyrir, verður hin augljósa ádeila verkefnisins einungis snarp- ari, því að hún sýnir hlutina eins og þeir eru; þetta voru ekki hin „réttu andlit“ Þriðja rík- isins. Heildarhugmynd Sanders var í raun að gera eitt stórt portrett af Þjóðverjum, þar sem heildin skipti mestu máli, líkt og um mósaíkmynd af þjóðfélaginu væri að ræða. Verkinu skiptir Sander niður í sjö megin- flokka: Bóndinn, Handverksmaðurinn, Konan, Stéttir og stöður, Listamennirnir, Borgin og Hinir minni máttar. Sérhverjum flokki var svo skipt í undirflokka til nánari aðgreiningar. Fyrsti flokkurinn, Bóndinn, hefur að geyma elstu portrettmyndirnar sem voru teknar áð- ur en Sander fær hugmyndina að Manni tutt- ugustu aldarinnar og eru frá árunum 1910– 1914. Frá þessum tíma eru m.a. portrett sem Sigríður Zoëga ljósmyndari aðstoðaði hann við að gera þegar hún vann sem aðstoðarkona og nemandi hans árin 1911–1914. Í þessum portrettmyndum af bóndanum og fjölskyldu hans má sjá óð til fósturjarðarinnar og bernskuslóðanna, sem voru Sander svo kær- ar, en einnig bóndann sem bar uppi sam- félagið fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Þá vill Sander einnig sýna þróunina úr sveit í borg til að gefa sannari mynd og teflir því saman Borginni og Bóndanum. Hann tekur mið af krepputímanum og bætir inn flokkum á borð við atvinnulausa sem er í takt við tímabilið. Listamenn eru stór hópur í Manni tutt- ugustu aldarinnar en á sýningunni í Ljós- myndasafni Reykjavíkur, sem geymir 76 portrettmynda Sanders frá 1911–1943, má finna m.a. portrettmyndir af listmálaranum Otto Dix, og Anton Räderscheidt, sem og fjölda annarra framsækinna listamanna í Köln sem störfuðu í anda nýju hlutlægninnar. Þá fær Konan einn flokk fyrir sig, svo og fyr- irmenn samfélagsins í ýmsum stéttum og stöðum. Í sjöunda og síðasta flokknum má finna Hina minni máttar, s.s. betlara, blind börn og örvita. Þegar Sander fellur í ónáð hjá nas- istum hverfur hann í „sköpunarútlegð“ sem listamaður í eigin landi, en bætir við í verk- efni sitt portrettmyndum af gyðingum og öðr- um ofsóttum mönnum. En hann bætir líka við portrettmyndum, meðal annars af hermönn- um, sem gerir ádeiluna einungis skarpari, og pólitískum föngum; veruleika sem er honum mjög nálægur því sonur hans Erich hafði ver- ið félagi í þýska kommúnistaflokknum og var handtekinn af nasistum árið 1936. Sander tekur mynd af syni sínum ári áður en hann deyr í fangabúðunum og er sú mynd einnig á sýningunni í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. En samferðafólk Sanders er ekki afmyndað líkt og í verkum Dix og Grosz. Það er þvert á móti stolt og heldur reisn sinni og virðingu. Flestir sem eru á myndunum koma úr dag- legu umhverfi Sanders og má því ætla að gagnkvæmt traust, sem ríkti milli fyrirsætn- anna og hans, hafi auðveldað honum að fá að taka myndirnar. En það kemur ekki í veg fyr- ir hlutlausa sýn Sanders og vissa fjarlægð sem hann tileinkar sér. Sander einblínir ekki síst á útlínur og form, í ætt við formgerð- arflokkun (typólógíu) sem hann er einkum þekktur fyrir; einstaklingarnir verða nánast að sýnishornum þar sem heildin skiptir meira máli en sérhver ljósmynd. Með sama kerf- isbundna hætti tekur hann mynd af lækninum og atvinnuleysingjanum, bakaranum og bónd- anum. Einstaklingurinn er nafnlaus, hvort sem hann er þekktur eða óþekktur. Með því að tileinka sér hlutleysi og raunsæi nær Sander fram samræmi forms og innihalds. Sander lifði það ekki að sjá æviverk sitt gefið út og var það aðallega Günther sonur hans sem bjargaði verkinu frá gleymsku. Hvernig sem litið er á portrettmyndir Sand- ers eru þær einstakt brautryðjandaverk. Ekki síst er Sander frumkvöðull að því leyti að hann nær að þurrka út skilin milli heim- ildar og listar sem lengi vel hafði verið þránd- ur í götu ljósmyndara; heimildargildið átti það til nefnilega að bera listræna nálgun of- urliði en verk Sanders gera hann að einum mesta portrettljósmyndara 20. aldar. Sann- leikurinn sem Sander færir okkur er kjarni verksins í Manni tuttugustu aldarinnar; þegar allt kemur til alls er um að ræða einn stóran hóp af manneskjum, samferðafólki Sanders, sem myndar eina stóra mósaíkmynd, þrátt fyrir ólíkt hlutskipti í þjóðfélaginu sem hver og einn hverfur aftur til þegar myndatöku er lokið. PORTRETTLJÓS- MYNDARI 20. ALDAR E F T I R H Ö N N U G U Ð L A U G U G U Ð M U N D S D Ó T T U R Höfundur er listfræðingur hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Á morgun, sunnudag, lýkur í Ljósmyndsafni Reykja- víkur sýningu á verkum þýska portrettljósmyndarans, Augusts Sanders. Á sýningunni gefur að líta 76 port- rettmynda hans frá árunum 1911-1943 sem allar til- heyrðu stórhuga brautryðjandaverkefni hans Maður tuttugustu aldarinnar. Verkefni þessu, sem Sander vann að ævilangt, var ætlað að endurspegla á hlut- lausan og raunsæjan hátt þýsku þjóðina, stéttir manna og stöður innan þess, á tuttugustu öldinni. August Sander, Lyklasmiður, 1928 © Die Photographische Sammlung/ SKStiftung Kultur-August Sander Archiv, Cologne; VG Bild-Kunst, Bonn.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.