Lesbók Morgunblaðsins - 30.11.2002, Qupperneq 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. NÓVEMBER 2002
L
JÓSAKLIF í forsvari Einars Más
Guðvarðarsonar hefur staðið fyrir
metnaðarfullu sýningarverkefni ís-
lenskra myndlistarmanna og kynn-
ingu á íslenskri samtímalist í Kyoto
í Japan að undanförnu. Um er að
ræða röð íslenskra listviðburða sem
efnt er til í samvinnu við ýmsar
listastofnanir í Japan og víðar. Dagskráin hef-
ur staðið yfir frá því um miðjan október og lýk-
ur um þessar mundir með sýningu Hreins
Friðfinnssonar myndlistarmanns í Kyoto Art
Center. Miðstöðin er ein helsta samtímamynd-
listarstofnun borgarinnar en þar sýndi Halldór
Ásgeirsson myndhöggvari á vegum hátíðarinn-
ar í októbermánuði. Í Kyoto Art Center var
einnig efnt til viðamikillar kynningar á íslenkri
og norrænni myndbandalist dagana 2.–7. nóv-
ember í samvinnu Ljósaklifs, Kyoto Art Center
og Norrænu samtímalistastofnunarinnar
(nifca). Var þar lögð sérstök áhersla á listferil
Steinu Vasulku myndlistarmanns, en sýnt var
21 vídeóverk eftir hana frá árunum 1975 til
2000.
Auk dagskrárinnar í Kyoto Art Center komu
þær Anna Richardsdóttir og Ragnhildur Gísla-
dóttir fram í einni af helstu þjóðargersemum
Japana, hinum fjögur hundruð ára gamla Nijo-
kastala í Kyoto, á Friendship Beyond Borders
listahátíðinni á vegum Sacred Bridge-stofnun-
arinnar í samvinnu við UNESCO, Kyoto-borg,
Ljósaklif, sendiráð Íslands í Japan og fleiri.
Þar söng Ragnhildur einnig með ýmsum tón-
listarlistamönnum frá Bandaríkjunum og Jap-
an. Einar Már Guðvarðarson var svo sjálfur
með einkasýningu í formi innsetningar á stein-
hlutum og skúlptúrum í Art Life-Mitsuhashi
galleríinu í Kyoto og í garði gallerísins. En auk
verka úr ýmsum steintegundum notaði Einar á
sýningunni japanska endurvinnslupoka með
áletruðum japönskum táknmyndum sem skír-
skotuðu til óáþreifanlegra huglægra viðfangs-
efna tengda áþreifanleika og staðfestu stein-
hlutanna í sögulegu samhengi.
Einar hefur verið búsettur í Japan í tæpt ár
þar sem hann vinnur að ýmsum samstarfsverk-
efnum á sviði myndlistar á vegum Ljósaklifs
auk þess að vinna að eigin listsköpun í formi
myndbandalistar, innsetninga, gjörninga og
steinskúlptúra. Um þessar mundir er hann að
vinna að vídeó- og gjörningsverkefnum í sam-
starfi við m.a. Amy Knoles, Vikku Vinayakram,
Uma Shankar og dansarann og kvikmynda-
gerðarkonuna Lazöru Albear frá Kúbu. Í apríl
síðastliðnum vann hann og sýndi í Kyoto gjörn-
inginn „flæði – borgarnáttúra“ í samstarfi við
japanska dansarann Hiroko Kawanishi og tón-
listarmanninn Robin von Hoegen.
Einar segir viðbrögð við íslensku og nor-
rænu listviðburðunum hafa verið mjög góð og
að vel hafi tekist til með framkvæmdina. „Ný-
stárlegur gjörningur þeirra Önnu og Ragnhild-
ar vakti mikla athygli. Ragnhildur hitti Kyoto-
búa beint í hjartastað með frábærri
frammistöðu og hefur henni nú þegar verið
boðin þátttaka á sömu hátíð í Kyoto næsta
haust, þar sem hún mun syngja með Ravi
Shankar og dóttur hans, Aldi Miola, Paco de
Lucia, John Maclaughlin, auk fjölda annarra
vestrænna og austrænna tónlistarmanna. Þátt-
taka norrænu listamannanna á hátíðinni verð-
ur þá einnig skipulögð í samvinnu við Ljósaklif.
Staðbundin innsetning og ferilsýning Halldórs
Ásgeirssonar höfðaði einnig til fólks, en sýn-
ingin nefndist jarðeldhús og bræddi Halldór
þar saman hraunsteina úr Búrfelli ofan við
Hafnarfjörð (hraun frá Ljósaklifi) og Fuji-fjalli
í Japan. Við gerð verkanna lét Halldór sam-
brætt fljótandi hraunið renna á hvíta matar-
diska sem síðan voru bornir fyrir gesti út í af-
markað rými utan við „eldhúsið“. Þá hefur
aðsókn að vídeolistadagskráinni verið góð og
vöktu verk Steinu Vasulku sérstaka athygli.
Japanir eiga sér mjög sterka og langa hefð
hvað myndbandalist varðar og kunna því gott
að meta í þessum efnum. Þessa hefð má m.a.
rekja til Gutai-hópsins sem hóf að gera tilraun-
ir með myndbandalist og sýna gjörningalist
sem myndlist þegar á árunum eftir síðari
heimsstyrjöld. En hið „opinbera Gutai-tímabil“
stóð frá 1954–1972 og hafði mikil áhrif á jap-
anska og alþjóðlega samtímamyndlist hvað
varðar nýjar nálganir, viðfangsefni og leiðir.
Loks er að nefna staðbundna sýningu Hreins
Friðfinnssonar sem stendur nú. En þar teflir
hann saman af sinni ljóðrænu snilld og gagn-
sæju zenísku sýn beinum „afritunum“ af
frönsku og japönsku bergi í formi blýantsteikn-
inga, ljósmyndum af sauðfé og hestum bróður
síns í bithögum vestur í Dölum, rignandi máln-
ingarstautum í regnbogaljósbrotum japönsku
hádegissólarinnar, kostulegum draumum í
formi ritaðra texta á vegg og eigin höndum
steyptum í gler sem halda á litlu blómi, sem
reynist hilling ein þegar nánar er skoðað.
Staðbundin tengsl
Þegar Einar Már er spurður um tildrög þess
verkefnis sem starfrækt er undir merkjum
Ljósaklifs eða Lightcliff Art segir hann um sé
að ræða starfsemi sem leitar nýrra leiða í list-
rænu samstarfi, sýningarhaldi og kynningu á
íslenskum listum erlendis. „Ljósaklif hóf starf-
semi sína á menningarborgarárinu 2000. Ég
hóf að starfrækja sýningarými og vinnustofu á
vernduðu hraunsvæði við sjóinn í jaðri Hafn-
arfjarðar og bauð listamönnum að vinna og
sýna staðbundin verk þar á sumrin er tengdust
ákveðnu þema. Þar er sjónum beint að
tengslum innra og ytra rýmis á mörkum
óspilltrar náttúru og borgarumhverfis og vinna
listamennirnir með og útfrá viðfangsefninu í
samhengi við þann stað sem unnið er á hverju
sinni. Halldór Ásgeirsson og Steina Vasulka
unnu sérstaklega verk sem þau sýndu í Ljós-
klifi 2000 og Hreinn Friðfinnsson sýndi 2001 og
má líta á sýningarverkefni þeirra hér í Kyoto
sem framhald af þessum verkefnum.“
Á menningarborgarárinu átti Ljósaklif m.a.
samstarf við Hafnarfjarðarbæ og Hafnarborg,
menningar og listastofnun Hafnarfjarðar um
komu japanskra listamanna hingað til lands, og
segir Einar Már að menningarumsvifin í Kyoto
séu óbeint framhald af því verkefni. „Kyoto-
borg er fyrrum höfuðborg og menningarleg
miðja Japan nú sem fyrr. Borgin hefur einnig
verið að marka sér sess á hinu alþjóðlega lista-
sviði og mun Ljósaklif vinna áfram að menn-
ingartengslum íslenskra og norrænna mynd-
listarmanna við borgina og Kansai-svæðið, sem
Kyoto tilheyrir ásamt m.a. borgunum Osaka og
Kobe. Það má geta þess að árlega koma um 30
milljónir japanskra ferðamanna til Kyoto til að
njóta lista og menningar hér sem spannar fleiri
hundruð ár enda er Kyoto-borg sú borg heims-
ins sem hefur flesta „unesco world heritage“
staði. Hér mætast ólíkir tímar, óvenju rík
menning frá fornu fari og alþjóðlegir straumar
í listum og menningu. Þannig munu þau tengsl
sem komist hafa á við sterkar listastofanir hér,
s.s. Kyoto Art Center, Sacred Bridge lista-
stofnunina, sem vinnur að menningartengslum
milli listamanna frá Austur- og Vesturlöndum,
Kyoto-borg, nýja samtímalistasafnið í Kobe,
sem er það annað stærsta í landinu á eftir To-
kyo-safninu og var opnað í mörg þúsund fer-
metra byggingu síðastliðið haust, auk Life Art-
gallerísins og fleiri gallería í Kyoto og á
Kansai-svæðinu halda áfram. Ýmsir aðilar hafa
komið að samstarfsverkefnum Ljósklifs og
stutt þau fjárhagslega, og er menningardag-
skráin í Kyoto 2002 styrkt af menntamálaráðu-
neytinu, Sendiráði Íslands í Japan, forsætis-
ráðuneytinu, Myndstefi, Menningarsjóði
Íslandsbanka og Skandinavíska Sasakawa-
menningarsjóðnum. Sérstaklega hefur marg-
þættur stuðningur íslenska sendiráðsins í Jap-
an og sendiherrans Ingimundar Sigfússonar
verið mikilvægur við framkvæmd þessara
verkefna.“
Einar Már segir ýmis verkefni framundan,
og leggur hann þar áherslu á að skipuleggja
listviðburði langt fram í tímann svo svigrúm sé
til þess að fá framúrskarandi listamenn, hent-
ugan sýningarvettvang hverju sinni og afla
fjármagns til verkefnanna. „Ég er t.d. að vinna
að viðamiklu varanlegu samstarfsverkefni milli
íslenskra, norrænna og japanskra aðila í
tengslum við EXPO-sýninguna sem haldin
verður í Nagano-héraði í Japan árið 2005. En
eins og staðan er nú má segja að norrænar list-
ir og menning séu heimilislausar í Japan.
Markmið þessa verkefnis er að skapa þeim var-
anlegan vettvang hér í Kyoto. Auk þess eru
ýmis önnur verkefni í farvatninu. Næsta sumar
er fyrirhugað samstarfsverkefni Ljósaklifs –
Lightcliff Art og Eiðastóls við norræna og jap-
anska skúlptúrista um umhverfisverk að Eið-
um. Verður verkefnið fyrsti áfangi í nýjum al-
þjóðlegum umhverfislistagarði þar. Þá mun
Finnbogi Pétursson vinna staðbundnar hljóð-
myndir inn í sýningarrými Ljósaklifs í Hafn-
arfirði í júní í tengslum við verndað hrauns-
væðið umhverfis. Þá er fyrirhuguð viðamikil
Gutai-sýning í Hafnarborg 2004 í tengslum við
komu, staðbundna vinnu og sýningu annarrar
kynslóðar Gutai-listamanns í Ljósaklifi, Horio
Sadaharu, sem byrjaði að sýna með Gutai-
hópnum aðeins 17 ára gamall (1955) og er einn
alvirkasti og nýstárlegasti samtímalistamaður
Japana í dag. Myndlist hans er það sem má
kalla „lifandi og gagnvirka hversdagslist“ og
stendur einmitt yfir þessa dagana viðamikil
sýning á verkum sem hann hefur unnið sér-
staklega beint inn í og útfrá útirýmum nýja
samtímalistasafnsins í Kobe. En það sem er
eitt af helstu einkennum Gutai-listar er hin
staðbundna nálgun og að hún er sprottin úr
umhverfi og í samtali við menningu og sögu
Kansai-svæðisins, þ.e Kobe, Kyoto, Osaka og
Himeji borga.“
Einar Már segir ýmis önnur verkefni í burð-
arliðnum, m.a. vinni Finnbogi Pétursson og
Magnús Pálsson staðbundin verk í Kyoto
næsta haust og stór sýning á íslenskri og nor-
rænni samtímalist með sterkri íslenskri
áherslu er fyrirhuguð haustið 2004. „Það sem
ég legg megináherslu á í þessu starfi auk stað-
bundinnar nálgunar er íslensk list í norrænu og
alþjóðlegu samhengi. Þau verkefni sem Ljósa-
klif hefur staðið að til er þessa eru háð því að
mér takist að afla fjármagns til þeirra og þá
þarf að koma til opinber stuðningur jafnt og
stuðningur frá lista- og menningarsjóðum fyr-
irtækja. Þrátt fyrir tíu ára efnahagslægð hér í
Japan er um að ræða 130 milljónir manna sem
búa í landinu með sterkan kúltúr að baki og
menningarlega sjálfsmynd sem Japanir rækta,
eru stoltir af og er þeim almennt dýrmæt, sés-
taklega hér í Kyoto og á Kansaisvæðinu, þar
sem búa rúmlega tuttugu milljónir,“ segir Ein-
ar Már Guðvarðarson að lokum.
heida@mbl.is
Ragnhildur Gísladóttir og Anna Richardsdóttir vöktu mikla hrifningu er þær fluttu gjörninginn
„Hreinsun“, í hinum fjögur hundruð ára Nijo-kastala og Kyoto Art Center í Japan.
Frá sýningu Hreins Friðfinnssonar myndlistarmanns í Kyoto Art Center í Japan. þar teflir hann
m.a. saman beinum „afritunum“ af frönsku og japönsku bergi í formi blýantsteikninga.
AÐ SKAPA
VARAN-
LEGAN
VETTVANG
Ljósaklif – Lightcliff Art er staðbundið listaverkefni
rekið af Einari Má Guðvarðarsyni myndlistarmanni.
Ljósaklif hefur unnið að umfangsmiklum menningar-
tengslum í Japan að undanförnu sem HEIÐA
JÓHANNSDÓTTIR spurði Einar Má nánar um.