Lesbók Morgunblaðsins - 21.12.2002, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. DESEMBER 2002 9
Kannski hefur hann ekki rétt fyrir sér, en
hann hefur þá ekki þekkt annan höfund. Hins
vegar læðist auðvitað alltaf að manni sá
óþægilegi grunur að ekki sé allt sem sýnist
þegar Snorri á í hlut. En mikilvægt er að
árétta að Snorri er ekki einn um þessa skoð-
un. Bróðursonur Snorra, Ólafur Þórðarson,
vitnar einnig til vísna Egils í Þriðju mál-
fræðiritgerðinni sem rituð er eigi síðar en
1259. Hann er hins vegar ekki bundinn af
bókmenntategundum eða kveðskap höfuð-
skálda í sinni bók, enda er tilgangur ritsins
allt annar en Snorra með Eddu. Þess vegna
er athyglisvert að kanna hvaða vísur hann
notar til að skýra latnesk hugtök frumtexta
síns. Ólafur vitnar einnig til Arinbjarnar-
kviðu, og til tveggja lausavísna. Brot úr ann-
arri vísunni er hvergi annars staðar varð-
veitt, en hin vísan er ein sú síðasta í sögunni
þar sem Egill kvartar um getuleysi sitt. Það
er ólíklegt að Snorri og Ólafur hefðu báðir
vitnað til Egils sem höfundar Arinbjarnar-
kviðu ef þeir vissu betur, og ósennilegt að
Sturla Þórðarson hefði stælt kviðuna í Há-
konarkviðu ef hann héldi að hún væri eftir
Snorra.
Ólafur og Snorri eru eiginlega sami mað-
urinn, ef svo má að orði komast, og bókagerð
þeirra líklega samofnari en við gerum okkur
grein fyrir. Þannig hefur Jonna Louis Jensen
leitt að því getum í nýlegri grein að Ólafur
hafi lagt smiðshöggið á Heimskringlu, en
ekki Snorri sjálfur. Og þannig ættum við
kannski einnig að vera varkár þegar við eign-
um Snorra Heimskringlu alla. Og fyrst ég er
farin að sauma að karlinum – Snorra Eddu
líka! Sú bók er t.d. varðveitt í mörgum ólík-
um gerðum frá miðöldum sem sýnir að höf-
undartak Snorra á verkinu var laust, jafnvel
þó að hann sé í Uppsalaeddu nefndur höf-
undur þeirrar gerðar sem þar er. Við eigum
að leyfa okkur að njóta fjölbreytni bók-
mennta þessa tíma í stað þess að bindast höf-
undum of sterkum böndum.
En aftur til sögunnar.
3.
Egla er bersýnilega skrifuð fyrir fólk sem
hefur áhuga á skáldskap. Lausavísurnar eru
60 talsins, máske aðeins færri í upphafi, og
margoft vikið að skáldskap í sögunni. Það er
svo áberandi að lesandinn hættir eiginlega að
taka eftir því. Sagt er frá skáldum Haraldar
hárfagra snemma í sögunni, og minnir sú til-
vísun á Skáldasögu sem varðveitt er í Hauks-
bók. Þræðir eru afhjúpaðir á milli Egils,
Bjarnar Hítdælakappa og Gunnlaugs orms-
tungu, og að endingu minnt á að mörg skáld
séu af Mýramannakyni. Síðasta nafnið í sög-
unni er einmitt Skúli Þorsteinsson, eitt af
skáldum ættarinnar. Loks er áhugaverð frá-
sögn af læri Einars skálaglamms hjá Agli,
sem er nokkurs konar spegilmynd af sögu
Egils; andhverfa hennar. Einari skálaglamm
tekst að ná eyrum konunga og verða virt
hirðskáld. Vellekla hans er ein aðalheimild
Snorra í Heimskringlu um Hákon jarl, en
engin vísa úr orðasmiðju Egils ratar á þá
bók. Til að undirstrika mikilvægi Einars fyrir
utan heim Egils, eru vísur Einars í Eglu
varðveittar í öðru samhengi, í Jómsvíkinga-
sögu. Einar er gestur í heimi Íslendinga-
sagna, en Egill kemst aldrei þaðan út.
Fræðileg umræða á Íslandi um bókmenntir
á miðöldum leynir á sér. Varðveittir eru for-
málar ýmissa sagnarita, heilagramanna-
sagna, riddara- og fornaldarsagna sem vitna
um viðhorf höfunda til sagnaritunar. Íslend-
ingasögur eru þó lausar við slíkar grein-
argerðir. En um vísurnar gegnir öðru máli.
Skáldskaparfræði var á háu stigi á miðöldum,
og þar sem Egla hin fyrsta verður til í þeim
hópi sem skóp þekktustu rit í þeim fræðum,
skiptir máli að hafa á vísunum sérstakar gæt-
ur. Ekki aðeins myndmálinu, kenningunum
og tilvísunum, heldur íþróttinni sjálfri, form-
tilraununum og feluleik skáldsins í orðunum.
Agli kynnumst við fyrst sem þroskuðu
hirðskáldi í Egils sögu. Frásagan af því þeg-
ar þriggja ára smábarnið hunsar bann föður
síns, og eltir hann yfir mýrarfláka, holt og
hæðir í boðið til Yngvars afa er dæmigerð
sýn inn í æsku hetjunnar sem gefur hugboð
um það sem koma skal – eða ekki. Hún er
dæmisagan af hirðskáldinu hjá hinum þakk-
láta höfðingja, og skáldið reynir að þóknast
herranum sem best. Frásögnin er óborg-
anleg; við kætumst yfir henni en í raun er
hún tragísk. Hún fjallar um manninn sem
nær hátindinum of snemma, í barnæsku
sinni, eftir það er allt á niðurleið. Saga Egils
er harmsöguleg. Höfundur Eglu setur á svið
sögu af lánlausu skáldi og vísurnar spretta
upp úr þeirri frásögn. Það skiptir kannski
ekki máli hvort þær eru gamlar eða ekki, en
mikilvægt er að missa ekki sjónar á þeirri
staðreynd að sá sem samdi Eglu var sífellt að
hugsa um skáldskapinn, og þess vegna verð-
ur að huga sérstaklega að því hvernig hann
fór með þennan skáldskap.
Yngvar tók drengnum með kostum og
kynjum, og setti hann í heiðursæti hið næsta
sér. Egill situr við hlið afa síns, húsráðand-
ans, gegnt Þórólfi og Skallagrími. Feðgunum
og bræðrunum er stillt upp í upphafi sög-
unnar, drengurinn einn á móti þeim tveimur.
Egill yrkir tvær vísur. Eina við komuna, og
er sagt að Yngvar hafi haldið „vel upp vísu
þeirri“, sem vísar til hégómleika Egils sem er
snar þáttur í persónulýsingu hans, enda er
strákurinn ánægður með sig. Yngvar gefur
honum í skáldalaun þrjá kuðunga og and-
aregg, og yrkir Egill vísu um gjafirnar. Báð-
ar vísurnar virðast reglulegar, þ.e. reglum
hins dróttkvæða háttar er fylgt, en skáldið
brýtur upp formið á einum stað, eins og oft
gerist í vísum Egils. Áheyrandinn nýtur
reglulegrar hrynjandinnar, en allt í einu
heyrist nýr óvæntur tónn. Egill hefur sér-
stakt dálæti á að varpa ljósi á andstæður með
því að leyfa alríminu að hljóma þar sem það á
ekki við. Það hljómar betur.
„Síþögla gaf söglum
sárgagls þrjá Agli.“
Strax í fyrsta vísuorði er dregin upp and-
stæða milli hins sítalandi Egils – söglum –
(málæðið kemur honum í vandræði síðar) –
og hins þögula – síþögla – kuðungs. Einhvers
staðar mitt á milli verður drengurinn að
finna jafnvægi sitt. Sjávarmyndmál er
ríkjandi í vísunni; en hvað með andareggið
sjálft? Er eggið ekki táknmynd um Egil sjálf-
an, gefur gjöfin ekki fyrirheit um að önd
hans eigi eftir að sleppa úr egginu. Hann fái
andargift. Væri slík ofljós merking and-
areggsins – þ.e. líking sem getur vísað í fleiri
en eitt fyrirbæri ekki – dæmigerð fyrir skáld
sem hafði unun af orðaleikjum?
4.
Margar vísur Egils eru sérstaklega glæsi-
legar að formi til, og það er hljómur vísnanna
sem er ekki síst minnisstæður þeim sem
heyra vísur Egils. Egill er músíkalskt skáld
og hlustar eftir hljóm orðanna, tengir merk-
ingu orða saman með rími, og einmitt þar
sem hann fylgir ekki reglum bragarins heyr-
ist rödd hans skýrast. Tökum dæmi. Heim-
sókn Egils og Ölvis til Bárðar konungs-
manns, er ákaflega eftirminnileg í sögunni og
gefur tóninn fyrir samskipti Egils og kon-
ungs, ekki síst Gunnhildar drottningar. Sú
heimsókn er fyrsta heimboð Egils eftir kom-
una í Noreg. Hann gengur fram á sviðið,
kynnir sig og yrkir fyrstu vísur sínar í
áheyrn konungs, og þess vegna geymir hún
marga lykla að atburðarás sögunnar. Þar
kemur fram að konungurinn er ekki óvinur
Egils, heldur Gunnhildur; það stef er end-
urtekið aftur og aftur í sögunni, og er sér-
staklega áberandi í vísum Egils sjálfs. Eirík-
ur býður Agli til stofu, en Gunnhildur reynir
að drepa hann.
Kringumstæður heimsóknarinnar eru ykk-
ur vafalaust þekktar. Egill tekur sótt þegar
Þórólfur fer í brúðkaupsveislu sína og Ás-
gerðar Bjarnardóttur og er gefið í skyn að
Egill hafi átt bágt með tilfinningar sínar.
Hann hressist þó skjótt og fer með Ölvi hús-
karli Þóris að heimta landskuldir, eins og
sagt er. Þeir koma til Bárðar í Atleyju, og fá
að vera þar um nóttina. Bárður segir þeim
ekki að hann eigi von á Eiríki blóðöx og
Gunnhildi í dísablót, en þar kemur að kon-
ungur býður þeim til stofu. Egill og Ölvir
setjast gagnvert konungi og drottningu í
öndvegi. Hefst nú mikil drykkjuveisla, og
verða förunautar þeirra brátt ofurölvi og
dragnast spúandi út úr stofunni. Bárður veit-
ir of vel, en Egill drekkur sleitulaust og er sí-
þyrstur; hann kann sig ekki. Þess er ekki
langt að bíða að Ölvir hnígi út af vegna of-
drykkju, og gef ég Eglu nú orðið:
„stóð þá Egill upp og leiddi hann út til dyr-
anna. Egill kastaði yfirhöfn sinni á öxl sér og
hélt á sverðinu undir skikkjunni. En er þeir
koma að dyrunum þá gekk Bárður eftir þeim
Agli með horn fullt og bað Ölvi drekka braut-
fararminni sitt. Egill stóð í dyrunum og kvað
vísu:
Ölvar mig því að Ölvi
öl gerir nú fölvan.
Atgeira læt eg ýrar
ýring of grön skýra.
Öllungis kanntu illa,
oddskýs, fyr þér nýsa,
rigna getr að regni,
regnbjóðr, Háars þegna.
Egill kastaði þegar niður horninu og greip
sverðið og brá. Myrkt var orðið í stofunni.
Egill lagði sverðinu að Bárði miðjum svo að
blóðrefillinn gekk út um bakið. Féll Bárður
niður dauður en blóð hljóp út úr undinni. Þá
féll Ölvir og gaus spýja úr honum. Egill hljóp
út um forstofudyrnar en niðamyrkur var úti.“
Þessi atburðarás er ákaflega hröð og kall-
ast myndmál vísunnar mjög glæsilega á við
lausamálið. Skoðum vísuna aðeins betur, ekki
síst formið. Egill yrkir undir dunhendum
hætti, sem merkir að síðasta orð línu er
fyrsta orðið í þeirri næstu, t.d. Ölvar mig því
að Ölvi, öl gerir nú fölvan og atgeira læt eg
ýrar, ýring of grön skýra. Egill heldur hætt-
inum út vísuna, utan í 5. og 6. línu þegar
hann víkur allt í einu frá honum. Í fyrripart-
inum er lýst á glæsilegan hátt hvernig ölið
rennur um kinnar Ölvis; hann er rennandi
blautur. Dunhendan eykur á áhrif lýsing-
arinnar, því að tenging línanna virkar eins og
að vökvinn renni frá einni línu í þá næstu.
Hér er formskynjunin fullkomlega í samræmi
við efnið. Í seinni hlutanum er verið að lýsa
annars konar vökva, en þar sem Egill víkur
frá hætti er fyrri partur líkingar um bardag-
manninn Ölvi: oddskýs regnbjóðr. Oddhvöss
ófriðarský hrannast upp; blóðregnið er á
næsta leiti. Og þegar regnið steypist niður,
renna línurnar líka saman: rigna tekr regni,
regnbjóðr, Hávars þegna. Ég er efins um að
rétt sé að skilja kenninguna regn Hávars
þegna sem líkingu um skáldskap, því hún er
örugglega tvíræð og gæti eins átt við blóðið
sem mun streyma þegar Egill hefur sleppt
horninu og brugðið sverðinu. Vísuhelming-
arnir tveir kallast nefnilega á við það sem
koma skal: Ölvir ofurölvi mun spúa yfir stof-
una, en í síðari hlutanum er ýjað að drápi
Bárðar, þar sem blóðið hleypur úr sárinu.
Myndin er óhugnanleg og minnir á sögur af
því hvernig Óðinn komst yfir skáldskapar-
mjöðinn, eins og Jón Karl Helgason hefur
fjallað um. En hún er einnig glæsileg, form-
legt snilldarverk, þar sem engu orði er ofauk-
ið. Tvískipt form vísunnar kallast á við vökv-
ana tvo sem renna úr líkama Ölvis og Bárðar
og gefa hugboð um ævi Egils sem helguð er
skáldskap og vígum. Hann sjálfur stekkur út
úr myndinni, inn í óminnismyrkrið.
Tækni duhendunnar er Agli sérstaklega
hugleikin. Slík stílbrögð er víða að finna í vís-
unum, og er einkar áhrifamikil í vísu Egils
um Þorstein son sinn síðast í sögunni. Þegar
Egill kemur til Íslands hagar hann sér að
sumu leyti eins og Eiríkur gerði í Noregi;
hann ræður yfir hlut manna, er óbilgjarn
valdsmaður í deilunni við Önund sjóna vin
sinn og hann setur mönnum afarkosti í deilu-
málum. Hann getur ekki fyrirgefið syni sín-
um hégóma. Egill er ekki stór í sniðum. Son-
ur hans Þorsteinn var andstæða hins ljóta
Egils, ímynd hins bjarta Þórólfs. Hann var
afbragð annarra manna, föðurbetrungur:
„allra manna fríðastur sýnum, hvítur á hár
og bjartur álitum; hann var mikill og sterkur,
og þó ekki eftir því sem faðir hans. Þorsteinn
var vitur maður og kyrrlátur, hógvær, stilltur
manna best. Egill unni honum lítið. Þorsteinn
var og ekki við hann ástúðigt. En þau Ás-
gerður og Þorsteinn unnust mikið.“
Þau mæðginin fá þá hugmynd að Þorsteinn
skuli bera þær silkislæður til alþingis sem
Egill hafði þegið af Arinbirni. Egill geymdi
þær í kistu, eins og aðrar gersemar sínar, og
urðu þær engum lifandi manni til gagns. Veð-
ur var blautt um þinghaldið, svo slæðurnar
urðu saurugar að neðan; þvoði Ásgerður þær
við heimkomuna og lagði aftur í kistuna. Eg-
ill sá verksummerkin, og sagði Ásgerður hon-
um strax hið sanna. Þá kvað Egill vísu þar
sem hann fer hörðum orðum um son sinn; og
kallast hún á við vísuna þar sem Egill sækir
arf Ásgerðar:
„Áttka eg erfinytja,
arfa mér til þarfan.
Mik hefir sonr of svikið,
svik tel eg í því, kvikvan.“
Orðin eru köld, glæpurinn virðist lítill en
dómurinn er harður. Egill segist hafa eignast
arfa í lifanda lífi, og með því að nota tækni
dunhendunnar á einum stað í vísunni leggur
hann áherslu á aðalefnið: svikið-svik. Í þeim
línum brýtur hann einnig boðorð háttarins og
notar aðeins aðalhendingar: mik-svikið, svik-
kvikvan. Þetta eru síðustu orð Egils um börn
sín í sögunni, og þess vegna er vísan sér-
staklega mikilvæg. Hún er í hrópandi ósam-
ræmi við Sonatorrek. Egill sem hafði barist
fyrir rétti arfans í Noregi, afneitar syni sín-
um í lok sögunnar, fer frá óðali sínu og suður
í Mosfellsdal.
Þannig tengjast vísur Egils saman í Eglu,
og formið kallast á við efnið með afar glæsi-
legum hætti. Formið þjónar efninu. Stundum
finnst mér Egill minna mig á Jónas Hall-
grímsson. Rétt eins og Dick Ringler skýrir
svo vel í nýju bókinni sinni, er hin djúpa
formskynjun Jónasar ekki innantóm heldur
samofin hugsun hans, og það á einnig við um
vísur Egils Skallagrímssonar. Vísur sem
lagðar eru honum í munn eru ekki bundnar
stað og stund, jafnvel þó að þær séu fastar í
sögunni. Sögumaðurinn hefur borið skyn-
bragð á áhrifamátt vísna og fléttað þeim
glæsilega inn í frásögnina. Sagan breytist um
leið og vísan hljómar og þar með viðhorf les-
anda og áheyrenda til Egils eftir því hvar
hann er staddur í skáldveröld sinni. Úr verð-
ur glæsilegt samspil ólíkra forma.
5.
Egla eins og hún var gefin út í haust er
ekki eftir Snorra Sturluson, og það er að
ganga í berhögg við söguna að lesa hana sem
höfundarverk hans. Þó efast ég ekki um að
sagan sé sprottin upp úr hans umhverfi, jafn-
vel skrifuð í Reykholti. Höfundurinn er ber-
sýnilega hugfanginn af Mýramannakyni, svo
mjög að hann endurtekur sumt tvisvar sem
um ættina er sagt. En Íslendingasögur eru
ekki höfundarverk, ekki eign höfunda, heldur
eiga þær sig sjálfar. Þær eru boðflennurnar í
íslenskri bókmenntasögu.
En jafnvel þó að lesandi Egils sögu kannist
ekki við neinn Snorra, er hann ekki í neinum
vafa um að Egill sé skáldið. Snorri og Ólafur
efuðust ekki heldur, hvort sem þeirra vitn-
isburður skiptir einhverju, og því spyr ég: hví
nagar efinn okkar köldu skynsemi? Í frá-
sögninni talar rödd skáldsins, og hún er sú
sama söguna á enda. Og skiptir þá ekki máli
hvort að sumar vísurnar séu ungar. Í þeim er
hinn furðulegi Egill skapaður, hégómleiki
hans og ágirnd opinberast, og fjandsamlegt
samband hans við konuna Gunnhildi skil-
greint. Í Eglu eru vísurnar hluti af frásögn-
inni, þræðirnir í vefnum. En seinna bættust
líklega stóru kvæðin inn í söguna, kannski
vegna þess að Egla hefur villt á sér heimildir
sem sagnfræðilegt verk, því hún tengist um
of konungasögunum og Sturlungum – og
Snorra. En kvæðin eru af öðrum toga en vís-
urnar í frásögninni, þjóna ekki sögunni, held-
ur þjónar sagan þeim, jafnvel þó að svo hafi
ekki verið í öndverðu.
En við lifum á póstmódernískum tímum.
Við lifum á tímum höfundanna, einstakling-
anna og merkimiðanna, en Íslendingasögurn-
ar og flest verk miðalda spruttu upp úr
menningu sem hafði ekki áhyggjur af frum-
útgáfum. Nú er svo komið að Egill Skalla-
grímsson þarf að verja höfundarnafn sitt í
fullum herklæðum meðan gefin eru út ný og
ný verk í nafni Snorra Sturlusonar. Leitin að
höfundinum getur verið dæmalaust skemmti-
leg, en við verðum að viðurkenna að hún er
aðeins leikur að orðum. Aðeins handritin
tengja sig við tímann og þeirra eigum við að
njóta.
Endurskoðuð og stytt gerð erindis sem
flutt var á jólarannsóknaræfingu Félags ís-
lenskra fræða, Sagnfræðingafélagsins og
ReykjavíkurAkademíunnar 7. desember síð-
astliðinn.
En að mínu áliti eigum við að standast þá
freistingu að nafngreina ákveðinn höfund, við
eigum að nema staðar í leitinni að höfund-
inum, því að um leið og við nefnum hann hef-
ur Egils sögu verið markaður bás sem henni
var ekki ætlaður. Sagan er ekki höfundarverk
eins manns. Handritin sýna okkur þvert á
móti að sagan breyttist í meðförum nýrra kyn-
slóða, svo að erfitt er að draga upp mynd af
þeirri Eglu sem fyrst varð til í Borgarfirði á
fyrra helmingi þrettándu aldar.
Höfundur er dósent í íslenskum bókmenntum við
Háskóla Íslands.