Lesbók Morgunblaðsins - 21.12.2002, Side 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. DESEMBER 2002
E
ITT af því sem heillar mest er
húmið. Sá sem kann að njóta
þess hlýtur að vera ánægðast-
ur í skammdeginu. Rökkrið er
þá mest og auðveldast að finna
dularfull áhrif þess á sálina og
líkamann. Þetta á einkum við
ef maður hefur ekkert fyrir
stafni. Iðjuleysi og rökkur eiga prýðilega
saman. Hvort tveggja er sefandi. Rökkrið
vekur unað og laðar fram leti og værð. En
áhrif þess geta verið með ýmsu móti. Rökkrið
líkt og húmið og ljósaskiptin á það til að lyfta
andanum hátt jafnvel við mikið erfiði. Oft
fylgir rökkrinu sérstök þreyta sem veitir
andlega orku. Það getur verið þægilegt að
finna áhrif frá rökkri þegar maður er þreytt-
ur, einkum á þeirri stundu þegar vinnu er
lokið og komið heim. Maður andvarpar feginn
og hugsar með sjálfum sér fremur en hann
segi:
Lokið er stuttum degi sem er langur samt,
vegna næstum engrar birtu.
Rökkrið verður uppfylling óskanna: Ein-
hverju er lokið, en ekki alveg. Þannig á allt
að vera í lífinu. Í rökkrinu felst endaleysi. Í
rökkrinu vaknar tilfinning fyrir endalokum
og væntanlegu upphafi.
Rökkrið er best á veturna. Þá er það væg-
ast sagt í essinu sínu. Náttúran fer úr litrík-
um haustklæðum og bregður yfir sig villi-
birtu, líkt og grímubúningi. Þannig er
skammdegið. Þá erum við móttækilegust fyr-
ir geðhrifum. Á þessum árstíma er tilfinn-
ingalífið þrungið ljósaskiptum og við finnum
sárt fyrir öllu með svipuðum hætti og ein-
hverju ástkæru sem maður verður viðskila
við, vin eða vinkonu, móður eftir fæðingu eða
bernskuna þegar vandi og gleði eru samfara
öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Þann-
ig verðum við að fulltíða fólki.
Rökkrið er skammvinn birta. Rökkrið er
bilið á milli dags og nætur. Fyrir bragðið er
það skylt æskunni, eina tímanum þegar við
erum áhyggjulaus. Þar af leiðandi er það líka
skylt ellinni, þegar við verðum tiltölulega
áhyggjulaus. Á þessum æviskeiðum hvílir
ábyrgðin á öðrum: Foreldrunum, börnunum,
samfélaginu. Maður er næstum frjáls myrkr-
anna á milli. Það frelsi varir skammt, eins og
skammdegið. En í huganum er maður bað-
aður í minningu um æskuna á svipaðan hátt
og maður baðar sálina með vellíðan og sökn-
uði í húmi sem er hvorki algert næturmyrkur
né fullkomin dagsbirta. Rökkrið er bara
rökkur, það sjálft, rökkrið í rökkrinu. Þetta
finnst greinilega. Í rökkri er maður ekki á
neinum sérstökum aldri, takið eftir því, bara
á ljósaskiptaaldri, hálfur í húminu, hálfur í
birtunni. Við eigum þá skylt við tunglið og
kvartilaskipti þess. Svona er undrið að geta
verið á engum aldri einu sinni á ári. Þetta er
eins og að ganga inn í þögult hús sem ómaði
fyrir andartaki af mannamáli, látum í börn-
um, hljóðskrafi kvenna um heimilisstörf,
kannski bakstur, söng karlmanna. Rökkrið er
mannauða minningastofan. Það er stássstof-
an. Að stíga inn í hana er að ferðast inn í
húmið.
Allt í einu verðum við að barni sem hleypur
frá deginum böðuðum ljósi, sól, ilmi. Barnið
læðist inn í stássstofuna. Á helgistund kyrrð-
arinnar sjáum við allar myndirnar á veggj-
unum. Við sjáum stólana sem sjaldan er setið
í og borðið á miðju gólfi. Í kringum það er
setið í afmælisveislum. Og blómin eru kyrr.
Rökkrið þekur laufið eins og ryk sem allur
sólarhringurinn, ævin á eftir að skilja eftir
sig.
Úti er sumardagur í sveit með fuglasöng,
andvara og ilmi af nýslegnu grasi sem er að
verða hey fyrir veturinn handa kúm í dimmu
fjósi. Við erum börn og höfum stolist frá
hrífu og sól til að finna áhrif rökkursins og
komast í tengsl við fjölskylduna á veggj-
unum. Þetta eru forfeðurnir. Þarna eru þeir á
brúnum myndum sem dökkna stöðugt og
verða í lokin einlitt spjald. Sumir eru dánir
fyrir löngu, sumir eru að því komnir að deyja,
sumir eru ennþá ungir en liggja samt ekki
lengur brosandi og naktir á hvítu gæruskinni.
Þeir eru þegar farnir að halla vanga örlítið að
rökkrinu. Hvort sem þeir vilja eða vilja ekki,
þá eru þeir að eldast. Sumir eru þarna ný-
fæddir og hafa ekki hugmynd um hvað bíður
þeirra. Flestir eru í sparifötunum. Sumir ný-
fermdir. Sumir eiga fertugsafmæli. Sumir
hafa átt fleiri afmæli en fjörutíu. Þess vegna
eru þeir á hópmynd og standa þar í miðjunni.
Rökkrið er þannig á sumrin. Rökkrið er
þannig í huga okkar þegar við erum forvitin
börn í leit að hughrifum og höfum skotist frá
vinnu og falið okkur inni í stofu hjá fortíðinni
á meðan fuglarnir syngja úti, kýrnar baula og
hanarnir gala.
Húmið er öðruvísi á veturna. Í því felst
önnur tíð. Í því leynist fortíðin. Maður fær
stundum á tilfinninguna að hinir fornu guðir
muni allt í einu stíga fram og skjótast í heiðn-
um loga út úr þessari kynlegu birtu, sem er
hvorki dimma né ljós, og segja:
Þá erum við komnir aftur til ykkar, svo þið
getið endurheimt með okkur hina gullnu tíð.
En þeir snúa ekki aftur. Þetta er blekking.
Þannig eru tengslin við fortíðina. Svona eru
trúardraumar ljósaskiptanna. Þetta er leikur.
Þetta eru erfðir. Þetta er sífelld nálægð for-
tíðarinnar. Hún verður aldrei máð út úr lífi
þessarar þjóðar af því fortíðin er ríkur þáttur
í henni. Svona er það að vera sérstök þjóð
með sérstaka sögu.
Rökkrið er ekki eitthvað ósnertanlegt. Það
strýkur okkur stundum eins og andvari.
Rökkrið er vængurinn á skammdeginu. Ég
segi ykkur:
Á rökkrinu eru vængir.
Stundum vex á því einn vængur, stundum
tveir, hvor á sína hlið ljósaskiptanna, stund-
um margir þandir. Þeir svala okkur eins og
blær, hlý gola, lágvært hvísl í grasi, kannski
vatn í læk.
Þetta er rökkrið sem fylgir aðventunni.
Skuggarnir flögra um heiminn, húsið, andlit,
þil, og í huganum getum við gert þá að
hverju sem er. Við erum myrkfælin. Jörðin
er frosin. Klaki hylur moldina. Sólin hefur
sigið, rauð, rauð, rauð. Hún er aðeins glæta.
Þetta er stund eftirvæntingarinnar. Þetta er
mánuðurinn sem fæðir ljósið. Þetta er stund-
inni á undan þeirri undraverðu tíð þegar ljós-
ið fæðist. Eða ljósið vex og á eftir að verða
stórt. Innan nokkurra mánaða mun það sem
var skammdegi verða náttleysi.
Við horfum í augun á rökkrinu og spyrjum
á sama hátt og þegar barn er spurt:
Hvað viltu verða þegar þú ert orðið stórt?
Birtan er feimin og svarar engu.
Viltu verða bílstjóri, lögregla, bóndi, ljós-
kastari?
Nei, svarar rökkrið. Ég vil bara verða það
sem er stundum kallað rökkur, stundum
húm, stundum ljósaskipti.
Bara, bara, ekkert annað og meira? hváum
við.
Eins og það sé ekki nóg, segir verðandi
náttleysið.
Jú, segjum við.
Annars veit ég það ekki, segir hikandi
rökkrið á mörkum þess að vita allt og vita
ekkert.
Skammdegið ríkir einungis skamma hríð.
Það stendur yfir í nákvæmlega jafn langan
og á nákvæmlega sama tíma á hverju ári. Það
getur aldrei verið í ágúst, ekki einu sinni í
október. Skammdegið er árvisst á sínum
stað. Við getum gengið að því vísu. Það getur
gengið að okkur, vonandi alltaf vísum, von-
andi líka endalaust eða til æviloka. Aftur á
móti getur veðrið verið upp og ofan og með
ýmsu móti í skammdeginu, gott, vont eða
svona og svona. Sumum hættir til að rugla
saman þessu þrennu: Rökkri, veðri og
skammdegi. Það er rangt. Þetta er ólíkt en
kannski örlítið skylt. Segjum það. Þannig á
þetta að vera. Ef náttúran fær að lúta sínum
lögmálum eins lengi og heimurinn stendur,
þá verður þetta svona, ekki öðruvísi.
Til eru samfélög sem dýrka rökkrið og
trúa á það eins og guð, á sama hátt og fólk
getur þráð og tignað blæinn í heitum löndum.
Ó, hvílíkur svali! hvíslar það í sæluvímu.
Unaður frá blævæng strýkst um andlit
þess eins og vængur rökkursins strýkur okk-
ur um vanga. Svo eru önnur samfélög, van-
þakklát í garð náttúrunnar vegna þess að þau
vita ekki að húmið, ljósaskiptin, rökkrið og
skammdegið eru gjafir guðs til jarðarinnar.
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
„Rökkrið verður uppfylling óskanna: Einhverju er lokið, en ekki alveg. Þannig á allt að vera í lífinu.“
SKAMMDEGIÐ
E F T I R G U Ð B E R G B E R G S S O N
Höfundur er rithöfundur.
Rökkrið er skammvinn birta. Rökkrið er bilið
á milli dags og nætur. Fyrir bragðið er það
skylt æskunni, eina tímanum þegar við erum
áhyggjulaus. Þar af leiðandi er það líka skylt
ellinni, þegar við verðum tiltölulega áhyggju-
laus. Á þessum æviskeiðum hvílir ábyrgðin á
öðrum: Foreldrunum, börnunum, samfélaginu.