Morgunblaðið - 01.05.2004, Page 29
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 1. MAÍ 2004 29
ÞAÐ bar vel í veiði á alþjóðlegum
degi dansins hinn 29. apríl síðastlið-
inn. Þá heimsótti víðförli flamenco-
dansarinn Joaquín Cortés landið
heim ásamt 15 manna sveit hljómlist-
armanna og söngvara. Cortés fædd-
ist í Cordoba borg á Spáni árið 1969
og þar lærði hann snemma að meta
flamenco-dans. 12 ára hóf hann nám í
klassískum ballett og þrem árum síð-
ar gekk hann til liðs við spánska þjóð-
arballettinn. Árið 1992 stofnaði hann
sinn eigin dansflokk eða Joaquín
Cortés flamenco company. Sólóverk-
ið „Live“ var frumflutt í Tivoli
Theatre í Barcelona í mars 2001.
Verkið hefur verið flutt yfir 250 sinn-
um síðan, víðsvegar um heiminn.
Sýningin sem tekur um tvær klukku-
stundir spannar 24 ára dansferil
Cortés. Hann lærði og dansaði klass-
ískan ballett um árabil en grunnurinn
í verkum hans er flamenco-dans. Í
flamenco eru dýpstu tillfinningar
tjáðar með heillandi samspili hreyf-
inga og ritma. Tækni dansins byggist
á fótahreyfingum, einkum ritmanum
sem myndast þegar táberg og hæll
smella í gólfið. Cortés hefur útvíkkað
hefðbundið form flamenco-dansins
með því að bæta við sjálfssprotnum
hreyfingum. Sýningin hófst á því að
Cortés, baðaður þröngri lýsingu
teygði sig varlega eftir hatti og tyllti
á sig. Sígaunatónlist hljómsveitarinn-
ar á sviðinu ómaði undir hefðbundn-
um flamenco-dansi hans. Því er
skemmst frá að segja að Cortés og
flokkur hans náðu strax upp feiki-
góðri stemningu í þéttsetinni Laug-
ardalshöllinni. Hælar dansarans
glumdu á sviðinu og þegar mest gekk
á minntu hljóðin á skot úr hríðskota-
byssu. Cortés brá sér í líki nauts og
nautabana í þróttmiklum og tjáning-
arfullum dansi. Hann settist hjá
hljómsveitinni og trommaði undir
ljúfum söng um ástina. Spunninn var
af fingrum fram dans við lófaklapp og
söng. Eftirminnilegur var einleikur á
gítar og einleikur á þverflautu. And-
rúmsloftið var þrátt fyrir hamagang-
inn afslappað og eðlilegt og partí-
stemning ríkti í höllinni. Cortés er
með eindæmum glæsilegur sviðs-
dansari. Hann hefur tækni flamenco-
dansins í sér og óumdeilanlegan
sviðssjarma til að koma dansinum frá
sér. Sýningin var frábært samspil
tónlistar, söngs og dans. Á sýning-
unni enduðu danssenur Cortés gjarn-
an með tilþrifum þar sem hann var
baðaður ljósum. Áhorfendur nýttu
sér öll tækifærin og létu hrifningu
sína óspart uppi. Þetta ýtti enn frek-
ar undir rífandi stemninguna. Vissu-
lega takmarkaðist upplifunin af sýn-
ingunni af fjarlægðinni frá sviðinu.
Ritari hefði kosið að sjá sýningu af
þessum toga í einhverju leikhúsi
borgarinnar. Þar sem nálægðin er
meiri og hægt er að greina tjáning-
arfullt andlit listamannsins á sviðinu.
Áhorfendur fögnuðu ákaft með
klappi og stappi í lok sýningar svo
óhætt er að segja að Joaquín Cortés
og félagar hafi náð að trylla gesti
Laugardalshallarinnar. Forfeður
Cortés, sígaunar, hafa svo lengi sem
menn muna haft djúpa þörf fyrir að
halda sínum sérkennum og láta regl-
ur umheimsins lítið á sig fá. Cortés
sór sig í ætt forfeðranna og lét form-
festu flamenco-dansins lönd og leið
þegar honum hentaði, sýningunni til
yndisauka. Að því leyti er hann verð-
ugur og eftirminnilegur sendiherra
forfeðra sinna.
Trylltur tangó
tónlistar og dans
Morgunblaðið/Jim Smart
„Cortés sór sig í ætt forfeðranna og lét formfestu flamenco-dansins lönd og
leið þegar honum hentaði, sýningunni til yndisauka,“ segir í umsögninni.
LISTDANS
Laugardalshöll
Flamenco-dansarinn Joaquín Cortés
ásamt 15 manna sveit hljómlistarmanna
og söngvara. Fimmtudaginn 29. apríl
2004.
JOAQUÍN CORTÉS FLAMENCO COMPANY
Lilja Ívarsdóttir
Á TÓNLEIKUM Sinfóníuhljóm-
sveitar Íslands í Háskólabíói á
fimmtudagskvöldið var níunda sin-
fónía Beethovens á dagskránni, en
það telst ávallt stórviðburður. Skildi
engan undra, sinfónían er eitt mesta
snilldarverk mannsandans og lætur
engan ósnortinn þegar hún er leikin
og sungin eins og vera ber.
Á efnisskránni var einnig Meta-
morphosen (Ummyndanir) fyrir 23
einleiksstrengi eftir Richard Strauss
og var það fyrra atriði tónleikanna.
Þetta er seiðmögnuð tónlist, greini-
lega krefjandi tæknilega séð því hún
var ekki nægilega vel spiluð. Sérstak-
lega áberandi var ósamstæður leikur
sellóanna í aftari röð, en hann jaðraði
við að vera falskur þegar verst lét.
Auk þess var ekki allt með feldu hjá
víólunum og sumar fiðlurnar hljóm-
uðu fálmkenndar í byrjun. Sem betur
fer lagaðist þetta þegar á leið; undir
það síðasta var flutningurinn orðinn
miklu skárri og niðurlag verksins var
fallega leikið.
Tæknilega hliðin á níundu sinfóníu
Beethovens var betri. Fyrsti kaflinn
var agaður og nákvæmur, styrkleika-
jafnvægi á milli ólíkra hljóðfærahópa
var prýðilegt; sömu sögu að segja um
hæga þáttinn, þar sem innhverfar
sönglínur hljómsveitarinnar voru
ákaflega fallega útfærðar.
Annar þátturinn var reyndar ekki
alveg eins góður; styrkleikabrigði
voru heldur fátækleg sem varð þess
valdandi að tónlistina skorti þá
dramatísku spennu sem einkennir
Beethoven. Lokaþátturinn olli sömu-
leiðis vonbrigðum, stundum var hann
svo hraður að það var á mörkunum að
hljómsveitin réði almennilega við
hann og var útkoman fremur yfir-
borðsleg, þó að margt væri vissulega
glæsilega gert.
Í lokaþættinum stóð kórinn upp og
var það Óperukórinn í Reykjavík.
Söng hann almennt ágætlega, þrátt
fyrir að sópranarnir hafi verið heldur
skerandi hér og þar. Tenórarnir virt-
ust líka eiga erfitt á efstu tónunum, en
í það heila var söngur kórsins magn-
aður og greinilegt að stjórnandi kórs-
ins, Garðar Cortes, hefur unnið gott
starf. Einsöngvararnir, þau Elín Ósk
Óskarsdóttir, Alina Dubik, Kolbeinn
Ketilsson og Kristinn Sigmundsson,
voru öll í toppformi og lítið út á þau að
setja. Einsöngur Kolbeins var samt
ekki sá yfirgengilegi hápunktur sem
maður bjóst við, hann var of snubb-
óttur og var ástæðan ýkt hraðaval
stjórnandans, Rumon Gamba.
Gamba er hæfileikaríkur stjórn-
andi sem oft hefur staðið fyrir áhrifa-
miklum tónleikum, en í lokakaflanum
á sinfóníu Beethovens fór hann yfir
strikið og var afleiðingin sú að tónlist-
ina skorti markvissa stígandi og
nauðsynlega dýpt.
Engu að síður var þessi flutningur
betur heppnaður en þegar Rico Sacc-
ani stjórnaði sama verki fyrir nokkr-
um árum. Þar var sýndarmennskan
svo yfirgengileg að manni varð hálf-
ómótt. Gamba virtist a.m.k. einlægur
í túlkun sinni þó að hún hafi ekki alltaf
verið sannfærandi; vonandi á hann
eftir að vaxa sem listamaður.
Eitt mesta snilldar-
verk mannsandans
TÓNLIST
Háskólabíó
Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti Meta-
morphosen eftir R. Strauss og níundu
sinfóníu Beethovens. Einsöngvarar voru
Elín Ósk Óskarsdóttir, Alina Dubik, Kol-
beinn Ketilsson og Kristinn Sigmunds-
son. Einnig söng Óperukórinn í Reykja-
vík. Stjórnandi var Rumon Gamba.
Fimmtudagur 29. apríl 2004.
SINFÓNÍUTÓNLEIKAR
Jónas Sen
Einn af helstu frumkvöðlunumí íslenskri samtímalist,Kristján Guðmundsson,
opnar sýningu í Galleríi Skugga í
dag. Að þessu sinni leitar Kristján
fanga í eldra verki úr smiðju sinni,
ljóðabókinni Punktar/Periods sem
gefin var út árið 1972. Þrjú málverk,
sem sýna stækkaða punkta úr ljóð-
um Halldórs Laxness, nefnast ein-
faldlega Punktar I-III og eru unnin
með bleki og lakki á striga. Mál-
verkin kallar Kristján ættfræði-
málverk, þar sem bókin er mamman
og Halldór Laxness er afinn:
„Þetta eru ekki sagnamálverk.
Þetta eru ættfræðimálverk. Ekki
orðsifjafræði og ekki heldur tákn-
fræði. Merkingarleysið er of mikið
til að svo geti verið. Málverkin eru
merkileg rannsókn á merking-
arleysi. Þau eru önnur kynslóð af
merkingarleysi. Ný kynslóð af þögn
hefur náð að rífa sig lausa og mynd-
að kynslóðabil í þögn – ættstórt og
merkingarlaust kynslóðabil. Ef bók-
in er mamma málverkanna, þá er
Halldór Laxness afi þeirra – ætt-
fræðilega séð. – Eða er þetta þögul
stökkbreyting – eða kannski bara
einhverskonar DNA rannsókn á
ljóði? Ég spyr sjálfan mig “ segir
hann í sýningarskrá.
Kristján hefur áður sagt að hann
hafi valið Laxness í ljóðabókina
„vegna þess að hann var örugglega
nógu sterkur, bæði til að næra og
líka til að þola svona sníkjugróður.“
Blaðamaður Morgunblaðsins innir
Kristján eftir því hvort Laxness hafi
sérstaka þýðingu fyrir hann. „Ja,
Laxness hefur sömu þýðingu fyrir
mig og fyrir alla aðra Íslendinga.
Hann er eitt af okkar albestu skáld-
um, fyrr og síðar, og þekktur maður
náttúrulega útum allar jarðir.“
Í bókinni og málverkunum á sýn-
ingunni notast Kristján með beinum
hætti við skáldverk Halldórs Lax-
ness. Hann segir sýninguna þó ekki
sérstakt innlegg í umræðuna und-
anfarið um ritstuld á verkum skálds-
ins. „Þetta var nú allt ákveðið af
minni hálfu áður en þau mál komu
upp – bókin er meira en þrjátíu ára
gömul og málverkin voru gerð í
fyrra, áður en þessi skrif byrjuðu.
En ókei, það er kannski ekkert
skrýtið þótt fólki komi það mál í
hug.“
Á sínum tíma þegar Punktar/
Periods komu út, sendi Kristján
Halldóri Laxness áritað eintak.
„Eintak nr. 2 minnir mig. Ég man
ekki hvort ég fékk viðbrögð frá hon-
um persónulega, en mér fannst kurt-
eist að senda honum eintak.“
Þetta er fyrsta einkasýningin sem
Kristján heldur síðan árið 2001, þeg-
ar haldin var yfirlitssýning á verkum
hans á Kjarvalsstöðum. Á þessu ári
verður hins vegar margt um að vera,
því hann fyrirhugar tvær aðrar
einkasýningar, í júní í safninu í
Hveragerði, og í nóvember í i8. „Það
hittist bara svona á, og ég sló til,“
segir Kristján að síðustu.
Sýning Kristjáns verður opin til
23. maí, en tímasetningin á sýning-
unni var valin með hliðsjón af
Listahátíð í Reykjavík. Opnunartími
Gallerís Skugga er frá kl. 13–17,
fimmtudaga til sunnudaga.
Ný kynslóð
af þögn
Morgunblaðið/Ásdís
Punktar úr ljóðum Halldórs Laxness eru kveikjan að verkunum á sýningu Kristjáns Guðmundssonar.
KARLAKÓR Reykjavíkur heldur 78.
vortónleika sína á næstu dögum. Að
þessu sinni syngur kórinn sjö tón-
leika, þá fyrstu í dag, laugardag, og
þá síðustu laugardaginn 8. maí í söng-
húsi kórsins í Ými, við Skógarhlíð.
Þeir fyrstu verða kl. 16 í dag. Tvennir
tónleikar verða á morgun, sunnudag,
í Ými kl. 16 og 20. Kórinn syngur síð-
an á þriðjudag, miðvikudag og
fimmtudag kl. 20. Lokatónleikarnir
verða svo laugardaginn 8. maí kl. 15.
Signý Sæmundsdóttir syngur ein-
söng með kórnum og Anna Guðný
Guðmundsdóttir leikur á flygilinn. Þá
mun þrír félagar úr röðum kórfélaga
syngja einsöng.
Stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur
til síðustu 15 ára er Friðrik S. Krist-
insson.
Karlakór Reykjavíkur
syngur alla vikuna