Morgunblaðið - 01.05.2004, Side 48
MINNINGAR
48 LAUGARDAGUR 1. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Dagný Guð-mundsdóttir
fæddist í Krókseli í
Skagahreppi í A-
Hún. 24. júlí 1907.
Hún lést á Heil-
brigðisstofnun
Blönduóss 22. apríl
síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
María Eiríksdóttir,
f. 7. desember 1872,
d. 19. september
1931, og Guðmund-
ur Kristjánsson, f.
10. október 1872, d.
19. febrúar 1942.
Systkini Dagnýjar eru: 1) Krist-
ján, f. 1896, d. 1979. 2) Eiríkur
Guðmundur, f. 1897, d. 1998. 3)
Ásta Guðrún, f. 1898, d. 1975. 4)
Líney, f. 1901, d. 1997. 5) Bjarni
Theódór, f. 1903, d. 1993. 6) Sig-
rún, f. 1905, d. 1984. 7) Guð-
mundína Margrét, f. 1909, d.
1971. 8) Fanney, f. 1910, d. 1980.
Hinn 25. október 1942 giftist
Dagný Jóhannesi Björnssyni, f.
22. janúar 1896, d. 14. júní 1977.
Foreldrar hans voru María
Gísladóttir og Björn Magnússon.
Synir Dagnýjar og Jóhannesar
eru: 1) Páll Valdimar, f. 4. júní
1934. 2) Sigmar, f.
20. mars 1936, d.
20. apríl 2000,
kvæntur Sigur-
björgu Angantýs-
dóttur, f. 3. febrúar
1940, d. 10. septem-
ber 1997. 3) Krist-
inn Vilberg, f. 24.
júlí 1941, d. 6. nóv-
ember 2002, kvænt-
ur Agnesi Sæ-
mundsdóttur, f. 5.
desember 1938. 4)
Óskar Jens, f. 31.
júlí 1950, kvæntur
Guðbjörgu Péturs-
dóttur, f. 29. júní 1953. Barna-
börn Dagnýjar eru átta, og
barnabarnabörnin 16.
Dagný og Jóhannes hófu bú-
skap sinn á Kaldrana í Skaga-
hreppi í A-Hún. Þau bjuggu á
nokkrum stöðum í Skagahreppi,
en árið 1955 fluttu þau til
Skagastrandar. Síðustu árin
dvaldi Dagný á Heilbrigðisstofn-
un Blönduóss.
Útför Dagnýjar verður gerð
frá Hólaneskirkju á Skaga-
strönd í dag, laugardaginn 1.
maí, og hefst athöfnin klukkan
13.
Elsku amma mín, nú ert þú
komin í faðm allra þeirra sem þú
saknaðir svo mikið og varst farin
að þrá að hitta, því að síðustu árin
voru farin að vera þér svo erfið, en
við hin sitjum hér og erum farin að
sakna þín nú þegar. Við megum
ekki vera svona sjálfselsk, því að
við vitum vel að þinn tími var
löngu kominn. Ég er alveg viss um
að þú varst ekki búin að vera lengi
þarna hinum megin, þegar þú hef-
ur verið byrjuð að hræra í lummur
handa afa, Sigmari, Simbu og
pabba og þau með bros á vör af til-
hlökkun að bragða á lummunum
þínum góðu, elsku amma mín. Ég
var ekki há í loftinu þegar ég gerði
mér grein fyrir því hversu gott
það væri að koma í Norðurlandið
til ömmu, því ég man eftir því að
mamma og pabbi höfðu bannað
mér eitthvað og ég var ekki sátt
við þá niðurstöðu, svo að ég rauk
inn í herbergið mitt og pakkaði
niður fötum og dóti í litla tösku
sem ég átti, kom svo aftur inn í
eldhús til mömmu og pabba og
sagði: „Það skiptir engu máli hvað
þið eruð vond við mig, ég er hvort
sem er á leið til Skagastrandar til
hennar ömmu.“ Oft er búið að
hlæja að þessari norðurferð sem
ég ætlaði mér að fara í. Ég hef
alltaf verið mjög stolt af því að
hafa þig sem ömmu, má þar t.d.
nefna flétturnar þínar, það var nú
ósjaldan sem ég montaði mig af
því við vinkonur mínar að ég ætti
sko alvöru ömmu sem væri með
rosalega sítt hár, hún fléttar í sig
tvær fléttur og bindur hárið svo
saman með afgangshárinu úr sér
sem varð eftir í greiðunni, vefur
þær svo upp á höfuðið og þá er al-
veg eins og hún sé með fléttu kór-
ónu. Þetta fundust mér miklir
töfrar, og var viss um að þetta
gæti engin önnur amma gert. Þeg-
ar hugur minn snýst að hári þínu
amma mín get ég vel séð þig fyrir
mér í eldhúsinu á Sunnuvegi 3 að
rugga þér fram og aftur á stólnum
að flétta fallega hárið þitt. Svo var
maður kannski að fara út til að
leika sér, þá var kallað úr eldhús-
inu: „Ó, varaðu þig í tröppunum,
vina mín.“ Svo leið dagurinn og
maður kom hlaupandi upp tröpp-
urnar og inn í eldhús til þín og
spurði: „Amma, hvað ætlar þú að
hafa í matinn?“ og þú svaraðir
kannski: „Nú bara pylsur og
bjúgu.“ Umm, þá ætla ég að borða
hjá þér því að Simba er með eitt-
hvað í matinn sem ég veit ekki
hvað er. Það var nú ósjaldan sem
ég notfærði mér þetta að velja
hvorum megin ég ætlaði að borða,
því að hús Sigmars og Simbu var
manni jafnopið og þitt.
Ég gleymi því aldrei þegar þú
bauðst mér að sofa í herberginu
þínu í gamla hjónarúminu. Þér
hefur örugglega eins og öllum hin-
um þótt óþarfi að ég svæfi á milli
mömmu og pabba eins og ég gerði
svo oft. Þetta var alveg yndisleg
nótt, því það var engin dýna í rúm-
inu heldur voru dúnsængur not-
aðar sem dýnur. Þegar ég lagðist
niður fannst mér eins og ég myndi
sökkva endalaust niður í rúmið svo
beiddir þú sæng yfir mig og mér
leið eins og ég væri vakúmpökkuð
í dún. Eftir þessa nótt fengu
mamma og pabbi ótrúlega margar
nætur frí frá litlu dekurrófunni
sinni, þ.e.a.s. bara þegar ég var
fyrir norðan hjá þér. Hlutirnir
breyttust frekar mikið þegar þú
lærbrotnaðir því þú komst aldrei
heim aftur af spítalanum. En hann
Palli tók við að hugsa um heimilið
þitt og hefur honum tekist það
mjög vel. Við erum alltaf jafn-
velkomin og áður. Svo höfum við
alltaf reynt að koma á sumrin eins
og oft og við getum, verið á
Sunnuvegi 3 hjá Palla, en keyrt
svo reglulega á Blönduós í heim-
sókn til þín. Það var alveg frábært
eitt sumarið þegar ég var að segja
þér frá því að ég væri komin með
kærasta. Þú leist á Kidda minn og
spurðir: „Hvað sagðist þú heita,
drengur minn?“ og hann svaraði:
„Kristinn Sörensen“, svo horfðir
þú á mig og sagðir: „Svo þú ert þá
frú Sörensen.“ Ég fussaði og
sveiaði, þá tísti í þér. Síðan þá
kallaðir þú mig alltaf frú Sörensen
en þú hafðir mjög gaman af því að
stríða mér á þessu eins og þau hin.
En sárast finnst mér að hafa ekki
verið búin að segja þér að við
Kiddi ætlum að gifta okkur í sum-
ar á afmælisdaginn ykkar pabba.
Ég veit samt vel að þið pabbi eigið
eftir að standa við hlið mér þennan
dag. Ég ætla nú samt að halda
áfram að vera með mitt rétta eft-
irnafn. Þú ein mátt kalla mig frú
Sörensen. Ég kveð þig með tár í
augum og bið þig að faðma hann
pabba fyrir mig.
Guð geymi þig, elsku amma mín.
Þín
Guðrún María.
Í dag kveð ég mína ástkæru
ömmu.
Ömmu sem skipaði stóran sess í
mínu lífi og var mér svo kær og
svo mikil vinkona. Fyrstu 13 æviár
mín bjó ég í kjallaranum hjá
ömmu og afa og í minningunni eru
það yndislegir tímar. Hjá þeim átti
ég góðar stundir og var ekki há í
loftinu þegar ég í, orðsins fyllstu
merkingu, fór að hringsnúast
syngjandi í kringum hana ömmu í
eldhúsinu og þar bókstaflega hélt
ég til mín uppvaxtarár. Í eldhúsinu
hjá þeim var líka svo gaman, alltaf
tími til að spjalla, segja sögur,
leggja kapal og ekki síst að baka
heimsins bestu lummur. Það þótti
fleirum en mér gott að koma í eld-
húsið til þeirra og var þar mikill
gestagangur og vel tekið á móti
öllum sem þangað komu. Þar var
skrafað um bæjarlífið, þjóðmálin
rædd og oft kom fyrir að amma
gerði við föt og stoppaði í sokka
fyrir gesti sína meðan þeir drukku
kaffisopann sinn.
Amma sagði oft sögur úr sveit-
inni þegar hún var ung og eins
baslinu hjá þeim afa, alltaf að
flytja og setjast að á nýjum stað,
byrja upp á nýtt. En þegar hún
minntist á æskustöðvarnar ,
Hvammkot, þá kom alltaf glampi í
augun hennar og bros á vanga og
svo talaði hún með dreyminni
röddu um það þegar hún var
heima í Hvammkoti og lagði
áherslu á heima, því Hvammkot
kallaði hún alltaf heima. Hvergi í
minni minningu man ég eftir
skammaryrðum frá ömmu, fyrir
utan eitt skipti að þolinmæði henn-
ar gagnvart mér þraut gjörsam-
lega. Var ég um tíu ára aldur og
hafði bitið það í mig að ég ætlaði
og gæti bakað pönnukökur. Ekki
tókst nú baksturinn sem skyldi og
þá var best að kalla á ömmu sér til
hjálpar og ekki stóð nú á því.
Ömmu leist alls ekki á mínar að-
farir við pönnukökubaksturinn og
því síður var hún sátt við að sjá
allan þann haug af brenndum, rifn-
um og hálfbökuðum pönsum úti
um allt, þvílík sóun á mat. Gerði
hún ítrekaða tilraun til að kenna
mér handtökin dágóða stund, gafst
svo hreinlega upp, skammaði mig
fyrir uppátækið og kláraði verkið.
Og enn þann dag í dag er ég frek-
ar lélegur pönnukökubakari.
Fyrir átta árum datt hún amma
og lærbrotnaði. Hún dvaldist á
Héraðssjúkrahúsinu á Blönduósi
eftir það. En þótt amma væri orð-
in háöldruð, svo til blind og kæm-
ist ekkert án aðstoðar fylgdist hún
vel með og hafði áhuga á að vita
allt um hvað fólkið hennar væri að
sýsla.
Fréttir af ströndinni og sveitinni
voru henni kærar og bað hún alltaf
fyrir góðar kveðjur til allra sem
hún þekkti þegar komið var í
heimsókn.
Amma var mjög trúuð kona og
gaf trúin henni mikinn styrk og
ekki síst í sorg sinni þegar synir
hennar Sigmar og Villi dóu. Hún
var samt síður en svo sátt við guð
sinn og sagðist ekki geta skilið
hvað almættið væri að hugsa með
því að taka frá sér drengina sína
en skilja sig eftir, en trúlega væri
tilgangurinn einhver þótt hann
væri okkur með öllu óskiljanlegur.
En nú ertu kominn til drengjanna
þinna og afa og ég veit að þeir
hafa tekið vel á móti þér.
Elsku amma, það hefur verið
mér ómetanlegt veganesti í gegn-
um lífið að hafa átt svo góða og
yndislega manneskju að eins og
þig. Hafðu þökk fyrir allt, elsku
amma.
Þín nafna
Dagný Marín Sigmarsdóttir.
Nú strýk ég aldrei aftur yfir þitt
silkimjúka handarbak, held ekki
oftar um þínar hlýju og vinnulúnu
hendur, elsku amma mín, því nú er
loksins búið að kalla þig burt á
æðri og betri stað þar sem þján-
ingar eru ekki til, ég veit að þau
afi, Simba, Sigmar og pabbi taka
öll á móti þér með útbreidda
faðma, sem betur fer er þessu
þannig farið að þó þið séuð öll
horfin á braut þá eigum við sem
eftir sitjum minningarnar um ykk-
ur og þær getur enginn burtu tek-
ið.
Það er auðvelt að láta hugann
reika aftur til æskuárana þegar
við systkinin fórum að spyrja
mömmu og pabba um miðjan vetur
hvenær farið yrði norður þó við
vissum að það yrði ekki fyrr en
upp úr miðjum maí í fyrsta lagi,
svona var tilhlökkunin mikil sumar
eftir sumar, ár eftir ár, því á
Skagaströnd beið okkar mikill æv-
intýraheimur hjá yndislegri ömmu
og dásamlegum lummum sem eng-
inn kunni betur að gera en þú
amma mín. Þegar kom svo að
heimferð voru kveðjustundirnar
oft ansi erfiðar, tárin byrjuðu að
streyma þegar gengið var niður
tröppurnar og búið var að taka við
góðgætinu sem vera átti í nesti.
Svo stóðst þú á tröppunum og veif-
aðir og við misstum ekki sjónar á
þér fyrr en bíllinn hvarf á bak við
félagsheimilið, svo var grátið af
miklum söknuði langleiðina inn á
Blönduós og oft var þess óskað að
styttra væri á milli Grindavíkur og
Skagastrandar. Ég vissi ekki þá að
ég ætti sjálf eftir að eignast fjóra
drengi eins og þú amma mín sem
allir voru svo heppnir að fá að
kynnast þér og muna eftir þér.
Þegar ég svo sagði litla drengnum
mínum honum Elvari Þór að nú
væri langamma dáin, hugsaði hann
sig aðeins um og sagði: „Já, Villi
náði í hana og keyrði henni til
englanna bak við skýin,“ benti svo
upp í himininn og sagði: „Sjáðu,
mamma, þau eru að faðmast
langamma og Villi afi, sérðu ekki,
ha?“ Svona ætla ég líka að sjá
ykkur fyrir mér því ég veit að þú
hefur fengið góðar móttökur þegar
þú loks náðir á þinn langþráða
áfangastað.
Elsku amma mín, viltu gefa
pabba koss á kinnina fyrir mig.
Þín vina
Bjarnlaug Dagný.
Langamma, þú varst alveg ein-
stök kona, svo trúuð og góð.
Þú sagðir mér oft sögur frá því
þú varst ung í sveitinni og gafst
mér kóngabrjóstsykur úr skúff-
unni þinni á meðan. Það sem
stendur mér ofarlega í huga er
leikfangakistan í eldhúsinu þínu
sem þú leyfðir okkur krökkunum
alltaf að róta í hér áður. Ég man
bara hvað það var alltaf gaman að
koma í heimsókn.
Stundum, þegar sumarið hafði
verið gott, komu jarðarber upp á
örlitlum stað í garðinum þínum.
Við stálumst stundum til að narta í
þau en þér fannst það allt í lagi,
því einhver hefði jú nartað í þau á
endanum. Þú varst svo yndisleg
við alla, svo hjartahlý og góð að ég
trúi því vart að ég hafi verið svo
lánsöm að fá að kynnast þér.
Þú átt hug minn og hjarta,
blessuð sé minning þín, langamma
mín.
Þín
Sonja Hjördís.
DAGNÝ
GUÐMUNDSDÓTTIR
✝ Ólína Rut Magn-úsdóttir fæddist á
Ísafirði hinn 2. ágúst
1936. Hún lést á
Landspítalanum 8.
apríl síðastliðinn eft-
ir langvinn og erfið
veikindi. Foreldrar
hennar voru þau
Magnús Ásgeirsson
frá Eiði í Hestfirði í
N-Ís. og Margrét Re-
bekka Híramsdóttir
frá Búðum í Sléttu-
hreppi í N-Ís. Al-
systkini Ólínu eru
Sigríður Kristín
Magnúsdóttir, f. 1931, og Helgi
Gunnar Birgir Magnússon, f.
1934, og systir sammæðra Anna
María Helgadóttir, f. 1927.
Ólína giftist 1962 Gunnari Berg
Ólafssyni, f. 2. febr. 1938, frá Nes-
kaupstað. Þau eignuðust saman
fjögur börn en fyrir átti Ólína
dóttur, Margréti Erlingsdóttur, f.
1954, maki Oddur
Ólafsson, börn
þeirra Sandra, f.
1984, og Róbert f.
1987. Börn Ólínu og
Gunnars eru: 1)
Linda Bryndís, f.
1956, maki Hilmar
Elíasson, dóttir
þeirra Bergrós Elín,
f. 1988. 2) Ólafur
Viðar, f. 1962, maki
Jónína Skarphéðins-
dóttir, dóttir þeirra
Dagný Silva, f. 1994.
3) Magnús, f. 1967,
maki Margrét Eyj-
ólfsdóttir, dóttir þeirra María, f.
1992. 4) Kristinn, f. 1978.
Ólína og Gunnar hófu búskap
sinn í Neskaupstað, fluttu síðar á
Flateyri og 1969 fluttu þau til
Grindavíkur og hafa búið þar síð-
an.
Útför Ólínu fór fram í kyrrþey
að hennar ósk.
Mig langar til að kveðja hana
Ólínu Rut tengdamóður mína í örfá-
um línum.
Ég kynntist henni fyrir 14 árum,
þegar ég kom inn í fjölskylduna,og
tók hún mér strax af hlýhug eins og
sinni eigin dóttur. Gaman þótti
henni að sitja og spjalla um daginn
og veginn og varla var maður kom-
inn inn úr dyrunum, þegar hún var
byrjuð að bjóða fram einhverjar
veitingar, því alltaf vildi hún vera
að gera eitthvað fyrir aðra. Hún var
bjartsýn og létt í lund og gat oft
hlegið dátt og hlátur hennar smitaði
alla í kringum hana. Fátt þótti
henni skemmtilegra en að skreppa í
bíltúr og ljómaði hún öll þegar ég
bauð henni með mér rúnt í Keflavík
eða Reykjavík.
Það þurfti yfirleitt ekki mikið til
að gleðja hana. Alltaf var hún svo
þakklát fyrir það sem gert var fyrir
hana.
Ólína barðist við erfið veikindi í
13 ár, veikindi sem sýndu henni oft
enga miskunn, en hún barðist af
þvílíkri hetjudáð og hugrekki að
það var aðdáunarvert. Og þótt hún
væri fárveik sjálf fann hún mikið til
með öðrum sem áttu erfitt og
reyndi oft að gera lítið úr sínum
veikindum. Hún var sterkur per-
sónuleiki sem margt var hægt að
læra af. Og er ég mjög lánsöm og
þakklát fyrir að hafa fengið að
kynnast henni.
Nú er þjáningum hennar lokið og
friður komin yfir hana. Guð geymi
þig, Ólína Rut, og hafðu þökk fyrir
allt og allt..
Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlaustu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.
Fyrst sigur sá er fenginn,
fyrst sorgar þraut er gengin,
hvað getur grætt oss þá?
Oss þykir þungt að skilja,
en það er Guðs að vilja,
og gott er allt, sem Guði er frá.
(V. Briem.)
Margrét.
Hún amma mín er dáin, það er
svo skrýtið að fá ekki að sjá hana
og heyra hana hlæja aftur.
Amma var búin að vera veik í
mörg ár og oft fann hún mikið til en
samt gat hún verið góð við aðra, og
alltaf var hún svo góð við mig og
kallaði mig alltaf elskuna sína og
ljósgeislann sinn.
Nú er amma komin til guðs og
þarf ekki að finna oftar til, það er
léttir. Ég kveð þig, elsku amma
mín, þú varst svo góð kona og ég
mun aldrei gleyma þér.
Legg ég nú bæði líf of önd,
ljúfi Jesú, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgr. Pét.)
Þín
María.
ÓLÍNA RUT
MAGNÚSDÓTTIR