Lesbók Morgunblaðsins - 04.01.2003, Síða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 04.01.2003, Síða 11
vissulega áhugaverðar og vel þegnar. Þær eru að vísu fjarri því að vera þær fyrstu sem gerðar eru með sameiningu hljóðs og mynd- ar, en það er hughreystandi að vita til þess að ungt fólk eins og hann er virkt í því að þróa samband tónlistar og skjálista í lifandi flutningi og spennandi að sjá hvert það leiðir. Það er einfaldlega ekki nógu áhugavert lengur að nota myndbönd aðeins sem skreytingu á tónleikum eða öfugt. Nú er ráð að skoða hvert við getum þróað þann krafmikla vettvang sem tónleikar geta verið og virkja inn á hann þá tækni sem listamenn hafa verið að leika sér að síðustu þrjátíu ár- in. Okkur langar kannski til að mynda heild- stæð verk þar sem hljóð og mynd verða að einum sterkum miðli. Það er hægt. Okkur gæti dottið í hug að hreyfingar eða líkams- hiti áhorfenda í tónleikasalnum stjórnaði tónlistinni að einhverju leyti. Það er líka hægt. En það er ekki víst að slík tækni sé á hvers manns færi, þótt mér finnist reyndar að hún ætti að vera það miðað við hvað hún hefur í raun þekkst lengi. En þangað til verður kjöltutölvarinn að vera úrræðagóður og það gæti knúið hann til að hverfa aftur til upprunans og skoða hvað hægt er að gera með ofureinföldum brögðum. Á tónleikum hljómsveitarinnar Power- books for Peace á hátíðinni kom hins vegar í ljós að til er er alþjóðleg erkitýpa yfir öm- urlegt myndefni á tónleikum. Eftir að hafa gónt vantrúuð á skelfilega ósmekkleg, svim- andi litskrúðug sýrumynstur hringa sig eftir tjaldinu á bak við sveitina, gat ég ekki annað en efast um ásetning hennar, enda fram- sækin tónlist þeirra í engu samhengi við myndefnið. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að sýran var ósmekkleg af ásetningi og reyndar erkitýpa þess sem sveitarmeðlimum þótti verstu myndrænu klisjur sem notaðar eru við raftónlistarflutning. Sjarmi meinlausra slysa Um sjónrænt skemmtanagildi raftóneika hafði Kim Cascone þetta til málanna að leggja: „Áhorfendur geta bara lagt aftur augun ef þeim líkar ekki það sem þeir sjá, tónlistin verður að geta staðið ein og sér, án myndrænna áhrifa.“ Einhver úr salnum svaraði kurteislega því að slíkt viðmót væri ekkert annað en hrokafull leti og óvirðing við áhorfandann og sennilega er nokkuð til í sjónarmiðum beggja. Vissulega ætti ekki að nota myndmiðla til þess eins að bæta upp fyrir óspennandi tónlistarflutning. Slíkar til- raunir eru oftast óþægilega gegnsæjar auk þess sem tónlist getur oft spjarað sig fullvel án nokkurra mynda utan þeirra sem í hug- anum birtast við hlustun og mikil gæfa þeg- ar slíkt gengur upp. En þegar svo er hefur eitthvað annað komið í staðinn sem kannski sést ekki en áheyrendur finna fyrir. Hér getur auðvitað margt spilað inn í, persónu- leiki tónlistarmannsins, hversu vænt honum þykir um tónlistina sem hann er að flytja eða þá sem hlusta og svo framvegis. Um- fram allt, eru allir fljótir að finna fyrir því þegar tónlistarmanninum er alveg sama. Hann opnar tölvuna þegjandi, leikur sinn sprett og hverfur svo á braut án þess svo mikið sem að skotra augunum út yfir brúnina á skjánum. Kannski heilsa okkur misgóð myndbandsverk áður en dularfulla veran að baki skjásins hefur leik sinn, kannski ekki. Þetta gengur á í um það bil tvær til þrjár klukkustundir, aðrar verur stinga upp kollinum á bak við næstu tölvu- skjái og þannig koll af kolli þar til ljósin rísa og það er kominn tími fyrir okkur að fara heim að sofa. Ég held að á einhverjum tímapunkti hafi svolítið orðið útundan í þessu fyrirkomulagi, sem orðið er gríðarlega víðséð hvar sem er í tónlistarheiminum og það er sambandið milli tónlistarmannsins og áheyrandans sem ann- ars hefur möguleika á því að vera gríðarlega dýnamískur, kraftmikill þáttur í tónleikum. Að mörgu leyti finnst mér ególeysið í svona tónleikum mjög jákvætt og sterkt, en að sama skapi velti ég því fyrir mér hvort ekki megi mýkja örlítið fullkomleika vélanna sem fólk hefur þarna um hendur og notar til þess að miðla hugmyndum sínum. Sjarminn sem stafar af litlu fölsku nótunni sem slysast með í eitt lagið, fallegu meinlausu slysin sem verða þegar fólk þorir að taka áhættur með lifandi flutning hljóða og mynda – Eru þau kannski vanrækt? Felst ekki einhver örlítil fegurð í möguleikanum á því að geta runnið á rassinn fyrir allra aug- liti á hverri stundu, að hvenær sem er geti eitthvað nýtt og ófyrirséð gerst í flutn- ingnum sem aðeins gæfan ein fær um ráðið og þeir sem þá eru staddir í herberginu verða vitni að einhverju einstöku. Eru það ekki mistökin sem gera okkur öll að mann- eskjum hvort sem er? Mesta sjálfselska tón- listarmannsins felst ef til vill einmitt í því að mæta með allt sitt fullkomlega undirbúið og óhagganlegt til leiks og gefa ekkert svigrúm fyrir áhættu. Cascone gaf ekki mikið fyrir mannlegan sveigjanleika í tónlistarflutningi þegar hann sagði: „Tónlistin er ekki lengur skilaboðin, heldur forritið“ og sneri þannig út úr orðum Marshall MacLuhans, „miðillinn er skila- boðin“. Með þessu átti hann meðal annars við þann ört vaxandi hóp kjöltutölvutónlist- armanna sem hanna eigin forrit til þess að rokka með jafnt í tónsmíðum sem flutningi, ýmist með Max/MSP, Kyma eða öðrum „for- ritanlegum forritum.“ Kim hélt því fram að útreiknanleg raftónlist væri hættuleg, sér- staklega þegar auðheyrt væri hvaða forrit væru notuð. En eftir því sem raftónlist- arfólk verður uppátækjasamara í því að smíða sín eigin „tölvuhljóðfæri“, verður þetta þó æ minna vandamál (ef vandamál skal kallast), tónlistin verður persónulegri og tónsmíðatækin ættu ekki að byrgja hlust- andanum sýn á raunverulegt inntak sjálfrar tónlistarinnar. Einhvern tíma hefði mönnum annars ekki þótt tiltakanlega óþægilegt að geta greint það á hljómi rafmagnsgítars ein- hvers, hvort hann væri af gerðinni Telecast- er eða Stratocaster. Vísindalistir Á sama tíma og raftónlistarfólk er farið að hugsa ögn meira um að gera tónleika að innilegri viðburðum en verið hefur, fer tækni þeirri sem notuð er við framsetningu hennar hratt fram. Þar sem fólk svo kemur saman til þess að ræða þessa þróun er því eðlilegt að skoða tilraunir á við þær sem listhreyfingin E.A.T. stóð í fyrir næstum 40 árum áður. Hápunktur Evolution-hátíðarinnar var nefnilega að margra mati sýning tveggja heimildamynda um fyrstu tvo viðburðina í Nine Evenings-röðinni sem sett var upp árið 1966 í New York af E.A.T., Engineers and Theatre-hreyfingarinnar, að frumkvæði Billy Klüvers, verkfræðings hjá Bell Labor- atories. Hugmynd Billys og félaga var að koma á renneríi milli listafólks og verkfræð- inga svo nýta mætti nýjustu tækni og vísindi á skapandi hátt. Listamennirnir sem tóku þátt í fyrsta verkefni E.A.T. voru meðal annars John Cage, Robert Whitman, Öyvind Fahlström og Robert Rauschenberg, en hver og einn fékk um þrjátíu áhugasama verkfræðinga til samstarfs við sig með það að augnamiði að „stuðla að uppbyggilegu andrúmslofti fyrir nýja tækni að þróast með siðmenntuðu samstarfi lista og vísinda, greina sem óraunhæft er að vaxi einangr- aðar hver frá annarri“ eins og segir í yf- irlýsingu E.A.T. frá árinu 1967. E.A.T. starfaði upp úr þessari fyrstu röð listvið- burða að sömu hugsjón í þrjátíu og fimm ár. Hljómar eins og villtasti draumur hvers myndlistarmanns, ekki satt? Hið ómögulega verður skyndilega máttlaust, engin fantasía svo brjáluð að ekki megi finna henni ein- hvers konar útrás. Nine Evenings-röðin reyndist gríðarlega kraftmikil hugmynda- jarðýta og eru margir á því að hún og starf E.A.T. almennt hafi haft varanleg áhrif á notkun nýrra miðla í myndlist. Gjörningur Roberts Rauschenbergs, Open Score, var efni fyrstu E.A.T.-myndarinnar en í byrjun hennar léku tvö glæsileg ung- menni tennis. Það sem var óvenjulegt við tennisleikinn var að spaðarnir voru útbúnir sérstökum búnaði svo glumdi málmkennt í þeim þegar boltinn var sleginn. Búnaðurinn var svo tengdur ljósakerfi leikhússins þann- ig að eftir því sem leið á leikinn varð æ dimmara uns það eina sem greina mátti voru þungir málmdynkirnir einhvers staðar inni í myrkrinu. Það er ekki erfitt að ímynda sér hvers vegna hátíðarhaldarar völdu að sýna þessar myndir, enda eiga verkefnin sem þær skrá- setja sterkt erindi við listheiminn eins og hann er í dag. Í myndinni um gjörning Öy- vind Fahlström, Kisses Sweeter Than Wine, léku rjúkandi menn lausum hala og helíum- gasi var blásið í sápufroðuspírur sem lið- uðust fagurlega upp úr jörðinni. Þar sást best hversu gæfuríkt samstarf listamanna og verkfræðinga getur orðið þegar allir eru í stuði. Myndirnar reyndust dýrmæt áminn- ing um nauðsyn þess að líta um öxl og skoða hvar fræjum þeirra uppgötvana sem við sjáum enn lifa í samtímalistum hefur verið kastað. Ég er ekki frá því að þarna fyrir hartnær fjörutíu árum síðan hafi eitthvað sérlega þýðingarmikið vaknað til lífsins í þessum óvenjulega metnaðarfullu listvið- burðum, en að jafnvel nú sé enn ekki hægt að mæla áhrif þeirra á listheiminn til fulln- ustu. Hátíð eins og Evolution sýnir svo ekki er um að villast, að raftónlistarfólk er tilbúið í að leita frumlegra lausna í lifandi flutningi, enda blasa ótal spennandi möguleikar við okkur. Auðsýnt er að um þessi mál fara víða fram hressandi umræður sem vafalaust munu skila sér áþreifanlega út í listheiminn. Höfundur er tónlistar- og myndlistarkona. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 4. JANÚAR 2003 11 Hvaða hugmyndir hafði Platon um karla og kon- ur? SVAR: Í heimspeki Platons er að finna tvíhyggju hins karllega og hins kvenlega, sem jafnframt er forsenda fyrir stigskiptingu kynjanna. Kynjaheimspeki í þess- um anda hefur því allar götur nýst hinni platonsk-kristilegu hefð sem réttlæting á misjafnri stöðu kvenna og karla. Tvíhyggja kynjanna er samstofna kvenfyr- irlitningu Platons og hún litar all- an mannskilning hans og hug- myndir hans um samfélag og stjórnmál. Konan er samkvæmt skilningi Platons karlinum óæðri og honum síðri að visku, dygð og hugrekki. Platon gengur jafnvel svo langt að vara við konum sem upp- sprettu lasta er spilla samfélaginu. Samkvæmt platonskri heimspeki er lík- amleiki kvenna nátengdur náttúrunni og eru þær taldar hafa dýrslegra eðli en karl- ar. Körlum sem lifðu ekki í samræmi við dygð biðu þau örlög að endurfæðast sem konur. Það var því talið hið versta hlutskipti að fæðast sem kona enda var staða þeirra í gríska borgríkinu öll önnur en karla. Kon- um og þrælum var meinaður aðgangur að vettvangi hins opinbera lífs þar sem frjálsir borgarar réðu lögum og lofum. Konur höfðu ekki borgaraleg réttindi og var litið svo á að eiginkonur væru eign karla sinna. Útilokun kvenna hélst í hendur við fyrirlitningu á eiginleikum sem voru eignaðir konum. Þær voru álitnar á valdi tilfinninga sinna og í at- ferli sínu oft skyldari börnum en körlum. Samkvæmt Platon keppist heimspeking- urinn aftur á móti við að hafa stjórn á til- finningum sínum og hvötum, sem eru trufl- unarvaldar í ríki skynseminnar. Í forngrískri menningu voru sérstakir eiginleikar kvenna ekki taldir þeim til tekna á nokkurn hátt. Konur voru því ekki sveip- aðar dulúð, eins og síðar gerðist í kristni. Þvert á móti var konum í raun ofaukið í platonskum hugarheimi. Að vísu voru konur taldar nauðsynlegar til viðhalds mannkyni og samfélagi, en að öðru leyti dreymdi forn- gríska heimspekinga um að geta hafið sig yfir allt kvenlegt. En jafnvel þessi eini „kostur“ kvenna var tvíbentur því samfara ábyrgðinni á viðhaldi tegundarinnar fylgdi ábyrgð á mesta böli mannlegs lífs, nefnilega endanleika þess. Með því að fæða börn of- urselja konur þau jafnframt dauðanum. Takmark heimspekingsins er hins vegar að hefja sig yfir dauðleikann. Viskuleitin leiðir heimspekinginn á vit heims frummyndanna sem er eilífur, óbreytanlegur og hinn eini sanni heimur ofar stundlegum og hverfulum heimi verðandinnar. Í Ríkinu, þar sem Platon setur fram draumsýn sína um fyrirmyndarsamfélagið, dregur hann upp aðra mynd af hlutverki kvenna sem virðist í andstöðu við þær hug- myndir sem hér hefur verið lýst. Í „Fögru- borg“ skulu vera þrjár stéttir manna, fram- leiðendur, varðmenn og heimspekingar, og eiga hinir síðasttöldu að stjórna borgríkinu. Heimspekingarnir eiga nú bæði að koma úr röðum kvenna og karla. Fulltrúar beggja kynja í hinni ráðandi stétt eiga að njóta sama uppeldis og menntunar og öðlast víð- tæka reynslu áður en þeir takast á hendur stjórn ríkisins. Vegna þessara róttæku hug- mynda hefur Platon stundum verið talinn til fyrstu kvenréttindasinnanna. Þetta úrvalslið heimspekinga í Fögruborg býr þó við að- stæður sem svipar í engu til raunveruleika gríska borgríkisins. Til að koma í veg fyrir spillingu sem iðulega er fylgifiskur pólitísks valds áleit Platon nauðsynlegt að afnema eignir og eignarrétt í stétt heimspekinganna sem stjórnuðu borginni. Af þessu leiðir að konur í hópi ráðamanna gátu ekki verið eign karlanna. Heimspekingunum var ekki heldur ætlað að lifa hefðbundnu fjölskyldulífi. Þeir áttu að fjölga sér og viðhalda úrvalskyni manna, en utanaðkomandi fóstrur og uppal- endur áttu að sinna afkomendum heimspek- inganna. Hér er á ferðinni kenning um mannkynbætur og um andlýðræðislega skip- an samfélagsins, en Platon hafði ekki mikla trú á lýðræði eftir hrakfarir þess á hans tím- um. Hugmyndir Platons um jafna stöðu kynjanna í Ríkinu heyra til algerra und- antekninga í heimildum forngrískrar menn- ingar. Platon viðurkennir þar að búi kynin við sömu skilyrði geti ekki verið stigsmunur á vitsmunalegu og siðferðislegu atgervi þeirra. Það má hins vegar ekki líta fram hjá því að jöfn staða kynjanna nær einungis til stéttar heimspekinganna. Einnig dregur það nokkuð úr gildi hinnar frómu draumsýnar Platons að uppeldi og málefni barna eru ut- an við verksvið heimspekinganna. Þessi mál eiga heima á sviði einkalífs og tilfinninga og þau lúta ekki stjórn röklegrar hugsunar. Það má því segja Platon haldi þeim sviðum einkalífs sem tengjast konum og kvenleika í forngrískri hefð utan við stétt heimspeking- anna og verndara ríkisins. Gunnar Skirbekk heldur því þess vegna fram að þegar allt kemur til alls vilji Platon kúga konur og halda hinu kvenlega niðri vegna þess að hann óttist það. Hann fremur með táknræn- um hætti „móðurmorð.“ Hann lítur á konur í kvenleika sínum sem óstýrilátt upplausnarafl sem hafi hættuleg áhrif. Þessi skoðun hefur reynst lífseig þar sem konum hefur lengst af verið haldið utan pólitíkur á grundvelli þess að þær hafa verið sagðar tilfinningalega stýrðari en karlar. Þessi hugmynd byggist hins vegar á skarpri aðgreiningu rökvits og tilfinninga sem Platon átti upphaflega mest- an þátt í að festa í sessi og er ekki lengur viðtekin í sama mæli. Það er ekki að undra að heimspekingar á 19. og 20. öld sem hafa andmælt einhliða karlsýn hinnar platonsku heimspeki hafa gert það með því að draga upp mynd af manninum sem birtir hina karllegu jafnt sem hina kvenlegu eiginleika hans. Hannah Arendt hefur til að mynda sett fram kenn- ingu um fæðingu sem myndhverfingu fyrir sköpun hins nýja til höfuðs þeirri dauðablæt- isdýrkun sem hefur einkennt heimspeki frá dögum Sókratesar og Platons. Slík heim- spekileg afstaða sem fagnar nýju upphafi í stað þess að einblína á endamörk lífs er ekki einungis drifin áfram af ást á viskunni, held- ur einnig af ást á veröldinni eða amor mundi. (Þetta er stytt útgáfa af ýtarlegu svari á Vísindavefnum.) Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent í heimspeki við HÍ. HVAÐA HUG- MYNDIR HAFÐI PLATON UM KARLA OG KONUR? Hver var Saraþústra, hvað er flasa, til hvers er meyjarhaft og hvað eru til margar keisaramör- gæsir? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum. VÍSINDI

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.