Lesbók Morgunblaðsins - 11.01.2003, Side 6

Lesbók Morgunblaðsins - 11.01.2003, Side 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. JANÚAR 2003 V ETRARSÓLIN ljómar hlý- lega kringum eykrílið Úpólú í Samóa-eyjaklasanum. Eld- snemma sest hinn víðfrægi höfundur við skrifborðið í vinnustofu sinni á efri hæð stóru villunnar sem fjöl- skyldan hefur átt í nokkur ár. Húsbóndinn leiftrar af vinnugleði. Penninn flýgur yfir arkirnar. Hann er að lýsa átak- anlegum fjölskylduharmleik í Skotlandi á 18du öld. Þessi síðasta skáldsaga hans, Weir of Hermiston, lofar góðu um að verða meist- araverk ævinnar. Einmitt núna er hann að semja níunda kaflann. Það er ekki fyrren síðla dags að æfð hönd skrifarans stöðvast – í miðri setningu! Ánægð- ur með afköst dagsins fetar hann sig niðrá jarðhæðina til að snæða kvöldverð í rúmgóðri borðstofunni. Fanny kona hans virðist vera einkennilega áhyggjufull, einsog eitthvað leggist illa í hana. Eiginmaðurinn er þeim mun kátari og reynir í fyrstunni að dreifa huga hennar með spilagaldri. Síðan sækir hann flösku af góðu rauðvíni niðrí kjallarann. Hjón- in hjálpast að við að matbúa majónes útá ver- öndinni. Sólin glóir við ystu sjónarrönd. Mild kvöld- gola hvískrar í laufskrúðinu. Friður og ró hvíla yfir öllu … En skyndilega rekur maðurinn upp óp. Hann hnígur niðrá hnén og hallar höfði að borðinu. Innan stundar er hann meðvitund- arlaus. Og aðeins nokkrum stundum síðar hefur Robert Louis Stevenson kvatt eirðarlaust jarðlífið. Það er 3ji desember 1894 og klukkan er 20:10. Þungbær arfur Rúmum 44 árum áður hafði Robert Lewis – seinna var nafninu breytt í Louis – fyrst litið ljós þessa heims í nábleikri haustbirtu Ed- inborgar. (Hann var jafnaldri Maupassants og lifði ári lengur.) Sveinninn á semsé eftir að alast upp í borg með þokufullu og regnköldu loftslagi sem tæplega er heilsusamlegt veikum lungum hans. Öll bernskuárin þjáist hann af hóstaköstum og ítrekuðum hitasóttum. Þá verður þjónustustúlkan Cummie verndareng- illinn sem hann á aldrei eftir að gleyma. Hún syngur sálma úr Biblíunni og segir spennandi helgisögur meðan ljósberinn gengur hægum skrefum um skuggaleg strætin og kveikir á götuluktum. Hóstinn heldur áfram að kvelja hann og Cummie heldur áfram að vaka yfir honum. Og undir morgun skröltir fyrsta grænmetiskerrann úr sveitinni yfir hnökrótta steinlögn götunnar. En það eru samt skrækir sjófuglanna og látlaus niður hafsins við klettóttar strendur Skotlands sem verðandi höfundur Gulleyjunn- ar á fyrst og fremst eftir að minnast frá bernskuárunum. Thomas faðir hans er verk- fræðingur einsog faðirinn. Hafa þeir feðgar byggt fjölmarga vita við klettóttar strendur Skotlands. Thomas gerir ráð fyrir að sonurinn feti sömu slóð, sem hann og reynir í fyrstu, en skiptir um hest í miðjum straumi og snýr sér að lögfræði. Hann útskrifast árið 1875, en stundar aldrei lögfræðistörf. Alla sína ævidaga á Stevenson eftir að burðast með púrítanskan arf sem hann reynir látlaust að losa sig við. Á námsárunum nær hann umtalsverðum árangri í hlutverki laus- ingjans. Klæddur sérviskulegum hnébuxum og skringilegum flauelsjakka fellur hann óneitanlega inní hlutverkið. Tunglbleikt and- litið er rammað inn af náttsvörtu hári sem fell- ur á herðar niður. Allir siðsamir og löghlýðnir samborgarar í Edinborg barma sér áreiðan- lega yfir þessum trúðspjátrungi. Meðan þeir fara skylduræknir til kirkju og líta á þrútn- andi bankainnistæður sem siðgæðislegt sig- urtákn, skemmtir sér glataður unglingurinn blygðunarlaust jafnt í krám skuggasunda sem örmum lauslætisdrósa! Stevenson á smámsaman eftir að taka sjálf- umglaða rógbera sína í karphúsið. Í gáska- fullri ritgerð, „Til varnar slæpingjum“, tekur hann með gamansömum hætti fyrir allra- handa fýlda peningapúka og taugaveiklaða framagosa: „Ýkt athafnaþrá, hvort sem er í grunnskóla eða háskóla, í kirkju eða á mark- aði, er auðkenni ónógrar lífsorku, og hæfileik- inn til að vera latur felur í sér alltumlykjandi lífsþorsta og sterka kennd persónulegs heið- arleika.“ Sængurlega og ævintýri Maðurinn sem boðar þennan fagnaðarboð- skap leti og lífsþorsta gerir það í vissum skiln- ingi tilneyddur. Sjúk lungun eiga æ ofaní æ eftir að þvinga hann í rúmið. Hann verður hagvanur í „landi laksins“ einsog hann orðar það. Að því leyti minnir hann á Heinrich Heine sem langtímum saman neyddist til að láta fyr- irberast í „rúmdýnugröf“. Samt kviknar æ á ný glaðleg lífsþrjóska hjá þessum náskyldu sálum. „Það er betra að missa heilsuna sem bruðlari en farga henni sem ágirndarseggur,“ hrópar skoska skyttan og bætir við: „Byrjaðu á stóru bókinni þinni, jafnvel þó læknirinn gefi þér ekki ár, jafnvel þó hann sé efins um mánuð.“ Til síðustu stundar á hann eftir að vera trúr þessu vígorði, enda kemst hann yfir að semja 40 bækur á 16 stuttum árum: smásögur, rit- gerðir, ferðalýsingar, ljóð og ekki síst skáld- sögur. Stevenson leitar heilsubótar í öllum áttum og verður einn af mestu flökkusveinum heims- bókmenntanna. Hann er óþreytandi að leggja upp frá gömlum tjaldstæðum. Í víðáttumiklum veruleikanum fer hann á veiðar eftir Ævintýr- inu. Strax í fyrstu bókinni, An Inland Voyage (1878), segir hann frá hættulegri ferð í veik- byggðum kanó eftir belgískum og frönskum fljótum. Í næstu bók, Travels with a Donkey in the Cevennes (1879), er hann klifrandi upp æ brattari stíga í átt til óþekktra fjallstinda í hrollköldu hauströkkri. Með ösnuna að ein- asta förunauti neyðist hann til að slá upp tjaldi í kolamyrkri. Stormurinn æðir einsog vitfirr- ingur. Og þegar einfarinn vaknar í morgun- sárið hvín nístandi vindurinn enn af sama ofsa. Eiaðsíður finnur hann undursamlega lífs- gleði vakna innra með sér: „Ég hafði leitað ævintýris alla ævi … Og að vakna með þessum hætti í afskekktu skógarflæmi í Gevaudan – áttavilltur, jafnókunnugur umhverfinu og fyrsti maðurinn, skipbrotsmaður á þurru landi – það felur í sér að sjá dagdraumana verða að veruleika.“ Það var aðeins eitt sem vantaði: „Og að lifa í frjálsri náttúru Guðs með konu sem maður elskar er frjálsasta, fullkomnasta lífið.“ Hveitibrauðsdagar í eyðimörkinni Það er meiren líklegt að 28 ára gamall rit- höfundurinn hafi í huga tiltekinn förunaut þegar hann festir þessi orð á blað. Fanny Osbourne heitir bandarísk kona sem árið 1876 skýtur upp kollinum í frönsku lista- mannanýlendunni í Grez ásamt dótturinni Belle á táningsaldri og átta ára gömlum syn- inum Lloyd. Sautján ára gömul giftist Fanny manni sem átti eftir að reynast henni ótrúr – nú vill hún að úthafið skilji þau að. Þessi aðlað- andi kona er umsetin í Grez af mörgum von- biðlum – einn þeirra er ungi höfundurinn frá Edinborg sem nálega dregur hana á tálar með framandlegu orðspori og hnyttnum athuga- semdum. Fanny er ellefu árum eldri en Louis. Hún er viljasterk og framtakssöm kona með reynslu af gullgreftinum í Kaliforníu. Hún reykir bæði sígarettur sem hún vefur sjálf og stundar út- reiðar einsog karlmaður. Vissulega verður Fanny ástkona skáldsins, en virðist vilja fara sínar eigin leiðir og heldur aftur til Bandaríkj- anna sumarið 1878, skilur þá formlega við eig- inmanninn. Ári síðar stígur Louis um borð í annað farþegaskip til New York og leggur þaðan leið sína þvert yfir meginlandið í glamr- andi lest úr Villta vestrinu. En í San Francisco bíða hans ekki ástrík faðmlög. Í staðinn neyðist hann til að flækjast milli margvíslegra búgarða og gistiheimila í smábæjum grámóskulega haustdaga og heilan vetur sem reynist vera óvenjulega kaldur. Hann er hvað eftir annað í þann veginn að skrika yfir hungurmörkin. Um síðir verða tveir bjarndýraveiðimenn til að bjarga honum frá að frjósa í hel … Það er ekki fyrren leysingavatnið fer að niða að vorkenndirnar vakna af dvala. Þessari reynslu lýsir hann í The Amateur Emigrant, sem hann samdi á árunum 1879–80, en kom út 1894. Einn góðan veðurdag í maí 1880 verður Fanny Osbourne frú Stevenson. Þriggja vikna hveitibrauðsdögum eyða þau í óbyggðum – í litlum kofa utaní bakka gamallar silfurnámu. Þeirri reynslu er lýst í The Silverado Squatt- ers (1883). Strax um haustið snúa hjónin aftur til Skotlands. Innblásinn af stjúpsyninum Þegar Louis, 26 ára gamall, var að gera hos- ur sína grænar fyrir Fanny í Grez hafði hann nálgast hana eftir krókaleiðum og með því að vingast við ungan son hennar. Það var ekki einbert klækjabragð, því þeir áttu margt sam- eiginlegt, meðal annars lifandi áhuga á ung- æðislegum ævintýrum. Með tímanum mynda þeir með sér nokkurskonar bókmenntalegt samlag. Á árunum í Suðurhöfum eiga þeir eft- ir að gefa út í sameiningu sögurnar The Wrong Box (1889), The Wrecker (1892) og The Ebb-Tide (1994), en um þessar mundir – einn kaldan rigningardag í Skotlandi – dundar Lloyd, tólf ára gamall, við að teikna og lita kort af óþekktu eylandi. Þetta vekur strax forvitni og hugmyndaflug skáldsins, sem tekur til við að byggja eyna allskyns fólki, fyrst og fremst sjóræningjum sem í byrjun gera uppreisn á skonnortunni Hispaniola og fara síðan í land til að leita uppi niðurgrafna kistuna með gullpeningunum. En þeir hafa hvorki reiknað með einsetumann- inum í hellinum né viktoríönsku herramönn- unum í bjálkahúsinu. Sjálfur forsætisráðherrann Gladstone er sagður hafa orðið svo frá sér numinn af Gull- eyjunni að hann lagði opinber skjöl á hilluna til að hlera með táningnum Jim Hawkins í eplatunnunni lævísar ráðagerðir sjóræningj- anna á Hispaniola. Upphaflega hafði Steven- son hugsað sér að nefna söguna „Skipskokk- urinn“, enda er það John Silver með sinn hvatvísa páfagauk á öxlinni sem leikur eig- inlegt aðalhlutverk í sögunni. Margir hafa hyllst til sjá í John Silver hrottafengnasta skúrkinn í vesölum ræningja- hópnum, en í rauninni er hann djöfullega hríf- andi og skemmtilega baldinn tækifærissinni sem ævinlega lánast – þráttfyrir klunnalega trélöppina – að koma niður standandi. Les- andanum verður það á – að sönnu með svip- aðri tregðu og Jim Hawkins – að dá þennan siðblinda hetjubófa sem aldrei týnir sínu mál- snjalla glaðlyndi né kattlipra hæfileika til að losna úr hverskyns gildrum. Skyldi John Silver ekki eiga ýmislegt sam- merkt við skapara sinn? Þann sem heima í leiðigjörnu og hefðarþrungnu andrúmslofti Edinborgar hafði ráðist gegn hverskyns út- belgdum og sjálfumglöðum smáborgarahætti. Árið 1883, sama ár og Gulleyjan kom út, skrif- aði Stevenson einum vina sinna spaugsamt bréf og hafði meðal annars þetta að segja: „Þegar maður sem virðist vera heilbrigður segir mér að hann hafi orðið elskur að kyrr- stöðunni, þá get ég bara svarað honum: Þú getur aldrei orðið sjóræningi!“ Nei, þvílíkur dundari var dæmdur til að verða „feitur og hvapholda … og halda áfram að vera and- styggilegur góðborgari til hinstu stundar. Er það hugsanlegt? Er ekki til neinn flóttamögu- leiki, einhver leið til að sleppa undan Siðgæð- islögmálinu?“ Frelsandi reyfari Jú, vissulega: flótti og ofsóknir, persónu- leikaskipti og umbreytingakúnstir urðu grunnþemu í nálega öllum skáldsögum og smásögum Stevensons. Ekki síst í margfrægri hrollvekjunni um doktor Jekyll sem í tilrauna- stofu sinni framkallar þann Edward Hyde sem hann ber innra með sér: illvirkja sem hundeltur er af réttvísinni um náttsvartar göt- ur Lundúna og fær um síðir sín maklegu mála- gjöld. Það merkilega er að þegar siðprúður lækn- irinn hefur innbyrt hræðilegt undralyfið, upp- lifir hann furðulega yngingu: „Mér fannst ég vera yngri, léttari og glaðlyndari. Mér fannst ég vera fullkomlega áhyggjulaus … Ég fann til áður óþekktrar og langtífrá saklausrar frelsiskenndar.“ Þessi frelsiskennd hefur sennilega vaknað SIGURÐUR A. MAGNÚSSON ÆVINTÝRA- MAÐURINN ROBERT LOUIS STEVENSON Löng smásagan um Jekyll og Hyde sló strax í gegn.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.