Lesbók Morgunblaðsins - 08.02.2003, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 08.02.2003, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. FEBRÚAR 2003 B RETANÍUSKAGI, hvar er hann eiginlega? Því er auðsvar- að frá landfræðilegu sjónar- miði. Ef við hugsum okkur Frakklandskort sem vangasvip stórskorins manns með skeifu og framstætt brúnastæði, þá er Bretaníuskaginn hnýtt og teygt nefið á Frakklandi, og nefið vísar vestur, beint út í Atlantshaf, en löng og hallalítil nefbrúnin afmarkast af Ermarsundi. Þetta er einhver frægasti skagi í heimi, enda er mynd af honum á fremstu síðu allra bókanna um Ástrík, hetj- una smávöxnu og galvösku, og þær bækur hafa börn á öllum aldri í ótal löndum tekið varanlegu ástfóstri við. Óhætt mun að gera ráð fyrir því að allir Íslendingar þekki kappann knáa með ljósu flétturnar og efrivararskeggið. Var þorpið hans Ástríks ekki til í alvörunni? Átti það sér ekki samsvörun á þessum slóðum? Hvað um Stein- rík, sem datt ofan í töfradrykkspottinn þegar hann var lítill? Á hann sér hliðstæður í sögu og landsháttum skagans? Skógur og haf Lítum nánar á þetta merka nef Frakklands, Bretaníu, sem stundum er nefnd Litla-Bret- land af sögulegum ástæðum, þ.e. tengslanna við eyna Bretland, þaðan sem land var numið á meginlandinu. Hér búa um þrjár milljónir manna, flestir í dreifbýli eða litlum bæjum. Stjórnsýslulega heyrir skaginn Frakklandi til, en bretónsku sýslurnar hafa samráð sín á milli um málefni héraðsins og með aukinni valddreif- ingu samfara Evrópuvæðingu hefur orðið til vísir að heimastjórn á ýmsum mikilvægum sviðum þjóðlífs, menntamála og menningar. Strandlengjan hefur frá fornu fari verið köll- uð Armor, sem merkir Landið við hafið upp á forna bretónsku. Í bókunum um Ástrík er skag- inn líka nefndur Armoríka, svo allt stendur þetta heima. Ströndin er víða vogskorin, og skiptast á hamrar, klettabelti, fuglabjörg og ljósar skeljasandsbreiður. Hafnir eru margar og þaðan gjarna róið til fiskjar á litlum bátum. Einnig liggja ostrur í breiðum undan strönd- unum, kræklingur er ræktaður á staurum í flæðarmálinu og annað sælgæti sjávarpöddu- kyns má veiða sér á fjöru. Fisksalinn í Gaul- verjaþorpinu og spúsa hans voru líka iðin við kolann, alltaf með glænýjan fisk á boðstólum, eins og aðdáendur Ástríks vita vel. Svo hafa Bretónar frá fornu fari nýtt þarann til margra hluta og gera enn með góðum árangri. Þarinn er nýttur sem hleypiefni í matvælaiðnaði og lyfjagerð, einnig er hann þurrkaður í ljúffengar súpujurtir. Hins vegar ber ekki að ráði á sjó- ræningjaskipum eða víkingadrekum undan Bretaníuströndum á þessum síðustu og verstu tímum, og er af sem áður var, en litfagrar segl- skútur ber oft við himin. Í öndverðu mun skaginn allur hafa verið skógi vaxinn milli fjalls og fjöru (eða frá hólum til hafs), enda heitir þar Argoat, Landið við skóginn, en þannig er skaginn utan strand- lengju enn nefndur. Enn er þar víða þéttur og töfrandi trjágróður, eikur ægifagrar og grænir mistilteinshnettir, rétt eins og í tíð Ástríks, þegar Sjóðríkur klifraði upp í tré með gullna sigð í hendi að afla hráefnis í töfradrykkinn. Mistilteinn var annars notaður sem lækninga- jurt fram eftir öldum og þótti gefast vel við berklum. Hér reið Artús konungur um skóg- lendi og héruð ásamt riddurum hringborðsins, hér er gröf Merlíns í rjóðri, og álfar í hverjum lundi. Skógurinn og heiðarlöndin hafa smám saman hörfað eftir því sem ræktarlönd hafa unnið á, enda landbúnaður ein helsta atvinnu- greinin á skaganum. Landbúnaðarpistill Þess má geta að á tuttugustu öld lagðist hefðbundin kvikfjárrækt að miklu leyti af á skaganum, en bændur tóku að rækta blómkál, ætiþistla, tómata og ýmsar lauktegundir með góðum árangri, enda loftslag milt og rakt. Kív- írækt er nú stunduð í kringum höfuðborgina Rennes og þykir gefast einstaklega vel, en jarð- arberin frá Plougastel (Hallarsókn) eru talin bera af öðrum norðan Alpafjalla og þótt víðar væri leitað, en upphaflegu jarðarberjaplöntu- rnar voru fluttar inn frá Chile fyrir hálfgerða tilviljun á nítjándu öld. Illu heilli færðist einnig maísrækt í aukana. Hún er afar frek á tilbúinn áburð, en hefur afleit áhrif á jarðveginn til langs tíma, þótt áburðurinn auki uppskeruna um stundarsakir. Jarðvegurinn mettast fljótt af steinefnum úr áburðinum og hrindir frá sér vatni í stað þess að drekka það í sig, og er það talið ein meginorsök flóðanna sem hér urðu rigningarveturinn mikla 2000-2001 og endur- taka sig í minna mæli í hvert sinn sem eitthvað rignir að ráði. Einnig er skaði að akrar voru sameinaðir til þess að auka hagkvæmni rækt- arinnar, og aldagamlir kantar sem áður mörk- uðu ræktarlöndin voru sléttaðir, en hlutverk þeirra var einmitt að beina regnvatni í farveg og forða ökrum frá flóðum. Maísinn sem er or- sök þessara landspjalla er einkum ætlaður svínum, öðrum en villigöltum, en þeir voru eft- irlætisréttur Steinríks, eins og frægt er orðið. Nú er það svo, að villigeltir vaða enn uppi og hrella bændur með átroðningi um akra og garð- lönd, enda enginn Steinríkur til þess að smala þeim saman undir hendinni. Þeir eru þungstíg- ir sælkerar, þramma óþreytandi um beðin, bæla gróður niður og gæða sér á nýsprottnu grænmeti sem þeir rífa léttilega upp með skelfilegum skögultönnum. Að haustlagi arka afkomendur Steinríks galvaskir um sveitir skagans á gúmmístígvélum, dreypa á einhvers konar heimatilbúnum töfradrykkjum, epla- landa og eplagambra, og skjóta sér galtarsteik eða annað lostæti til matar, en hér er mikið dýralíf og eftir því fjölbreytt villibráð, hvort heldur loðin eða fiðruð. Fallegir og viljugir hundar eru veiðimönnunum til halds og trausts, en þeir eru nokkru hávaxnari en Krílríkur. Af Rómverjum, bautasteinsbændum og skjálftavirkni Eins og glöggir aðdáendur Ástríks og Stein- ríks muna náðu Rómverjar að vísu aldrei þorpi Ástríks á sitt vald, en þeir bjuggu vel um sig á skaganum og þess sér víða merki enn þann dag í dag. Reyndar er ein markverðasta heimild sem til er um bretónskt samfélag til forna ein- mitt verk Sesars. Hann kynnti sér siði hersetnu þjóðarinnar og greindi frá þeim í höfuðriti sínu um Gallastríðin. Einn helsti þéttbýliskjarni Armoríku hét Condate á latínu, en það var eitt helsta vígi Rómverja utan Rómar meðan veldi þeirra stóð sem hæst. Þéttbýli þetta heitir nú Rennes. Þar voru komnar gangstéttar með- fram götum áður en tímatal vort hefst, mörgum öldum áður en Ingólfi hugkvæmdist að sigla til Íslands. Rómverskir verkfræðingar kunnu vel til verka og um það vitna mörg hugvitsamleg mannvirki sem enn standa. Vegakerfi Róm- verja var vandað og víða er enn gengið eftir rómverskum hellulögnum hér á skaganum. Seint í september 2002 varð hér snarpur jarðskjálfti, 5,4 stig á kvarða Richters. Ekki urðu slys á mönnum, og helst bar til tíðinda að reykháfur hrundi af fimm alda gömlum bónda- bæ sem stendur á Armoríkusprungunni miðri, en hún nær frá vestasta odda skagans, suður með ströndinni og inn í hálendi Frakklands. Eitthvað hafa menn þóst sjá af sprungum í veggjum húsa hér og hvar eftir ósköpin. Þetta er mesti skjálfti sem hér hefur orðið í liðlega tvo áratugi. Hann fannst glöggt um allan skag- ann og víða heyrðist mikill hvinur samfara hon- um. Ekki er nein eldvirkni hér um slóðir, en skjálftavirknin er býsna regluleg og vel kort- lögð. Hún hefur ekki verið mikill skaðvaldur á sögulegum tímum og þótt lengra sé litið um öxl, enda standa árþúsundagamlir bautasteinar enn hnarreistir og hafa ekki haggast frá því Steinríkur gekk um garða og jafnhenti þeim fram og aftur. Bautasteinar þessir eru algeng sjón hér um slóðir. Talið er líklegt að þeir hafi nýst mönnum sem kennileiti eða tengst ein- hverjum óljósum helgisiðum. Þeir standa ýmist stakir eða í þyrpingum, ábúðarmiklir og dul- arfullir. Frægasta steinþyrpingin af þessu tagi er án efa í Karnak, á sunnanverðum skaganum. Stundum hefur steinunum verið raðað upp þannig að þeir mynda göng, og er talið líklegt að þá sé um grafhýsi að ræða. Höfundar bók- anna um Ástrík láta notagildi bautasteinanna liggja á milli hluta, en Steinríkur hafði í nógu að snúast við grjótburðinn. Hefði hann kannski orðið pitsusendill, hefði hann verið uppi núna? Það er ólíklegt, enda eru pitsur fisléttar og ekki samboðnar slíkum kraftakarli. Reyndar er grjótnám og steinhögg aðalatvinna manna í mörgum sveita skagans enn þann dag í dag, en nú er grjótið flutt með vörubílum milli staða. Væluskjóður og hörpur Allar góðar Ástríksbækur enda á því að þorpsbúar slá upp veislu í kringum varðeld, þar sem þorpssöngvarinn er keflaður og bundinn uppi í tré með hörpu sína hangandi. Nú er tón- listarsmekkurinn misjafn, en hér eru menn af- ar hrifnir af þjóðlegum hörpuslætti og sekkjar- pípublæstri, og kalla þó sumir slíkar pípur væluskjóður. Enginn smábær er svo smár að hann eigi sér ekki sekkjarpípusveit, og knatt- spyrnuleikir innan héraðs hefjast gjarna á leik slíkra sveita. Þá eru þær látnar troða upp við öll hugsanleg tækifæri. Þó er ekki löng hefð fyrir fjölskipuðum sekkjarpípusveitum, en þær kom- ust fyrst í tísku um miðja tuttugustu öld og var fyrirmyndin hin hefðbundna lúðrasveit. Vel má vera að þar sé komin skýringin á því, af hverju rignir svona mikið hér á skaganum, en þá hafa veðurguðirnir annan tónlistarsmekk en Bre- tónar. Bretónar? Jú, það eru íbúar skagans. Talið er að þeir hafi flutt frá Bretlandi yfir Erm- arsundið. Upphaflega er þetta sama þjóðin og byggir Wales, enda mun tungumálið hafa verið það sama beggja vegna Atlantshafs fram yfir miðaldir. Tengslin við Wales voru mikil og stöð- ug til forna, og Ermarsundið var nýtt sem sam- gönguleið milli þjóðarbrotanna beggja vegna, en svo komu víkingar til sögunnar. Þeir fóru mikinn og lögðust þá Ermarsundssiglingar af, en upp úr því teljast Bretónar á meginlandinu sérstök þjóð með sérstaka menningu, þótt venslin við fyrrverandi landa þeirra í Wales séu enn greinileg. Á síðustu áratugum hefur orðið mikil vitundarvakning meðal almennings í Bretaníu, og menn rækta nú menningararfinn af mikilli alúð. Bretónskan, hið forna tungumál heimamanna, átti undir högg að sækja á tutt- ugustu öldinni, enda bönnuðu yfirvöld hana, en hún dó aldrei út og nú er talið að mælendur séu tæplega 300 þúsund á skaganum, en um 2 millj- ónir kunna slangur í málinu eða skilja það, þótt þeir tali það lítt eða sjaldan. Miðstýringin í Par- ís gerir sitt besta til þess að berja bretónskuna úr mönnum, en menningarstefna Evrópusam- bandsins hefur vegið upp á móti því, þar sem áhersla er lögð á að hlúa að margtynginu í álf- unni. Galló er annað tungumál sem lifir enn á austanverðum skaganum. Það er latnesk mál- lýska, sem varð til í margnefndu hernámi Róm- verja um árið, og minna vensl hennar við frönskuna á líkindi íslensku og færeysku. Gallómenn hafa meðal annars tekið sig til og gefið Ástrík út á galló, og er það einkar vel við hæfi, en ævintýri kappans eru að sjálfsögðu líka til í bretónskri þýðingu. Það kann að virðast forneskjuleg og fánýt iðja að plokka frumstæðar hörpur og blása í sútaða vindbelgi ásamt því að leggja rækt við staðbundnar og aflagðar mállýskur, en Bretón- ar eru yfirleitt ekki steinrunnir fýlupokar, þvert á móti. Þeir horfa líka til framtíðar og til annarra þjóða. Þá eiga þeir heiðurinn að ýms- um merkum nýjungum sem þykja sjálfsagður hluti daglegs lífs, og má til dæmis nefna ljós- leiðarann sem var upprunalega þróaður hér á skaganum. Mörg ár eru liðin frá því máltækni var þróuð fyrir bretónska tungu, og einnig hef- ur um árabil verið til bretónsk leitarvél á Net- inu. Á þessum síðustu og verstu tímum taum- lausrar og flatrar alþjóðavæðingar er vert að leggja rækt við hið smáa og sérstæða í héraði. Þar eru verðmæti sem bera ávöxt þegar menn þreytast á lægsta samnefnaranum. Nei, þjóðleg bretónsk hefð er ekki rykfallnar skræður eða gæluverkefni sérviturra fræðinga. Hún er að vakna úr nokkurra áratuga dásvefni, kvik og til alls vís. ÁSTRÍKUR Á SKAGANUM „Eins og glöggir aðdá- endur Ást- ríks og Stein- ríks muna náðu Róm- verjar að vísu aldrei þorpi Ástríks á sitt vald, en þeir bjuggu vel um sig á skaganum og þess sér víða merki enn þann dag í dag.“ „Nei, þjóðleg bretónsk hefð er ekki rykfallnar skræður eða gæluverkefni sérviturra fræðinga. Hún er að vakna úr nokkurra áratuga dásvefni, kvik og til alls vís,“ segir í þessari grein sem er sú fyrsta í flokki um Bretaníuskagann, sögu hans og menningu. E F T I R Ó L Ö F U P É T U R S D Ó T T U R Höfundur er bretónskunemi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.