Lesbók Morgunblaðsins - 22.02.2003, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 22.02.2003, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. FEBRÚAR 2003 7 Í kjölfarið á handtöku Dreyfusar fór um Frakkland mikil bylgja gyðinga- og Þjóðverja- haturs. Eftir lokuð réttarhöld dæmdi herrétturinn Dreyfus sekan um landráð hinn 22. desember 1894. Hann var formlega sviptur öllum tignar- merkjum franska hersins í ársbyrjun 1895 og sendur til lífstíðarvistar á Djöflaeyjunni. Þessi eyja er í Atlantshafi úti fyrir strönd Frönsku Gvæana í Suður-Ameríku, en það landsvæði liggur að norðurlandamærum Brasilíu. Vist í sakamannanýlendunni á Djöflaeyjunni þótti mjög ill. Nálega ógjörningur var að sleppa það- an. Næsta árið gerðist fátt í málinu, en helst var Mathieu Dreyfus, bróðir Alfreds, eitthvað að reyna að hafast að honum til hjálpar. Vorið 1896 hófu fleiri afskipti af málinu, m.a. rithöfundur- inn Émile Zola (1840–1902) sem var hálfítalskur að ætterni. Ungur hafði hann misst föður sinn, og fyrstu skáldverk hans voru af ljóðrænum toga. Frá og með 1867 sneri hann sér hins vegar að samningu skáldsagna í raunsæisstíl, og hjá honum þróaðist sá stíll yfir í svonefndan nat- úralisma. Zola sendi næstu ár frá sér fjölmargar sögur, en ekki hafa þær verið mikið þýddar á ís- lensku. Fyrsta blaðagrein hans um Dreyfusmál- ið snerti reyndar Dreyfus ekki beint, heldur lagðist Zola í henni gegn gyðingaofsóknum. Esterhazy kemur til sögunnar Fleiri nöfn herforingja koma nú til sögunnar. Marie-Charles Walsin-Esterhazy var fæddur í París 1847. Hann hafði lifað ævintýralegu lífi, verið í frönsku útlendingaherdeildinni, kvænst en eytt heimanmundi konunnar í spilasölum, komið sér upp ástkonum og var skuldum vafinn. Hann var líka veikur, líklega af berklum og á taugum, enda skuldheimtumenn á hælunum á honum. Í júlí 1894 mun hann hafa boðið þýska hermálafulltrúanum í París, áðurnefndum Schwarzkoppen, þjónustu sína. Næstur skal nefndur maður af öðru sauðar- húsi, Georges Picquart, einnig herforingi. Hann var í góðu áliti hjá yfirboðurum sínum og var því látinn taka við mikilvægu starfi af öðrum manni sem hætti í ráðuneytinu. Picquart þurfti að taka til eftir þennan fyrirrennara sinn, og í mars 1896 fann hann í skjölum þar eins konar orðsendingu, rifna í um 30 parta og ættaða frá frú Bastian, ræstingakonunni og njósnaranum sem nefnd var hér að ofan. Þessi nýja orðsending reyndist stíluð á Esterhazy, og í henni var beðið um nán- ari skýringar en þær sem þegar hefðu verið gefnar. Picqart varð hissa, var þetta annað njósnamálið á skömmum tíma? Könnun fór í gang og rithandarsérfræðing- urinn, gyðingahatarinn sem best hafði verið treyst áður, fékk að sjá rithönd Esterhazys, og sagði hann þá: „Þetta er sama rithöndin og var á fyrra minnisblaðinu.“ Picquart og leynimappan Picquart skoðaði nú leynimöppu merkta sem hernaðarleyndarmál með gögnunum um Dreyf- us-málið, en hún reyndist nærri tóm. Í henni var þó eitt bréf frá Schwarzkoppen, þýska hermála- fulltrúanum, þar sem talað var um „þrjótinn D“. Í ljós virtist koma að fyrir herréttinum hefði þetta verið þýtt með orðunum „skepnan Dreyf- us“, og hefði það stuðlað að sakfellingunni. Picquart leist ekki á þetta og ræddi stöðuna við de Boisdeffre og aðra yfirmenn sína, en eng- inn vildi fá málið tekið upp að nýju, því að þar með myndi herinn verða fyrir miklum álits- hnekki, enda væri hér um hernaðarleyndarmál að ræða. Picquart var nú sendur í eins konar út- legð frá París, fyrst til Austur-Frakklands, svo alla leið til Túnis. Eftirmaður hans í ráðuneytinu varð áðurnefndur Henry, sem vitnað hafði gegn Dreyfusi, og hann skoðaði einnig í möppu Dreyfus-málsins. Henry ákvað að nota bréf sem hann hafði undir höndum, stílað til Schwarzkop- pens, skæri og lím til að falsa nýtt skjal í þessa annars skjalafátæku möppu. Í þessu falsbréfi var Dreyfus beinlínis nafngreindur. Þetta bréf sagði hann síðan að ræstingakonan hefði fundið í bréfakörfunni. Með þessari aðgerð kom Henry sér mjög í mjúkinn hjá yfirmönnum sínum. Picquart gafst reyndar ekki upp. Hann sneri til Parísar og kom áhyggjum sínum m.a. á fram- færi við varaforseta öldungadeildar þingsins, sem gekk svo langt að ræða málið við hinn hægrisinnaða forseta lýðveldisins, Félix Faure, en hann reyndist alveg á bandi hersins. Þess ber að geta að ásamt hernum var kirkjan mjög and- víg Dreyfusi. Zola skrifar „J’accuse …“ Margir tóku að skrifa um málið og deilur um það mögnuðust stöðugt. Þáverandi forsætisráð- herra, Méline, var svo ógætinn að segja, að ekk- ert Dreyfus-mál væri til. Mathieu Dreyfus for- dæmdi Esterhazy opinberlega, en þá fengu herforingjarnir Esterhazy til að biðja um að fá sjálfur að koma fyrir herrétt. Sá herréttur var á einu máli og í honum var Esterhazy sýknaður 10. janúar 1898. Þá var mörgum nóg boðið. Mesti hvellurinn varð er Émile Zola birti í blaðinu L’Aurore hinn 13. janúar sama ár grein- ina „J’accuse …“, bréf til forseta lýðveldisins. Þar ásakaði Zola tvo hermálaráðherra, marga úr herforingjaráðinu og rithandarsérfræðinga í máli Esterhazys fyrir að hafa staðið fyrir ósæmilegri herferð í blöðunum til að villa um fyrir almenningsálitinu. Eins sakaði hann her- réttinn sem dæmt hafði Dreyfus um að hafa vanvirt lögin með því að dæma mann sekan á grundvelli leyndargagns. – Zola stóð alls ekki einn, m.a. voru áberandi hans megin þekktur stjórnmálamaður, Georges Clemenceau, sem varð síðar forsætisráðherra oftar en einu sinni, og einnig sósíalistinn og friðarsinninn J. Jaurès. Nú var Zola stefnt fyrir meiðyrði. Réttar- höldin yfir honum í febrúar 1898 vöktu heims- athygli. Þeim lauk þannig að Zola var dæmdur í árs fangelsi og til þess að greiða allnokkra sekt. Herforingjarnir fögnuðu sigri og margir óskuðu Zola opinberlega dauða. Fleiri en eitt einvígi áttu sér stað, m.a. gengu þeir Picquart og Henry á hólm hvor við annan og fékk þá Henry skrámu á handlegg. Stórblöðin erlendis reynd- ust yfirleitt á bandi Zola, og t.d. skrifuðu rithöf- undarnir Leo Tolstoj, í Rússlandi, og Mark Twain, í Bandaríkjunum, báðir um málið og stóðu hans megin; Twain líkti Zola við dýrling- inn Jóhönnu af Örk. Máli hans var áfrýjað og fór fyrir yfirdóm. Eftir kosningar þetta ár var mynduð ný rík- isstjórn í Frakklandi. Hermálaráðherra varð Godefroy Cavaignac úr róttæka flokknum, vin- sæll maður og stálheiðarlegur. Hann hafði talið Dreyfus sekan, en ákvað þó að láta á ný skoða gögnin um hann í hinni umræddu möppu. Henry játar fölsunina – sjálfsvíg hans Áfrýjunarréttur tók meiðyrðamálið gegn Zola fyrir, en hann flýði um sumarið til Eng- lands vegna ofsókna. Um líkt leyti komst sá sem nú rannsakaði gögnin í möppu Dreyfusar að því að aðalgagnið, bréfið til Schwarzkoppen þar sem Dreyfus var nefndur, væri falsað, því að tvö nokkuð ólík bréf höfðu greinilega verið límd saman. Cavaignac fékk strax þessar fréttir og heiðarleiki hans bannaði honum að láta sem ekkert væri. Henry var kallaður fyrir og hann játaði loks á sig fölsunina. Hann var strax fang- elsaður og næsta dag framdi hann sjálfsmorð í fangelsinu. Reyndar töldu sumir fylgismenn Dreyfusar að ráðamönnum í hernum hefði þótt hentugt að láta Henry hverfa, hann hefði því verið myrtur, en Dreyfusarandstæðingar töluðu um að gyðingar hefðu drepið hann. – Þeir Cava- ignac og de Boisdeffre sögðu af sér. Esterhazy flýði land. Málið tók alveg nýja stefnu. Fjöl- margir snerust á sveif með Dreyfusi, – en ekki herforingjarnir. Áfrýjunarréttur undir forsæti manns sem trúði því að Esterhazy hefði skrifað hinn upp- haflega minnismiða komst að því vorið 1899 að mál Dreyfusar skyldi endurupptekið fyrir her- rétti. Náð var í Alfred Dreyfus til Djöflaeyj- arinnar. Hinn nýi herréttur var settur í borginni Rennes, en þar var, eftir talsvert þref, sam- þykkt með fjórum atkvæðum gegn tveimur að láta hinn fyrri sektardóm yfir Dreyfusi standa, þótt ótrúlegt megi virðast. Refsingin var þó stytt í 10 ár. Ríkisstjórn mynduð til að leysa málið Þessi niðurstaða, sem stafaði af tregðu hers- ins til að viðurkenna mistök sín, olli enn miklum vanda. Komin var til valda ný ríkisstjórn, að miklu leyti mynduð beinlínis til að leysa þetta mál. Ýmsir ráðherrar þar voru fremur vinstri- sinnaðir og hliðhollir Dreyfusi, forsætisráð- herra var Waldeck-Rousseau. Faure forseti andaðist óvænt í þessum svifum og kosinn var nýr forseti, Émile Loubet, hliðhollari Dreyfusi. Læknir skoðaði Dreyfus og úrskurðaði að hann hefði ekki heilsu til að vera lengur í fangelsi. Stjórnin þingaði um málið og eftir nokkurt þref um hvað gera skyldi fyrirskipaði hinn nýi forseti hinn 19. september 1899 að Dreyfusi skyldi sleppt úr haldi á grundvelli heilsubrests hans. Með þessu var sakleysi hans ekki formlega viðurkennt, en árið 1904 fékkst málið tekið upp fyrir borgaralegum dómstóli (ekki herrétti) og 1906 var Dreyfus endanlega sýknaður og veitt full uppreisn æru, hann fékk á ný höfuðsmanns- tign í hernum og var gerður riddari af frönsku heiðursfylkingunni. Nokkru áður, eða árið 1900, hafði ríkisstjórnin látið samþykkja lög um upp- gjöf saka til handa öllum sem tengst höfðu mála- ferlunum, og voru þannig m.a. þeir Esterhazy, Mercier, Zola og Picquart settir allir undir sama hatt. Picquart varð síðar hermálaráðherra í stjórn undir forsæti Clemenceau, og gerði það Dreyfusarandstæðingum gramt í geði. Endalok Émile Zola 28. sept. 1902 Segja má að Émile Zola hafi orðið frægari fyrir afskipti sín af Dreyfus-málinu heldur en fyrir allt annað sem hann gerði. Hann hafði löngum verið umdeildur, og vildi vera það. Á seinni tímum hefur verið sagt að hann hafi í raun verið hægfara sósíalisti. Í 19 skipti var reynt að fá hann tekinn inn í frönsku Akadem- íuna, en það tókst aldrei vegna þess að of margir töldu hann vera klámhöfund. Það er rétt að hann skrifaði m.a. um vændiskonur Parísar á sinni tíð, en nútímafólki finnst þær lýsingar ekki sérlega berorðar. Þá var hann umdeildur vegna einkalífs síns, en hjónaband hans var barnlaust, og tæplega fimmtugur tók hann sér miklu yngri ástkonu og eignaðist með henni tvö börn. Émile Zola lifði ekki lengi eftir að Dreyfus hafði verið látinn laus. Hinn 28. sepember 1902 kom hann ásamt konu sinni til Parísar frá sum- arhúsi þeirra utan borgarinnar, en þar voru þau vön að eyða sumarmánuðunum. Um nóttina sváfu þau við lokaða glugga, en eldur kom upp í svefnherberginu og Zola kafnaði í svefni, en kona hans lifði þetta af og náði sér. Upp kom kvittur um að óvinir hans hefðu verið að verki. Fullvíst er að margir vildu hann feigan, en aldr- ei hefur þó sannast að eldsvoðinn hafi orðið af manna völdum – og sú gáta verður tæplega ráð- in úr þessu. Árið 1908 voru jarðneskar leifar Zola fluttar til æðsta grafhýsis Frakka, Panthéon í París. Dreyfus var viðstaddur hátíðlega athöfn þar af þessu tilefni, en þegar hann gekk út úr bygging- unni skaut þjóðernissinnaður ofstækismaður tveimur skotum að honum og hitti hann í hand- legginn. Sagt er að þeir sem gengist höfðu fyrir því að bjarga Dreyfusi frá Djöflaeynni hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum þegar þeir hittu hann. Alfred Dreyfus var ekki mikilfengleg hetja í eðli sínu, heldur venjulegur maður, fremur feiminn og orðfár. Hann varð undirofursti í fyrri heims- styrjöld og andaðist 75 ára gamall í París 1935. Deilan klauf þjóðina til langframa Nú er almennt viðurkennt að Dreyfus hafi verið saklaus af því að skrifa hinn fræga, upp- haflega minnismiða, en flest bendir til að Est- erhazy hafi skrifað hann. Hitt er óljósara, hvort hann vann vörnum Frakklands einhvern telj- andi skaða með athæfi sínu. Dreyfus-málið varð stórmál vegna þess að herforingjarnir neituðu mjög lengi að horfast í augu við þá staðreynd að mistök höfðu verið gerð í fyrstunni. Að þeirra dómi var herinn brjóstvörn ættjarðarinnar og mátti með engu móti verða fyrir álitshnekki. Þjóðin var í mörg ár klofin í tvennt út af málinu, báðir aðilar mynduðu fjöldasamtök og gyðingahatur fékk byr undir vængi. Dreyfusarandstæðingar töldu að upptaka málsins þýddi í reynd að óvinir þjóð- arinnar fengju klekkt á hernum, en hann væri bráðnauðsynleg vörn gagnvart sósíalistum, gyðingum og Þýskalandi. Dreyfusarsinnar töl- uðu hins vegar um að virða ætti frelsi einstak- linga og herinn ætti ekki að komast upp með að vera ríki í ríkinu. Afleiðingar deilunnar urðu ýmislegar. Vinstri sinnaðar ríkisstjórnir um og upp úr aldamótum 1900 reyndu að koma á pólitísku eftirlitskerfi innan hersins, og sögðu þá margir herforingjar störfum sínum upp og eðli hersins breyttist nokkuð, hann gerðist vinveittari lýðveldinu en áður. Þá var franska kirkjan, sem hafði verið mjög hliðholl hernum í málinu, aðskilin frá franska ríkinu 1905 fyrir tilstilli vinstri manna. Mjög harðar deilur á milli hægrisinnaðra þjóð- ernissinna og friðarsinna á vinstri væng stjórn- málanna héldu áfram allt til 1914 og jafnvel lengur. Þriðja lýðveldið hafði staðið af sér þessa erf- iðu hrinu, enda var það, einkum eftir lyktir Dreyfus-málsins, stundum kennt við mennta- menn, sérstaklega lögfræðinga og rithöfunda. Ýmsir telja hins vegar að franska hernum hafi hnignað af völdum rimmunnar, og við upphaf fyrri heimsstyrjaldar hafi hann því reynst frem- ur kjarklítill og undir lélegri stjórn, sem þá hafi ekki komið sér vel. Þessi söguskoðun er þó um- deilanleg. Helstu heimildir: Leclercq, Pierre-Robert: L’affaire Dreyfus suivi de J’acc- use …! Émile Zola. Monaco 1994. – Histoire de la France, les temps nouveaux de 1852 à nos jours, sous la direction de G. Duby. Paris 1989. – Magraw, Roger: France 1815–1914. Oxford 1983. – Encyclopædia Britannica (undir uppslátt- arorðunum Dreyfus, Waldeck-Rousseau og Zola). Chicago 1987. Höfundur er sagnfræðingur og fyrrverandi skólameistari en nú kennari við Menntaskólann á Akureyri. Alfred Dreyfus Émile Zola

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.