Lesbók Morgunblaðsins - 12.04.2003, Side 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. APRÍL 2003
N
ÝVERIÐ varð töluvert
fjaðrafok í Bretlandi
vegna þeirrar bók-
menntauppfræðslu er
breskum ungmennum
stendur til boða. Tilefnið
var það að sjálft lárvið-
arskáldið Andrew Mot-
ion réðst á skólayfirvöld og sagði þau einungis
kenna ungu fólki að komast í gegnum fyrir-
fram ákveðna texta og taka próf, í stað þess að
kenna þeim að unna bókmenntunum. Motion
notaði tækifærið og setti fram lista yfir þær
bækur sem hann álítur ómissandi lesningu öll-
um þeim er vilja tileinka sér breskar bók-
menntir. Listinn er einkar forvitnilegur ekki
síst þar sem hann spannar langt tímabil
breskrar bókmenntasögu, en á hann rötuðu
verkin Tristram Shandy (Laurence Sterne;
1759–67 ), Emma (Jane Austen; 1815), Great
Expectations (Charles Dickens; 1860–61),
Middlemarch (George Eliot; 1871–72), Ulyss-
es (James Joyce; 1918), A Handful of Dust
(Evelyn Waugh; 1934), Brighton Rock (Gra-
ham Greene; 1938), Midnight’s Children
(Salman Rushdie; 1981) og síðast en ekki síst
Waterland (Graham Swift; 1983). Að sjálf-
sögðu voru ekki allir á eitt sáttir um þennan
stutta lista lárviðarskáldsins en það er óneit-
anlega töluverð vegsemd fyrir þá Rushdie og
Swift að rata einir núlifandi höfunda þar inn.
Fæstum kemur á óvart að sjá nafn Rushdie
á þessum lista enda var það auðvitað á vörum
allrar heimsbyggðarinnar eftir að hann var
dæmdur til dauða af klerkum múslima í Íran
fyrir bókina The Satanic Verses (Söngvar Sat-
ans), árið 1989. Síðan þá hafa bækur hans not-
ið fádæma vinsælda, en þær mörkuðu nokkur
tímamót í vestrænum bókmenntum fyrir að
afhjúpa árekstra trúarbragða og hugmynda-
fræði ólíkra menningarheima í fjölmenning-
arsamfélögum samtímans. Fæstum kemur því
á óvart að sjá nafn hans á þessum lista. Ef-
laust hafa mun fleiri orðið hissa að sjá nafn
kollega hans Swift á listanum, sem þrátt fyrir
sitt framúrskarandi orðspor meðal hinna inn-
vígðu í bókmenntaheiminum hefur aldrei bað-
að sig í sviðsljósinu eins og margir þeirra höf-
unda sem eru í tísku hverju sinni. Hann er
líklega helst þekktur fyrir það að vera hlé-
drægastur breskra höfunda í dag. Náinn vinur
hans, rithöfundurinn Kazuo Ishiguru segir t.d.
erfitt fyrir fjölmiðla að gera sér mat úr per-
sónu Swift, „þar sem hann er hæglátur og
traustur. Hann er ákaflega niðursokkinn í rit-
störf sín. Hann hefur búið á sama blettinum í
Suður-London og í sama húsinu með konunni
sinni í áraraðir. Sú dýpt er gerir Graham
áhugaverðan snýr öll að innra lífi hans,“ segir
Ishiguru, sem steig fram á ritvöllinn til varnar
vini sínum með eftirminnilegum hætti þegar
orðrómur um að Swift hefði seilst í skáldskap
Williams Faulkners komst á kreik í kringum
útgáfu Last Orders (Hestaskálarinnar) – en sá
kvittur var fljótt kveðinn niður.
Átök undir látlausu yfirborði
Þegar rætt er um Graham Swift í Bretlandi
er iðulega vísað til afreka hans á bókmennta-
sviðinu sem „sigurs hversdagsmannsins“ og
bækurnar sagðar fjalla um „hetjuskap til-
breytingarlauss lífs“. Hvað sem því líður er
víst að Swift hefur af mikilli staðfestu fetað fá-
farna slóð og farið vandlega ofan í þá sauma á
ensku mannlífi sem fáir aðrir rithöfundar hafa
sýnt áhuga. Persónur hans eru afar venjulegt
fólk og eftirlætisþema hans basl einstaklings-
ins við að ná sáttum við sjálfan sig um tilgang
– eða jafnvel tilgangsleysi – lífs síns. Stílbrögð
Swift eru ekki síður óvenjuleg, ekki síst í
þeirri áherslu á hversdagsleikann sem hann
hefur tileinkað sér, þar sem margir þræðir eru
tvinnaðir þétt saman til að segja sögur sem
eru látlausar á yfirborðinu en átakamiklar og
flóknar undir niðri. Sjálfur sagði Graham ný-
lega í blaðaviðtali að „hin raunverulega list sé
ekki fólgin í því að láta sér detta óvenjulega
gáfuleg orð í hug, heldur í því að láta venjuleg
orð segja óvenjulega hluti. Í því að nota tungu-
mál okkar allra og láta undraverða hluti ger-
ast.“
Á níunda áratugnum, eftir að Waterland
eftir Swift og Flaubert’s Parrot eftir Julian
Barnes komu út, voru þeir Swift og Barnes oft
spyrtir saman í bókmenntaumfjöllun. Í báðum
þessum verkum reyna höfundarnir að takast á
við þá spurningu hvernig sagan verður til,
bæði opinberlega og í huga okkar sem ein-
staklinga. Hvað Swift varðar er ljóst að hann
álítur að merkingu og ákveðinni uppbyggingu
hafi verið þröngvað upp á mannkynssöguna
með aðferðum skáldskaparins. Minnið gegnir
þar mikilvægu hlutverki, ekki einvörðungu
vegna þess hvernig það hagræðir hlutunum,
heldur einnig vegna þess að það skapar sinn
eigin sannleika. Oft á tíðum virðist sem það
eitt að segja frá atburði, munnlega eða skrif-
lega, geri hann raunverulegan – sem þýðir
jafnframt að það sem ekki hefur verið skráð er
sjaldnast þáttur í sögunni. Einnig var bent á
að Swift og Barnes hefðu báðir haslað sér völl
innan marka sálfræðilegs skáldskapar og
þeirri hugmynd jafnframt varpað fram að þeir
hefðu ýtt nýrri tegund sögumanns inn á sögu-
svið samtímans; hinum ófúsa sögumanni. Að
auki hefðu þeir kynnt fyrstu persónu frásögn
til sögunnar í póstmódernískum skáldskap og
um leið breytt ásýnd skáldsagnagerðar síns
samtíma.
Sá ófúsi sögumaður sem hér er vísað til er
vissulega kunnuglegur í verkum Swift. Oft er
um að ræða glöggar og fróðar persónur sem
hafa upplifað eða jafnvel orðið valdar að ein-
hverju sem er þess eðlis að eina leiðin til að
fjalla um það er að fara eins og köttur í kring-
um heitan graut. Leiðin að kjarna sögunnar er
flókin; töluvert um útúrdúra og hálfkveðnar
vísur sem lesandinn þarf að ráða í þar til allt
fellur saman að lokum. Allar skáldsögur Swift
eiga það sameiginlegt að fjalla um erfið eða í
það minnsta flókin tengsl; ýmist á milli for-
eldra og barns, á milli einkalífs og opinbers lífs
eða einfaldlega á milli fortíðar og samtíðar.
Meistaraleg tilsögn í frásagnarhætti
Í nýútkominni bók Swifts, The Light of
Day, eða Dagsbirtan, má finna öll þau gam-
alkunnu höfundareinkenni sem skapað hafa
orðstír hans, en þó eins og hans er von og vísa í
algjörlega nýrri útfærslu er kemur skemmti-
lega á óvart. Sagan fjallar um einkaspæjarann
George Webb og eins og vænta má í bók um
einkaspæjara má þar einnig finna marga hefð-
bundna þætti glæpasagna; framhjáhald, lík,
morðingja, einkaritara og einmanaleika. Þrátt
fyrir það myndi verkið aldrei falla í flokk
slíkra sagna, það er fremur að Swift leiki sér
að því að draga klisjur reyfaranna inn í ákaf-
lega þéttriðið net þess sálfræðilega skáldskap-
ar sem enginn spinnur betur en hann. Eins og
Bookerverðlaunaverk Grahams, Last Orders
– og reyndar fyrsta bók hans The Sweetshop
Owner – gerist verkið allt á einni dagstund á
björtum haustdegi. George Webb kaupir blóm
og leggur á leiði, heimsækir konu í fangelsi og
heldur síðan heim á leið. Ekki er allt sem sýn-
ist því sá sem hvílir í kirkjugarðinum var
reyndar myrtur af konunni í fangelsinu, Sör-
uh, sem George Webb elskar og þráir. Sjálfur
var einkaspæjarinn ráðinn af þeirri sömu
konu til að fylgjast með kveðjustund eigin-
manns hennar og ungrar ástkonu, áður en
hann sneri heim aftur í faðm eiginkonunnar.
Allar þessar upplýsingar liggja fyrir á upp-
hafssíðum verksins svo enginn er svikinn þótt
það upplýsist hér að í stað þess að eiginkonan
taki upp þráðinn með eiginmanni sínum eins
og hún þó ætlaði sér, myrðir hún hann. Og
morðið gefur einkaspæjaranum tækifæri til að
vinna hjarta eiginkonunnar þar sem hún hefur
sjálf rutt eiginmanninum, sem hún þó elskar,
úr vegi.
Eins og hinn þekkti rithöfundur Adam
Mars-Jones komst að orði í ritdómi sínum um
The Light of Day í The Guardian í síðasta
mánuði, þá „þarf sterkar taugar til að velja
„allt er leyfilegt í ástum og stríði“ sem ein-
kunnarorð skáldsögu og að leyfa þeirri klisju
að standa sem fyrirsögn texta, uppkast eftir
uppkast“. Swift hefur heldur aldrei skort hug-
rekki til að fjalla um það sem aðrir hafa engan
áhuga á. En nýja bókin fjallar eins og áður
sagði ekki bara um þessa stuttu ökuferð
George Webb, heldur öllu fremur um „proust-
ískt“ ferðalag hans um liðinn tíma þar sem
dregnar eru fram hliðstæður mannlegs eðlis
og örlaga; við kynnumst foreldrum George og
bernsku hans, misheppnuðu hjónabandi hans
og sambandi við einkadóttur, einkaritaranum
sem George hefur sofið hjá og vill eiga hann,
áhuga hans á Söruh, sem vaknar í aðdraganda
morðsins og síðast en ekki síst sameiginlegum
áhuga þeirra tveggja á útlaganum Napóeloni
III keisara og konu hans Eugénie. Rétt eins
og í öðrum verkum Swift er það í þessum
flókna vef minninga og hálfkveðinna vísna
sem styrkur The Light of Day liggur, þar sem
hinn lágstemmdi tónn er í fullkomnu mótvægi
við átakamikla sögu. Adam Mars-Jones lýsir
þessum flókna frásagnarmáta af mikilli skarp-
skyggni og aðdáun og segir; „í þessu tilfelli er
þó ekki samasemmerki á milli hins lág-
stemmda og lítillar áhættu. Á sinn útvalda
hófsama máta, býður The Light of Day upp á
meistaralega tilsögn í frásagnarhætti. Allt er
klippt og skorið – setningar, málsgreinar,
hlutar og kaflar (sem nálgast 7 tugi) – en hver
einasti þáttur er í réttu samhengi. Upplýs-
ingar eru settar fram í dropatali frekar en í
gusum og margar sögur eru tvinnaðar saman
þráð fyrir þráð“.
Handan við mörkin
Og eins og bent var á hér að ofan eiga frá-
sagnir sem slíkar ríkan þátt í því að gera at-
burði raunverulega í sögulegum skilningi, og
skáldsagan hefur því veigamiklu hlutverki að
gegna sem sá þáttur er tengir sögur einstak-
linga þeirri stóru heild sem sjálf mannkyns-
sagan er. Ekki má gleyma að allir sögulegir
viðburðir byggjast á raunverulegri reynslu
einhverra, þótt þeir séu einungis saga í augum
allra annarra, og það er einmitt í því ljósi sem
heimssýn Swifts afhjúpast í höfundarverki
hans. The Light of Day rekur sögu nokkurra
ástarsambanda en þó saga einkaspæjarans og
morðingjans sé í forgrunni, er það samt sem
áður það ástarsambandanna sem enn hefur
nánast ekkert reynt á þar sem kringumstæður
þeirra George og Söruh eru í hæsta máta
óvenjulegar. Öll eiga samböndin þó eitthvað
sameiginlegt sem erfitt er að henda reiður á
nema með óljósum hætti; þ.e.a.s. hið óþekkta
sem býr innra með okkur öllum og birtist eins
og hendi sé veifað öllum að óvörum svo ekkert
verður aftur samt við sig. „Eitthvað gerist. Við
förum yfir mörkin, opnum leið að því sem við
vissum ekki að var fyrir hendi. Það gæti allt
eins aldrei hafa gerst, við hefðum aldrei vitað
af því. Stærstur hluti lífsins er kannski aðeins
afplánun tíma,“ hugsar George Webb með sér
þegar hann er á leiðinni í fangelsið að heim-
sækja Söruh. Hann, líkt og lesandinn, er knú-
inn til að gera það upp við sig, hvað það er sem
fær manneskju til að fremja morð, og um leið
hvort við séum ekki öll fær um að fremja slík-
an glæp, þótt flestir komist sem betur fer aldr-
ei í þær aðstæður – „fari ekki yfir mörkin“.
Spæjarinn George Webb er um margt eft-
irtektarverð skáldsagnapersóna, ekki síst
vegna þess hversu hversdagslegum dráttum
hann er dreginn. Hann hefur atvinnu af því að
rannsaka þær skuggahliðar mannlegs lífs er
oftast snúa að svikum. Hann njósnar um kyn-
hegðun fólks, rétt eins og hver annar glugga-
gægir og færir sönnur á framhjáhald. Veitir
fólki eftirför og skrifar um það skýrslur, allt
eftir óskum viðskiptavinarins. Í persónusköp-
uninni tekst Swift samt að draga fram flókinn
og tilfinningalega djúpan persónuleika sem
leynist undir harðsoðnu yfirborði lögreglu-
manns úr verkamannafjölskyldu, sem aldrei
var mikið fyrir bókina. George Webb á orðið
alla söguna út í gegn, hugrenningar hans ráða
ferðinni og miðað við hversu takmarkaðan
orðaforða Swift hefur úthlutað honum, er
óhætt að segja að stíllinn sé ótrúlega blæ-
brigðamikill um leið og hann undirstrikar trú-
verðugleika aðalpersónunnar. George reynist
viðkunnanlegur náungi þegar allt kemur til
alls og þó hann tjái sig á einfaldan hátt – eða sé
jafnvel stundum orða vant og tali í hálfkveðn-
um vísum – tekst honum að kryfja mikilsverð
grundvallaratriði til mergjar í sálarrannsókn
sem á fáar sínar líkar. Hann endurtekur
áþekka – og oft kunnuglega – frasa út í gegn-
um söguna og smám saman verða þeir að leið-
arminni lífs hans og öðlast yfirfærða merk-
ingu sem slíkir.
Ástand siðmenningarinnar
Webb, eins og svo margar aðrar persónur
Swift, gerir stöðu sína í samtímanum upp við
sig með því að grafast fyrir um fortíðina; sína
eigin, Söruh og hina sögulegu fortíð. Það er
engin tilviljun að bæði hann og Sarah eru
heilluð af ævi Eugènie, konu Napóleons III,
ekki síst þeim árum sem hún átti ólifuð eftir að
maður hennar lést: „Þessi tæpu fimmtíu ár.
Þau eru undarlegasti hlutinn. Sá hluti sem
vekur áhuga Söruh, veit ég. Tuttugu ára
hjónaband. Sautján ára keisaraveldi. Nærri
fimmtíu ár eftir það,“ hugsar George. Enginn
veit sína ævina fyrr en öll er og þrátt fyrir að
öllu virðist lokið í kjölfar slíks voðaverks þá er
aldrei að vita nema framtíðin beri í skauti sér
langt tímabil „eftir það“, eins og í lífi Eugènie,
þar sem leiðir hans og Söruh geta legið saman.
Sá möguleiki að George hefði hugsanlega
getað komið í veg fyrir morðið – séð það fyrir
og varað eiginmanninn við – íþyngir samvisku
hans. Og það er sú byrði sem verður til þess að
hann horfist í augu við þann möguleika að þeg-
ar allt kemur til alls sé undirmeðvitund okkar
allra eins og hellarnir frá tímum frummanna
undir borgarhverfinu í Chislehurst; „óleyst
ráðgáta, sem hverfur inn í myrkrið“. Í verkinu
sem heild verða hellarnir því táknrænir fyrir
ástand siðmenningarinnar í sögulegu sam-
hengi, enda notaðir sem loftvarnarbyrgi á tím-
um seinni heimsstyrjaldarinnar þegar sið-
menningin riðaði til falls, og jafnframt tákn
siðferðiskenndarinnar í tilfelli einstaklingsins,
svo sem þess sem í hita tilfinningalegs upp-
náms missir stjórn á gjörðum sínum og drep-
ur. Þegar kafað er undir fágað og skipulagt yf-
irborð hlutanna má m.ö.o. merkja hina
sameiginlegu sálfræðilegu arfleifð dulvitund-
arinnar; „bergmál, völundarhús ganga, sögur
af draugum. Tilfinningu fyrir því að maður
komist kannski aldrei aftur út í dagsbirtuna“,
eins og segir í lýsingu Georgs á hellunum og
því myrka kerfi neðanjarðarganga sem á
táknrænan hátt grefur undan undirstöðum
mannlífsins. Dagsbirtan, sem þetta nýja verk
Grahams Swifts dregur nafn sitt af, verður
þannig að fyrirheiti um betra líf sem bíður
hvers einasta einstaklings þegar „afplánun“
hans er lokið og hann ratar loks út úr hellum
lífs síns – myrkrinu sem býr innra með okkur
öllum og nær stundum yfirhöndinni um skeið.
VENJULEG ORÐ SEGJA
ÓVENJULEGA HLUTI
Fáir hafa skrifað af jafnmiklu innsæi um hetjuskap
hversdagslífsins og breski rithöfundurinn Graham
Swift. FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR fjallar um ný-
útkomna skáldsögu hans sem fylgir einkaspæjara
nokkrum eftir í „Proustískt“ ferðalag um liðinn tíma.
Nýjasta bók Grahams Swifts fjallar um það
þegar „við förum yfir mörkin, opnum leið að
því sem við vissum ekki að var fyrir hendi“.
fbi@mbl.is