Lesbók Morgunblaðsins - 12.04.2003, Page 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. APRÍL 2003 11
En nei, stúlkan í gullbíkíníinu segistengu trúa að óreyndu. Javier leggurtil að hún þreifi sjálf og við gífurlegfagnaðarlæti áhorfenda stikar hún að
borulega náunganum handan pallborðsins og
skyrtunni er svipt af honum í snarhasti, hann
er hvattur áfram, „vertu ekki svona hræðilega
mikil tepra!“ hrópar Javier um leið og dúndr-
andi diskómúsik skellur á og þagnar jafn-
harðan. Og jú, hann reynist bara nokkuð
stinnur, maginn á honum, „en mikið ferlega
ertu loðinn!“ hrópar stúlkan. Áhorfendurnir í
salnum hlæja og æpa. Hún er ekki svo mikið
gefin fyrir loðna karlmenn. Ónei. Javier spyr
hvort hann komist þá ekki í pottinn. Enn á
hún þó eftir að spyrja þann borulega nokk-
urra spurninga. Boris notar tækifærið og fer
fjálglegum orðum og lostafullum höndum um
bringu mannsins. Þvílík vitleysa?!?
Hvernig stendur á því að sjónvarpsþátt-
urinn Crónicas marcianas á Stöð 5 nær að
halda vinsældum sínum ár eftir ár á Spáni?
Frá 1997 til 2003, alltaf jafn vinsæll. Líklega
er það stjórnandanum, Javier Sardá, að
þakka. Sardá er snillingur á sínu sviði, nær að
sameina ærslagang og gagnrýnin viðtöl, hann
blandar saman meinfýsnum skrílslátum og
sjónvarpsfundum um alvarleg mál sem leys-
ast raunar oftast upp í hávaðarifrildi með
hrópum og frammígripum, ef þeir ekki bein-
línis enda á slagsmálum. Og meðstjórnandinn,
argentískur hommi að nafni Boris, leggur sitt
af mörkum til vinsælda þáttarins: Hann er fí-
gúra fram í fingurgóma, gríðarleg stjarna,
gengur í salinn einsog drottning við sykur-
sæta lyftutónlist og æpir svo alla sína skelm-
islegu stríðni skrækum rómi. Í Krónikum frá
Mars talar hver í kapp við annan, aggresívar
spurningar um hápólitísk umfjöllunarefni
blandast hreinum trúðslátum. Gestirnir eru
hver öðrum öfgafyllri, verða raunar fastagest-
ir ef þeir virðast frá nógu fjarlægri plánetu.
Klæðskiptingur birtist í þættinum eitt kvöldið
og varð fastagestur og bregður sér nú í gervi
kvenráðherra í hverjum þætti. Samsíða heim-
ur, samsettur úr öfgum?
Crónicas marcianas er spjall- og skemmti-
þáttur af sömu gerð og svo margir aðrir.
Þannig þættir finnast útum allt. Óneitanlega
getur þó munurinn á útfærslum verið tals-
verður: Myndavélin myndi aldrei súmma á
brjóstin á gestum Gísla Marteins, viðmæl-
endur hans dilla ekki tungunni og skella lúk-
unni í klofið á gestgjafanum þegar minnst
varir, Gísli Marteinn káfar ekki á gestunum.
Krónikur frá Mars eru enda sýndar seint á
kvöldin og bannaðar innan átján. Drasl, lág-
kúra, smekkleysa, það vantar ekki gagnrýn-
ina sem þátturinn fær. Nei, þetta er skemmt-
un, segir Sardá sem annars er hættur að veita
viðtöl, hefur dregið sig í hlé í sinni öfgafullu
plánetu.
Þátturinn lætur sér ekki nægja ærslin held-
ur er skipt yfir í grafalvarleg málefni – stríð í
Írak, Prestige-slysið … og Sardá tekur hik-
laust afstöðu í pallborðsumræðum sínum.
Raunar snýst umræðan oftast um hver hafi
tekið saman við hvern í nýjasta raunveru-
leikaþætti eða þá að brestur á með löngum
umræðum um nektarmynd sem einhver
stjarnan hefur látið taka af sér – Hóra! Hróp-
ar keppinautur hennar í raunveruleikaþætti.
En í næstu andrá grípur Sardá athyglina –
það tekst honum alltaf þrátt fyrir allt – og lýs-
ir grafalvarlegur yfir gallharðri andstöðu við
stríðið í Írak.
Sú í gullbíkíníinu hefur ákveðið að feimni
maðurinn sem svaraði spurningum hennar
eigi skilið að fara með henni í pottinn. Svo
hann er rifinn úr fötunum og hent útí nudd-
pott á miðju sviðinu þar sem gullbíkíníið bíður
fyrir; Boris flettir sig klæðum og fylgir með;
þau kljást þegar í pottinn er komið og þeir
reyna án árangurs að ná af henni bíkíníinu.
Þeir tæta nærbuxurnar hvor af öðrum:
Myndavélin leitar stöðugt á milli fótanna á
þeim. Þetta er Krónika frá Mars. Og ég næ
ekki að henda reiður á henni.
KRÓNÍKA FRÁ MARS
H e r m a n n S t e f á n s s o n
Hver er munurinn á stjórn-
málaflokki og stjórnmálahreyf-
ingu?
SVAR: Stjórnmálaflokkar eru ólíkir öðrum
samtökum að því leyti að þeir bjóða fram í
almennum kosningum. Þeir hafa líka oftast
nær það yfirlýsta markmið að vilja stjórna
ríkisvaldinu. Í þessari merkingu eru hug-
tökin stjórnmálaflokkur og stjórnmála-
hreyfing notuð á víxl yfir það sama. Þegar
talað er um stjórnmálahreyfingar er þó yf-
irleitt átt við annars konar samtök heldur
en eiginlega stjórnmálaflokka. Það geta
verið félög sem berjast fyrir ákveðum mál-
stað eða hin ólíkustu hagsmunasamtök. Þau
bjóða ekki fram í kosningum en reyna að
hafa áhrif á almenningsálitið eða stjórn rík-
isvaldsins með öðrum hætti.
Hagsmunagæsla er óaðskiljanlegur hluti
stjórnmála vegna þess að þegar teknar eru
ákvarðanir í stjórnmálum, þá snerta þær
yfirleitt hópa og hagmuni í samfélaginu
með ólíkum hætti. Ólíkir hópar reyna því að
hafa áhrif á ákvarðanir og koma sjón-
armiðum sínum á framfæri, til dæmis við
ríkisstjórnir, þjóðþing eða stjórnmálaflokk-
ana sjálfa. Sum stjórnmálasamtök reyna á
hinn bóginn fyrst og fremst að hafa áhrif á
almenningsálitið. Í mörgum vestrænum
löndum er rík hefð fyrir því að ríkisvaldið
leiti til hagsmunasamtaka þegar teknar eru
ákvarðanir eða stefna mótuð, og í mörgum
tilvikum eru hagsmunasamtök formlegur
hluti af ákvarðanatökuferlinu.
Dæmi um hagsmunasamtök sem líta má á
sem stjórnmálahreyfingar eru launþega-
samtök og samtök neytenda. Evrópusam-
tökin og félagið Heimssýn eru einnig dæmi
um stjórnmálahreyfingar á Íslandi, en þau
beita sér í Evrópumálum. Þegar talað er
um stjórnmálahreyfingar er líka stundum
átt við enn víðtækari baráttu sem ekki lýtur
neinu formlegu skipulagi og nær jafnvel til
margra landa. Dæmi um slíkar hreyfingar
eru friðarhreyfingin og kvenréttindahreyf-
ingin.
Munurinn á stjórnmálaflokki og hags-
munasamtökum er ekki alltaf skýr. Í mörg-
um löndum þróuðust verkalýðshreyfingar
yfir í stjórnmálaflokka og það sama hefur
gerst þar sem umhverfisverndarsamtök
hafa þróast yfir í græna flokka. Hagmuna-
samtök geta líka ákveðið að bjóða fram í
kosningum. Þá er tilgangurinn ekki endi-
lega sá að komast í ríkisstjórn heldur frek-
ar að nota framboðið til þess að vekja at-
hygli á ákveðnum baráttumálum. Þetta geta
verið hreyfingar á borð við samtök ellilíf-
eyrisþega, félög bifreiðaeigenda eða trúar-
hópar. Dæmi eru um að slíkir flokkar hafi
komist í ríkisstjórnir landa sinna.
Hrafnkell Tjörvi Stefánsson stjórnmálafræðingur.
Hver er munurinn á vefsíðuheit-
unum .asp , .htm , .html, .php
o.s.frv.?
SVAR: Þegar vafrað er um Netið sendir
vafrinn fyrirspurn til netþjóns sem túlkar
fyrirspurnina, vinnur úr henni og sendir
niðurstöðu til baka til vafrans, venjulega á
HTML-formi. HTML (Hyper Text Markup
Language) er samsafn skipana um það
hvernig vafrinn eigi að birta heimasíðuna,
til dæmis hvar, hvernig og hvaða texti og
myndir skuli birtast á skjá viðtakandans.
Endingar eins og asp, html, php, jsp, txt
og xml, hjálpa netþjóninum að skilja hvern-
ig hann eigi að meðhöndla fyrirspurnina.
Einföldustu fyrirspurninar enda til dæmis á
html eða htm (endingar á skjölum sem inni-
halda HTML-kóða), jpg, gif, png (endingar
á myndum) og txt (endingar á skjölum sem
innihalda texta). Þá finnur netþjónninn ein-
faldlega það skjal sem spurt er um og send-
ir innihaldið til baka til vafrans. Hann mót-
tekur skjalið og birtir á skjá notandans.
Þegar um einfalda mynd eða texta er að
ræða birtir vafrinn það einfaldlega efst til
vinstri, en ef um er að ræða HTML-skjal,
túlkar vafrinn skjalið og birtir innihald þess
í samræmi við skipanir html-kóðans.
Sumir vefir eru afar stórir og það væri
mjög óhagstætt að geyma eitt HTML-skjal
fyrir hverja mismunandi síðu vefjarins. Ef
vefurinn mbl.is er tekinn sem dæmi sést að
allar fréttir líta eins út: Efst eru tengingar
í mismunandi svæði vefjarins, vinstra megin
eru meðal annars tengingar innan frétta-
hluta vefjarins og hægra megin er pláss
fyrir auglýsingar. Fréttin sjálf birtist alltaf
í miðjunni, með fyrirsögn og texta með
mynd efst hægra megin, ef mynd fylgir
fréttinni. Nokkur þúsund fréttir eru á
Morgunblaðsvefnum og ef allar hefðu sitt
eigið HTML-skjal væri erfitt að hafa stjórn
á innihaldinu, og ef ákveðið væri að breyta
umbrotinu (til dæmis merki vefjarins)
þyrfti að breyta því í öllum skjölunum.
Þegar vefsíðuheitið er til dæmis asp eða
php þýðir það að vefirnir eru forritaðir á
einn eða annan hátt. Fréttahluti Morg-
unblaðsvefjarins er til dæmis forritaður
þannig að sjálfar fréttirnar eru í gagna-
grunni og þegar beðið er um ákveðna frétt
(til dæmis fréttina um dauða kindarinnar
Dollýjar sem er nr. 1017725 í gagnagrunni
Morgunblaðsvefjarins) sér forritið um að
sækja hana í grunninn og birta hana á
ákveðnum stað í fyrirfram ákveðnu um-
broti. Forritið getur í raun unnið með fyr-
irspurnina á óteljandi vegu, en algengast er
að það sé notað til að sækja í gagnagunn
texta og tilvísanir í myndir, sem síðan er
sett á rétta staði í HTML-kóðann. Vafrinn
túlkar síðan HTML-skjalið og birtir inni-
hald þess.
Daði Ingólfsson tölvunarfræðingur.
STJÓRNMÁLA-
FLOKKUR OG
STJÓRNMÁLA-
HREYFING?
Á meðal spurninga sem hefur verið svarað á Vís-
indavefnum að undanförnu má nefna: Hvers
vegna fær fólk hrukkur, hver er munurinn á sprengigosi og seigfljótandi
gosi og af hverju eru álver byggð svona löng og mjó?
VÍSINDI
Morgunblaðið/Kristinn
Á Alþingi.
Ég stansa í öngþveitinu
sem ríkir í bænum
og hlusta.
Langt í fjarska
kveður við sár
barnsgrátur.
Barnið kallar á frið
meðan sprengjurnar óma
í kringum það,
en hann finnst ekki,
hjartsláttur barnsins,
sem kallar á frið
langt í fjarska.
Ég minnist þess að
fyrstu dagana,
klukkustundirnar,
mínúturnar,
var hvert einasta
sjónvarp kveikt
allir fylgdust með
fréttamenn áttu erfitt
með að hemja sig
ekkert gat haldið
fólki í skefjum
orð,
póstar,
símtöl,
gengu fólks á milli
allir voru þöglir
á meðan sprengjurnar lentu
langt í fjarska.
En er ég viss
að einhvern tíma
muni annar sigra
fólk spyr,
hversu lengi?
dagar?
vikur?
mánuðir?
kannski ár?
Þeir koma fram
við fólk líkt og keilur
sem gefa stig ef þær falla
Æ, lífið er svo flókið
En almennt er
fólk fegið
að vera skilið
út undan
og standa í horni og glápa.
Því unga stúlkan
sem kallaði á frið
er fallin
líkt og keila
sem gefur stig
á meðan allir eru þöglir
og fylgjast með.
SNÆRÓS SINDRADÓTTIR
Höfundur er 11 ára nemandi í Grandaskóla í Reykjavík.
FRIÐUR