Lesbók Morgunblaðsins - 26.04.2003, Síða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 26.04.2003, Síða 5
um í skólakerfinu; það sem telst viðunandi ástundun hjá fjölskyldu innflytjandans getur verið alls ófullnægjandi samkvæmt kröfum íslenska skólakerfisins og öfugt. Foreldr- arnir eru kannski ekki almennilega læsir einu sinni og geta því ekki fylgt börnum sín- um eftir. Þetta getur valdið félagslegum vandræðum fyrir allt samfélagið, t.d. ef börn innflytjenda missa fótanna af einhverjum ástæðum. Í framhaldi af þessu vakna spurningar um hvernig við ætlum að taka á móti nýjum Ís- lendingum af þessu tagi. Ætlum við að henda þeim út í djúpu laugina og ætlast til þess að þeir spjari sig einir og óstuddir? Og hvaða kröfur ætlum við að gera til þeirra? Ef við gerum þær kröfur til þeirra að þeir lagi sig algjörlega að íslensku samfélagi er- um við jafnframt að gera lítið úr menningar- arfi þeirra. Þá sýnum við þeim vissan yf- irgang og neitum okkur um að læra af menningu þeirra. Til skamms tíma var inn- flytjendum gert að taka upp íslenskt nafn og afsala sér þar með mjög þýðingarmiklum hluta af sjálfsmynd sinni. Þetta var menn- ingarlegt ofbeldi enda værum við Íslend- ingar fæstir sáttir við að vera gert að afsala okkur slíku kennimarki (þó að við gerðum það kannski af sjálfsdáðum ef nafn okkar félli sérlega illa að nýja tungumálinu). Hvernig ætli íslenskum karlmanni liði t.d. ef hann flyttist til Kóreu og væri gert að taka upp nafnið Gui-Chul Yang? Sem þjóð þurfum við fyrr en síðar að móta stefnu um það hvernig við viljum að sambúð kynþáttanna verði háttað í landinu. Hvaða líkan viljum við nota? Og þá er ekki nóg að ráðuneytin semji stefnumótunarskýrslur heldur verður þjóðin öll að sameinast um stefnuna svo vel takist til. Ef við ætlum ekki að sjá sóma okkar í að taka á þessum málum af festu væri heiðarlegast og affarasælast fyrir alla að meina útlendingum landnám hér á landi. En þar sem slík stefna væri fáránleg nú á tímum hnattvæðingar og auk þess mannfjandsamleg er eins gott fyrir okkur að taka á málunum af einurð. Deigla eða mósaík Bandaríkin eru líklega fjölmenningarleg- asta samfélag heims. Þó á einungis þriðj- ungur Bandaríkjamanna ættir að rekja til annarra landa en Evrópu. Í sumum hlutum Bandaríkjanna, s.s. Kaliforníu, eru hvítir eigi að síður að verða í minnihluta og í mörgum borgum eru svokallaðir minnihlutahópar mjög fyrirferðarmiklir, s.s. í Chicago, New York, San Francisco og Detroit. Reiknað hefur verið út að árið 2056 muni flestir Bandaríkjamenn rekja ættir sínar til ann- arra heimshluta en Evrópu: Afríku, Asíu, spænska heimsins, Kyrrahafslanda, Araba- heimsins. Ekki er ólíklegt að sambærileg þróun verði í öðrum vestrænum ríkjum á næstu áratugum, líka hér. Í Bandaríkjunum var lengi talað um deiglu (melting-pot) þegar rætt var um sambúð kynþátta og þjóðarbrota. Þá var gert ráð fyrir að allir sem bættust í samfélagið bráðn- uðu saman við þessa deiglu, þann menning- arkjarna sem fyrir var. Þarna var gengið út frá því að bandaríska þjóðin ætti sér einhver kjarnagildi, pólitísk og menningarleg, og þeir sem ætluðu sér að verða Bandaríkja- menn yrðu að láta öll önnur gildi fyrir róða. Þetta þýddi í raun að ein menning var ráð- andi, sú sem byggði að mestu á arfleifð hvítra. Með umrótinu á 7. áratugnum komu fram kröfur um breytingar. Þá jókst áherslan á frelsi og mannréttindi og í kjölfarið hófst barátta fyrir auknum réttindum minnihluta- hópa. Þegar allar þær nýju raddir sem farn- ar voru að hljóma sprengdu hinn þrönga ramma deiglukenningarinnar, þróaðist smátt og smátt fjölhyggja, sem byggir á þeirri hugsun að veruleikinn sé samsettur úr mörgum ólíkum þáttum. Samkvæmt orðanna hljóðan ætti þar með að aukast þol fólks gagnvart mismun og fjölbreytni og skapast grundvöllur fyrir því að margs konar menn- ing geti þrifist innan sama lands, fjölmenn- ing. Bandarískir háskólar fundu í kjölfarið fyr- ir kröfu um fjölmenningarlegra námsfram- boð og brugðust við henni með því að stofna deildir þar sem rannsóknir á menningararfi hinna mismunandi þjóðarbrota voru settar í öndvegi. Þetta þýddi að menntun Banda- ríkjamanna varð ekki jafn einsleit og áður og þjóðin gat ekki lengur sameinast um einn þekkingargrunn. Íhaldssamir menntamenn brugðust ókvæða við þessu og sendu frá sér bækur þar sem þeir fjargviðruðust yfir menningarástandi landa sinna. Töldu þeir heillavænlegast að siðmennta þá með því að setja þeim fyrir tiltekin meistaraverk heims- bókmenntanna og skapa með því móti sam- eiginlegan þekkingargrunn og þar með sam- kennd í samfélaginu. Þarna var sóst eftir einsleitni og sumir halda því fram að eft- irsókn eftir henni sé okkur eðlislæg; það sé eðlilegt að draga taum þess sem sé skyldur manni, sem sé eins og maður sjálfur. Sumir halda því meira að segja fram að einsleitni, sem birtist m.a. í sameiginlegu tungumáli, sé undirstaða siðmenningar. Aðrir benda á að mannskepnan hafi alltaf verið á ferðinni, hafi stöðugt verið að flytja sig til og blandast öðrum, s.s. vegna veðurfars, atvinnu, menn- ingar og stríðsátaka. Einsleitni sé því tilbúið ástand, ætlað m.a. til að ná völdum, það sé ekki náttúrlegt ástand, enda sýnir sagan að þjóðríki hafa oft og iðulega verið sett saman úr mörgum þjóðarbrotum og kynþáttum. Margir telja að viss menningarleg eins- leitni sé enn við lýði í Bandaríkjunum, hvað sem frjálslyndum hugmyndum um sambúð kynþátta og þjóðarbrota líður, og er bent á mótandi áhrif fjölmiðla í því sambandi. Þol bandarísku þjóðarinnar gagnvart mismun kann líka að vera ofmetið því ekki er langt síðan miklar kynþáttaóeirðir urðu í Kali- forníu. Bandaríski félagsvísindamaðurinn Dominic J. Pulera sagði ennfremur frá því í fyrirlestri við Háskóla Íslands 31. mars sl. að Bandaríkjamenn af armenskum uppruna hefðu orðið fyrir aðkasti eftir hryðjuverkin 11. september 2001 vegna þess að þeim þótti svipa til þeirra sem taldir voru bera ábyrgð á ódæðunum. Enn er því verk fyrir höndum vestra þótt töluvert hafi áunnist. Kanadamenn hafa farið allt aðra leið í sinni fjölmenningarpólitík. Þeir tala um mósaík þegar fjallað er um sambúð kynþátta og þjóðarbrota. Þjóðin sé eins konar mósaík- mynd, samsett úr mörgum einstökum flísum. Þetta líkan hefur þann kost að hverjum hóp eru sköpuð pólitísk og félagsleg skilyrði til að blómstra. Vestur-Íslendingar virðast gott dæmi um árangur þessarar stefnu, þeim tókst að halda að töluverðu leyti í rætur sín- ar meðfram því sem þeir lögðuðu sig að nýju samfélagi. Við Íslendingar erum afar stoltir af Vestur-Íslendingum fyrir þessar sakir og samkvæmt því ætti mósaíkmódelið að höfða sérstaklega til okkar við mótun stefnu um sambúð við nýbúa. Á Norðurlöndum hefur sambærileg leið verið farin í seinni tíð. Þar hefur móttaka út- lendinga miðast við að þeir geti tekið sem virkastan þátt í samfélaginu en sé jafnframt gert kleift að halda sérkennum sínum (þetta er í samræmi við það hvernig Íslendingar hegða sér erlendis). Mikilvægur liður í því er virðing fyrir tungumáli og menningu inn- flytjandans og þess vegna hefur honum verið boðin kennsla í móðurmálinu auk leiðsagnar í norðurlandamálinu. Á Íslandi eiga nýbúa- börn nú rétt á íslenskukennslu en þó er varla nokkurt námsefni til sem er sérhannað handa nýbúum, s.s. handa þeim sem ekki eru aldir upp við vestrænt stafróf. Börnunum er ekki boðin nein kennsla í máli foreldranna eins og æskilegt væri því rannsóknir sýna að færni í móðurmáli er undirstaða þess að vel gangi að læra annað tungumál. Smæð sam- félags okkar gerir okkur erfitt fyrir í þessum efnum enda ku tungumál nýbúa vera farin að nálgast hundraðið. En hvaða leið sem farin verður við að mennta nýbúa skiptir óend- anlega miklu máli að vel takist til. Það er t.d. afar brýnt að eðlilegt hlutfall nýbúa sæki sér æðri menntun því ella er hætt við að þeir festist í stétt sem við viljum síður búa til. Mikið í húfi Öll almenn umræða um fjölmenningu er á byrjunarstigi hérlendis. Á vegum einstakra ráðuneyta og sveitarfélaga hefur verið lagt í nokkra stefnumótunarvinnu en almenningur virðist enn afar illa að sér um málefni inn- flytjenda og þá er oft stutt í fordóma. Kraf- an um menningarlega einsleitni er enn há- vær meðal hins hvíta meirihluta og birtist síðast í reglugerð um að nýbúar þurfi að sitja námskeið í íslensku á sinn kostnað. Að vísu eru flestir sammála um nauðsyn þess að innflytjendur læri íslensku en þeir sem fyrir eru í landinu þurfa líka að koma til móts við þá með ýmsum hætti. Í Bandaríkjunum hef- ur markvisst verið unnið að því að bæta stöðu minnihlutahópa með aðgerðum á borð við jákvæða mismunun (affirmative action) enda sýnir sagan að stöðugt þarf að halda vöku sinni í þessum efnum. Hér erum við ennþá fremur ómeðvituð um þessi mál og því er brýnt að gera átak í fordómafræðslu með- al almennings með það fyrir augum að gera okkur litblind, litarháttur skipti ekki máli í samskiptum fólks. Ef vel tekst til munu Íslendingar njóta margs konar ávinnings af komu innflytjend- anna. Halldór Laxness segir í bókinni Af menníngarástandi að heimamenn séu „oft miður hæfir til að skynja heild þá, sem þeir hrærast meðal, í ólitaðri birtu, það er að segja hlutdrægnislaust“. Þarna geta nýbú- arnir orðið að liði og sagt okkur Íslendingum hver við erum í raun – við sem erum orðin svo samdauna hvert öðru að við erum flest náskyld – því ef við viljum fá greinagóð skil á einkennum annarra þjóða verður niður- staðan oft sú „að erlendir menn hafi séð þar margt og skilið skarplegar en þær sjálfar“, eins og Sigurður Nordal segir í Íslenskri menningu. Salman Rushdie hefur bent á að innflytjandinn kunni að vera allra manna glöggskyggnastur því hann búi yfir því sem kalla megi tvísæi, hann sjái í stereó, til tveggja heima í senn. Innflytjandinn lifir á mörkum menningarheima sem oft eru ill- samrýmanlegir, þarf stöðugt að þýða sig á milli þeirra, og er því ofurmeðvitaður um eðliseinkenni þeirra. Sumt tapast í þýðingu en þó má ekki líta á innflytjendur eingöngu sem félagsmálapakka, útgjöld og vandamál, því þegar tveir heimar koma saman verður nefnilega til eitthvað nýtt, eins og þegar karl og kona, eins ósamrýmanleg og þau geta verið, koma saman og geta barn. Það verður til eitthvað nýtt og spennandi og þess á örugglega eftir að gæta í menningarlífi landsins á næstu áratugum. Sem þjóð þurfum við Íslendingar hins veg- ar að gera upp við okkur hvernig við ætlum að höndla þá breytingu sem er að verða á samsetningu landsmanna. Afstaða þjóðarinn- ar getur hér skipt sköpum eins og sagan sýnir og Guðmundur Hálfdanarson rekur í bók sinni Íslenska þjóðríkið. Ljóst er að tungumálið nægir ekki lengur til að skil- greina Íslendinga, ekki heldur blá augu og ljóst hár, hvað þá upprunamýtur okkar. Nýbúar geta upplifað dæmigerða íslenska þjóðernisstefnu sem útskúfun, ógnun eða jafnvel hreina móðgun. Þess vegna þurfum við að sameinast um líkan sem tryggir eðli- lega og uppbyggilega sambúð menningar- heima innan þjóðríkis okkar. Við þurfum að skilgreina okkur sem þjóð með öðrum hætti en áður og yfirvinna óttann við þá sem stinga í stúf við hinn hefðbundna Íslending. Umfram allt þurfum við að gæta þess að ýta ekki hinum nýju þjóðfélagsþegnum út á jað- ar samfélagsins og skapa með því móti eins konar aðskilnaðarstefnu; þá tapa allir. Það er gríðarlega mikið í húfi því grund- vallarbreytingar eru að verða. Ef við vinnum þetta með handarbökunum er hætt við að okkur verði grimmilega refsað eftir nokkur ár. Þá er líka viðbúið að við náum ekki að virkja þann auð sem í hinum nýju Íslend- ingum býr, að upp komi erfið félagsleg vandamál og samfélag okkar verði ekki eins viðfelldið og það gæti orðið. Þess vegna skiptir óendanlega miklu máli að við lærum að meta það sem hinir nýju íbúar hafa fram að færa og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að þeim líði vel í sínum nýju heimkynnum. Besta leiðin til þess er að gera þeim kleift að njóta sín. Helstu heimildir aðrar en þær sem getið er í greininni Ronald Takaki: A Different Mirror: A History of Multicultural America, Boston, Little, Brown and Company 1993. David Theo Goldberg (ritstj.): Multiculturalism: A Critical Reader, Oxford og Cambridge, Blackwell Publishers 1996. Um stöðu og þátttöku útlendinga í íslensku samfélagi, álit nefndar um málefni útlendinga, menntamálaráðu- neytið 1997. NN NÚTÍMANS Morgunblaðið/Finnur Ampoamrat Pansean hjálpar frænku sinni, Suphansa Phongsa, að undirbúa sig fyrir dansatriði á þjóðahátíð á Vestfjörðum. Höfundur er rithöfundur og háskólakennari. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. APRÍL 2003 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.