Lesbók Morgunblaðsins - 26.04.2003, Side 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. APRÍL 2003
Þ
AÐ var fyrri hluta sumars 1938,
rúmu ári áður en seinni heims-
styrjöldin braust út, að ég
fermdist. Ég átti heima á Vað-
brekku í Hrafnkelsdal í Jökul-
dalshreppi, næstelst tíu systk-
ina. Kirkjan okkar er á
Eiríksstöðum. Það er ekki löng
leið milli bæjanna ef loftlínan er mæld, en
þessi leið var þó ekki fljótfarin 1938.
Kirkjuferð þurfti jafnan að undirbúa með
nokkrum fyrirvara. Hestarnir voru sóttir
daginn áður og hafðir heima yfir nóttina. Ótal
mörgu þurfti að huga að; þvo og pressa spari-
fötin af fólkinu og ganga frá því öllu að
kveldi, því næsta dag varð að taka snemma.
Ég vaknaði snemma þennan sunnudags-
morgun. Mér var órótt innanbrjósts. Ég vissi
ekki hvort ég kveið fyrir eða hlakkaði til. Það
átti jú eitthvað merkilegt að gerast í lífi
mínu. Skyldi eitthvað breytast? Ég gekk út á
hlað. Veðrið var yndislegt, logn og glaða-
sólskin. Allt var eins og venjulega. Fiskifluga
suðaði á bæjarþilinu. Fyrir vitin lagði ilm af
nýsleginni töðu. Pabbi hafði byrjað að slá í
kringum bæinn í gær, en hann hóf alltaf slátt
á laugardegi. Áin Hrafnkela leið fram með
sínum venjulega róandi klið, tær og glitrandi
í sólargeislunum.
Ekki angraði undirvitundina sú hugsun
sem sækir á huga barna í dag. Hvað fæ ég í
fermingargjöf? Þá var ekki hugsað um gjafa-
pakka í glansandi umbúðum. Ég var fyrir
löngu búin að fá fermingargjöfina frá
mömmu og pabba. Þau höfðu þann hátt á að
gefa okkur fermingargjöfina þegar við höfð-
um lokið fullnaðarprófi, en það fór fram um
mánaðamót apríl–maí. Þá gáfu þau okkur sex
ær, loðnar og lembdar, og einn gemling. En
þessari eign fylgdu þær kvaðir að við yrðum
heimavinnandi á búinu. Launin yrðu ágóðinn
af fjáreigninni. Þegar við hefðum svo eignast
nægan sjóð til að kosta okkur til náms skyld-
um við fara í skóla, til að ná einhverri
fræðslu. Ég hef oft á seinni árum kallað þetta
„fimm ára áætlun“.
Nú dugði ekki að slóra. Mér leið vel, hafði
öðlast sálarró við að njóta fegurðarinnar úti.
Ég dreif mig inn aftur. Það urðu allir að
hjálpast að við undirbúning ferðarinnar. Þeg-
ar svo allt var tilbúið, var lagt af stað. Spari-
fötin voru flutt í hnakktöskum, samanbrotin
og vel frá gengin.
Hægt og rólega silaðist þessi hópur af stað
eftir troðnum götuslóðum. Öll kennileiti
höfðu nöfn. Fyrst fórum við Torfur, þá Sand-
inn fyrir ofan Melhólana, en þar var hægt að
greikka sporið. Síðan kom að Hrafnkelu. Það
var farið yfir hana á vaði skammt frá þar sem
hún fellur í Jökulsá. Þegar komið var yfir ána
var farið upp á Gerðishöfða. Nokkrar kindur
stukku upp úr laut, þar sem þær höfðu lagt
sig í skugga. Nei sko! Þarna er hún þá, hún
Maga mín, uppáhaldsærin mín. Hvít á bak-
inu, en svört á maganum. Með báðar gimbr-
arnar sínar. Svona fallegar. Þær skal ég setja
á í haust. Þær skulu ekki fara í sláturhúsið!
En hvað þá með „sjóðinn“ og skólagönguna?
Nei, ég sleppi öllum skólum heldur en að
farga þessum fallegu lömbum. Við höfðum
silast áfram, komin niður í Teig. Hvað er ég
að hugsa? Ég verð að snúa mér að því sem er
framundan í dag! Mér verður litið yfir Jök-
ulsána þar sem hún beljar fram, kolmórauð
og ógnandi. Þarna fer hópur manna ríðandi
og fer greitt; auðvitað bæði frá Brú og Heið-
arseli. Það verður margt manna við kirkju í
dag. Best fyrir mig að hugsa um trúarjátn-
inguna svo mér fatist ekki í kirkjunni þegar
allt þetta fólk situr og hlustar. Næst komum
við að Hölkná. Þar verður að fara ofur ró-
lega. Hún rennur í djúpu gili og stórgrýttur
botn á vaðinu. Allir komast samt yfir án telj-
andi áfalla. Þegar komið er upp úr gilinu eru
allar torfærur að baki, rennisléttar grundir
alveg út að kláf. Þá er ærlega slegið í og farin
hraðferð. Mikill og skemmtilegur þótti mér
sá hraði. Þess ber að geta að ég hafði aldrei
séð bifreið þegar þetta var, hvað þá ferðast
með slíku tæki.
Við kláfinn er stigið af baki, sprett af hest-
unum og þeir heftir svo þeir strjúki ekki
heim á meðan við erum á kirkjustaðnum. Nú
er komið að þeim ferðamáta sem víðast hvar
er aflagður í dag; að fara yfir Jökulsá í kláfi.
Kláfurinn er kassi sem fjögur hjól eru fest
utan á. Hann rennur eftir vírum sem
strengdir eru yfir ána og rækilega festir í
grjótvörður sitt hvorum megin árinnar. Það
er mikill léttir þegar allir eru komnir yfir.
Oftast einn eða tveir í kassanum í hverri ferð,
horfandi niður í ólgandi strauminn.
Næst er farið heim í bæ á Eiríksstöðum til
að hafa fataskipti. Ég fór í hvítan silkikjól
með púffermum, sem mamma hafði saumað á
mig, í silkisokka og skó með hælum, en það
var alveg nýtt fyrir mér. Ég hafði þó aðeins
æft mig á hælaskónum heima. Það lá við að
ég væri feimin, svona rosalega fín.
Við vorum sex börn sem fermdumst saman
þennan dag; þrír drengir og þrjár stúlkur.
Drengirnir voru Stefán Pálsson á Aðalbóli,
Jón Haraldsson í Möðrudal á Fjöllum og
Gunnlaugur Snædal á Eiríksstöðum og stúlk-
urnar voru Gunnhildur Hjarðar í Hjarðar-
haga, Lára Lárusdóttir í Sænautaseli í Jökul-
dalsheiði og ég. Presturinn okkar var séra
Sigurjón Jónsson á Kirkjubæ í Hróarstungu.
Hann hafði frætt okkur um kristindóminn og
búið okkur undir ferminguna. Hann var
greindur maður og flutti ávallt góðar ræður.
Ræðan sem hann hélt þegar hann fermdi
okkur hefur verið mér minnisstæð æ síðan.
Hann bað okkur blessunar og óskaði þess að
við yrðum sólarmegin í lífinu. Svo sagði hann:
„Það er ekki nægilegt að hafa eintómt sól-
skin. Jurt sem fær aðeins sólarhita visnar og
deyr. Hún þarf einnig regnskúri til að dafna
og þroskast.“ Ég skildi þetta afar vel þá,
vegna þess að það var oft svo þurrviðrasamt í
Hrafnkelsdalnum og þá léleg grasspretta.
Seinna á ævinni hef ég oft hugsað um
þessa spekiríku ræðu. Einkum þegar á móti
hefur blásið. Þá hugsa ég um regnskúr; nú sé
best að axla þessa ábyrgð og ganga í gegnum
erfiðleikana án þess að láta þá buga sig, þetta
sé hinn nauðsynlegi regnskúr. Þannig full-
yrði ég að séra Sigurjón hafi lagt mér gagn-
lega lífsreglu um leið og hann fermdi mig.
Eftir messuna var veislukaffi á kirkju-
staðnum, eins og ævinlega. Það var tvíbýli á
Eiríksstöðum, kaffi á báðum búum og skipt-
ist fólk á milli búa eftir því frá hvaða bæjum
það kom.
Þegar öllu þessu tilstandi var lokið var
haldið heim. Það var ævinlega mikill léttir
þegar komið var yfir í kláfnum. Ég var með
þeim fyrstu yfir og fór að sækja hestana, sem
höfðu komist býsna langt í höftunum. Ég
hugsaði um liðinn dag, sem hafði verið eins
og yndislegt ævintýri. En nú var allt orðið
eins og áður. Mér fannst ég ekkert öðruvísi
en í morgun. Ég var komin í gallabuxur,
peysuna og gúmmískóna. Ég gekk eftir
þurru mólendinu. Það skrjáfaði í lynginu
undir fótunum þar sem ég gekk. Ég óskaði
þess að það færi að rigna.
FERMING
Á JÖKUL-
DAL 1938
Barnahópurinn á Vaðbrekku árið 1934. Fremri röð frá vinstri: Guðlaug, Sigrún, Aðalsteinn, Stefán og Jón Hnefill. Aftari röð frá vinstri: Ragnhildur
(í fangi Guðrúnar), Guðrún og Jóhanna. Foreldrar barnanna hétu Aðalsteinn Jónsson og Ingibjörg Jónsdóttir.
Eiríksstaðakirkja á Jökuldal.
E F T I R J Ó H Ö N N U A Ð A L S T E I N S D Ó T T U R F R Á VA Ð B R E K K U
Hér er rifjuð upp ferming frá árinu 1938 í
afskekktri, íslenskri sveit. Þá var ýmislegt
öðruvísi en nú er við sömu tækifæri.
Höfundur er húsfreyja.