Lesbók Morgunblaðsins - 26.04.2003, Síða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. APRÍL 2003 9
L
JÓSATÍMI er síðasta bindi ævisögu
Sigurðar A. Magnússonar sem
hófst með útkomu metsölubókar-
innar Undir kalstjörnu árið 1979.
Fyrstu fimm bindi ævisögunnar
kallaði Sigurður uppvaxtarsögu en í
þeim hét aðalsöguhetjan Jakob og
raunar var enginn nefndur sínu
rétta nafni í þeim bókum. Síðasta bindi upp-
vaxtarsögunnar nefnist Úr snöru fuglarans og
kom út árið 1986 en síðan varð langt hlé uns
Sigurður hélt áfram að skrifa ævisögu sína á
síðari hluta tíunda áratugarins. Með hálfum
huga kom út árið 1997, Undir dagstjörnu 2000,
Á hnífsins egg 2001 og nú Ljósatími. Í síðustu
fjórum bindunum nefnir Sigurður persónur
sínum réttu nöfnum.
Undirtitill Ljósatíma er Einskonar uppgjör
en þar er fjallað um viðburði áranna frá því um
1980 og til þessa dags. Sigurður segir frá af-
skiptum sínum af þjóðmálum, ekki síst ýmiss
konar menningar- og bókmenntastarfi, hann
segir frá ferðalögum sínum og samskiptum við
konurnar í lífi sínu. Sigurður liggur ekki á skoð-
unum sínum um menn og málefni og er á stund-
um afar opinskár.
Í kategóríu Þórbergs
Sigurður hóf ritun ævisögunnar í Berlín 4.
janúar 1979. Hún er fyrst og fremst byggð á
minni og persónulegum heimildum sem Sig-
urður hefur safnað í gegnum tíðina. Hann seg-
ist hafa fengið hugmyndina að ævisögunni á
námskeiði um James Joyce þegar hann var við
bókmenntanám í New York.
„Joyce skrifaði bók um ævi sína og lét hana
gerast á einum degi. Ég fór að velta því fyrir
mér hvort það væri virkilega hægt að koma æv-
inni fyrir í einni bók. En auðvitað er það ekki
hægt. Það sem stendur í bókum er ekki nema
reykurinn af réttunum.“
Þú kallar fyrstu fimm bindin skáldsögur í
Ljósatíma. Í bókinni rifjar þú líka upp fyrirlest-
ur þar sem þú fjallar um rúm orðsins sem þú
segir „öðru fremur hugarástand sem eftir at-
vikum er meira eða minna bundið því tímanlega
rúmi sem hver einstaklingur hefur til umráða á
afmörkuðu æviskeiði“. Líf og skáldskapur
verða með öðrum orðum varla aðskilin?
„Nei, við erum sífellt að umorða reynslu okk-
ar, bæði í ævisögum og skáldsögum. Ég ætlaði
að verða skáldsagnahöfundur og skrifaði skáld-
sögu árið 1961 sem hét Næturgestir. En síðan
fann ég það fljótlega að ég var í kategóríu Þór-
bergs – ég get ekki búið til hreinan skáldskap
úr minni reynslu. Ég verð alltaf að halda mig
nærri lífinu sjálfu í því sem ég skrifa. Það
breytir því samt ekki að allar minningar eru
skáldskapur. Það er enginn samfelldur, rökleg-
ur þráður í mannsævi. Hún samanstendur af
tilviljunum. Þegar maður umorðar ævi sína
fellir maður hana í röklegt samhengi, býr til
skáldskap. Sumir skálda meira en aðrir. Búa til
annan sig. Hemingway, sem ég er að þýða
núna, skrifaði til dæmis iðulega um sjálfan sig
en hann laug ótrúlegustu sögum upp á sig sem
síðan hafa lifað. Sagan um það þegar hann
særðist í heimsstyrjöldinni fyrri er til dæmis
uppspuni frá grunni.“
Glíma við mótsagnir
En hvers vegna ákvaðstu að breyta um kúrs í
seinni bókunum og hætta að skrifa skáldsögu
um Jakob og fara að skrifa ævisögu um Sigurð
A. Magnússon?
„Mér þótti auðveldara að búa til skáldskap
úr bernskunni og æskunni en fullorðinsárun-
um. Fleiri hafa rekið sig á þetta, til dæmis sést
það greinilega á síðasta bindi Fjallkirkjunnar
eftir Gunnar Gunnarsson að fullorðinsárin voru
ekki jafn gott efni í skáldverk og æskan.“
Ertu sjálfur ánægður með útkomuna?
Finnst þér þráðurinn frá fyrstu til síðustu bók-
ar vera óslitinn?
„Já, ég held að mér hafi tekist að búa til þráð
úr ævi minni sem þarf auðvitað ekki að vera
réttur. Ég vitna í Aldous Huxley fremst í bók-
inni en hann talaði um að ævin væri samspil
ósamþýðanlegra þátta. Það eru endalausar
mótsagnir í lífi manns og manni sjálfum. Ég
glími við þær í þessum bókum.“
Hverjar eru þessar mótsagnir í lífi þínu?
„Maður vill eitt, en gerir eitthvað annað. Ég
held ég hafi til dæmis verið mjög upptekinn af
að finna hina einu sönnu ást allt frá unglings-
árum, og tel mig stundum hafa fundið hana, en
það var eins og mér væri ekki sjálfrátt þegar á
hólminn var komið og ég þurfti að sanna ást
mína í verki. Þá gat allt eins verið að ég hlypi út
undan mér og kæmi sjálfum mér á óvart. Mót-
sagnirnar í lífi mínu má vitaskuld rekja til með-
fædds marglyndis sem ég hef sjaldan náð að
hemja. Marglyndi felur bæði í sér kosti og lesti.
Ég hefði gjarna viljað vera einlyndur, en úr því
ég er marglyndur hef ég að mínum hætti notið
þess, sem merkir ekki að ég sé sáttur við allt
sem það hefur leitt af sér.“
Sálarlíf karlmanns
Í ritdómum um bækurnar er mjög algengt að
talað sé um hreinskilni um viðkvæm persónu-
leg mál og fyrir vikið séu þær ekki síður heim-
ild um sálarlíf einstaklings en menningarlíf og
þjóðlíf. Hugsaðir þú bækurnar sem heimildir
um sálarlíf karlmanns á tuttugustu öld?
„Ég hafði það ekki beinlínis í huga og býst
við að það sé misjafnt frá bók til bókar hver
áherslan er. Í næstsíðustu bókinni er til dæmis
lítið fjallað um sálarlífið og ástalífið en meira
um þjóðfélagsleg málefni og ýmiss konar
menningarstarf. Í Ljósatíma reyni ég svo að
gera upp sjálfan mig og allar tilviljanirnar sem
hafa ráðskast með líf mitt.“
Á einum stað talar þú um forlagatrú, að þetta
hafi allt verið ákveðið fyrirfram.
„Já, forlagatrúin hefur fylgt mér alveg frá
því ég var barn. Móðir mín dó þegar ég var níu
ára en ég hafði það alltaf á tilfinningunni að hún
vekti yfir okkur systkinunum. Maður þorði
ekki að ljúga vegna þess að þá vorum við viss
um að mamma færi að gráta.“
Þú ert líka hreinskilinn um annað fólk, ert oft
afar gagnrýninn og hikar heldur ekki við að
vitna í tveggja manna tal. Það hefur ekki vafist
fyrir þér?
„Það vafðist kannski ekki fyrir mér en stund-
um hefur þetta verið mistúlkað. Ég skil það
ekki. Ég segi stundum frá hlutum til þess að
varpa skýrara ljósi á persónur. Hálfsystir mín
hafði samband við mig eftir að fyrsta bindið
kom út og sagðist aldrei mundu tala við mig aft-
ur vegna þess hvernig ég fjallaði um föður okk-
ar. En ég er að lýsa honum eins og ég upplifði
hann og get ekki annað. Henni þótti reyndar ég
fara mýkri höndum um hann í öðru bindi og
sættist við mig. Mér hefur ekki þótt nein
ástæða til þess að hætta að tala opinskátt um
samskipti mín við fólk eftir að ég tók að nefna
það sínum réttu nöfnum. Fólk vissi svo sem um
hverja var að ræða í fyrri bindunum og mér
þykir nauðsynlegt að reyna að varpa sem skýr-
ustu ljósi á persónur og atburði.“
Þetta tengist kannski því að þú segist ekki
geta búið til skáldskap úr reynslu þinni?
„Nei, ekki hefðbundinn skáldskap, en vitan-
lega er lýsing mín á veruleikanum og öðru fólki
skáldskapur í þeim skilningi, að veruleikinn
verður aldrei bundinn í orð og allar tilraunir til
að gera það verða einhver tegund skáldskapar.
Þegar ég segist vilja varpa sem skýrustu ljósi á
persónur og atburði merkir það í reynd að ég
vilji leitast við að lýsa viðbrögðum mínum við
umhverfinu þannig að það varpi ljósi á eigin til-
finningar og hugsanir.“
Passaði ekki inn í kerfið
Kaldastríðið er eins og rauður þráður í gegn-
um síðari bindi ævisögunnar. Myndirðu segja
að það hefði mótað þig?
„Já, það mótaði mig. Ég er alinn upp í
KFUM og var því andvígur öllum kommún-
isma frá bernsku. Það var samt alltaf verið að
klína því á mig að ég væri laumukommi og ég
veit ekki hvað og hvað. Ég var í Bandaríkj-
unum á McCarthy-tímanum en skuggalegt
andrúmsloftið náði ekki inn í háskólana.
Bandarísku blöðin voru líka sjálfstæð. Í þeim
fór fram opin og gagnrýnin umræða. Og ég
vildi að þannig yrði það hérlendis líka – að um-
ræðan færi fram inni á blöðunum, ekki bara á
milli þeirra. En menn komust ekki upp úr
þessu fari hér. Ég var til að mynda álitinn vera
verkfæri íhaldsins vegna þess að ég vann á
Morgunblaðinu og þeir sem voru óánægðir með
gagnrýni mína hér á blaðinu töldu mig vera
laumukomma. Þetta fór í taugarnar á mér og
mótaði mig auðvitað.
Tilkoma Keflavíkursjónvarpsins breytti síð-
an öllum mínum viðhorfum. Mér leist ekki á að
Bandaríkjamenn legðu landið undir sig með
þessum hætti, að Ísland yrði bandarísk menn-
ingarnýlenda. Og þar með var ég orðinn „per-
sona non grata“ hér á blaðinu. Á meðal vinstri-
manna var ég alltaf grunaður um græsku. Ég
passaði ekki inn í kerfið. Ég datt alltaf á milli
stóla. Þetta var skrýtið ástand.“
En hver finnst þér eftirköst kaldastríðsins
vera?
„Það virðist því miður þurfa að vera þannig
að einhver tvö öfl vegist á í heiminum. Eftir að
kommúnisminn féll sneru menn sér að araba-
heiminum. Það er því ekki beinlínis friðvæn-
legra nú en var á kaldastríðstíma.“
Hefði kannski átt að
halda mig við ljóðin
Þú gagnrýnir íslenska menningarstefnu
mjög harðlega í nýjustu bókunum. Þú fjallar oft
um hana í ljósi þess dilkadráttar sem átti sér
stað í kaldastríðinu.
„Já, það örlaði á því fyrir tuttugu þrjátíu ár-
um að allir almennilegir listamenn væru ann-
aðhvort kommar eða nytsamir sakleysingjar og
því vildu stjórnvöld ekkert hafa með þetta lið að
gera. Þetta hefur breyst. En vitleysan sem tek-
ur við er ekki skárri. Fólk er búið að bíða eftir
tónlistarhúsi í tvo áratugi en síðan er ákveðið
að reisa innanhússsundlaug í Laugardalnum
fyrir milljarða. Menningin er alltaf látin sitja á
hakanum. Ég veit ekki hvaðan þessi hugsunar-
háttur kemur en hann er mjög sterkur hér.“
Hvað finnst þér þú hafa lært af þessari glímu
við að færa líf þitt í orð?
„Niðurstaðan er fyrst og fremst sú að það sé
ekki hægt að færa lífið í orð. Og þegar ég lít aft-
ur hugsa ég með mér að kannski hafi það verið
vitlaust val að skrifa prósa, kannski hefði ég átt
að halda mig við ljóðin en ég byrjaði sem ljóð-
skáld. Það hefði ef til vill orðið eitthvað merki-
legra úr þessu ef ég hefði haldið áfram að yrkja
ljóð.“
Finnst þér að þú hafir tapað skáldskapnum í
þessari glímu?
„Það má kannski segja það. En maður átti
kannski ekkert val. Það var erfitt að eiga fjöl-
skyldu og vera blaðamaður á sjöunda og átt-
unda áratugnum. Maður var í fullu starfi sem
blaðamaður en síðan tók maður að sér öll auka-
störf sem buðust til þess að geta framfleytt sér
og sínum. Frítíminn fór því í slík störf.“
Hefur gengið á ýmsu
Þegar horft er yfir öll bindin er óhætt að
segja að þú sért að lýsa stormasamri ævi. Ertu
sammála því?
„Já, það hefur gengið á ýmsu. Ég sé samt
ekki eftir mörgu. Mér finnst ég hafa lifað auð-
ugu lífi. Ég hef fengist við mjög margt. Ég hef
fengið ótrúleg tækifæri til að ferðast. Maður
hefði ekki trúað því sem gamall póla- og
braggabúi að maður ætti eftir að fá öll þessi
tækifæri.“
Hvað finnst þér hafa verið afdrifaríkast í lífi
þínu?
„Bæði það að ég lenti fyrir tilviljun í Grikk-
landi og lærði grísku, sem breytti miklu í lífi
mínu, og hitt að ég fór til náms í Bandaríkj-
unum. Dvölin þar hafði gífurleg áhrif á mig. Ég
hlaut góða menntun og bandaríska kerfið átti
mjög vel við mig og kenndi mér margt. Þótt ég
hafi oft verið andvígur stjórninni í Washington
hef ég alltaf verið mjög hlynntur því kerfi sem
Bandaríkin byggjast á.“
Þú segir í lokaorðum Ljósatíma að langvinn
og stundum tvísýn baráttan við að koma minn-
ingabrotunum á blað hafi gætt árin sem til
hennar var varið tilgangi og lífsfyllingu sem
mönnum á þínum aldri veitist ekki að öllum
jafnaði. Heldurðu að þú eigir eftir að sakna
vinnunnar við ritun ævisögunnar?
„Já, ég hugsa það. En kannski lifi ég í tutt-
ugu ár í viðbót og þá verður komið efni í eitt
bindi í viðbót.“
HEF SJALDAN NÁÐ AÐ
HEMJA MARGLYNDIÐ
„Já, það hefur gengið á
ýmsu,“ segir Sigurður A.
Magnússon í samtali við
ÞRÖST HELGASON um
síðasta bindi ævisögu
sinnar, Ljósatíma, sem ný-
lega kom út. Sigurður
ræðir um glímu sína við
að færa lífið í orð á níu
bókum, mótsagnirnar í
sjálfum sér, marglyndið,
kaldastríðið og fleira.
Morgunblaðið/Sverrir
„Ég held ég hafi til dæmis verið mjög upptekinn af að finna hina einu sönnu ást allt frá unglings-
árum, og tel mig stundum hafa fundið hana, en það var eins og mér væri ekki sjálfrátt þegar á
hólminn var komið og ég þurfti að sanna ást mína í verki.“
throstur@mbl.is