Lesbók Morgunblaðsins - 17.05.2003, Síða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 17.05.2003, Síða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. MAÍ 2003 5 Frá öllu þessu fer ég einn. Frá bekknum sem ég sit á, frá buxum mínum, frá stöðu minni, frá gerðum mínum, frá ætlunarverkum sem eru að engu orðin, frá öllu þessu fer ég einn. Frá Champs Élysées eða gönguferðum á stígnum undarlega Rue de la Lune heldur dauði minn, heldur vagga mín og umkringdur fólki, einn, frjáls reikar mannlegur svipur minn og fellir skugga sína hvern af öðrum. Og ég fer burt frá öllu og allt minnir á fjarveru mína: skórnir mínir, reimagötin, einnig forin jafnvel krumpurnar í handarkrikanum á hnepptri skyrtunni. CÉSAR VALLEJO JÓHANN HJÁLMARSSON ÞÝDDI César Vallejo (1892–1938) var skáld frá Perú. PARÍS Í OKTÓBER 1936 aðist á Ezra Pound sem endurnýjaði vestrænt ljóðform í byrjun síðustu aldar með því að kynna sér forn kínversk og japönsk ljóð; hugtakið tím- inn er hvergi eins afstætt og í skáldskap. Í fyrsta þýðingarsafninu, Af greinum trjánna, þýðir Jóhann tvö kvæði eftir gamla skrögginn Walt Whitman, og nær einkar góðu sambandi við hann í Það kvöld sem ég frétti – kvæði sem minnir okkur á að hundrað ára gamall skáld- skapur getur hæglega borið með sér nýjan söng. En það eru líka nútímaskáld í Af greinum trjánna; Jóhann glímir við kvæði eftir Salvatore Quasimodo, Pablo Neruda, Georg Trakl, Lorca – allt skáld sem báru með sér nýja tíma, og síðan róttækt skáld frá Brasilíu, Jorge De Lima: Við munum kalla þann sem stríðið át næstum upp til agna og skildi aðeins eftir brot af beinum hans á akrinum. Og hann mun hlaupa hraðar en ljósið. Það er ekkert áhlaupaverk að þýða Lorca; torvelt að ná andblænum í ljóðum hans, eins og Berglind Gunnarsdóttir benti á í Skírnisgrein um þýðingar á spænska skáldinu: „Af allri hans merku skáldakynslóð smýgur hann liðlegast undan tökum þýðenda. Þess vegna þýða menn hann svo áberandi ólíkt; það skapar hver sinn Lorca.“ Jóhann þýðir fjögur kvæði eftir Lorca og nær fallegasta hljóminum í Dauði um morgun – þar fær styrkur Jóhanns að njóta sín, einfaldleiki í bland við súrrealíska skynjun: Ég leita að sporum eftir varir þínar á hörundi mínu . . Nótt með fjögur túngl og eitt tré Á nálaroddi snýst ást mín Falleg þýðing, en ekki nákvæm; Hann dó í dögun væri „réttari“ þýðing á heiti ljóðsins, auk þess sem Jóhann fellir út orðið sola (einmana), en það er endurtekið reglulega á spænskunni. Það má hinsvegar lengi skemmta sér við að bera saman ólíkar þýðingar manna á kvæðum Lorca; eitt þeirra nefnir Jóhann Saungur riddarans, sama kvæðið heitir Kveðið á hestbaki hjá Helga Hálfdanarsyni en Söngur reiðmannsins hjá Guðbergi Bergssyni. Á einum stað í kvæðinu talar Lorca um jaca negra; Helgi þýðir það sem blakkan klár, Jóhann sem lítinn svartan hest en Guðbergur kýs að hafa svarta hryssu. Hvað skyldi eiga best við? Fjögur Ellefu ár liðu þar til Jóhann sendi frá sér Hill- ingar á ströndinni, og sjálfsagt að taka það strax fram að sú bók er talsvert jafnari og betri en Af greinum trjánna; valið á skáldum og kvæðum markvissara, ljóðmálið fallegra, öruggara – hér eru síðustu tvö erindin úr Það sem er vont eftir þýska skáldið Gottfried Benn: Afleitt: að þiggja boð þegar heima er kyrrlátara, kaffið betra og samræður óþarfar. Verst af öllu: að deyja ekki á sumrin þegar bjart er yfir öllu og létt að taka gröf. Hillingar á ströndinni er jafnasta bók Jó- hanns Hjálmarssonar sem ljóðaþýðanda. Það er bók sem nötrar af skáldskap, maður tekur hana með sér í ferðalög, í flugvél, í strætó, þegar mað- ur fer á milli herbergja, hún er á náttborðinu – hinn besti skáldskapur. Það eru tuttugu og níu skáld í bókinni, þrjú bandarísk, tuttugu og sex evrópsk. Norræn skáld, einkum sænsk, eru áberandi í þýðingar- söfnum Jóhanns, hér eru þau sex og leggja und- ir sig þriðjung bókarinnar. Við Íslendingar höf- um undarlega afstöðu til þess sem hefur hlotið samheitið norrænar bókmenntir. Ég nefni sænskt skáld og það er geispað. Ég segi norskur skáldskapur, og einhver réttir mér lambhús- hettu. Hér má alveg tala um vanþekkingu eða öf- ugsnúinn heimóttarskap, því sannarlega kemur rismikill skáldskapur frá Skandinavíu, og hann hefur sett svip sinn á höfunda okkar; Hamsun mótaði Halldór Laxness og þarafleiðandi ís- lenska bókmenntasögu. Ég þarf vonandi ekki að nefna Heinesen eða Strindberg – og „hvernig hefði Jón úr Vör ort“ spyr Gunnar Harðarson í Ljóðaárbók 1989 „ef hann hefði aldrei lesið neitt eftir sænsk öreigaskáld? Eða atómskáldin ef þau hefðu aldrei kynnst verkum eftir önnur skandínavísk skáld …“ Ég neita því þó ekki að stundum hefði maður kosið að Jóhann hefði þýtt ögn færri ljóð eftir norræna höfunda og fleiri eftir Gottfried Benn eða Paul Celan; en í Hill- ingum á ströndinni stígur hann þó varla feilspor í vali á sænskum skáldum. Engu ofaukið, þetta eru stórskáld, sumir hálfgerðir jötnar eins og Aspenström eða þá Gunnar Ekelöf: Hafðu aðgát. Engin hörð orð framar. Það er ekki mikið eftir af mér Gráttu ekki yfir mér. Hér er ekki lengur neinn eldur til að slökkva . . Ég endurtek, en þetta sem ég seinlega skrifa er allt sem ég á Er allt mín sök? Ég er bara steinn sem einhver fleygði, trjábútur sem einhver hefur tálgað Það er nánast sama hvar er gripið niður í bók- inni, eintóm stórskáld. Bertolt Brecht, Zbigniew Herbert, Giuseppe Ungaretti, Antonio Mach- ado og bandaríska skáldið Louis Simpson með risafurur sínar, „í höfðum okkar snúast stjörnur og ský“, og skilgreininguna á bandarískum skáldskap: Hvað sem hann er, verður hann að hafa maga til að melta togleður, kol, úraníum, tungl, ljóð. Jóhann nær misgóðu sambandi við þau skáld sem hann þýðir, fyrr má nú vera slíkt kameljón að geta runnið saman við hin ólíkustu skáld, mismunandi ljóðform og stemningar – myndi slíkt ekki bera vott um skort á persónuleika, stíl? Og það er nákvæmlega einn af stóru kost- unum við Hillingar á ströndinni að þar hefur Jó- hann dregið saman skáld sem kallast á við eitt- hvað í honum sjálfum, með örfáum undantekningum eins og í Erik Lindegren sem hæfir líklega betur hljómmiklum þýðanda á borð við Hannes Sigfússon, og ekki er ég sann- færður um tök Jóhanns á hinum snúna og oft dulráða Georg Trakl. Hinsvegar kemst hann á gott flug í átökum sínum við eitt af mestu ljóðum síðustu aldar, Todesfuge eftir Paul Celan; Hel- fúga, sláandi kvæði sem fangar grimmd nasista gagnvart gyðingum, grimmd sem er svo hömlu- laus að hún fær á sig blæ óraunveruleika, abs- úrdisma. Þitt gullna hár Margarete, við tökum gröf í loftunum þar er nægilegt rúm: Svarta mjólk dögunarinnar við drekkum þig á nóttunni við drekkum þig um hádegið dauðinn er meistari frá Þýskalandi við drekkum þig á kvöldin og á morgnana við drekkum og drekkum dauðinn er meistari frá Þýskalandi auga hans er blátt Fimm Næstu tvö þýðingasöfn Jóhanns, Þrep á sjón- deildarhring (1976) og Í skolti Levíatans (1988), eru ójafnari að gæðum en Hillingar á strönd- inni, það á bæði við um sjálf skáldin og hversu góðu sambandi Jóhann nær við þau. Hann þýðir til dæmis allnokkur ljóð eftir tyrknesk skáld og þó að sumstaðar kvikni gjöfull skáldskapur er eins og ljóðin renni flest saman við lesturinn, eins og sérkenni skáldanna hafi misfarist, já, næstum eins og alræmd orð Roberts Frost um að ljóðið sé það sem glatast í þýðingum gangi hér aftur í draugslíki. Misjafnar bækur, já, og meðan fyrri tvö söfn- in buðu upp á ágætis upplýsingar um skáldin eru þær skornar svo við nögl í síðari tveimur bókunum að einungis ártölin og þjóðernið standa eftir. En nóg um ofanígjafir því það er talsvert um markverðan skáldskap í bókunum; fín ljóð eftir Klaus Rifbjerg, Jósef Brodskí, Czeslaw Milosz og fleiri, og báðar enda þær síð- an á bragðmiklum skáldum frá Suður-Ameríku; Carlos Drummond de Andrade og Ferreira Gullar, Pablo Neruda og Jorge Luis Borges. Al- merkustu tíðindin eru þó þýðingarnar á Perú- manninum César Vallejo (1892–1938); fimm kvæði í Þrepunum, fjögur í Levíatanum: Gamli eineygði maðurinn er dáinn, ég man ekki hvað hann hét, en hann svaf í morgunsólinni fyrir framan dyr blikksmiðsins á horninu. Rayo, hundurinn minn, er dáinn, hann sem var jafn stór og ég, einhver fleygði í hann steini. Það gerist eitthvað þegar maður les skáld eins og Vallejo; klukkur byrja að hringja djúpt úti í himingeimnum, birtan fellur öðruvísi á til- veruna. Svona skáld getur breytt móttökuskil- yrðum þínum, skynjun þinni á heiminum, og því mikilsvert að það sé þýtt. Ég las einu sinni kvæðið Ógnvaldurinn tími úr Levíatanum upp- hátt fyrir vin minn, við sátum í Rósenborgar- garðinum í Kaupmananhöfn: Hljóðfæraleikarinn Méndez er dáinn, hávaxinn og oftast blindfullur, hann sem lék sorglegar tokkötur á klarínettuna sína svo að hænurnar í þorpinu sofnuðu löngu fyrir sólsetur. Þegar lestrinum lauk þagði þessi vinur minn langa hríð, leit síðan í kringum sig, teygði sig í bjórinn og sagði: eitthvað hefur gerst. „Vér dæmum hér um þýðinguna, eftir því sem hún gerir áhrif á oss, því þýðingin á að vera í stað frumritsins og verður því að skoðast sem frumrit,“ skrifar Benedikt Gröndal. „Rayo, hundurinn minn, er dáinn, hann sem var jafn stór/ og ég, einhver fleygði í hann steini.“ Ég man að mér varð starsýnt á þessar línur þegar ég las kvæði Vallejos, Ógnvaldurinn tími, í fyrsta sinn, og þær hafa fylgt mér síðan, orðið hluti af því vopnabúri orða sem maður hefur ósjálfrátt á hraðbergi. Það kom mér því heldur betur á óvart þegar ég fór að lesa Vallejo í lof- aðri enskri þýðingu þar sem „frumritið“ er á síð- unum á móti til viðmiðunar. Ég uppgötvaði nefnilega að það er enginn steinn í kvæði Vall- ejos; hundurinn Rayo er aflífaður með byssu- kúlu! Merkilegt starf, að þýða, og vanþakklátt. Orð Gröndals tilheyra að vissu leyti liðnum tíma, nú- orðið gerum við þá kröfu að þýðandinn láti skáldskapinn ljóma á íslenskunni án þess þó að víkja of langt frá frumtextanum. Ég get ekki betur séð, þegar litið er yfir þýðingar Jóhanns, en að yfirleitt kappkosti hann við að sýna frum- texta og íslenskunni jafnan trúnað, oft með býsna góðri útkomu. En hann bregður þó stund- um útfrá þessari meginreglu, þá einkum þegar hann þýðir suður-amerísk skáld; sonnetta eftir Borges verður að rímlausu ljóði hjá Jóhanni, ansi fallegu að vísu. Og sumum kvæðum Vall- ejos fylgir Jóhann nokkuð nákvæmlega, en svo breytir hann byssukúlu í stein á einum stað og einfaldar snúnar en hugstæðar myndir á öðrum, eins og í kvæðinu Svartur steinn á hvítum steini. Það mildar þó óneitanlega „glæpinn“ að steinn er betri en byssukúla og kvæðið um dauðann í París er hreint afbragð í meðförum Jóhanns, hinn tærasti skáldskapur. Hver þýðandi hlýtur að velja sér leið, aðferð, en maður freistast samt til þess að fetta fingur út í þegar þýðandi notar ólíkar aðferðir á sama skáldið. Maður situr uppi með spurningarmerki í kollinum; kannski hefði einföld skýring frá þýðanda leyst málið, leyst upp spurningarmerk- in, eytt hugsanlegum efa um ónákvæmni. Hvað sem því líður þá hefur Jóhann Hjálm- arsson þýtt um þrjú hundruð kvæði, hann hefur sent frá sér fjögur þýðingasöfn, það má finna þau í öllum betri bókasöfnum og stöku sinnum í fornbókabúðum. Þeir sem hafa áhuga á skáld- skap, á litbrigðum sálarlífsins, birtu himins, myrkri næturinnar eiga að lesa þessar bækur. Þær eru misjafnar að gæðum, en það besta í þeim er fjandi góður skáldskapur, og einhver mætti safna því besta saman í eina bók uppá 200 síður. En það er sólfífill í garðinum í Palmira: Stúlka gekk hjá. Brjóst hennar og sólfífillinn gerðu þig viljalausan. Og ef það eru ekki brjóst og sólfífill í Brasilíu, þá er það byssa í Perú: Einhver fægir byssu í eldhúsinu. Hvers virði er þá að tala um það sem er fyrir handan? Og ef ekki byssa í Perú þá sænsk hreinskilni: Óskaðu einhvers sem mér er unnt að gefa þér: kossa, nýrrar vetrarkápu, hreinskilni. Óskaðu þér hreinskilni. Höfundur er rithöfundur. „Það gæti jafnvel dottið í mann að fullyrða að þýðingarsöfn Jóhanns, fjórar bækur, séu einskonar þagnablettir í íslenskum bókmenntum.“ Morgunblaðið/Jóra

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.