Lesbók Morgunblaðsins - 17.05.2003, Síða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. MAÍ 2003
E
FTIR fáeina mánuði hefjast forn-
leifafræðingar aftur handa við
að svipta hulunni af leyndar-
dómum Hólastaðar. Hólarann-
sóknin, einhver umfangsmesta
fornleifarannsókn sem ráðist
hefur verið í á Íslandi, er á öðru
ári og því ekki úr vegi að greina í
stuttu máli frá því sem telja má markverðast
eftir uppgröftinn í fyrrasumar.
Mikilvægustu niðurstöður sumarsins 2002
eru vafalaust staðfestingin á því að Hólar í
Hjaltadal varðveita fornleifar óvenjulega vel,
þeim hefur ekki verið spillt með seinni tíma
framkvæmdum að því marki sem óttast var og
þegar á fyrsta ári rannsóknarinnar komu í ljós
leifar mannvirkja frá miðöldum, frá fyrstu tíð
biskupsstólsins á Hólum, en hann var settur á
fót árið 1106.
Engum kemur á óvart að þessi forni höfuð-
staður Norðurlands sé ríkur að minjum því að
hér hafa stórhuga menn og framtakssamir búið
frá því að sögur hófust. Hver kynslóðin af ann-
arri hefur reynt að laga umhverfið að þörfum
sínum, byggt hús, grafið skurði, lagt vegi og
sléttað gömul bæjarstæði, jafnvel svo seint sem
um miðja 20. öld. Nemendur bændaskólans
hafa þar að auki lært að stjórna stórvirkum
vinnuvélum með því að róta um gömlum ösku-
haug, en slíkir haugar eru alla jafna gullnáma
fornleifafræðinga. Þrátt fyrir þetta eru 18. ald-
ar minjar og þaðan af eldri óspilltar, m.a.s. er
stór hluti öskuhaugsins óraskaður.
Neðst í haugnum, sem er sunnan við dóm-
kirkjuna og neðan við veginn heim að Hólum,
komu í ljós eldstæði og aðrar leifar af fornu
mannvirki þar sem þeirra var ekki að vænta
fyrirfram. Form þessa mannvirkis, afstaða
jarðlaga og ekki síst gjóskugreining bendir til
að leifarnar séu frá 11. eða 12. öld. Á þessu stigi
er óvarlegt að segja nokkuð um hlutverk þessa
húss, en búast má við mjög gagnlegum rann-
sóknarniðurstöðum, þegar uppgreftri og úr-
vinnslu lýkur.
Múrskeiðarstunga
Hólarannsóknin hófst formlega með „múr-
skeiðarstungu“ Tómasar Inga Olrich mennta-
málaráðherra 1. júlí sl. skammt vestan við dóm-
kirkjuna. Áður hafði farið fram umfangsmikil
forkönnun á vettvangi og heimildarvinna sem
gaf til kynna að einhvers staðar þar í grenndinni
hefðu staðið skólahús Jóns Ögmundarsonar,
fyrsta biskupsins á Hólum.
Kristnihátíðarsjóði, sem var stofnaður í til-
efni af 1000 ára afmæli kristni í landinu, má
þakka gróskuna sem verið hefur í fornleifa-
rannsóknum um land allt á liðnu sumri. Sjóð-
urinn styrkti Hólarannsóknina myndarlega og
lagði til hennar 11 milljónir króna, sem var
hæsti styrkur sjóðsins til fornleifarannsókna á
þessu ári. Að öðru leyti standa Hólaskóli,
Byggðasafn Skagfirðinga og Þjóðminjasafn Ís-
lands að verkefninu, en jafnframt er samstarf
við stofnanir og háskóla erlendis. Gert er ráð
fyrir að rannsókninni ljúki árið 2007.
Hólarannsóknin er meira en eingöngu forn-
leifarannsókn í hefðbundnum skilningi þess
orðs. Hún byggist á þverfaglegum grunni og er
starfsvettvangur sérfræðinga á flestum sviðum
menningarsögulegra rannsókna; rúmlega 40
manns störfuðu að rannsókninni í sumar. Minna
má það ekki vera þegar við rekjum okkur eftir
slóð kynslóðanna á svo sögufrægum stað allt
aftur til landnáms, framhjá Guðbrandi Þorláks-
syni, framhjá Jóni Arasyni og framhjá Jóni Ög-
mundarsyni, svo að fáeinir merkismenn séu
taldir sem við eigum eftir að kynnast með
áþreifanlegri hætti en hægt er af rituðum heim-
ildum. Sægur af ritheimildum er til um Hóla í
Hjaltadal, frásagnir, úttektir, túnakort, upplýs-
ingar um húsakost og þannig mætti lengi telja.
Þær munu að sjálfsögðu gagnast rannsókninni
vel – og eru eins og komið verður að síðar rann-
sóknarefni í sjálfu sér.
En pappírinn geymir verk hugans, jörðin
verk handarinnar.
Nú er það okkar hlutverk, sem störfum að
Hólarannsókninni, að fletta ofan af hverju lag-
inu á eftir öðru í jarðveginum, eins og væri hann
bók, og lesa úr honum fróðleik um gengnar ald-
ir, hvernig menn bjuggu, hvert var þeirra við-
urværi, hver voru þeirra kjör og hvaða þýðingu
Hólastaður hafði fyrir umhverfi sitt og landið
allt.
Samtímis Hólarannsókninni fer fram viða-
mikill uppgröftur á Skálholtsstað, einnig með
tilstyrk Kristnihátíðarsjóðs, og verður áhuga-
vert að bera saman niðurstöðurnar úr þessum
tveimur rannsóknum. Skálholt og Hólar voru
valdamestu miðstöðvar landsins um aldir og
stærstu þéttbýliskjarnar.
Þótt furðulegt megi virðast eru Hólar í
Hjaltadal að miklu leyti óplægður akur í forn-
leifa- og sagnfræðilegu tilliti. Takmarkaðar
rannsóknir hafa farið fram áður. Og hvarvetna í
nágrenni Hóla voru gerðar athyglisverðar forn-
leifafræðilegar uppgötvanir sumarið 2002, á
landnámsbænum Hofi í Hjaltadal, við ósa
Kolku, sem var höfn Hólastaðar, í Glaumbæ og
síðast en ekki síst í Keldudal í Hegranesi, þar
sem öllum að óvörum fannst kirkjugarður úr
frumkristni á Íslandi.
Allt skiptir þetta máli fyrir Hólarannsóknina.
Markmið hennar er m.a. að fá heildarmynd af
þróun staðarins og umhverfis hans og enn frem-
ur að afla nýrra gagna um sögu Íslands og sam-
skipti Íslendinga til forna við umheiminn. Forn-
leifarannsókninni er ætlað að auka við þekkingu
manna um völd og áhrif kirkjulegra miðstöðvar
í öndverðu, efnahag biskupa á mismunandi tím-
um, rekstur og skipulag Hólastaðar, þess þorps
sem þar reis, lífsstíl íslenskrar yfirstéttar – ef
svo má að orði kveða. Sem dæmi má nefna að
hvergi – nema e.t.v. í Skálholti – gefst jafngott
tækifæri til að grafa upp jafnmargar mismun-
andi húsategundir á einum stað.
Þetta fyrsta sumar uppgraftarins var sverð-
inum lyft af á sex stöðum. Ákvarðanir um graft-
arsvæði voru teknar með hliðsjón af jarðsjár-
mælingum, gömlum túnakortum og úttektum á
jörðunum. Öskuhaugur hefur þegar verið
nefndur, en annar öskuhaugur var grafinn fyrir
framan kirkjuna. Í honum fundust einnig mann-
vistarlög frá miðöldum og ýmsir merkilegir
gripir, brot úr norskri klébergsgrýtu, bökunar-
hella og perla úr klébergi. Lítill könnunar-
skurður var grafinn undir kirkjuveggnum
sunnanmegin í þeirri von að fyndust göng úr
kirkjunni yfir í híbýlin. Þessi tilraun virðist hafa
gefið góða raun. Altént fundust hleðslur sem
benda eindregið til að vera leifar ganga og geta
vísað á mannabústaðina sem þau hafa tengst.
Rannsókn á göngunum verður fram haldið
næsta sumar og þá reynt að rekja þau að öðrum
mannvirkjum. Tveir könnunarskurðir við
kirkjugarðinn austanmegin skiluðu aftur á móti
litlum ávinningi.
Stærsta uppgraftarsvæðið er 18x14 m að
stærð og í því miðju stendur styttan af Jósepi J.
Björnssyni, fyrsta skólastjóra Bændaskólans á
Hólum. Viðnámsmælingar í jörð höfðu sýnt
mjög greinilegar útlínur húss og samkvæmt
túnakortum höfðu prentsmiðjuhús staðið þar á
18. öld. Óttast var að minjar hefðu orðið fyrir
miklu raski þegar bæjarstæðið var sléttað og
tré gróðursett, en fljótlega kom í ljós að minjar
frá 18. öld voru óskaddaður að mestu. Mikill
fjöldi gripa fannst í efsta laginu rétt undir gras-
rótinni og í rótuðum lögum frá 20. öld. Gripirnir
eru samt sem áður miklu eldri, sumir frá 16. öld.
Þar fundust greinilegar leifar mannvirkja frá
18. öld, fjós og hlaðnir ofnar, sem kalla á ná-
kvæman samanburð við úttektir frá 17. og 18.
öld á húsakosti á jörðinni. Vitað er að kirkju-
smiðurinn á Hólum hlóð kakelofn í prentsmiðju-
húsinu um miðja 18. öld.
Reynslan sýnir að það getur verið mjög erfitt
að rekja byggingasögu og skilgreina notkun
húsa þegar grafið er á stöðum, þar sem búseta
hefur haldist í margar aldir og reist hafa verið
mannvirki hlið við hlið og hvert ofan í annað. Í
slíkum tilfellum er nauðsynlegt að nýta allar
upplýsingar sem uppgröftur getur gefið og
styðjast við heimildir, sem eru góðu heilli marg-
ar og margvíslegar um Hóla eins og áður segir.
Á fjórða þúsund gripa
Alls fundust á fjórða þúsund gripa við Hóla-
rannsóknina 2002 og 80 kg af beinum. For-
varsla og greining á þessum gripum og beinum
ásamt úrvinnslu á fjölda sýna fer fram í ekki
færri en þremur löndum í vetur.
Munarannsóknir eru eðlilega mikilvægur
hluti fornleifarannsókna á Hólum, en gripirnir
gefa ekki aðeins vísbendingar um aldur, heldur
einnig um efnisnotkun, verkkunnáttu, verslun,
efnahag, tengsl innanlands og við útlönd o.s.frv.
Mikið fannst af leirkerabrotum og innfluttum
krítarpípum, sem unnt verður að uppruna-
greina vegna stimpla og skrauts; þannig má
geta sér til um milliríkjaviðskipti. Þá fannst
fjöldi gripa úr málmi, bronsi eða járni, t.d. lykl-
ar, vasahnífar, krókar, naglar o.fl. Einnig falleg
kola, perlur og pottabrot úr klébergi, fjöldinn
allur af brýnum og mót úr rauðum sandsteini til
að steypa lýsislampa. Gripir úr beini voru
nokkrir, merkilegastir sennilega kotra og út-
skorinn hnappur og hugsanlega ljóstur úr hval-
beini til fiskveiða.
Þegar því varð við komið var gripum úr upp-
greftrinum stillt út í sýningarskáp á Hólum fyr-
ir gesti og gangandi, en fjöldi ferðamanna heim-
sótti uppgröftinn í sumar og naut leiðsagnar um
svæðið.
Greining dýrabeina og þá sérstaklega úr
öskuhaugunum er mikilvægur þáttur í rann-
sókninni. Beinin gefa upplýsingar um fæðu
fólks, um hvers konar skepnur menn héldu,
hvaða dýrategundir voru veiddar og hlutfallið
þar á milli. Greining dýrabeina getur því gefið
mikilvægar upplýsingar um lífsviðurværi og
efnahag á mismunandi tímum. Í frumskýrslu
beinafræðings kemur fram að beinin eru flest
úr kindum en einnig nautgripum, hestum,
hundum og svínum. Fáein selsbein eru í safninu
og mikið af fisk- og fuglabeinum, einkum úr ýsu
og svartfugli en einnig hrafni og önd, allt eins og
búast mátti við.
Jafnhliða fer fram greining á jarðvegssýnum
og plöntu- og skordýrasýnum. Greining þeirra
getur sagt til um hvaða gróður óx á svæðinu og
gefið vísbendingar um loftslag og veðurfar á
mismunandi tímum. Einnig má fá hugmyndir
um notkun jurta til skepnufóðurs og heimilis-
halds. Leifar jurta, sem eru framandi í íslensku
umhverfi, geta gefið tilefni til ályktana um er-
lend samskipti og styrkt vísbendingar um við-
skiptatengsl.
Leifar skordýra verða einnig greindar úr
jarðvegssýnum. Upplýsingar um tegundir
skordýra, sem þrifist hafa á ákveðnu svæði eða í
tilteknu húsi, geta sagt til um aðstæður þar,
raka, hita, hlutverk hússins o.fl. Til eru skordýr,
sem hvergi vilja vera nema með mönnum, og
önnur sem aðeins dafna hjá tilteknum skepn-
um.
Úrvinnslu er fjarri því lokið – og enn á eftir að
grafa í fjögur ár.
Næstu skref
Hólarannsóknin 2003 verður að mestu leyti
framhald á þeim uppgrefti sem hófst í sumar en
það var gleðilegt að hljóta aftur annað árið í röð
myndarlegan styrk úr Kristnihátíðarsjóði. Ekki
er áformað að opna fleiri svæði á Hólum að svo
stöddu. Hins vegar er ráðgert að hefja uppgröft
og neðansjávarrannsóknir við Kolkuós (Kol-
beinsárós) samhliða Hólarannsókninni með því
að þar eru fornar mannvistarleifar að hverfa í
sjó.
Kolkuós var á miðöldum í hópi helstu hafna
landsins og þjónaði m.a. sem höfn Hólastóls.
Minjar við ósinn vitna um forna frægð staðarins
og eru verðugt rannsóknarefni. Skipulag og
húsakostur verða rannsökuð og mat lagt á hlut-
verk staðarins og mikilvægi hans fyrir héraðið.
Rannsóknin hefur mikla þýðingu fyrir túlkun á
samfélagi byggðarlagsins á miðöldum, en þess
ber að geta að verslunarstaðir hafa lítið verið
rannsakaðir áður. Hér gefst tækifæri til að
rannsaka jarðfastar fornleifar við meiriháttar
höfn og bjarga hugsanlegum fornleifum áður en
þeim skolar á haf út.
Hof er landnámsjörð suðaustur af Hólum,
þar nam Hjalti Þórðarson land samkvæmt
Landnámu. Á Hofi má greina einstakar minjar
frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar. Ef til vill er þar
fundin kirkja úr frumkristni, en nánari rann-
sókna er þörf. – Sama á við um kirkjugarðinn í
Keldudal.
Mikið fræða- og kennslustarf fer fram á Hól-
um og er stefnt að því í sambandi við Hólarann-
sóknina að efla starf ferðamálabrautar við
Hólaskóla og menningartengda ferðaþjónustu á
staðnum. Eins er meðal markmiða að efla
starfsgrundvöll íslenskrar fornleifafræði til
frambúðar með þjálfun stúdenta og fræði-
manna, samvinnu innlendra og erlendra vís-
indamanna og með útgáfu og kynningu til þess
að vekja almenning frekar til vitundar um ís-
lenska menningarsögu (sjá t.d. www.holar.is/
fornleifar). Gerður hefur verið samningur um
samstarf við Háskóla Íslands í tengslum við að
þar fer að hefjast kennsla í fornleifafræði við
sagnfræðiskor.
Fornleifarannsóknin á Hólum í Hjaltadal er
stórt viðfangsefni, þarft og ögrandi. Fyrsta
uppgraftarsumarið gefur fyrirheit um að heild-
armarkmið verkefnisins náist með tímanum.
Allir þeir innlendu og erlendu starfsmenn, sem
hafa léð því krafta sína, telja það forréttindi að
hafa mátt eiga hlut að máli. Það hefði bara mátt
rigna minna.
HÓLARANNSÓKNIN 2002
Höfundur er fornleifafræðingur.
E F T I R R A G N H E I Ð I T R A U S TA D Ó T T U R
Frá uppgreftri á Hólum í Hjaltadal, sem var fyrr á öldum einn helsti þéttbýliskjarni landsins. Upp-
gröfturinn er ein umfangsmesta fornleifarannsókn hér á landi um árabil.
Fornleifarannsóknir á Hólum í Hjaltadal halda áfram
í sumar en mikilvægustu niðurstöður síðasta sumars
eru staðfestingin á því að staðurinn varðveitir
fornleifar óvenjulega vel. Hér er greint frá helstu
niðurstöðum rannsóknanna síðasta sumar.