Lesbók Morgunblaðsins - 28.06.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 28.06.2003, Blaðsíða 11
Daginn eftir segir í dagbók Morgunblaðsins, að Ellen Kid hafi dansað fyrir fullu húsi og við mikinn fögnuð áhorfenda, lófaklapp og blóm. Hún varð að endurtaka marga dansana. Ingibjörg vitnar í ritgerð sinni til Sigríðar Ár- mann listdanskennara, sem sá sýningu Ellenar Kid í Iðnó: „Hún var alveg stórkostleg. Ég man að hún dansaði nunnu og svo dansaði hún í hvít- um kjól með rautt um mittið, það var alveg stór- kostlegur dans, maður heillaðist svoleiðis af henni.“ Svo föst varð sýningin í huga Sigríðar, að hún telur hana með því sem hafði áhrif á danssköpun hennar sjálfrar ellefu árum síðar. „Þarna hefur verið á ferðinni sýning í stíl hins nýja, þýska dans,“ segir Ingibjörg. … „Þessi eina sýning er því alveg einstök …“ Síðar í rit- gerðinni víkur Ingibjörg ítrekað að því, að nú- tímadansar Ellenar Kid hafi verið mun eftir- minnilegri en dansinn eða dansarnir sem hún dansaði í klassískum stíl. Í októberlok 1939 auglýsti „The Artist Club“ Cabaret-kvöld á Hótel Borg og kom þar fram, að Ellen Kid ætlaði að sýna dans. Veturinn 1939/40 er síðasta starfsár Dans- skóla Ellenar Kid, en hún lézt sumarið 1941. „Þær konur,“ segir Ingbjörg í ritgerð sinni, „sem sáu Ellen Kid dansa eru sammála um að hún hafi verið heillandi á sviðinu og náð að hrífa áhorfendur. Þær lýsa henni líka sem afar fín- gerðri konu, eins og veru úr öðrum heimi, álf- konu. Sigrún Ólafsdóttir sagði að það hefði líka verið eitthvað „tragiskt“ við hana.“ Ingibjörg hefur fengið að skoða ýmsa muni tengda Ellen Kid hjá Katrínu Briem, dóttur Jó- hanns af seinna hjónabandi, þar á meðal margar myndir. „Þessar myndir segja meira en mörg orð. Þær sýna fallega, fíngerða stúlku með dökkt hár og lifandi andlit sem túlkar vel hug- hrif dansins sem hún dansar hverju sinni. Skýr- ust túlkun kemur þó fram í líkamstjáningunni.“ Niðurstaða Ingibjargar er: „Hér er greinilega vel menntaður atvinnudansari á ferðinni.“ Ellen Kid var listfengin á fleiri sviðum en dansinum. Á vordögum 1941 sýndi hún nokkrar vatnslitamyndir með manni sínum í kirkjusal Þjóðminjasafnsins. Ellen Kid lézt úr krabbameini 24. júlí 1941, aðeins 34 ára, og fékk hvílu í kirkjugarðinum að Stóra-Núpi. Ingibjörg Björnsdóttir hefur eftir Sigríði Ármann að Ellen hafi verið lögð í kistuna í hvíta danskjólnum sínum með rauða beltinu. Katrín Briem segir ljóst, að Ellen hafi verið sannur fagurkeri: „allt sem hún átti var fallegt. Ég man til dæmis að einu sinni kom ég til pabba, þegar hann var orðinn fullorðinn, og hann var þá að reykja og hafði við hendina ösku- bakka, sem ég hafði aldrei séð. Þessi öskubakki var svo vel hannaður og fallega samsettur að un- un var og hann hafði engu tapað, þótt hann hefði brotnað og verið límdur saman aftur. „Hvar fékkstu þennan öskubakka,“ spurði ég. „Ellen gaf mér hann,“ svaraði hann.“ Í fórum Katrínar eru auk dansmynda af Ellen Kid sumarmyndir af henni og Jóhanni Briem í Þjórsárdal, þar sem þau bjuggu í tjaldi meðan listmálarinn fangaði íslenzka náttúru á strig- ann. Einnig dvöldu þau á fæðingarstað Jóhanns, Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi. Þá á Katrín líka myndir teknar í Dresden, líklega af fjölskyldu Ellenar. Margar myndanna eru teknar á svölum húss, sem stendur á bökkum Elbu. Katrín sagði þeim, sem þetta ritar, að Ingibjörg hefði með aðstoð þýzka sendiráðsins í Reykjavík, reynt að grafa eitthvað upp um skyldmenni Ellenar í Dresden, en án árangurs. Faðir hennar hélt sambandi við systur Ellenar, en þau hættu að skrifast á þegar Katrín var unglingur. Þar með slitnaði sá strengur, sem þýzka álf- konan batt sínum föðurlöndum. Elín og Jóhann Seinni kona Jóhanns Briem var Elín Jóns- dóttir. Hún var fædd á Ísafirði 26. júní 1914, dóttir Brynhildar Maack Pétursdóttur og Jóns Björns Eyjólfssonar gullsmiðs. Elín ólst upp á Ísafirði til níu ára aldurs, þeg- ar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Hún nam við Kvennaskólann og starfaði í hannyrðaverzl- unum í Reykjavík að loknu námi. Elín og Jóhann giftust 1945 og eignuðust þau þrjár dætur; Katrínu, Ólöfu og Brynhildi. Katrín Briem, sem nú býr á Stóra-Núpi, sagði í samtali við greinarhöfund, að foreldrar hennar hefðu kynnzt í gegnum sameiginlega kunningja í Reykjavík. „Það var sérstakt hjá okkur, að við áttum allt- af tvö heimili; í Reykjavík og á Stóra-Núpi. Við fluttum búferlum austur á vorin og til baka til Reykjavíkur á haustin, þegar kennslan tók við hjá pabba. Við áttum aldrei bíl, en hins vegar búslóð á báðum stöðum. Samt var til margs að líta með undirbúninginn og það fór heill dagur í flutn- ingana sjálfa. Svona var okkar líf og sjálf sá ég ekki Reykja- vík í sumarbúningi fyrr en á unglingsaldri. Og var þá alveg gáttuð á öllum gróðrinum í höf- uðborginni! En þetta hefur ábyggilega ekki verið auðvelt fyrir móður mína. Aðstæður til heimilishalds á Stóra-Núpi voru erfiðar í timburhúsi, sem var reist 1897. Þar var bara kalt vatn. Ég man að konur heyrðust hafa á orði, að þær myndu aldr- ei láta bjóða sér þær aðstæður, sem móðir mín bjó við fyrir austan. En hún var umburðarlynd og lét sig hafa þetta. Þrautseigja var henni í blóð borin, held ég. Pabbi var aldrei heima á daginn. Hann hafði vinnustofu í Ásaskóla og gekk þangað daglega, fram og til baka, fimm kílómetra í allt. Mamma var því bæði húsmóðir og húsbóndi á heimilinu. Og það vorum ekki bara við; pabbi og systurnar, heldur voru frændsystkini hennar líka hjá okk- ur í sveitinni til lengri og skemmri dvalar. Ég tel að sambúð foreldra minna hafi verið slétt og felld og í sínum föstu skorðum. Þau voru mikið fyrir að hafa það huggulegt á kvöldin. Pabbi vildi gjarnan hafa stemningu; huggulegt rabb yfir kaffi og vínglasi. Þau voru góð saman. Ég man ekki til þess, að foreldrar mínir hafi rætt mikið um málverkið. En hún fylgdist með því, sem hann var að gera og um hann var sagt og skrifað. Og hún stóð með honum í einu og öllu. Pabbi dó ’91, en mamma var hress öllu leng- ur. Í lokin fór hún á Hrafnistu, en var þar mjög stutt og andaðist þar 30. janúar 1998.“ – Hvernig myndir þú lýsa móður þinni? „Hún var yfirveguð kona, umburðarlynd, skilningsrík, traust og góð. Og glaðlynd var hún. Hún átti sex systkini og systkinabörnin sóttu í að heimsækja hana. Það var eitthvað í fari mömmu sem laðaði ungt fólk að henni. Sem móðir var hún ástrík og mjög afgerandi. Við höfðum allt á hreinu; þetta mátti og þetta mátti ekki. Auðvitað var þetta hollt, en stundum hefði ég nú viljað búa við svolítið meira frelsi! Nú hefur mér þó lærzt að meta þetta við hana og ég skil að það var vel meint.“ Bræðrasynir Elínar; Björn Böðvarsson hús- gagnasmiður, og Pétur V. Maack, starfsmaður Félags járniðnaðarmanna, voru sumrungar hjá henni á Stóra-Núpi. „Elín var sómakona í alla staði,“ segir Björn. „Ég held ég hafi verið ein fjögur sumur hjá henni fyrir austan og hún var sérstök vinkona mín alla tíð. Hún var alltaf svo létt og kát að það var skemmtilegt að vera nálægt henni. Og hún sá alltaf ljósu hliðarnar á öllum málum.“ „Ég var hjá Elínu í fjöldamörg sumur,“ segir Pétur. „Ég held að hún hafi verið afskaplega frjáls manneskja, svolítill hippi í sér og tíminn var henni mjög afstæður. Það voru ekki fastar hefð- ir á mörgum hlutum; við tókum þetta meira eftir hendinni hverju sinni, borðuðum þegar við vor- um svöng og svoleiðis. Hún var sérstök kona, glaðlynd, hress og kát yfir öllum hlutum. Ég held að hún hafi verið endalaus gleðigjafi. Og engu slæmu trúði hún um nokkurn mann. Það einkenndi viðhorf henn- ar til manna og málefna. Börnin mín kynntust henni dálítið, einkum elztu krakkarnir og þau tala oft um hana upp úr eins manns hljóði. Hún var mjög lifandi manneskja.“ Kári Leivsson Petersen segir í minningar- grein um Elínu Briem, að hún hafi verið hrein og bein, glaðvær og opin. „Ég mun minnast tengdamóður minnar sem traustrar og fordómalausrar vinkonu, sem ég gat leitað til með ólíkustu mál, öruggur um að fá á móti tæra hreinskilni frá þroskaðri sál sem ávallt var ung í anda.“ Elín Briem hvílir í kirkjugarðinum á Stóra- Núpi, þar sem hún ótrauð ár eftir ár bjó fjöl- skyldu sinni og frændgarði sumarstað. Heimildir: Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist. Helgafell 1973. Björn Th. Björnsson: Samtöl við greinarhöfund. Einar Jónsson: Minningar – Skoðanir. Skuggsjá 1983. Jón Auðuns: Anna M. Jónsson In memoriam. Morgun- blaðið 9. október 1975. Gígja Björnsson: Samtal við greinarhöfund. Júlíana Gottskálksdóttir: Samtal við greinarhöfund. Lilja Kristjánsdóttir: Samtal við greinarhöfund. Nini Andersen: Bréf til greinarhöfundar. Hulda Valtýsdóttir: „Og hvaðan er maðurinn? spurðu þeir á bæjunum, þegar við riðum í hlað.“ Samtal við Nini And- ersen, dóttur Jóns Stefánssonar. Lesbók Morgunblaðsins 10. nóvember 1979. Valtýr Stefánsson: Jón Stefánsson málari sjötugur. Morgunblaðið 22. febrúar 1951. Valtýr Pétursson: Jón Stefánsson, listmálari – minning. Morgunblaðið 28. nóvember 1962. Poul Uttenreitter: Maleren Jón Stefánsson. Rasmus Navers forlag Köbenhavn 1936. Formáli að bók um Jón Stefánsson. Helgafell 1950. Tómas Guðmundsson sneri á ís- lenzku. Aðalsteinn Ingólfsson: Jóhannes Kjarval – Maðurinn og list hans; Kjarval – Málari lands og vætta. Almenna bóka- félagið 1981. Indriði G. Þorsteinsson: Jóhannes Sveinsson Kjarval – Ævisaga. Almenna bókafélagið 1985. Matthías Johannessen: Kjarvalskver. Listasafn Reykja- víkur – Kjarvalssafn 1995. Niels Chr. Lindtner: Danske og udenlandske forfattere efter 1914. Politikens Forlag 1977. Ingibjörg Björnsdóttir: Upphaf nútímalistdans á Íslandi. Ritgerð til BA-prófs við Sagnfræðiskor Háskóla Íslands, maí 2002. Katrín Briem: Samtal við greinarhöfund. Björn Böðvarsson: Samtal við greinarhöfund. Pétur V. Maack: Samtal við greinarhöfund. Kári Leivsson Petersen: Elín Briem – minningargrein. Morgunblaðið 8. febrúar 1998. freysteinn@mbl.is LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. JÚNÍ 2003 11 Hvernig læra börn tungumálið? SVAR: Fólk gerir sér yfirleitt ekki grein fyrir hversu ótrúlegt afrek máltaka barna er. Mannlegt mál er mjög flókið kerfi tákna og reglna en samt ná ósjálfbjarga börn valdi á móðurmáli sínu á undraskömmum tíma. Flest börn eru orðin altalandi um 4–6 ára aldur og hafa þá náð valdi á málkerfinu í meginatriðum, þótt þau eigi enn eftir að tileinka sér einstaka reglur málsins og öðlast meiri orðaforða. Börn ná líka valdi á móðurmáli sínu svo til sjálfkrafa og án áreynslu. Til samanburðar má nefna að það tekur stálpaða unglinga og fullorðið fólk mörg ár að ná valdi á erlendu máli og fæstir ná sama árangri og börnin þótt þeir stundi strangt skólanám. Manninum virðist áskapað að læra mál. Rannsóknir á heila manna sýna að í vinstra heilahveli eru sérhæfðar málstöðvar sem sjá um mismunandi þætti móðurmálsins. Rann- sóknir sýna einnig að máltöku manna virðast vera sett ákveðin tímamörk frá náttúrunnar hendi. Talað er um máltökuskeið eða markald- ur í máltöku og er þá átt við tímabilið frá fæð- ingu og fram að kynþroska. Barn verður að læra móðurmál sitt á þessum markaldri, ann- ars er ekki hægt að tala um að það hafi neitt mál að móðurmáli. Nýlegar rannsóknir á heyrnarlausu fólki og einstaklingum sem ólust upp án samneytis við aðra menn benda til að börn nái ekki fullum tökum á móðurmáli sínu nema máltakan fari fram fyrir 4–6 ára aldurinn. Rétt er að taka fram að táknmál heyrnarlausra er fullgilt mannlegt mál sem lýtur sömu lögmálum og talað mál. Heyrnarlaust fólk sem lærði banda- rískt táknmál á aldrinum 5–12 ára hafði mál- fræði táknmálsins ekki eins vel á valdi sínu og fólk sem ólst upp við táknmál frá fæðingu. Heyrnarlaust fólk sem fyrst komst í kynni við táknmál eftir kynþroskaaldurinn átti í enn meiri erfiðleikum með málfræði táknmálsins. Erfiðleikar þessa fólks voru svo miklir að jafn- vel þótt það hefði notað táknmál í 30 ár þá var ekki hægt að tala um að það hefði táknmál, né nokkurt annað mál, að móðurmáli. Rannsóknir á heyrandi einstaklingum sem ekki lærðu sitt fyrsta mál fyrr en eftir að þeir voru orðnir kynþroska sýna það sama. Þessir einstaklingar geta tileinkað sér orð málsins og merkingu þeirra en þeim tekst til dæmis ekki að ná fullum tökum á beygingum né þeim reglum sem gilda um setningagerð í móð- urmáli þeirra. Málnotkun þessa fólks er því mjög óeðlileg og það fylgir ekki málfræði- reglum sem börn sem ganga í gegnum eðlilega máltöku á máltökuskeiði virða alltaf. Sem dæmi má nefna að þetta fólk fylgir engum reglum um orðaröð og getur því sagt sömu setninguna á marga vegu sem flestir væru rangir í máli fullorðinna. Bandaríska stúlkan Genie sem ólst upp í algjörri einangrun frá mannlegu samfélagi til 13 ára aldurs náði til dæmis ekki tökum á orðaröð enskunnar þrátt fyrir mikla þjálfun eftir að hún fannst. Eft- irfarandi setningar sýna að orðaröð Geniear er mjög afbrigðileg: ’Maður kaupa mjólk, Mjólk maður kaupa, Kaupa maður mjólk’ en setning- arnar merkja allar: Maðurinn keypti mjólk. Ung heilbrigð börn sem eru að læra móðurmál sitt tileinka sér hins vegar mjög fljótt þær reglur sem gilda um orðaröð í móðurmálinu og villur í orðaröð eru tiltölulega sjaldgæfar. Eins og komið hefur fram bendir ýmislegt til að börn komi ekki í heiminn algjörlega óundirbúin undir máltökuna heldur virðast þau hafa ákveðna hugmynd um hvernig mann- leg mál eru uppbyggð. Þessir meðfæddu hæfi- leikar vísa veginn í máltökunni sem sést meðal annars á því að flest heilbrigð börn feta svip- aða slóð þegar þau eru að tileinka sér móð- urmál sitt. Þannig er ekki aðeins máltaka ís- lenskra barna svipuð í grófum dráttum heldur máltaka barna víða um heim. Börn gera held- ur ekki hvaða villu sem er meðan á máltökunni stendur. Mál barna er reglubundið frá upphafi og hvert stig málþroskans hefur sínar eigin reglur. Reglur barna á ákveðnu stigi eru hins vegar oft aðrar en reglur fullorðinna. Það koma sem sagt fram ákveðin frávik, eða villur, í máli ungra barna. Það einkennir slík frávik að þau eru alveg reglubundin. Með hverju stigi sem börn ganga í gegnum í málþroska svipar málkerfi þeirra meira til málkerfis fullorðinna og að lokum hafa þau sömu eða nær sömu reglur á valdi sínu og fullorðnir. Máltaka barna er skapandi reglubundið ferli. Börn læra ekki málið með því að end- urtaka eins og páfagaukar það sem fullorðnir segja. Þau læra móðumál sitt að mestu leyti sjálf og eins og margir kannast við þá þýðir lít- ið að leiðrétta mál ungra barna. Börn fylgja sínum eigin málfræðireglum og virðast verða að átta sig á því sjálf að reglur þeirra eru rang- ar. Þannig er til dæmis mjög erfitt að fá ung börn til þess að endurtaka orð og setningar sem ekki falla að málkerfi þeirra. Barn sem er á því skeiði að mynda fleirtöluna ’fótar’ af ’fót- ur’ á til dæmis mjög erfitt með að endurtaka setningu þar sem rétt fleirtölumynd (’fætur’) kemur fyrir. Slík óregluleg atriði í beygingu lærast tiltölulega seint og börn eru ekki mót- tækileg fyrir leiðréttingum fyrr en þau eru komin á ákveðið stig í málþroskanum. Þó að börn virðist að mestu tileinka sér móðurmálið og reglur þess sjálf þá má ekki gleyma því að samskipti við annað fólk á mál- tökuskeiði eru nauðsynleg forsenda þess að börn nái valdi á máli. Af samskiptum við fólk læra börn orðaforða málsins og margar reglur þess. Í uppvextinum mótast málkennd manna og miklu skiptir að málfyrirmyndir barna séu góðar. Rannsóknir sýna að börn sem mikið er talað við og lesið fyrir hafa meiri orðaforða en börn sem lítið er sinnt og þau ná einnig fyrr valdi á ýmsum setningagerðum móðurmáls síns. Það má kannski segja að grundvall- aratriði móðurmálsins lærist að miklu leyti sama hvernig börnum er sinnt en það hversu góðir málnotendur þau verða fer eftir því hvers konar máluppeldi þau hljóta. Sigríður Sigurjónsdóttir, dósent í íslensku við HÍ. HVERNIG LÆRA BÖRN TUNGUMÁLIÐ? Hvaða tungumál eru töluð á Spáni? Hvað er vit- að um minnsta fugl í heimi? Af hverju er vatn blautt? Hvað er margmiðlun? Þessum spurningum ásamt fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum. VÍSINDI Morgunblaðið/Sigurður Jónsson Börn læra tungumálið að mestu sjálf.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.