Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Qupperneq 7

Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Qupperneq 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. OKTÓBER 2003 7 J OHN Michael Coetzee er fæddur í Höfðaborg í Suður-Afríku 9. febrúar 1940 og ólst upp þar og í bænum Worchester. Hann birtir verk sín jafnan undir höfundarnafninu J.M. Coetzee en áður en hann tók upp á því hafði hann breytt miðnafni sínu úr Michael í Maxwell og skýrir það nafnaruglinginn í fjölmiðlum þegar tilkynnt var um verðlaunin. Eftirnafn sitt sækir Coetzee í afríkönsku, mál Búanna, og ólst hann upp við það og ensku en síðarnefnda málið varð að lok- um ofan á, að því er virðist til að hafa aðgang að vissum forréttindum. Coetzee nam bókmenntir og stærðfræði við Höfðaborgarháskóla en hélt síðan til Lundúna þar sem hann vann m.a. við tölvur á árdögum þeirra en síðan hóf hann háskólanám í málvís- indum í Bandaríkjunum og lauk doktorsprófi frá Texasháskóla árið 1969. Eftir það kenndi hann við New Yorkháskóla í Buffalo en sneri heim til Suður-Afríku 1971 og kenndi til skamms tíma við Höfðaborgarháskóla þar sem rithöfundar á borð við André Brink og Breyten Breytenbach voru meðal samkennara hans. Hann býr nú í Adelaide í Ástralíu eftir að hafa dvalið til skiptis í Chicago og Höfðaborg und- anfarin ár. Hann var einmitt staddur í Chicago til að flytja fyrirlestra þegar fregnirnar bárust af verðlaunaveitingunni og ku hafa haldið upp á daginn í kyrrþey en miklar sögur fara af fjöl- miðlafælni hans og útúrboruhætti. Sjálfur telur hann sig þó ofurvenjulegan mann. Umritun fortíðar Fyrsta skáldverk Coetzee, Dusklands, kom út árið 1974. Það er samsett úr tveimur hlutum og fjallar sá fyrri um mann sem er að skrifa skýrslu um áróður í tengslum við Víetnamstríð- ið, sá síðari fjallar um fílaveiðimann sem á í úti- stöðum við innfædda í Suður-Afríku. Þarna er sem sagt teflt saman 20. aldar heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og nýlendustefnu Hollendinga á 18. öld. In the Heart of the Country kom út árið 1976 og þar kynnir Coetzee til sögunnar pip- arjónku sem býr hjá föður sínum. Hún verður vitni að ástarsambandi hans við þeldökka konu og kann því ekki vel. Sagan samanstendur af minnispunktum piparjónkunnar og sýnir eins og Dusklands og fleiri skáldsögur Coetzee ást hans á nýstárlegum frásagnaraðferðum. Með þriðju skáldsögu sinni, Waiting for the Barbarians, gat Coetzee sér nokkra frægð á al- þjóðavísu. Sænska akademían lýsir bókinni sem pólitískum þriller í anda Josephs Conrads en nærtækara er að kalla hana allegoríu um sam- band kúgarans og hins kúgaða. Þar er Coetzee kominn að viðfangsefni sem hann hefur fjallað um í mörgum bókum: valdahlutföllum og þeim áhrifum sem þau hafa á einstaklinginn. Hann er ekki eingöngu að fást við valdahlutföllin innan- lands, þar sem nokkurs konar borgarastríð ríkti meðan stjórnvöld aðhylltust aðskilnaðarstefnu, heldur skoðar hann valdið í víðara samhengi, m.a. út frá sambandi herraþjóðar og nýlendu. Segja má að hann taki stundum að sér að um- skrifa þessi sögulegu hlutföll, eins og í bókinni Foe frá 1986 þar sem hann skrifar Róbinson Krúsó eftir Daniel Defoe að vissu marki upp á nýtt. Í bókinni er sagan af konungsríki Krúsós á eynni sögð Daniel nokkrum Foe af konu sem dvaldi um tíma á eynni hjá honum. Hún tekur Frjádag, fulltrúa hins aðraða og „ósiðmennt- aða“, með sér til Englands og reynir að hafa uppi á Foe í þeirri trú að hann geti skráð sögu þeirra á eynni eins vel og kostur er. Það fer þó öðruvísi en ætlað er, tungan hefur verið skorin úr Frjádegi svo hann getur ekki sagt sögu sína og Daniel Foe reynist andstæðingur sannleik- ans, eins og einn gagnrýnandi orðaði það. Í The Master of Petersburg (1994), sem Coetzee skrif- aði eftir að hafa misst son sinn í slysi, er Dostoj- evskí söguhetja hans og glímir við sambæri- legan missi. Þannig hikar Coetzee ekki við að setja sig í spor ólíkra sögupersóna ef það þjónar markmiðum hans og ber að því er virðist litla virðingu fyrir valdi höfunda yfir verkum sínum. Hann er hins vegar ofurmeðvitaður um vald frá- sagna enda voru bókmenntir iðulega notaðar til þess að innræta nýlendubúum ákveðinn hugs- unarhátt og styrkja þar með valdhafana í sessi. Að vera en þó ekki Árið 1983 sendir Coetzee frá sér bókina Life & Times of Michael K og verða þá kaflaskipti á ferli hans, því fyrir hana hreppir hann hin virtu Bookerverðlaun. Þarna stígur fram ein sér- kennilegasta persóna hans, Michael K, fátækur, þeldökkur garðyrkjumaður með skarð í vör. Skarðið hefur gert hann að utangarðsmanni auk þess að gera það að verkum að hann talar ekki skýrt og á erfitt með að segja sögu sína, að hans sögn er hún full af götum sem honum muni aldr- ei takast að fylla upp í. Bókin hefst á því að móð- ir Michaels veikist (líffræðilegur faðir Michaels er óþekktur og föður sinn segir hann hafa verið reglurnar á heimavistarhurðinni) og biður hann að fara með sig burt frá byssum borgarinnar og á æskuslóðir sínar í uppsveitum. Michael leggur af stað með hana í óhrjálegri kerru en hún deyr á leiðinni og heldur hann þá áfram með ösku hennar. Borgarastríðið fylgir honum og oftar en einu sinni er hann tekinn höndum og álitinn vera eitthvað annað en hann er, skæruliði til dæmis. Honum tekst þó að smjúga gegnum möskva kerfisins og halda áfram lífi sínu á eigin forsendum. Undir lok bókarinnar lendir hann í endurhæfingarbúðum og þar kemst hann undir læknishendur, aðframkominn eftir að hafa lifað á pöddum og fleiru í sveitinni, og snýr Coetzee þá sjónarhorninu að lækninum. Doksa þykir K vera hálfgert viðundur og kemst að þeirri nið- urstöðu að „dvöl hans í búðunum hafi ekki verið annað en allegoría . . . um það með hve hneyksl- anlegum og svívirðilegum hætti merkingin tek- ur sér bólfestu í kerfi án þess að verða hugtak í því.“ Þetta hefur verið túlkað sem skot á að- skilnaðarstefnuna þar sem sumir þegnanna eru í mesta lagi peð í valdaleik ráðandi stéttar. Ekki furða þótt hvíti læknirinn eigi erfitt með að átta sig á þessum manni sem auk þess neitar að borða og minnir þá á hungurlistamanninn hans Kafka en K-ið í nafni söguhetjunnar vísar ótví- rætt til hans, höfundarins sem skrifaði af svo miklu innsæi um firringu og yfirvald. En Life & Times of Michael K segir ekki ein- ungis sögðu Michaels K heldur felur hún líka í sér baráttu um yfirráð yfir merkingu sögu hans og er þess vegna tvöföld í roðinu. Þetta er afar sérstæð bók og í henni er þungur og ásakandi undirtónn ef menn vilja lesa hana sem pólitíska dæmisögu. Afdrifarík Vansæmd Vegur Coetzee átti eftir að aukast hjá Boo- ker-verðlaunanefndum. Árið 1999 varð hann fyrstur manna til þess að hreppa þessi eftirsóttu verðlaun í tvígang og má teljast merkilegt að höfundi úr nýlendu skyldi hlotnast sá heiður en sú var tíð að allt sem frá nýlendunum kom þótti annars flokks. Í þetta sinn hlaut hann verðlaun- in fyrir skáldsöguna Disgrace eða Vansæmd eins og hún heitir í þýðingu greinarhöfundar. Hér áréttar Coetzee enn kameljónseiginleika sína með því að nálgast efnið með nýjum hætti. Hafi hann fram að þessu efast um gildi raunsæ- isins og talið það of mengað vestrænni hug- myndafræði til að það nýttist í umfjöllun um að- stæður í Suður-Afríku, þá hefur hann að einhverju leyti sigrast á þeim efasemdum, því Vansæmd er í grunninn raunsæisverk þó að vissulega megi lesa bókina táknrænt. Hér eru raunverulegir staðir og býsna jarðtengdar per- sónur. Coetzee mætir nú með trénaðan og for- stokkaðan hvítan karlpung, fulltrúa vestrænna gilda enda prófessor í rómantískum bókmennt- um, og lætur hann takast á við hinar nýju að- stæður í Suður-Afríku. Hann er á miðjum aldri, tvífráskilinn, og í upphafi bókarinnar leysir hann kynlífsvanda sinn með því að kaupa sér gleðikonu. Þegar hún gengur úr skaftinu freist- ast hann, í krafti valds síns, til að sofa hjá einum nemanda sínum. Hún kærir hann á endanum fyrir kynferðislega misnotkun og þar sem Lurie neitar að fara í „endurhæfingu“ af nokkru tagi er hann rekinn. Í sárum leitar hann athvarfs hjá dóttur sinni sem rekur lítinn búgarð í uppsveit- um og er þjóðfélagslega meðvituð. Skömmu eft- ir komuna ráðast þrír svertingjar á feðginin, nauðga dótturinni og misþyrma föðurnum. Dóttirin neitar að kæra ofbeldismennina, að hluta til af því hún fyrirverður sig fyrir fram- komu hvíta mannsins í áranna rás, og ákveður að eiga barnið sem þannig kemur undir, barn sem verður þá afkvæmi suður-afrískrar sögu enda segir í bókinni að sagan tali í gegnum of- beldismennina. Vansæmd má því lesa sem upp- gjör við hinar nýju aðstæður í Suður-Afríku að lokinni aðskilnaðarstefnu. Svo virðist sem ofbeldið sem svartir beita hvíta í bókinni hafi farið illa í suma ráðamenn syðra, þeir sögðu hana fulla af kynþáttafordóm- um, og þó að Coetzee hafi ekkert gefið út um ástæður þess að hann flutti til Ástralíu skömmu eftir útkomu hennar herma blaðafregnir að hon- um hafi þótt sér ógnað í Suður-Afríku. Það má því segja að viðbrögðin við bókinni hafi áréttað eitt og annað sem Coetzee hefur skrifað um völd og texta. Hann hefur þó ekki látið þetta aftra sér frá því að halda áfram að skrifa og fyrir stuttu kom út ný bók eftir hann, Elizabeth Costello, sem er sambland af heimspekilegum ritgerðum og skáldsögu um heimsfræga skáldkonu. Óeirnar strákabækur Á milli þess sem Coetzee skrifar hinar maka- lausu skáldsögur sínar hefur hann dundað sér við að skrifa ævisögu sína. Út eru komin tvö bindi, Boyhood (1997) og Youth (2002). Eins og vænta mátti eru þessar ævisögur ekki alveg hefðbundnar. Þær eru til dæmis báðar skrifaðar í þriðju persónu, rétt eins og höfundurinn vilji firra sig sínu gamla sjálfi eða telji sig hreinlega vera orðinn að annarri persónu. Um leið fær hann visst frelsi til að hagræða efninu og líklega er því óhætt að kalla þessar bækur skáldævisög- ur. Í Boyhood, sem kom út árið 1997, fjallar Coet- zee um árin frá 10 til 13 ára, uppvaxtarár sín í Worcester og Höfðaborg. Óhætt að segja að höfundurinn strammi sig af hvað tilfinninga- semi varðar og þykir sumum nóg um. Útkoman er samt stílhrein og á stundum afar átakanleg frásögn. Einna minnisstæðastar eru myndirnar sem Coetzee dregur upp af veiklyndum föður sínum, lögmanni sem verður fórnarlamb þjóð- félagsaðstæðna, fellur síðan fyrir Bakkusi og leiðir að lokum hörmungar yfir fjölskylduna með því að misnota sjóði sem voru í hans umsjá. Faðirinn hlýtur að launum megna fyrirlitningu sonarins sem kallar hann „that man“ til að firra sig föðurómyndinni. Í Youth tekur Coetzee upp þráðinn þegar hann er 19 ára og fjallar um árin fram að 24 ára aldri. Hinn 19 ára Coetzee er fluttur að heiman, til að sleppa frá því þrúgandi ástandi sem ríkir á heimilinu, stundar háskólanám í stærðfræði og vinnur fyrir sér með kennslu og yfirsetu á bóka- safni. Hann minnist ekki á föður sinn, sem kem- ur ekki á óvart, en virðist vera mikið í mun að slíta sig frá elskandi en kannski fullumhyggju- samri móður sem hann hefur ekki sýnt neitt annað en kulda alla tíð. Honum er mikið í mun að öðlast sjálfstæði en finnst hann samt vera barn ennþá og veltir fyrir sér hvað muni gera hann að manni. Hann er helst á því að ástin muni koma honum til bjargar, er þess fullviss að hin heittelskaða verði ekki lengi að sjá eldinn undir dauflegu fasi hans og leiði hann þannig að „ljósi ástarinnar, ljósi listarinnar“. Þó að hann stundi nám í stærðfræði hefur hann ákveðið að verða listamaður og fyrir áhrif frá Picasso og ástkvennastandi hans telur hann ástina og listina vera af sama meiði. Þessi meinta sam- fléttun ástar og listar verður síðan að leiðar- minni í bókinni, hann bíður stöðugt eftir því að ástin muni drepa ljóðskáldið úr dróma. Við fylgjum síðan hinum unga Coetzee, verð- um vitni að ákveðnu uppgjöri við ættlandið og hann sjálfan. Og hvað sem segja má um rithátt- inn verður frásögnin allt að því uggvænlega ær- leg eins og óeirnu ljósi sé beint inn í skúmaskot fortíðarinnar. Og þar komum við enn að einu helsta höfundareinkenni Coetzee, hvort sem er í skáldskap eða ævisögu, þessu vægðar- og væmnisleysi hins greinandi hugar sem dregur öll mannanna mynstur í efa. Helstu heimildir: David Attwell: J. M. Coetzee, South Africa and the Poli- tics of Writing. Cape Town: David Philip, 1993. Elizabeth Lowry: „Like a Dog“. London Review of Books 14. okt. 1999. Fréttatilkynning Sænsku akademíunnar 2. okt. 2003: http://www.svenskaakademien.se. Kerryn Goldsworthy: „The Jaws of the Trap“. Australian Book Review, okt. 2003. Michael Chapman: Southern African Literatures. Lond- on: Longman, 1996. Rian Malan: „A Veiled Genius“. Time 13. okt. 2003. Höfundur er rithöfundur og þýðandi, meðal annars Vansæmdar eftir J.M. Coetzee. Fimmtudaginn 2. október sl. tilkynnti Sænska akademí- an að suður-afríski rithöfundurinn John Maxwell Coet- zee hlyti Nóbelsverðlaunin árið 2003. Í tilkynningu akademíunnar var hann sagður fjalla um stöðu ut- angarðsmannsins frá ýmsum sjónarhornum í verkum sem væru listavel skrifuð og fælu í sér snilldarlega greiningu. Þar með hreppir einn hlédrægasti höfundur samtímans umtöluðustu bókmenntaverðlaun heimsins. REUTERS Hinn hlédrægi Coetzee við kennslu í Chicago-háskóla 6. október sl. E F T I R R Ú N A R H E L G A V I G N I S S O N RÝNT Í MANN- ANNA MYNSTUR

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.