Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. DESEMBER 2003 7 N ýlega var frumsýnd í Bandaríkjunum og Bret- landi kvikmynd um lífs- hlaup rithöfundarins Sylviu Plath, og hafa við- tökur gagnrýnenda verið misjafnar, haft bæði já- kvæða og neikvæða fleti, en umfram allt hafa umsagnir verið varfærn- islegar og bent á hversu vandasamt verkefni það er að gera lífi persónu á borð við Sylviu Plath skil í leikinni kvikmynd. Það er heldur ekki ósennilegt að þeir sem þekkja til verka og ævi skáldsins hafi litið til þessarar fyrstu dramatísku kvikmyndar um ævi Sylviu Plath með kvíða fremur en eftirvæntingu. Allt frá því að Plath batt enda á líf sitt kaldan febr- úarmorgun er hún var á þrítugasta og fyrsta aldursári, hafa hin áhrifamiklu skrif sem hún lét eftir sig snert við lesendum á máta sem hef- ur ekki aðeins skipað henni í röð mikilvægustu rithöfunda síðari hluta 20. aldarinnar, heldur getið af sér fjölda verka, allt frá ævisögum og fræðiverkum til leikrita og skáldsagna, sem leitast við að varpa ljósi á líf hennar og skáld- skap út frá ýmsum sjónarhornum. Aðeins á þessu ári komu t.d. út tvær bækur er tengjast lífi Plath, skáldsagan Wintering eftir Kate Mo- ses sem fjallar um síðustu mánuðina í lífi Sylviu Plath og ævisaga Diane Middlebrook, Her Husband, sem fjallar um eiginmann Sylviu, Lárviðarskáldið Ted Hughes, í ljósi sambands þeirra hjóna. Þá hefur einleikur Pauls Alexand- ers, Edge, er varpar ljósi á líf skáldkonunnar, verið á fjölunum í New York að undanförnu og í októbermánuði bættist nýtt brot í mósaík- myndina um Sylviu Plath, kvikmyndin Sylvia þar sem leikkonan Gwyneth Paltrow fer með aðalhlutverk. Þess má jafnframt geta að nú um þessar mundir kemur út hér á landi íslensk þýðing á skáldsögu Plath, The Bell Jar, sem hlotið hefur íslenska titilinn Glerhjálmurinn. En hver sá sem tekst á við lífshlaup og skáld- skap Sylviu Plath tekst jafnframt á við goðsögn sem fæddist í kjölfar hins sviplega fráfalls hennar, og mótast af margvíslegum þáttum. Auk þess að skilja eftir sig það sem óneitanlega má líta á sem ófullunnið en heillandi æviverk, hafði Sylvia Plath með skáldskap sínum mikil áhrif á þær kynslóðir kvenna sem síðar uxu úr grasi og mótuðust af jafnréttisumræðu ’68 kyn- slóðarinnar. Í skáldskap Plath kveður sér hljóðs rödd nútímakonu, sem gerir kröfu að njóta virðingar og tækifæra til jafns við karl- menn og orðar hinar mótsagnakenndu kröfur sem konan stendur gjarnan frammi fyrir í bein- skeyttri, oft kaldhæðinni og kraftmikilli tján- ingu. Sú innsýn sem skrif Plath veita í glímu einstaklings við þrúgandi geðsjúkdóm hefur einnig haft mikil áhrif á lesendur verka hennar. Í þeirri umræðu, líkt og þeirri er varðar kven- frelsisumræðuna, tók Plath á umfjöllunarefn- um sem takmarkaða athygli höfðu fengið, en vitundarvakning átti eftir að verða um aðeins fáum árum síðar. En auk skáldskaparins sem myndar undirstöðuna í goðsögn Sylviu Plath, hefur lífshlaup hennar orðið þar mótandi þátt- ur. Hjónaband Sylviu og Ted Hughes hefur orðið viðfangsefni fjölmargra bóka og er oft vísað til ástarsambands þessara tveggja frægu skálda sem ljúfsárustu ástarsögu 20. aldar bók- mennta. Fráfall skáldkonunnar, sem svipti sig lífi meðan börn hennar sváfu, er harmleikur sem í margra vitund vill ekki gróa og þannig hafa skáldsagnahöfundar, leikskáld, ævisagna- höfundar og ljóðskáld reynt að yrkja sig inn í harmsöguna og blása lífi í þá sögu og þær sögur sem hún skildi eftir sig. Ted og Sylvia Aðstandendur kvikmyndarinnar Sylvia eru því að feta sig inn á vandrataðan veg með dramatískri umfjöllun sinni um þann hluta ævi Sylviu Plath er hefst er hún kynnist Ted Hug- hes, og lýkur með sjálfsvíginu. Frieda Hughes, dóttir þeirra Hughes-hjóna, neitaði að láta framleiðendum í té notkunarrétt á ljóðum eftir foreldra sína, og lýsti áhyggjum yfir því að í vinnslu væri kvikmynd sem gerði harmleik móður sinnar að féþúfu og kynti undir róm- antíska upphafingu á dauða hennar. Hughes gagnrýndi m.a. gerð myndarinnar í ljóði sem birtist í Tatler Magazine fyrr á árinu. „Nú vilja þau búa til kvikmynd / fyrir hvern þann sem skortir ímyndunarafl/ til að sjá fyrir sér líf- lausan líkamann, höfuðið í ofninum / og börnin verða munaðarlaus“ segir m.a. í hinu hvassyrta ljóði Hughes. Christine Jeffs, leikstjóri mynd- arinnar, sagði að hægt væri að líta á gerð myndarinnar á tvo vegu, að hún gerði sér mat úr harmleik Plath, eða héldi nafni hennar og hæfileikum á lofti. Sem slík væri kvikmyndin aðeins hluti af fjölda verka í ýmsu formi sem leitast hafa við að fanga ævi og vitund Sylviu Plath á einhvern hátt. Megináskorunina við gerð myndarinnar sagði Jeffs þó felast í því verkefni að miðla hinu flókna innra lífi Plath í dramatískri framsetningu. Bann Friedu Hughes við því að ljóð eftir for- eldra hennar yrðu notuð í kvikmyndinni, gerði aðstandendum jafnframt erfiðara fyrir. Hand- ritshöfundur Sylviu, John Bronlow, lýsti því í viðtali hversu krefjandi verkefni það hefði verið að takast á við goðsögn Sylviu Plath, ekki síst þegar ljóst var að leggja yrði áherslu á lífs- hlaupið umfram skáldskapinn. Þráðurinn sem hann fann að lokum var ástarsagan í lífi Plath, í bókstaflegum og óbeinum skilningi, en vinnu- titill kvikmyndarinnar var lengi vel Ted and Sylvia. En áherslan á samband Sylviu Plath og Ted Hughes er ekki síður eldfimt viðfangsefni, þar sem fræði- og leikmenn hafa í gegnum tíðina skipast í fylkingar í afstöðu sinni til þeirrar sektar sem beindist að Hughes eftir lát Plath. Allt frá sjálfsvígi hennar mátti Ted Hughes, sem síðar varð Lárviðarskáld Breta, glíma við sektarkennd og ásakanir um að hafa hrundið Plath í dauðann með því að yfirgefa hana og vera henni ótrúr meðan á hjónabandinu stóð. Í augum margra kvenna og femínista sem litu á Sylviu Plath sem mikilvæga táknmynd og rödd í kvenfrelsisumræðunni, varð samband þeirra hjóna að dæmisögu um valdamisræmi milli karla og kvenna. Þar var litið til þess að Sylvia tók á sig ábyrgð heimilishalds og umönnunar barna þeirra, barðist við að samræma þau störf skrifunum, naut ekki verðskuldaðrar athygli sem rithöfundur líkt og Hughes gerði, og fann sig að lokum í valdalausri stöðu gagnvart vax- andi velgengni og tilheyrandi kvenhylli eigin- mannsins. Innan raða róttækra femínista varð Hughes að sökudólgi og nokkurs konar hold- gervingi karlveldisins sem kvenrithöfundurinn Sylvia Plath glímdi við. Til marks um áþreif- anleika reiðinnar sem beindist að Ted Hughes, eru þau skemmdarverk sem unnin hafa verið á legsteini skáldkonunnar, þar sem síðasta nafn- ið í áletruninni Sylvia Plath Hughes hefur verið máð út. Viðbrögð Hughes við láti Plath voru alger þögn og túlkuðu margir þau viðbrögð sem kald- lyndi. Það var ekki fyrr en árið 1998, þegar Hughes glímdi við krabbamein sem síðar dró hann til dauða, að hann rauf þögnina með út- gáfu bókarinnar Birthday Letters, safni ljóða sem ort eru til Sylviu Plath og fjalla um sam- band þeirra hjóna. Ljóðasafnið hreif jafnt leika sem lærða en þar lætur Hughes í ljós tilfinn- ingar sem spanna allt frá djúpri ást til örvænt- ingar gagnvart þeim geðrænu erfiðleikum sem hrjáðu Sylviu. Birthday Letters hlaut T.S. Eliot-verðlaunin og síðar Whitebread-verð- launin, en Ted Hughes lést sama ár og bókin kom út, 68 ára að aldri. Lífshlaup Sylviu En hver var Sylvia Plath? Hún fæddist í Boston í Massachusetts árið 1932 og ólst ásamt yngri bróður sínum upp í mennta- og millistétt- arumhverfi. Faðir Sylviu var prófessor við Boston-háskóla en lést þegar hún var aðeins átta ára gömul. Móðir systkinanna sem var menntaskólakennari gerði sitt besta við að sjá börnunum farborða og gefa þeim kost á góðri menntun. Allt frá barnaskólaárunum var Plath afburðanemandi, sópaði að sér styrkjum og við- urkenningum og byrjaði snemma að skrifa ljóð sem vöktu athygli kennara hennar. Þegar Plath hóf nám við Smith College á námsstyrk, hafði þegar birst eftir hana fjöldi ljóða í blöðum og tímaritum og á menntaskólaárunum skrifaði hún á fjórða hundrað ljóða. Tilhneiging til al- varlegs þunglyndis gerði áþreifanlega vart við sig á lokaári Sylviu í Smith College, er hún sneri heim í móðurhús eftir gestadvöl sem hún ávann sér á tímaritinu Mademoiselle í New York. Hún reyndi sjálfsvíg og gekkst í kjölfarið undir meðferð sem styrkti hana nægilega til að halda áfram námi. Tilhneigingar til þunglyndis, sjálfsefasemda og kvíða lögðu þó mark sitt á andlegt líf Plath æ síðan, og voru hluti af per- sónuleika sem að öðru leyti einkenndist af leiftrandi gáfum, metnaði og þörf til að láta að sér kveða. Þunglyndi sínu og sjálfsvígstilraun lýsti Plath síðar í hinni ævisögulegu skáldsögu The Bell Jar. Eftir útskrift úr Smith College hlaut Plath Fulbright-námsstyrk til þess að nema við Cam- bridge-háskóla í Englandi árið 1955. Í Cam- bridge kynntist Sylvia Ted Hughes og hafa fundir og stormasamt hjónaband þessara tveggja stórskálda fengið á sig goðsagna- kenndan blæ. Þau giftu sig árið 1956 og fluttu ári síðar yfir hafið til Boston þar sem skáld- skaparferill Hughes tókst á loft en Plath vann að því að þroska sína skáldskaparhæfileika. Síðar fluttu hjónin aftur til Englands þar sem þau eignuðust tvö börn sem Sylvia annaðist, á meðan Ted sinnti kennslu og fyrirlestrahaldi. Plath birti ljóð í blöðum og tímaritum sem hlutu víða lof og sendi frá sér sitt fyrsta ljóða- safn, Colussus, árið 1960. Persónulegir og starfstengdir erfiðleikar leiddu hins vegar til biturra endaloka hjónabands Sylviu Plath og Ted Hughes árið 1962. Eftir skilnaðinn flutti Sylvia ásamt börnum sínum í litla íbúð í Lond- on og hugðist hefja nýtt líf og einbeita sér að skrifunum. Eftir því sem leið á veturinn sökk hún hins vegar í alvarlegt þunglyndi sem leiddi að lokum til sjálfsvígs hennar 11. febrúar. En þetta síðasta ár ævi sinnar náði Plath að skrifa einhver mögnuðustu ljóð sín, fyrst skömmu eft- ir að þau Hughes slitu samvistum, og síðan síð- ustu tvo mánuðina fyrir sjálfsvígið. Þessi ljóð komu út árið 1965 í ljóðabókinni Ariel, og þótti, ásamt skáldsögunni The Bell Jar, sem út kom rétt fyrir andlát Plath, bera fáguðum og kraft- miklum skáldskaparhæfileikum hennar vitni. Árið 1971 bættust við ljóðasöfnin Crossing the Waters og Winter Trees. Heildarsafn ljóða Syl- viu Plath, sem Ted Hughes gaf út og skrifaði innganginn að, hlaut síðan Pulitzer-verðlaunin í flokki ljóðlistar árið 1982. Veðhlaupahestur án brautar Þegar öllu er á botninn hvolft er skáldskap- urinn líklega besta leiðin til að greiða sig í gegnum goðsagnirnar sem umlykja Sylviu Plath og komast nær rödd hennar og vitund- arlífi. Sagt hefur verið um ljóðin í Ariel, að þau séu líkt og skrifuð sem eftirmæli. Svo kraft- mikil, hreinskilin og undanbragðalaus sé hin tilfinningalega tjáning höfundarins, að engu sé líkara en hún viti sín endalok og telji sig hafa ekkert að fela. Þó að þessi skilgreining markist af tilhneigingunni til að skoða verk Plath í ævi- sögulegu ljósi, lýsir hún einum af hinum ríku þáttum skáldskapar Plath sem einkennist af áþreifanlegri tilfinningu fyrir takmörkunum í tilvist einstaklingsins, leitar hans að lífsham- ingju og viðleitni við að láta að sér kveða í heim- inum þrátt fyrir þessi takmörk, og kannski ein- mitt vegna þeirra. Ljóð Plath eru nokkurs konar tilfinningaleg- ar sprengjur, jafn kraftmiklar í dag og þegar þær voru settar saman. Og þótt skáldskapur Plath höfði sífellt til nýrra kynslóða, voru áhrif- in af ljóðunum sem skullu á lesendum eftir frá- fall Plath, eins og áhrif sprengju. Þar steig fram rödd sem, eins og rithöfundurinn Joyce Carol Oates hefur lýst henni, dró fram drauma og martraðir sálardjúpanna, og var óhrædd við að tjá reiði, biturð og vonbrigði, eða rökræða og rífast við dauðann eins og um gamlan félaga væri að ræða. Plath sótti óspart í eigin reynslu í skáldskap sínum, og skipaði sér þar í flokk bandarískra ljóðskálda á borð við Robert Lowell, sem komu fram eftir seinna stríð og umbyltu viðfangs- efnum ljóðlistarinnar með því að sækja í per- sónulega, tilfinningalega og hversdagslega reynslu. En þótt skáldskapur Plath endurspegli víða sálarlíf hennar og lífsreynslu er skírskotun hans langt í frá bundinn við þann reynsluheim. Hin síðari ár hafa fræðimenn beint sjónum að þjóðfélagslegum skrifum og áhuga Sylviu Plath, og skákað þeim ævisögulega lestri og þeirri ímynd sjálfsmiðunar sem hinn ævisögu- legi áhugi hefur óneitanlega kynt undir. Því þegar litið er á skáldskap Plath í heild, ein- kennist hann ekki síst af átökum hins persónu- lega og hins pólitíska, femínískrar gagnrýni og reynslu hefðbundinna kvenhlutverka, hins nú- tímalega og hins goðsögulega. Í skáldsögunni The Bell Jar koma saman margir þessara þátta, en þar skapar höfund- urinn einstaka mynd af þeim flóknu öflum sem móta vitund og sálarlíf einstaklings, í þessu til- felli sögupersónunnar Esther Greenwood. Sag- an er mjög ævisöguleg, reyndar svo mjög að móðir Sylviu lagði sig fram um að tefja fyrir út- gáfu bókarinnar í Bandaríkjunum í kjölfar hins sviplega fráfalls dótturinnar, og var það ekki fyrr en árið 1971 sem hún kom út vestra og var enduruppgötvuð eftir fremur rislitlar viðtökur í Bretlandi árið 1963. Sú innsýn sem bókin veitir í glímu Plath við þunglyndi er jafn persónuleg og hún er yfirveguð og víðsýn. Þunglyndið er óviðráðanlegt líkt og glerhjálmur sem brugðið hefur verið yfir höfuðið, en sálarlíf persónunn- ar mótast þó ekki aðeins af innri hindrunum, heldur einnig þeim sem sækja að hið ytra. Sem ung og hæfileikarík kona glímir Esther við mótsagnakenndar kröfur, hún á að baki glæst- an skólaferil, hefur unnið til viðurkenninga og námsstyrkja en engu að síður hvetur móðir hennar hana til þess að læra hraðritun, svo hún geti orðið ritari hjá einhverjum efnilegum ung- um menntamanni. Sem ungri konu á mennta- braut á sjötta áratugnum líður Esther eins og veðhlaupahesti sem hefur enga veðhlaupa- braut. Af viðbrögðum bandarískra og breskra gagnrýnenda við kvikmyndinni Sylviu er ljóst að enginn er tilbúinn að sjá lífshlaup Sylviu Plath léttvægt fundið, og eru gagnrýnendur meðvitaðir um þá sífellt stækkandi mósaík- mynd sem byggst hefur upp í kringum per- sónuna sem lifði og skrifaði. En hvað sem mis- jöfnum viðtökum líður, getur kvikmynd sem höfðar til stórs hóps fólks e.t.v. orðið til þess að beina nýjum lesendum í átt að hinni raunveru- legu auðlegð sem er jafnframt verðmætur lykill að innra lífi Sylviu Plath, þ.e. skáldskap henn- ar. MÓSAÍK- MYND SYLVIU PLATH Höfundur er bókmenntafræðingur. E F T I R H E I Ð U J Ó H A N N S D Ó T T U R Leikin kvikmynd hefur verið gerð um ævi bandarísku skáldkonunnar Sylviu Plath sem hefur haft á sér goðsagnakenndan blæ. HEIÐA JÓHANNSDÓTTIR segir frá kvikmyndinni og les hana saman við skáldskap Plath, meðal annars skáldsöguna The Bell Jar sem komin er út í íslenskri þýðingu. ReutersGwyneth Paltrow í hlutverki Plath í myndinni Sylvia.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.