Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. DESEMBER 2003 YFIRLITSSÝNING á verkum listakonunnar Kiki Smith stendur þessa stundina yfir í Museum of Modern Art nútímalistafninu í New York. Sýningin í heild snýst að stórum hluta um mannslíkam- ann sem Smith hefur lengst af notað sem viðfangsefni sitt. Lista- konan kynnti sér meira að segja störf starfsfólks á bráðavakt í Brooklyn á níunda áratugnum og einkenndust verk hennar á þeim tíma af töluverðum krafti og ákafa að sögn gagnrýnanda New York Times. Annað sjónarhorn á líkamann, tengd textum búddista, og svo sjálfsmyndir taka síðar við í list Smith og er hverjum þætti fyrir sig fylgt eftir á yfirlitssýn- ingunni. Bókasafn við hæfi kónga KONUNGLEGA bókasafnið, eða King’s Library, í British Museum hefur fengið glæsilega andlitslyftingu. Kostnaðurinn við endurbæturnar nemur um rúm- um milljarði króna, en að mati breska dagblaðsins Daily Tele- graph var þeim fjármunum vel varið þar sem einkar vel hefur tekist til með að endurheimta fyrri glæsileik salarkynnanna. Fyrsta sýningin sem settt verður upp í þessu nýuppgerða bóka- safni, er gefið var ensku þjóðinni skömmu eftir lát Georgs III árið 1820, er „Enlightenment“ eða Upplýsingaöldin. Byggist sú sýn- ing á þúsundum muna úr fórum safnsins og er henni ætlað að sýna fram á heimssýn og skilning manna á veröldinni í kringum þá á tímum upplýsingaaldarinnar. Dauði Klinghoffers ÓPERA John Adams, Dauði Klinghoffers, er þessa dagana sýnd í akademíunni í Brooklyn, en fáar óperur hafa þótt umdeild- ari á síðustu árum. Óperan fjallar um ránið á ítalska farþegaskipinu Achille Lauro árið 1985 af hendi palestínskra hryðjuverkamanna og morð á fötluðum bandarískum gyðingi, Leon Klinghoffer, í kjöl- farið. Óperan býður upp á marga mismunandi túlkunarmöguleika og er það ekki hvað síst samúð í garð málstaðar Palestínumanna sem andstæðingar óperunnar hafa verið ósáttir við. Að mati gagnrýnanda New York Times er þessi útfærsla óperunnar engu að síður mannúðleg, skörp og skemmtileg á að horfa og efni hennar óneitanlega þess eðlis að hún eigi skilið bæði umræður og athygli. Líkaminn með augum Kiki Smith ERLENT Born, steinprent eftir Kiki Smith. British Museum. VIÐ skoðun sýningarinnar Raunsæi og veru- leiki – íslensk myndlist frá 1960–1980 kemur ým- islegt upp í hugann. Fyrst er að móta sér skoðun á því hvort hægt sé að segja að hér sé um prýði- legt yfirlit yfir gróskumikið tímabil í íslenskri myndlist að ræða, eða hvort eigi að segja að sýn- ingin sé þreytandi samansafn sem skortir metn- aðarfyllri og meira skapandi sýningarstjórn. Sannleikskorn er í hvorutveggja en annað er sannara en hitt. Í fyrsta lagi getur maður ekki varist þeirri hugsun að þetta sé sýning sem maður hefur séð margsinnis áður í safninu; sömu listamennirnir, sama upphengið og sömu verkin. Í öðru lagi, og vegna margra tilvísana í erlenda áhrifavalda listamanna í sýningarskrá, vaknar með manni hugleiðing um það hve átakanlegur skortur er á alvöru erlendum listaverkum í safni Listasafns Íslands (þótt erlend verk eigi skiljanlega ekki heima undir titli þessarar sýningar). Í þriðja lagi vekur sýningin athygli á safni nútímamyndlistar sem hefur verið í „felum“ lengst af, safni Ný- listasafnsins, og í fjórða lagi spyr maður sig hvaða tilgangi það þjóni að sýna málverk og graf- íkverk tímabilsins frá 1960–1980 með þeim hætti sem þarna er gert. Að síðustu spyr maður sig hvar öll kvikmyndaverkin eru, eða voru ekki ann- ars gerð kvikmyndaverk á þessum tíma, fleiri en tækniæfing Steinu Vasulku sem sýnd er í innsta skúmaskoti sýningarinnar niðri í kjallara? Til að byrja með og áður en ég rek nánar þessi atriði sem tæpt er á hér í upphafi er rétt að geta þess um hvað sýningin Raunsæi og veruleiki – ís- lensk myndlist 1960–80 snýst og nærtækast er þá að vitna í ágætan texta Ólafs Kvaran sýning- arstjóra í sýningarskrá: „Í íslenskri listasögu varð á sjöunda áratugnum skýr aðgreining milli annars vegar þeirra sem unnu í anda módernism- ans með áherslu á form- og litrænar úrlausnir í málverkinu og hins vegar þeirra sem öðru frem- ur gengu út frá hugmyndalegum forsendum og notuðu ný efni og tjáningarmiðla.“ Sýningin endurspeglar sem sagt þá miklu breytingu sem varð í listsköpun hér á landi, eða sprengingu væri í raun hægt að kalla það, sem varð um miðjan sjöunda áratuginn þegar ungir myndlistarmenn, undir áhrifum frá því sem þá var að gerast úti í heimi, fóru að vinna hug- myndafræðilega list í efni sem fram til þess tíma höfðu ekki þótt fínn pappír. Breytingarnar voru svo miklar að myndlistarmenn eru enn að jafna sig á því, og líklega almenningur líka. En aftur að atriðunum sem ég kom að í byrjun. Skiljanlega eiga Íslendingar takmarkað úrval af listamönnum sem eru merkisberar hvers stíls og hverrar stefnu og því er ekki óeðlilegt að sömu verkin eftir sömu mennina komi fyrir æ ofan í æ á yfirlitssýningum. Stutt er síðan sýning til heiðurs SÚM var haldin í listasafninu og reglulega eru yfirlitssýningar í safninu, sumarsýningar t.d., þar sem ýmsu er tjaldað til og stundum því sama ár eftir ár. „Hjarta“ Jóns Gunnars virðist færast úr einu horninu í það næsta, sömuleiðis „Flugna- her“ Magnúsar Tómassonar og þegar maður kemur að „Environmental Sculpture“ Kristjáns Guðmundssonar, jafn athyglisvert verk og það þó er, er maður farinn að geispa. Ég kasta þó ekki fram svona dómi án þess að koma með tillögur að leiðum til úrbóta. Best væri auðvitað ef sýning eins og þessi væri aðgengileg allt árið, fyrir æsku og allan almenning, eins og listsögusýning, en slíkt er óraunhæft miðað við núverandi húsakost Listasafnsins. Ég vil sjá hugmyndaríkar yfirlitssýningar þar sem leitni, tíska eða straumar úr tíðaranda ólíkra tímabila eru krufin með tilvísun í bókmenntir, útlönd, þjóðmenningu, stjórnmál, eða hvaðeina sem hægt er að hugsa sér. Hugsandi fólki er ekki endalaust hægt að bjóða upp á „hverjir voru hvar“-sýningu ár eftir ár. Þá að punktinum um erlenda samanburðinn. Þó að Íslendingar séu duglegir að ferðast til að sjá hvað aðrar þjóðir aðhafast í listum og menn- ingu, og listamenn þar á meðal, kemur það ekki í staðinn fyrir að sjá íslensk myndlistarverk við hlið erlendra alvöruverka. Nýlega var opnað safnið Safn á Laugaveginum sem var stórt stökk fram á við í þessa veru, en íslensku listasöfnin þyrftu helst að safna með skipulögðum hætti er- lendum verkum til að eiga í bland við þau ís- lensku. Í Listasafni Íslands eru um 1.000 erlend verk, en listamennirnir eru flestir lítt þekktir á alþjóðavísu. Fleiri málsmetandi erlend verk við hlið þeirra íslensku gætu fært okkur heim sanninn um að ís- lensk myndlist hafi í gegnum tíðina verið í takt við það sem best gerist erlendis, eða jafnvel á undan sinni tíð. Þá sæist einnig með svona sam- anburði hið séríslenska við listina, ef eitthvað er. Ég minnist á það í byrjun að sýningin veki at- hygli á safneign Nýlistasafnsins enda eru nokkur verk á sýningunni í Listasafni Íslands úr fórum Nýlistasafnsins. Því miður hafa þessi verk ekki verið aðgengileg almenningi nema í mjög tak- mörkuðum mæli, sem er skelfileg synd enda er þarna að finna heimild um listasögu þjóðarinnar á seinni árum. Ég spyr í inngangi mínum hvað málverkin og grafíkverkin eru að gera á sýningu Listasafnsins. Mér finnst þeim verkum og þeim listamönnum sem þarna er stillt upp í raun enginn greiði gerð- ur með því hvernig verkunum er stillt upp á sýn- ingunni. Málverkunum er haldið útundan í sér- stökum sal og þannig er undirstrikað með áberandi hætti hvernig málverkið datt skyndi- lega úr tísku og hopaði fyrir framúrstefnumönn- um sem gáfu málverkinu, formalisma, módern- isma og öðrum stefnum langt nef. Í raun hefði þurft að taka málverkin sérstaklega fyrir á sér- sýningu með endurmat í huga, en á þessari sýn- ingu hefði farið betur ef hægt hefði verið að stilla öllu saman, málverkum í bland við hið nýja, þann- ig hefði skapast samræða milli ólíkra verka, í það minnsta spenna, kannski öllum til góða. Grafík- verkunum er komið fyrir niðri í kjallara, holað niður er mér skapi næst að segja, og er þeim enn minni greiði gerður en málverkunum. Í raun eru þau þarna, að því er virðist, meira til að fá að vera með. Að lokum spyr ég hvar kvikmyndaverkin séu. Ég er næsta viss um að til eru vídeóverk frá þessu tímabili, upptökur af gjörningum og því- umlíkt. Með fullri virðingu fyrir Steinu Vasulku þá finnst mér verk hennar ekki eiga mikið erindi inn á þessa sýningu, enda eru þau meira leikur með miðilinn og formið en hugmynd eða inntak. Best hefði þó verið ef hún hefði fengið að vera hjá málverkunum, til að skapa tengingu þar á milli. Ég er á því að hægt hefði verið að gera marg- falt betri sýningu um þetta tímabil þar sem farn- ar hefðu verið nýjar leiðir í uppsetningu, aðrar en hinar hefðbundu sem þarna eru notaðar. Ég við- urkenni þó að ég hafði einhverja ánægju af að skoða sýninguna, einkum vegna verkanna sem ég hafði ekki séð áður, eins og myndraða Ólafs Lár- ussonar, verka Hreins Friðfinnssonar, málverka Hauks Dórs og Gylfa Gíslasonar. En betur má ef duga skal. Prýðilegt eða þreytandi? MYNDLIST Listasafn Íslands ÝMSIR LISTAMENN, ÝMSIR MIÐLAR Opið frá kl. 11–17 alla daga nema mánudaga. Til 11. janúar. Morgunblaðið/Sverrir Fengur er að myndröðum Ólafs Lárussonar á sýningunni. Hér sést Cul-de-sac frá 1980. Fígúra eftir Gunnar Örn er eitt af málverkunum á sýningunni. Environmental Sculpture eftir Kristján Guð- mundsson. Verkið er frá árinu 1969 og er sam- kvæmt sýningarskrá fyrsta innsetningin á Ís- landi. Á vegg er verk eftir Jón Gunnar Árnason. Þóroddur Bjarnason

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.