Lesbók Morgunblaðsins - 03.01.2004, Síða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 03.01.2004, Síða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. JANÚAR 2004 5 þ.e. deildir Danmerkur, Svíþjóðar ásamt Noregi, Kanada og Tyrklands. Á sýningunni kom hann hins vegar auga á „karabískan kofa“, sem honum þótti sýna í hnotskurn fjögur frummótíf byggingarlistarinnar. Heimssýningarárið birti Semper ritið Die vier Elemente der Baukunst. Ein Beitrag zur vergleichenden Baukunde (’Fjögur frumefni byggingarlistarinnar. Framlag til samanburðarbyggingarfræða’), og gerir hann þar grein fyrir grunnhugmyndum sín- um í praktískri fagurfræði. Að hans hyggju eru list og tækni ekki aðskilin fyrirbrigði, heldur í díalektísku sambandi sín í milli. Með Cuvier að fyrirmynd skilgreinir hann fjórar tæknigreinar sem frumlistgreinar sið- menningarinnar; þær eru leirbrennsla (ker- amik), steinhögg (sterotómía), byggingar- fræði/smíð (tektóník) og vefnaðarlist (textíll). Af þeim séu allar aðrar greinar runnar, m.a. arkitektúr. Til frumgreinanna fjögurra svari fjögur frummótíf bygging- arlistarinnar, eins og sjá megi af karabíska kofanum. Eldstæði (keramik) sé uppspretta mannlegs samneytis, sökkull/undirstaða (steinn, múrverk) sé til varnar raka neðan úr jörðu, þak, borið af súlum (bygging- arfræði/smíð) sé til varnar sól og regni, og loks lykju veggir (textíll) um sjálft rýmið. Mikil áhrif átti sú hugmynd Sempers eftir að hafa, að veggir og skilrúm skulu skil- greind sem afmörkun rýmis með tjöldum, voðum eða fléttingum. Vísar hann þar fram á veginn til nútíma arkitektúrs 20. aldar, sem gerir skýran greinarmun á vegg, sem skapar rými (curtain wall), og súlu/vegg, sem ber uppi þunga. Zürich Árið 1855 var Gottfried Semper skipaður prófessor við nýstofnaðan tækniháskólann í Zürich, og gegndi hann þeirri stöðu til 1871. Fyrsta verkefni hans þar var að hanna ný- byggingu fyrir skólann, sem síðar var kall- aður Eidgenössische Technische Hochschule (ETH) Zürich og er nú einn frægasti arki- tektúrskóli heims. Þetta var mesta bygging- arframkvæmd, sem landsstjórnin réðst í um þær mundir, og var vitaskuld glæsileg byrj- un á ferli Sempers í Sviss. Rétthyrnd bygg- ingin (1858–1868) umlykur tvo húsagarða, sökkullinn er með hrjúfri hleðslusteinsáferð („opus rusticum“) allt umhverfis til að draga fram lárétt skil, en höfuðprýði hennar er lít- ið eitt framstæður miðhluti, sem myndar andstæðu við að öðru leyti látlausa framhlið- ina. Miðhlutann, þá hlið sem snýr að borg- inni, einkenna miklar burðarsúlur og gólf- síðir gluggar, enda er þar uppi hátíðarsalurinn, samkomusalur prófessora. Aftanvert í miðhlutanum, bak við anddyrið, var komið fyrir frægu forngripasafni Jakobs Burckhardts fornleifafræðings. Samkvæmt hugmyndum Sempers skyldu stúdentar og prófessorar skoða fornmunina daglega, er þeir ættu leið framhjá. Með því kallast á for- tíð og nútíð, enda er orðræðan þar á milli grundvallarhugsun með byggingunni allt frá myndverkum framhliðarinnar til kennslu- rýma. Af öðrum merkum byggingum Sempers frá árunum í Zürich má nefna ráðhúsið í Winterthur (1863–1870). Samnefnd kantóna í Sviss er þekkt fyrir sterka hefð í grasrót- arlýðræði. Semper vildi því reisa ráðhús, sem að hans hyggju yrði táknrænt fyrir lýð- veldislegan arkitektúr. Sem fyrirmynd að ráðhúsinu valdi hann Maison Carrée í Nî- mes í Frakklandi, rómverskt hof frá 1. öld, sem Thomas Jefferson hafði sömuleiðis sótt til, er hann hannaði fyrsta þinghús hins unga ameríska lýðræðis í Richmond í Virg- iníu. Af ráðhúshofi Sempers má auðveldlega lesa frummótíf hans fjögur og kenninguna um klæðningu bygginga. Til hins félagslega eldstæðis svarar borgarasalurinn í húsinu miðju, verjandi sökkullinn er aðgreindur með hrjúfri hleðslusteinsáferð frá sléttum múrsteinsfleti efri hæða, þakið og bygging- arfræði þess er skýrt mótað, og vefnaðar- uppruni veggjanna er sýndur, með því að hefðbundin burðargrind hliðarálmanna er brotin upp með gluggum, svo að veggflöt- urinn minnir á klæðningu eða hjúp, en ekki berandi vegg. Í engri annarri byggingu tekst Semper að flétta kenningum, út- færslum og stjórnmálaskoðunum sínum saman með jafn órækum hætti, enda mat hann ráðhúsið mest allra verka sinna. Á Zürich-árunum vann Semper auk þess við að semja höfuðrit sitt Der Stil in seinen technischen und tektonischen Künsten, oder praktische Ästhetik (’Stíll í tæknilegum og byggingarfræðilegum listum, eða praktísk fagurfræði’). Hugðist Semper rekja þróun- arsögu lista og tækni í þremur bindum, allt frá öndverðu til byggingarlistar stórhýsa. Fyrsta bindið (1860), u.þ.b. 300 bls., helgar hann einvörðungu vefnaðarlistinni. Í öðru bindi (1863) fjallar hann um hin þrjú frum- efnin af fjórum og málmsmíði að auki. En þriðja bindið, sem ætlað var umfjöllun um arkitektúr, skrifaði Semper aldrei. Ástæðan fyrir því mun að líkindum vera sú, að í fyrsta bindi hafði hann þegar gert grein fyr- ir kjarnanum í arkitektúrkenningum sínum, þ.e. kenningunni um klæðningu bygginga, enda áleit hann þá kenningu vera frumatriði sérhvers arkitektúrs, burtséð frá allri bygg- ingarfræði og smíð. Óperuhátíðarhús Richards Wagners í München Við skyndilegt fráfall Maximilians kon- ungs II af Bæjaralandi árið 1864 gekk sonur hans Lúðvík II til ríkis og var þá á 18. ári. Konungurinn ungi var heillaður af óperum Richards Wagners, hafði gerst einlægur aðdáandi tónskáldsins, eftir að hann hafði séð uppfærslu á Lohengrin 15 ára gamall. Lúðvík lét það verða sitt fyrsta embætt- isverk að hafa uppi á Wagner, sem fór huldu höfði á flótta undan lánardrottnum sínum, og bauð honum að koma til München. Lét Lúðvík ekki við það sitja að greiða allar skuldir Wagners og veita honum höfðing- legan lífeyri, heldur hugðist hann reisa hon- um leikhús, til þess að hugmynd Wagners um óperuhátíð mætti verða að veruleika og Niflungahringurinn yrði settur á svið með sómasamlegum hætti. Sem arkitekt valdi Richard Wagner sinn gamla góða vin frá Dresdenarárunum, Gottfried Semper. Í sín- um ungæðislega eldmóði ætlaði Lúðvík kon- ungur sér þar með að skapa stærsta heild- stæða listaverk allra tíma, svo að „ný Periklesaröld mætti rísa“ og hann sjálfur hlyti verðugan sess í sögunni. Í bréfi til Sempers kemst hann svo að orði: „Þannig taka mesti arkitekt og mesta skáld og tón- listarmaður aldarinnar höndum saman um að skapa verk, sem mun standa um ókomna tíma mannkyninu til blessunar og heiðurs.“ Þegar hér var komið sögu hafði Semper reist fyrra hirðleikhúsið í Dresden og tekið þátt í samkeppni um leikhús í Rio de Jan- eiro fyrir keisarann í Brasilíu og gat því byggt á reynslu sinni af þeim verkefnum. Hannaði hann nú voldugt listahof (1864– 1867), sem skyldi standa fyrir endanum á beinu breiðstræti, er lægi frá bústað kon- ungs allt upp á hæð handan við Ísar-fljót, og mundi leikhúsið tróna yfir listaborginni München, en hátíðargestir ganga upp hæð- ina eins og pílagrímar á leið sinni til helgi- staðar. Wagner óskaði eftir því, að hinn raun- verulegi heimur áhorfenda og hinn huglægi heimur listarinnar yrðu með öllu aðskildir, og varð Semper við þeirri ósk, er hann hannaði húsið: Grunnmynd áhorfendarým- isins er keilulaga – eins konar sneið af fornu arenu- eða hringleikhúsi, og gerir sú lögun sérhverjum áhorfanda kleift að sjá beint á leiksviðið og njóta „listaverks framtíðarinn- ar“. Í eldri leikhúsum hins vegar, t.d. bar- okkleikhúsum, sást á sviðið einvörðungu úr salnum niðri og úr miðstúku, en af svölum og úr öðrum stúkum sáu áhorfendur þá, sem á móti sátu, en urðu að halla sér fram til þess að geta séð frá hlið eitthvað af því, sem fram fór á sviðinu. Hljómsveitinni skal kom- ið fyrir ofan í gryfju fyrir framan leiksviðið, til þess að sýn á sviðið truflist ekki, áhorf- endarými skal myrkvað, og innleitt er tvö- falt forsvið („Proszenium“), sem lykur um hljómsveitargryfjuna. Forsviðið skyldi notað sem millirými fyrir lýsingarkerfi með óbeinni lýsingu, og með blekkingu sjónar- horns og fullkominni tilfærslu á mælikvarða skyldi það láta persónurnar á leiksviðinu sýnast stærri en ella, svo að leikrænir at- burðirnir virtust eiga sér stað í upphöfnu huglægu rými handan við allt jarðneskt. Árið 1865 lenti Richard Wagner æ meira milli tannanna á fólki vegna gegndarlausrar eyðslu á ríkisins kostnað og afskiptasemi af tónlistarlífi Münchenarborgar, og dróst kon- ungurinn ungi óhjákvæmlega inn í þá um- ræðu. Almenningur og blöð réðust harka- lega á augljósa óráðsíu og bruðl Wagners og undanlátssemi konungsins við hann. Var öll- um í fersku minni slæmt fordæmi Lúðvíks I Bæjaralandskonungs, sem var svo algjör- lega undir hælnum á glysgjarnri og valda- gráðugri ástkonu sinni, Lólu Montez, að 1849 varð hann loks að segja af sér. Ráð- Fyrra hirðleikhúsið í Dresden (1835–1841), mynd eftir Christian Gottlob Hammer frá því um 1845. Með fyrra hirðleikhúsinu hlaut Semper alþjóðlega viðurkenningu og frægð sem arkitekt. Síðara hirðleikhúsið í Dresden, m.ö.o. Semperóperan (1869–1878), eitt glæsilegasta og best sótta óperuhús heims. Gottfried Semper (1803–1879), ljósmynd frá 1859.  Sýnagógan í Dresden (1838–1840), vatns- litamynd eftir Hermann Wunderlich frá 1895. Nasistar kveiktu í sýnagógunni 9.eða 10. nóv- ember árið 1938. Karabíski kofinn, sem Semper þótti sýna fjög- ur frummótíf byggingarlistarinnar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.