Lesbók Morgunblaðsins - 03.01.2004, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 03.01.2004, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. JANÚAR 2004 13 Ý msar sagnir og getgátur eru til um landnám á Kanarí-eyjum. Telja sagnfræðingar sennilegt að eyjarnar hafi verið byggðar tveimur til þremur þúsund ár- um fyrir Krist.8 Til eru óljósar grískar heimildir um eyjar utan við strönd Afríku, þar sem veð- ur séu mild, vegna þess, að þar blási hlýir vindar af hafi allt árið. Vitnað er þessu til stuðnings í heimildir eftir Hómer. Einnig er talið að Róm- verjum hafi verið kunnugt um staðinn. Getur Pliníus eldri um eyjarnar Hispidus og Gæfu-eyj- ar vestan Atlasfjalla, sem eru í norð-vestan- verðri Afríku. Til er heimild um, að Juna kóngur í Mauritaníu í Afríku hafi kannað eyjarnar um 40 f. Kr. og meðal annars fundið þar mikið af stórum hundum. Nefndi hann því eyjarnar Can- arí-eyjar eftir hundunum (Canis á latínu). Það var síðan ekki fyrr en á 14. öld, að Evrópubúar hófu ýmsa leiðangra að eyjunum. Voru þá skip frá Miðjarðarhafslöndum í siglingum um svæðið og var leitast við að kristna eyjaskeggja. Árið 1402 sigldi riddari frá Normandí, Juan de Bet- hencourt að nafni, til kanarísku eyjarinnar Lanzarote. Samdi hann um landvistarleyfi við höfðingjann Guadarfían, sem þá var konungur á eynni. En riddarinn þakkaði þessa einstöku gestrisni konungs með því að ná að lokum allri eynni á sitt vald 1404, þá að vísu með fulltingi Hinriks III Kastilíukonungs á Spáni. Einnig tókst honum að ná yfirráðum á nærliggjandi eyju, Fuerteventura. Á eftir fylgdi síðan land- taka Portúgala og öllu fremur Spánverja á hin- um ýmsu eyjum klasans. Eru til lýsingar á því hvernig eyjaskeggjar vörðust, og hvernig Evr- ópubúum tókst að sigra þá og leggja undir sig eyjarnar, þessi heimkynni innfæddra, hverja eftir aðra. Lauk þeim herferðum með því, að Spánverjar lögðu árið 1496 undir sig síðasta vígi frumbyggja á eyjunni Tenerífe.1 Hverjir voru frumbyggjar Kanarí-eyja? Menn hafa í seinni tíð velt fyrir sér, hverjir frumbyggjar eyjanna hafi verið. Mannfræðingar og fornleifafræðingar hafa kannað jarðneskar leifar þeirra, sem grafnir hafa verið, vistarverur þeirra og áhöld. Einnig er nokkuð vitað um tungu eyjaskeggja, einkum af staðarnöfnum og mannanöfnum. Til eru nokkrar samtíma heim- ildir um atvinnu- og þjóðfélagshætti eða stjórn- skipulag, trúarbrögð og greftrunarsiði á eyjun- um, og einnig eru til ýmsar munnmæla- og þjóðsögur frumbýlinga. Rannsóknir benda til þess, að eyjarnar hafi verið byggðar af mönnum tveggja kynstofna. Á öllum eyjunum hafi verið fólk með lifnaðarhætti svipaða þeim, sem menn viðhöfðu í vestanverð- um Alpafjöllum fyrir árþúsundum. Greftrunar- siðum eyjaskeggja svipar einnig mjög til þeirra, er þekkjast meðal þessa fólks. Voru þeir lang- höfðar, með há kinnbein, breiða höku og fremur þykkar varir, en nokkuð ljósir á hár og yfirlitum. Önnur gerð manna á eyjunum var svipuð þeim, sem búa í Miðjarðarhafslöndum. Eru þeir lágvaxnari en hinir, með breið andlit og dökkir á hár. Voru þeir einkum á Gran Canaría og Hierro.2 Álitið er, að frumbyggjar hafi upphaflega komið siglandi frá Afríku á mjög frumstæðum bátum. Annars var siglingatæknin ekki mikil, því að menn ferðuðust lítið sem ekkert á milli eyjanna, enda mynduðust sérstakar mállýskur á einstaka eyjum vegna einangrunar. Ekki eru menn á eitt sáttir um uppruna eyjaskeggja. Stungið hefur verið upp á því, að Kanarí-eyjabú- ar séu af ætt Grikkja, Rómverja, Föníkumanna, Kartagóbúa, Egypta, Líbíumanna eða jafnvel germanskra manna, þ.e. Vandala. Flestir hallast samt að því, að þeir séu Berbar, sem komið hafi frá Afríku, enda er þar skemmst að fara. Mörg- um orðum, sem þekkt eru úr máli eyjabúa, svip- ar til berbneskra orða og húsakynnin, sem eyja- skeggjar bjuggu í, minna mjög á hús, sem enn eru notuð í Líbíu. Berbar eru ekki Arabar. Þeir eru fremur ljósir á hár og eru af sumum taldir vera af hvíta kynstofninum, er sest hafi að í Norður-Afríku fyrir árþúsundum. Þegar Evrópumenn hertóku Kanarí-eyjar voru innbyggjarar þeirra um 70.000 að tölu. Flestir bjuggu á stærstu eyjunum Gran Canaría og Tenerífe, eða 30 þúsund á hvorri eyju, en um 10 þúsund voru alls á hinum fimm smærri eyj- unum. Ekki gátu eyjarnar borið meiri mann- fjölda en þar var, þar eð fæðuframboð var tak- markað. Var því stundaður útburður barna, einkum stúlkubarna til að halda mannfjölda í skefjum.1 Álitið er að nokkur hundruð eyjaskeggja hafi fallið í átökum við innrásarlið Spánverja, einnig hafi nokkrir tugir verið fluttir úr landi og sumir seldir sem þrælar. Árið 1477 voru 100 innfæddir fluttir til Spánar, en þeir voru sendir aftur til Kanarí-eyja. Sagt er að Ferdínand og Ísabella af Spáni hafi leyst úr haldi 700 fanga, sem átti að selja þaðan sem þræla. Megnið af frumbyggjum dró sig hins vegar til fjalla og hélt uppi sínum fornu lifnaðarháttum, en aðrir sömdu sig að nýj- um siðum aðkomumanna. Einkum urðu menn af aðalstétt frumbyggjanna áfram landeigendur, og bændur héldu áfram að stunda sína kvik- fjárrækt. Eðlilega urðu miklar breytingar á lifnaðar- háttum frumbyggja við komu Spánverja til eyjanna. Fluttur var inn sykurreyr og síðar vín- viður. Landareignir innfæddra voru nú teknar undir ræktun á sykurreyr og ýmsu grænmeti, sem var áður óþekkt á eyjunum. Landslýðurinn tók síðan að starfa á þessum ökrum, en margir fengust samt enn við hefðbundna kvikfjárrækt eða kornyrkju. Af framanskráðu er ljóst, að mannfjöldi var nægur á Kanarí-eyjum til rækt- unarstarfa á sykurreyrs-ökrum og síðar í vín- viðar-görðum.2 Þrælasala Spánverjar, Portúgalar, Ítalir og fleiri þjóðir fengust á þessum árum mjög við þrælasölu. Sóttu þeir svart fólk til Afríku meðal annars til að vinna á sykurreyrs-ökrum. Þrælarnir voru notaðir sem ódýrt vinnuafl á plantekrum eða til starfa á skipum. Voru Genúamenn miklir þræla- kaupmenn og versluðu við Araba, sem sóttu svarta þræla inn í Sahara. Lærðu Portúgalar þann leik, en gátu eins vel aflað sér hvítra þræla, ef völ var á slíkum, en eins og fyrr segir höfðu sumir Kanarí-eyjabúar verið gerðir að þrælum og jafnvel seldir úr landi Með aukinni siglingatækni leituðu Portúgalar einnig norður í höf. Sjómenn frá Bristol stund- uðu þá veiðar og verslun, og urðu tíð viðskipti milli Englands og Portúgals. Fóru Portúgalar jafnframt að leita á norðlægar slóðir til fiskiveiða og verslunar á svipaðan hátt og Bristolbúar. Höfðu Bristolbúar á 15. öld allt frá 1409 meðal annars siglt norður til Íslands í viðskiptaerind- um og til að afla fiskjar. Voru þeir einnig búnir að finna fengsæl fiskimið enn vestar í hafinu, og ekki ólíklegt að þessir sjómenn hafi þá einhvern tíma komist að ströndum Grænlands. Í lok ald- arinnar voru þeir síðan komnir alla leið vestur til Nýfundnalands. Á 15. öld voru Spánverjar og Portúgalar komnir með vel haffær skip, og tókst þeim að komast langt á haf út. Á þessum sjóferðum rák- ust þeir á áður óþekktar eyjar og lönd. Portú- galski sæfarinn Joao Goncalves Zarco kom auga á Madeira 1418 og gekk þar á land 1420. Voru þessar eyjar þá mannlausar, og reyndar höfðu engin spendýr heldur náð að nema þar land. Eyjarnar voru síðan byggðar af Portúgölum. Sykurreyr var fluttur þangað frá Sikiley 1452, og sagt er að á Madeira hafi verið komið upp fyrsta sykurreyrs-akrinum í heimi. Árið 1427 voru Azoreyjar uppgötvaðar af könnuðinum Diogo de Senill, sem var í þjónustu konungsins í Portúgal. Á eyjum þessum voru heldur engin merki um, að þar hefðu áður komið menn né nokkur land-spendýr. Byrjað var að byggja þessar eyjar 1432, og í lok aldarinnar voru allar eyjarnar mannaðar Evrópubúum.3 Byggðin á Grænlandi Á meðan Portúgalar voru að finna nýjar lend- ur suður í Atlantshafi og byggja þær, var hins vegar að hverfa byggð á norðurslóðum þessa sama hafs. Þjóðarbrot norrænna manna á Grænlandi var að glatast. Síðasta skip, sem vitað er um að farið hafi frá Grænlandi með íslenska farþega, hélt þaðan 1410 áleiðis til Noregs. Um borð var Sigríður Björnsdóttir frá Ökrum í Blönduhlíð og Þorsteinn Ólafsson síðar lögmað- ur og hirðstjóri. Höfðu þau verið gefin saman á Grænlandi 16. september 1408. Um þetta eru til skráðar heimildir, þær síðustu, sem vitað er um af veru norræna þjóðarbrotsins á Grænlandi. Þegar dönsk skip komu loks að vesturströnd Grænlands árið 1605, fundust þar engir menn af norrænum stofni.4 Menn hafa löngum velt fyrir sér, hvað hafi orðið af þjóðarbrotinu á Grænlandi. Þegar ég kom til Madeira í apríl 1989, tók ég eftir fjölda ljóshærðra og bláeygðra barna. Gat ég mér þess þá til, að portúgalskir sjómenn hefðu komist til Grænlands í byrjun 15. aldar og fundið fyrir þessa kristnu landa okkar. Hefðu þeir græn- lensku annaðhvort verið teknir til fanga, eða öllu heldur, að samþykkt hafi verið að ganga Portú- gölum á hönd og flytjast með þeim suður um höf. (Sé ég í anda hvernig portúgalskur skipstjóri ræðir á latínublöndu við biskupinn eða prestinn í Görðum, og gyllir fyrir honum ágæti nýfundinna eyja í suðri og býður honum far þangað með nokkur hundruð manna hóp í skipi sínu. Hefur þetta þá verið ein fyrsta sólarlandaferð Íslend- inga!) Nú vissu þessir portúgölsku sjómenn, að nauðsynlega vantaði mannafla til að byggja upp eyðisvæðin á Madeira og Azoreyjum. Má því vel geta sér þess til, að þetta norræna þjóðarbrot á Grænlandi hafi verið flutt þangað suður og hafi það tekið þátt í uppbyggingu þessara land- svæða. Samt er furðulegt, þar sem um var að ræða ritfært fólk, að ekki skyldi nein skrifuð lína berast frá því úr þessum nýju heimkynnum, þótt bréfburður hafi þá ekki verið neitt sérstaklega greiður. Voru Íslendingar á Madeira? Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar frá Grænlandi hafi verið fluttir til Kanarí-eyja.5 Frá þeim komi ljósi háraliturinn og bláu augun eyja- skeggja og kunnátta í glímu, sem þar er háð á mjög svipaðan hátt og á Íslandi. Mér finnst hins vegar ólíklegt, að á Kanarí-eyjum hafi verið þörf fyrir vinnuafl, þar sem nægt kunnáttufólk um akuryrkju var þar fyrir, og mannafli jafnvel not- aður til þrælasölu. Þörfin var meiri á áður óbyggðum eyjum, sem Portúgalar þurftu að manna, það er Madeira og Azoreyjar. Ritgjörð Lilleströms um þetta efni hef ég ekki séð, en að- eins þá tilvitnun í hana, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins.6 Eyjafundur Spánverja og Portúgala á 15. öld tengist að vissu leyti enn frægari landafundi Kólumbusar, en hann fann Vestur-Indíur 1492. Þótt hann væri Genúabúi að uppruna (f. 1451), var hann í siglingum við allar þessar eyjar, sem Portúgalar höfðu fundið fyrir nokkru. Árið 1478 gekk hann að eiga portúgalska konu, Felipu Perestrello e Moniz, er var systir landstjórans á eynni Porto Santo, sem var skammt frá Mad- eira. Þar settist Kólumbus að í nokkurn tíma. Er gaman að geta sér þess til, að þar hafi hann kom- ist í kynni við grænlensku Íslendingana, er ef til vill voru komnir þangað, og kona hans og mágur þekktu vafalaust betur en hann. Sumir hafa álitið, að Kólumbus hafi komið til Íslands og þar fengið vitneskjuna um Vínland. Er sú tilgáta meðal annars dregin af bréfi, sem Kólumbus skrifaði og sendi spænsku konungs- hjónunum 1495, þegar hann var staddur í Vest- ur-Indíum. Getur hann þess í bréfinu, að hann hafi verið á siglingu í febrúar 1477 (þá 26 ára gamall) og farið framhjá Tíle-eyju, en suður- strönd hennar sé 73 gráðum frá miðbaug, en ekki 63. Sé þetta rétt munað hjá landkönnuðin- um, hefur hann verið kominn talsvert norðar- lega í febrúarmánuði og lítið vitað um Ísland og Íslendinga og sögur þeirra um Vínlandsferðir, ef hann hefur enn haldið sig vera hjá Tíle-eyju eftir að hafa rætt við Íslendinga í þeirra heimabyggð. Sennilega er þessi frásögn aðeins tilbúningur hans og sonarins Fernando, sem skrifaði ævi- sögu föður síns. Er frásögnin líklega aðeins byggð á hugarburði fengnum af að skoða kort gerð við landafræði Ptolemeusar, sem fyrst voru gefin út á prenti í Bologna á Ítalíu 1477 og sýna Thule á 63 gráðu n. br.7 Ei að síður gæti Kólumbus, á ferðum sínum meðfram ströndum Portúgals og Afríku, að sjálfsögðu hafa rætt við sjómenn frá Bristol og frétt hjá þeim ýmislegt um Íslendinga og hagi þeirra, en mér þykir skemmtilegast að trúa því, að hann hafi fyrst frétt af Vínlandi hjá íslensku Grænlendingunum á Madeira. Heimildir 1 Jósé M. Castellano Gil & Fransisco J. Macias Martín. Hi- story of the Canary Islands. Canaría, 1993. 2 José Luis Concepcion. Los Guanches. Islas Canarías 2001. 3 Encyclopædia Britannica. 4 Ólafur Halldórsson. Grænland í miðaldaritum, 1978. 5 Lilleström, Per A. 1993. 6 Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. Lesbók Morgunblaðsins 3.–10. júlí 1999. 7 Haraldur Sigurðsson. Kortasaga Íslands, 1971 bls. 35 og víðar. 8 Safnið Mundo Aborigen, Kanarí-eyjum. FRUMBYGGJAR KANARÍ-EYJA OG LANDNÁM Á MADEIRA OG AZOREYJUM „Ei að síður gæti Kólumbus, á ferðum sínum meðfram ströndum Portúgals og Afríku, að sjálfsögðu hafa rætt við sjómenn frá Bristol og frétt hjá þeim ýmislegt um Íslendinga og hagi þeirra, en mér þykir skemmtileg- ast að trúa því, að hann hafi fyrst frétt af Vínlandi hjá íslensku Grænlendingunum á Madeira.“ Sumir Kanarí-eyjabúar voru ljósir á hár og blá- eygðir. Þeir notuðu ýmis tákn og myndmerki, en höfðu ekkert ritmál. Skálar, ker og bollar voru steypt úr rauðum leir. Höfundur er náttúrufræðingur. E F T I R S T U R L U F R I Ð R I K S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.