Lesbók Morgunblaðsins - 03.01.2004, Side 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. JANÚAR 2004 11
Hvaða áhrif hafði Aristóteles
á miðöldum?
SVAR: Aristóteles var þekktastur og áhrifa-
mestur heimspekinga á miðöldum og með
nokkrum rétti mætti kalla 12. og 13. öld aldir
Aristótelesar. Þegar Tómas frá Akvínó vísar til
Aristótelesar í ritum sínum lætur hann sér
nægja að kalla hann „heimspekinginn“ – allir
vita við hvern er átt. Rit Aristótelesar voru upp-
götvuð smátt og smátt og má skipta viðtökum
við heimspeki hans á miðöldum í nokkra áfanga.
Fyrst ber að nefna rökfræðiritin. „Eldri rök-
fræðin“ sem svo var kölluð (logica vetus), en
það voru rökfræðirit á borð við Umsagnir (De
categoris) og Dóma (De interpretatione), var
þekkt og notuð í kennslu allt frá því að róm-
verski heimspekingurinn Boethius þýddi þau á
latínu um 510–522. Við þessi rit studdust fræði-
menn, heimspekingar og guðfræðingar framan
af miðöldum. Það er ekki fyrr en á öðrum fjórð-
ungi tólftu aldar að nýjar þýðingar á fleiri rök-
fræðiritum Aristótelesar koma fram, og gengu
þau undir nafninu „nýja rökfræðin“ (logica
nova). Þessar þýðingar voru flestar eftir Jakob
frá Feneyjum, sem starfaði bæði í Grikklandi
og á Ítalíu.
Áhugi á ritum Aristótelesar jókst mjög upp
úr þessu og spreyttu ýmsir þýðendur sig á rit-
um hans. Meðal annars þýddu bæði Jakob frá
Feneyjum og Michael Scotus Eðlisfræðina, Um
sálina og hluta úr Frumspekinni, hinn fyrri úr
grísku um 1125–1150, hinn síðari úr arabísku
um 1220–1235. Michael Scotus, sem starfaði
bæði á Spáni og á Ítalíu, þýddi einnig Stóra
skýringarrit spænsk-arabíska heimspekingsins
Averroesar á Frumspekinni og skipti það miklu
máli fyrir viðtökur heimspeki Aristótelesar á
13. öld, því að þá fengu fræðimenn bæði heildar-
texta Frumspekinnar og skýringar á textanum.
Siðfræðina þýddu ýmsir fræðimenn um svipað
leyti, meðal annars enski heimspekingurinn
Robert Grosseteste um 1246, svo og ýmis nátt-
úrufræðirit.
Flæmski dóminíkanamunkurinn Wilhelm frá
Moerbeke, sem starfaði bæði á Grikklandi og
við páfahirðina á Ítalíu, þýddi úr grísku þau rit
sem á vantaði og endurskoðaði fyrri þýðingar á
árunum 1260–1280 og var yfirleitt stuðst við
þýðingar hans eftir það, en þó var það ekki al-
gilt. Stjórnspekina þýddi hann upp úr 1260 og
Skáldskaparfræðin um 1278. Segja má að öll rit
Aristótelesar hafi verið aðgengileg á latínu um
1300. Til samanburðar má benda á að öll rit
Platons voru ekki til í latneskum þýðingum fyrr
en undir 1500.
Áhrif Aristótelesar eru fólgin bæði í aðferð-
um hans og hugtökum, en ekki síst í þeirri
heildarheimsmynd sem rit hans létu mið-
aldamönnum í té og vék ekki fyrr en með vís-
indabyltingunni á 17. öld. Auk heimsmynd-
arinnar má segja að Aristóteles hafi með
rökfræðiritum sínum haft mikil áhrif á hugs-
unarhátt Vesturlandabúa með greiningu sinni á
hlut og eiginleika, sönnum og ósönnum setn-
ingum og samsetningu þeirra í gildri rökfærslu
(syllogisma). Á miðöldum gætir áhrifa frá frum-
speki hans til dæmis hjá Tómas frá Akvínó, frá
stjórnspeki hans hjá Marsiliusi frá Padúa og frá
rökfræði hans hjá Vilhjálmi af Ockham. Á 13.
öld voru rit hans bönnuð með reglulegu millibili,
fyrst 1210, og síðasta og áhrifamesta bannið var
sett í París 1277, þegar ýmsar kenningar
kenndar við Averroes voru bannaðar. Talið er
að þetta bann hafi að einhverju leyti ýtt undir
breyttar áherslur í heimspeki 14. aldar og
breytt viðhorf til hlutverks skynseminnar í guð-
fræði.
Gunnar Harðarson, dósent í heimspeki við HÍ.
Hverjir eru kostir og gallar
klónunar?
SVAR:Áður en lengra er haldið þarf að gera
greinarmun á tvenns konar tilgangi með ein-
ræktun, læknisfræðilegum tilgangi og æxl-
unartilgangi, og skoða síðan kosti og galla hvors
um sig.
Einræktun í æxlunartilgangi gæti gefið fleir-
um kost á að eignast börn sem væru líf-
fræðilega tengd þeim sjálfum. Enga sæð-
isfrumu þarf í einræktun, aðeins
líkamsfrumukjarna og eggfrumu sem kjarni
hefur verið tekinn úr. Því gætu pör með ófrjó-
semisvandamál eða arfgenga sjúkdóma, lesbíur
eða einhleypar konur, eignast börn án ut-
anaðkomandi hráefnis.
Andmæli gegn hugmyndinni eru mörg. Sum
þeirra eru byggð á misskilningi á borð við þann
að sá einræktaði verði alveg eins og sá sem átti
líkamsfrumuna. Það verður hann ekki, meðal
annars vegna þess að hann yrði úr annarri egg-
frumu. Erfðaefni er ekki bara í kjarna eggsins
heldur eru líka svokölluð hvatberagen í um-
fryminu. Vegna þessa yrði erfðamengi þess ein-
ræktaða örlítið öðruvísi en þess sem átti líkams-
frumuna. Auk þess myndu þeir mótast á
mismunandi hátt á meðgöngunni ef það er ekki
sama kona sem gengur með báða.
Önnur andmæli eru byggð á getgátum og
framtíðarspám sem eru til að mynda tengdar
sálarlífi þess einræktaða og áhrifum á erfða-
fræðilegan fjölbreytileika mannlífs í framtíð-
inni. Eitt er þó ljóst, að megingallinn er lágt ár-
angurshlutfall (1–3%) úr dýratilraunum. Líkur
á mistökum í formi vanskapnaðar og dauða ein-
hvers staðar í ferlinu eru miklar og slíkur fórn-
arkostnaður er siðferðilega óviðunandi þegar
verið er að fást við manneskjur.
En það er líka mögulegt að nota einræktun í
læknisfræðilegum tilgangi. Hugmyndin er sú
að einrækta fósturvísi úr líkamsfrumu ein-
staklings sem haldinn er alvarlegum sjúkdómi.
Á fyrstu sólarhringunum eru frumur fósturvísis
ósérhæfðar og geta tekið að sér hvaða hlutverk
sem er í líkamanum, svokallaðar stofnfrumur.
Þeim er síðan komið fyrir í skemmdum vef eða
líffæri sjúklings þar sem þær taka að sér end-
urnýjunarhlutverk. Ástæða þess að æskilegt
þykir að nota einræktaðar stofnfrumur úr sjúk-
lingi sjálfum er að þær valda þá ekki höfnunar-
einkennum hjá honum eins og gæti gerst væri
fósturvísirinn kynæxlaður. En með þessu skap-
ast stórt siðferðilegt álitamál því hér er verið að
mynda nýtt líf í öðrum tilgangi en sjálfs þess
vegna. Þarna er hugmyndin að búa til fósturvísi
til að lækna „eiganda“ hans og deyða hann síð-
an. Margir telja þetta siðferðilega rangt en aðr-
ir telja ávinninginn vega þyngra en fórnina í
þessu tilliti.
Bryndís Valsdóttir, heimspekingur.
HVAÐA ÁHRIF
HAFÐI ARISTÓ-
TELES Á
MIÐÖLDUM?
Hvernig gátu stærðfræðingar fornaldar fundið
allar formúlurnar sínar, hvað er járnblendi og
hver er þessi Stökustaður sem oft er nefndur í veðurfréttum? Þessum
spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á
Vísindavefnum og hægt er að lesa svörin á slóðinni www.visindavef-
ur.hi.is.
VÍSINDI
Í
ÞRIÐJU ætt rúnastafrófsins tekur við þríund Týs, Bjarkan og Manns. Týsrúnin er
kennd við rómverska stríðsguðinn Mars í íslenska rúnakvæðinu, enda áttu Týr og
Mars sitthvað sameiginlegt líkt og Þurs og Satúrnus. Tengsl þessi kunna að eiga sér
mjög fornar rætur því í Germaníu eftir Tacitus er sagt að Germanir tigni guði, svo
sem Merkúr (honum séu færðar mannfórnir), Mars og Herkúles (þeim sé blótað
dýrum). Óvíst er hvað Germanir kölluðu þessa guði en þeir kunna að svara til Óðins,
Týs og Þórs.
Íslenska rúnakvæðið hljóðar svona: „Týr er einhendur áss/ og úlfs leifar/ og hófa
hilmir.“ Í norska kvæðinu er kveðið á um einhendi guðsins og því bætt við að „oft verður
smiður að blása“. Guðinn Týr var að fornu nefndur tiwaz og hlutverk hans í rúnastafrófinu
er tiltölulega auðrakið, en arfsögnin um hönd Týs er
á þá leið að þar sem ekki tókst að fjötra Fenrisúlf
með Læðingi né Dróma þá gjörðu dvergar í Svar-
tálfaheimi fjöturinn Gleipni af sex hlutum: af dyn
kattarins og af sinum bjarnarins og af skeggi kon-
unnar og af rótum bjargsins og af anda fisksins og
fugls hráka. Smiðurinn hlaut oft að blása við gjörð
slíks fjöturs. Lét Týr hægri hönd sína að veði í kjaft
úlfinum er hann skyldi bundinn, en þegar æsir vildu
ekki leysa beit hann höndina af guðinum; hlógu þá
allir nema Týr, eftir það nefndur hinn einhendi áss
og „ekki kallaður sættir manna,“ að sögn Snorra-
Eddu. Sagt var einhverra hluta vegna að vitrustu
menn væru „týspakir“, en þessi atburður ber varla
vitni um mikla visku. Hitt er skiljanlegra að þeir
væru „týhraustir“ sem ekki sáust fyrir og voru um-
fram aðra.
Þessi heiti kunna að vitna um völd sem síðar færð-
ust til Óðins, en ýmislegt bendir til að Týr hafi verið
dýrkaður sem verndari þinga og réttarfars. Þar má
ef til vill greina leifar fyrri átrúnaðar þá Týr var sól-
arguð, sem allt sá, en í víkingabyggðum Norðimbra-
lands tíðkaðist heróp sem bendir til merkilegs
átrúnaðar: „Týr hafi oss, Týr og Óðinn (Tyr hæb us, ye Tye ye Odin).“ Týr er að auki nefnd-
ur „víga guð“ í Snorra-Eddu, enda tengdist tákn hans hernaði er fram liðu stundir. Í Sig-
urdífumálum er rún Týs talin til galdrarúna, enda kemur hún víða fyrir á galdraristum,
stundum þreföld:
Sigrúnar þú skalt rísta
ef þú vilt sigur hafa,
og rísta á hjalti hjörs, hjör: sverð
sumar á véttrimum, véttrim: hluti sverðsblaðs
sumar á valböstum, valböst: málmplötur í sverðshjalti (?)
og nefna tysvar Tý. Tysvar: tvisvar
Mynd Týs er mótsagnakennd því hann var hvort tveggja lítill mannasættir og verndari
laga og réttar. Hlutverk hans innan rúnastafrófsins er samt nokkuð ljóst ef horft er til
forms, en örvartáknið er eitt af elstu myndtáknum Vesturlanda og merkir venjulega vísun í
tiltekna átt. Í sumum nútímakerfum tengist það orsök og afleiðingu, rökréttri framvindu,
frá einu til annars, en var áður fyrr notað sem tákn um karlkyn. Týsrúnin stendur sam-
kvæmt þessu fyrir rökvísi, karlkyn, lög og reglu, en hafa ber í huga að sama tákn (snúið öf-
ugt) var dauðarún á meðal Engilsaxa; nefndist tac.
Rún Týs fylgir sigur í rétti sem orrustum, sé eðlilegum forsendum fylgt hverju sinni.
Þetta má hugsa lengra, niður úr sviði arfsagna, því tengsl Týs við vitrænt skipulag byggjast
á frumferlum sem taka til flokkunar og greiningar. Í norrænum sköpunarsögnum er sagt
frá því að Borssynir hafi byggt heim af líkama Ýmis, jörð og himinhvelfingu; þeir hafi skap-
að sól og mána, sett himintunglum stað og göngu, gefið heiti eftir því hvort bjart var eða
myrkt.
Þetta myndunarferli kann að tengjast ævafornu eðli Týs, áður en hann breyttist í herguð
eftir að Óðinstrú tók öll völd á Norðurlöndum: að greina sundur tíma og rými svo fyrirbæri
geti birst, – flokka, mæla og finna stað, setja fyrirbærum lög svo óreiða hrímþursa nái ekki
ríkjum á nýjan leik. Rún Týs vísar samkvæmt þessu á kuldalega visku, tilurð flokkaðs kerf-
is eða lögmáls, jafnt í sjálfi, samfélagi sem alheimi.
RÚNAMESSA LESBÓKAR
„Týr er að auki nefndur „víga guð“ í Snorra-Eddu, enda tengdist tákn hans hernaði er fram
liðu stundir.“
TÝR
RÚNALÝSING 12:16
M AT T H Í A S V I Ð A R S Æ M U N D S S O N