Lesbók Morgunblaðsins - 15.05.2004, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 15.05.2004, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. MAÍ 2004 A f einhverjum undarlegum ástæðum hefur mjög lítið farið fyrir opinberri og list- rænni umræðu um Áfanga, hið merka listaverk Rich- ards Serra á Vesturey Við- eyjar, sem sett var upp árið 1990. Þó hef ég reglulega lent í skemmtilegum samræðum við listamenn um gæði verksins, en sjaldnar merkingu. Mörg- um er þetta verk kært, en öðrum þykir það gamaldags og jafnvel yfirþyrmandi og öðrum finnst það eyðilegging á merkilegu landi. Upp- lýsingar um verkið liggja ekki á lausu og engu líkara en skipulega sé unnið að því að það falli í gleymsku og dá. Það var að frumkvæði myndlistarmanna og forstöðumanns Listasafns Íslands að Richard Serra var boðið hingað á Listahátíð 1990 og hann mun hafa komið hingað nokkrum sinnum til að leita fyrir sér með staðsetningu og út- gangspunkta fyrir verk sitt. Nokkrir staðir komu til greina í upphafi og var þá sérstaklega horft til útnesja norður af Reykjavík, m.a. Geld- inganess. Að endingu ákvað Serra að kynna sér Viðey, sem kom nokkuð á óvart, þar sem hann var á þessum tíma mun þekktari fyrir gríðar- stóra borgarskúlptúra sína víða um heim. Serra skoðaði eyjuna vel, aflaði sér gagna og teiknaði töluverðan fjölda kolateikninga. Í framhaldi af því lét hann gera fyrir sig módel af eyjunni og þróaði hugmyndina jafnt innan þess og á staðn- um. Þegar tillaga að verkinu lá fyrir og ákveðið hafði verið að ráðast í framkvæmd þess samdist svo um að Reykjavíkurborg sæi um og kostaði framkvæmdina og teldist eigandi þess, en Lista- safn Íslands er vörsluaðili styrktarsjóðs sem listamaðurinn gaf til handa ungum myndhöggv- urum, en stofnfé sjóðsins er höfundarþóknun listamannsins. Það má telja merkilegt afrek að aðeins þrír menn settu þetta umfangsmikla verk upp á ell- efu dögum um mánaðamótin mars/apríl 1990 undir stjórn Magnúsar Sædal. Serra sá um upp- setningu á fyrsta súlnaparinu ásamt Magnúsi, en sökum veikinda fól hann Magnúsi framhald þess og gerði honum skýra grein fyrir því hvernig stuðlarnir skyldu standa á hverjum stað. Stuðlarnir, ásamt öllu efni og tækjum er til þurfti, voru fluttir til Viðeyjar á stórum pramma og var öllu slöngvað upp í fjöruna við Eiðið, þar á meðal 16 tonna gröfu. Stuðlarnir voru síðan paraðir saman af Serra og fluttir yfir freðna eyj- una með kerru. Þar var grafið fyrir hverjum stuðli og hann reistur á þjappaða hæðarsetta fyllingu. Efnið sjálft, stuðlabergsdrangarnir, var sótt austur í Hrunamannahrepp.1 Serra Það var vel til fundið að fá Richard Serra til Íslands á þessum tíma, en þá má segja að frægðarsól hans í myndlistarheiminum hafi staðið í hádegisstað. Ferill hans var þá reyndar orðinn nokkuð langur og stígandi, en hann hafði styrkt sig í sessi sem einn af merkustu mynd- listarmönnum síðari hluta aldarinnar. Hann er fæddur í San Francisco 1939 og menntaður í bókmenntum frá Berkeley og Santa Barbara í Kaliforníu og útskrifaðist frá Yale-háskóla með MFA-gráðu í listum árið 1964. Hann býr nú í New York og Nova Scotia. Serra hóf feril sinn sem málari, en 1966 gerði hann sína fyrstu skúlptúra og þá úr óhefð- bundnum efnum, s.s. leðri, neonljósum og margs kyns efnasamsetningi. 1968–70 gerði hann fyrstu blýslettuverkin sín, þar sem hann kastar fljótandi blýi úr lítilli deiglu í kverkar og horn gallería, en í þau gat farið allt að 13 tonn- um af blýi. Þetta voru afdrifarík verk, en hug- myndin að baki þeim er sú að kjarninn í skúlpt- úrum sé hvorki efnið sem þeir eru gerðir úr né formið sem þeir mynda, heldur miklu fremur það að skapa þá. Þetta þýðir að eiginleikar efn- isins eru notaðir til hins ýtrasta og rýmið sem mótar verkið verður form þess til hálfs. Sam- þjöppunin í kverkum rýmisins er efnisgerð verksins, en þau eru þó fyrst og fremst atburðir tengdir tíma og rúmi. Margir telja þessa at- burðaskúlptúra meðal merkustu listsögulegra atburða síðustu aldar. „Staðsetning verksins breytir rýminu. Þegar skúlptúr hefur fengið sinn stað öðlast rýmið hlutdeild í virkni hans.“2 Árið 1969 gerir Serra sína fyrstu járnskúlp- túra, svokallaða stafla eða stoðverk (Prop piec- es) og hellur (Slab). Þau voru samsett úr nokkr- um einingum sem hvorki voru soðnar saman né festar með nokkrum hætti, en héldu jafnvægi með þyngdaraflinu einu saman. Í þessum verk- um, líkt og æ síðan, notar Serra járnið sem hrá- efni á sama hátt og iðnaðurinn gerir, þ.e. sem byggingarefni fremur en smíða- eða mótunar- efni. Þannig hafði járn ekki verið notað í skúlpt- úr áður og hugmyndin að nota þyngd þess, stöð- ugleika og sveigjanleika var ný vídd í myndlist. Fyrir þess háttar verk er hann þekktastur og þau má finna í mörgum af stærstu borgum heims.3 Mínimalisminn Þessi fyrstu verk Serra eru mjög líkamleg, tengd stað og stund (atburðum), en um leið eðl- isfræðileg. Þetta hefur einkennt verk hans æ síðan. Fyrstu verkin gerir hann við upphaf lista- stefnu sem kölluð hefur verið mínimalismi á er- lendum málum, en naumhyggja á íslensku (upp- haflega Primary Structures). Mínimalisminn, sem við skulum kalla svo, er í stuttu máli af- sprengi módernískrar myndlistar og hugmynd- arinnar um hreinsun hennar af óþarfa prjáli. Myndlistin var að mati mínimalistanna komin í öngstræti abstrakt expressionismans sem hafði tekið alla heila hugsun burt úr listinni og rúið hana samfélagslegri skírskotun. Að mati þeirra gat það ekki verið hlutverk listarinnar að tjá persónulegar tilfinningar eða skapgerð lista- mannsins. Kjarni listarinnar fælist öðru fremur í því að afhjúpa eigið eðli og allt annað væri henni óviðkomandi. Ad Reinhard (1913–67) orð- aði þetta svo árið 1962: „Hið eina sem hægt er að segja um lífið og listina er að listin er list og lífið er líf, að listin er ekki líf og að lífið er ekki list.“4 Það var m.a. af þessum sökum sem mínimal- istarnir sóttu í hlutlaus iðnaðar- og bygging- arefni í verk sín – efni sem ekki áttu sér sögu- legar rætur í myndlistinni, en féllu vel að hugmyndinni um mótun listaverka með nútíma- legum aðferðum og án allra „fingrafara“ lista- mannsins. Af þessu leiddu mínimalistarnir þá einföldu geometrísku formbyggingu sem ein- kennir list þeirra. Carl Andre minnir hins vegar á að: „Hvorki einfaldleiki né margbreytileiki eru trygging fyrir gæðum listaverks. Kraftur verk- anna felst í byggingu þeirra. Hvort heldur sem verkin eru einföld eða flókin verða þau að vera beinskeytt.“5 Verk mínimalista einkennast oft af endur- tekningum sömu formanna og er stundum eins og staflað eða þjappað saman og stundum standa þau mjög tæpt gagnvart þyngdaraflinu. Í þeim er iðulega falin öxullaus symmetría eða samhverfa sem lýsa má þannig að einn hluti verksins geti komið í annars stað án þess að raska heildarmyndinni. Þannig er bygging mínimalískra verka oft á tíðum kjarni þeirra og innra samhengi, hlutföll, efni og stærðir skipta miklu máli. Innri hlutföll eru það eina sem ein- kennir alla myndlist og þau ráða öllu um inn- byrðis samræmi, en þau hafa hins vegar ekkert með stærðir að gera. Serra hefur í þessu sam- hengi bent á að einn hlutur geti ekki staðið án viðmiðunar við annan og afstaðan milli þeirra sé lykilatriði. Hann hefur gert fjölda verka sem hafa þessi einkenni og virðast oft standa á mörkum einingar og sundrunar líkt og spila- borg sem hangir uppi á viðkvæmum snertiflöt- um nokkurra eininga. Myndlist mínimalista, líkt og annarra, er nær undantekningarlaust unnin í beinum tengslum við byggingar- og borgarumhverfi og ef hún á ekki hreinlega að renna saman við það í ein- hvers konar einingu, þá á hún a.m.k. að verða augljós hluti þess. En mímimalistar eru reyndar ekki einslitur hópur í þessu samhengi, enda hef- ur Serra hafnað notagildis- og listskreytingar- áráttunni sem hreinni misnotkun á myndlist. Að hans mati felast möguleikar listaverksins ekki aðeins í því að þjóna eða renna saman við um- hverfi sitt, heldur ekki síður í því að ganga gegn því og afmarka eigið svæði. Verkið stendur fyrir sjálft sig – það er aðalatriði og list er list og allt annað er allt annað, eins og áður var nefnt. Ekki verður efast um áhrif mínimalismans á þróun myndlistarinnar hvað þetta varðar, þó að vel megi halda því fram að þau séu að jöfnu byggð á formrænum misskilningi þar sem sett er samasemmerki milli einfaldleika og mínimal- isma. Það er skuggahlið málsins sem vel má ímynda sér að stefnan verði að burðast með um ókomna tíð. En að öllu þessu samanlögðu má ljóst vera að mínimalisminn er langt í frá einföld listastefna þó að mörgum, sem einungis líta til formrænna þátta, kunni svo að virðast. Aftur á móti má vera að öll góð myndlist sé í grunninn mínimalísk í einhverjum skilningi, sé hið knappa form þar sem engu er ofaukið, líkt og Kristján Guðmundsson (1941) hefur bent á. Það er áhugavert sjónarhorn, en önnur saga.6 Áfangar Listaverkið Áfanga má með góðu móti kalla umhverfis- eða landslagsverk og er það af þeim sökum mjög sérstakt á ferli listamannsins, og að margra mati markar það ákveðin tímamót. Þrátt fyrir það ber verkið með sér öll helstu höf- undareinkenni Serra. Uppbygging verksins er afar einföld, en merking þess er ekki endilega jafn augljós. Sem inngang eða aðgöngumiða að verkinu tel ég rétt að skoða titil þess. Það blasir við að verkið er sett upp sem áfangastaðir á hringferð um Vesturey. Nafnið Áfangar vísar til samnefnds ljóðabálks Jóns Helgasonar sem Valgarður Egilsson, þá formaður stjórnar Listahátíðar, mun hafa rakið fyrir Serra, en það lýsir hringferð um Ísland á svipaðan hátt og verk Serra er hringferð um Viðey. Orðabóka- merking áfanga er staðir, áningarstaðir, leið- aráfangar og það að staldra við og líta jafnt yfir farinn veg og fram á við. Þessi póetíska merking er auðsæ og Serra vel kunnug og því tel ég nafn- ið valið af kostgæfni. Á ensku er verkið hins- vegar kallað: Standing Stones – Nine locations – two elevations eða Steinsúlur – níu staðir – tvær hæðarlínur, sem er eins og skilgreiningartitill og meira í ætt við aðrar nafngiftir listamanns- ins. Þannig má með góðu móti segja að íslenski titillinn sé sá póetíski, en sá enski sé stærð- fræðilegur. Vesturey er mjög lág og hæsti punktur henn- ar er ekki nema 18 metra yfir sjávarmáli. Grunnform eyjunnar og hæðarlega landsins eru frekar óregluleg; Eyjan er stuðlabergsdrangur að mestu leyti og suður- og norðurbrúnir henn- ar þverhníptar upp á nokkra metra, en ströndin lægri og flatari að vestan- og austanverðu. Þetta þýðir að landslagið ofan á henni er frekar flatt og hæðarlínur á flestum stöðum frekar gisnar, en þó ekki á öllum stöðum eins og verkið sjálft sýnir. Í ljósi þessa, get ég mér til, hefur Serra gert einfalda og sýnilega reglu fyrir verkið: Stuðlabergspörunum er öllum komið fyrir á ákveðnum hæðarlínum, 9 og 10 metra, og sá drangurinn sem stendur á 9 metra línunni er 4ra metra hár og sá á 10 metra hæðarlínunni er 3ja metra hár. Af því leiðir að hæsti punktur beggja dranganna er jafn hár (13 metrar) og þá hæð má greina af hæsta punkti eyjunnar og öll hliðin eru því sýnileg af honum. Hliðin sjálf eru síðan þannig gerð að bilið milli stuðlanna ræðst STEINSÚLUR – NÍU STAÐIR – TVÆR HÆÐARLÍNUR Bandaríska listamanninum Richard Serra var boðið á Listahátíð í Reykjavík árið 1990. Í kjölfarið reis verk hans Áfangar í Viðey. Hér er fjallað um verkið sem greinarhöfundur telur hafa mætt tómlæti hjá Ís- lendingum en hann telur það með því besta sem tína má til úr íslenskri listasögu. Morgunblaðið/Einar Falur Bandaríski listamaðurinn Richard Serra í Viðey árið 1990, við vígslu verksins Áfanga. E F T I R K R I S T I N E . H R A F N S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.