Lesbók Morgunblaðsins - 15.05.2004, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 15.05.2004, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. MAÍ 2004 S egja má að saga nútíma svart- listar á Spáni eigi sér upphaf með grafíkverkum Francisco de Goya (1746–1828). Ekki er fjarri lagi að fullyrðing þessi geti átt við um Evrópu alla og jafnvel mætti halda því fram að saga nútíma grafíklistar hefjist með Goya. Verk Goya eru grundvallarviðmið fyrir fag- urfræði og listrænt næmi okkar tíma. Hann var uppi á tímum gífurlegra breytinga á gömlu stjórnmála- og þjóðfélagskerfi sem höfðu víð- tæk áhrif á hugsun manna, menningu og listir. Sögulegir atburðir sem hann varð vitni að á langri ævi, ásamt ýmsum vandamálum í lífi hans sjálfs sem rekja má til endurtekinna átakatímabila, endurspegluðust í listrænni þróun verka hans. Allt frá arfi fyrirmyndanna úr ítölsku barrokklistinni, gegnum franskan gullaldarstíl og fagurfræðikenningar Mengs, þróast list hans að öðrum leiðum sem einkenn- ast af því að sagt er skilið við staðlaða gullald- arhefðina og leitað á vit nýrra tjáningarforma til að auka frjálsræði í sköpun listamannsins. Grafíkverk Goya eru meðal merkustu at- burða í svartlistasögu heimsins. Frumleiki hans hefur áhrif á tungumál fag- urfræðinnar, á myndbyggingu, á tækni og að- ferðir svartlistarinnar og á táknboðana. Tækniþróuninni í grafíkverkum Goya fleygir stöðugt fram. Hann náði einstöku valdi á verk- færunum og á því að samnýta ólíkar aðferðir á fullkominn hátt. Ætingu lína og flata, litaböðum, þurrnál, meitli, sköfu, slípi... öllu er þessu beitt í því skyni að ná fram myndrænum áhrifum. Úr verður stórbrotið myndmál sem erfitt er að líkja eftir, með ívafi sterkrar birtu og myrkra skugga. Ljósið og skuggarnir skapa heild sem þrungin er dramatískri spennu og sterkri tján- ingu. Birtuna, af óræðum uppruna, notar Goya til að draga athygli áhorfandans að þeim hlut- um myndarinnar sem hafa mest vægi og inn- tak. Birtan verður þessum fulltrúa upplýsing- arstefnunnar í raun að myndlíkingu þekkingarinnar. Fyrir utan tæknileg afrek sín er mesta framlag Goya til sögu svartlistarinnar að hafa kunnað að nýta þá möguleika sem honum buð- ust og vera þannig brautryðjandi samtíma svartlistartækni og nútíma fagurfræðilegrar hugsunar. Hann nýtti sér myndþrykkið til að tjá hugarheim sinn, áhyggjur og efasemdir um þjóðfélagið sem hann lifði og hrærðist í. Málm- ristur Goya eru sjónrænn vitnisburður lista- manns sem spyr sjálfan sig spurninga um mannlegt eðli og sögulegt ferli og skapar í koparstungum sínum flókna heild úr ólíkum þáttum hinna tveggja stiga verundarinnar; baksviðinu hið innra og heimi hins hlutlæga raunveruleika. Myndröðin Caprichos, þekktasta myndröð- in, var auglýst í Diario de Madrid hinn 6. febr- úar 1799. Þessar áttatíu koparstungur eru grundvallarheimild bæði til að kynnast sköp- unarferlinu í grafíkverkum Goya og spænsku samfélagi í lok 18. aldar af sjónarhóli upplýs- ingarstefnunnar. Fyrir menningu Vesturlanda eru Kenjarnar (Los Caprichos) eftir Goya dæmi um heim í kreppu, í deiglu mikilla breytinga. Inntak myndanna leiðir í ljós brestina í félags- og stjórnmálakerfi sem grundvallast á stirðnuðu stéttaskipulagi og gildiskerfi sem reist er á óbreytanlegum siðvenjum og harðri trúarlegri samviskukúgun. Fagurfræðilega eru mynd- irnar boðberar nútímalegrar skynjunar og nálgunar við list sem er mörkuð af huglægni. Sé litið á ævi Goya koma Kenjarnar fram á einum mikilvægasta áratug á lífsferli og í list- sköpun hans. Það er þess vegna sem kynslóðir rithöfunda, lista- og menntamanna síðustu tvær aldirnar hafa ekki getað slitið sig frá táknrænni merkingu þeirrra – tákni um enda- lok gamla stjórnskipulagsins, breytingu á smekk manna, frá klassískri fagurfræði til rómantíkur, og þau straumhvörf sem áttu sér stað í ævi og list þessa skapara á alheimsvísu. Röð atburða stuðlaði að sköpun Kenjanna. Hún einkenndist fyrst og fremst af því að Go- ya gerðist æ fráhverfari staðlaðri listsköpun og hneigðist æ meir að nýsköpun. Þessi nýja sýn á listina tengist svo atburðum í lífi hans. Alvarleg veikindi tóku að hrjá hann, hann stofnaði til náinna kynna við hertogafrúna af Alba og hann var í vinatengslum við hóp virtra menntamanna, einkum rithöfundinn Leandro Fernández de Moratín. Árið 1792 semur Goya skýrslu til Konunglegu listaakademíunnar í Madrid þar sem hann setur fram hugmyndir sínar um kennsluaðferðir og leggur til atlögu við grundvallarreglur nýklassisismans, arf- leifð málarans Antons Rafael Mengs. Ári síðar veikist Goya alvarlega. Afleiðingar veikind- anna eru verulegur heyrnarmissir. Meðan hann er að ná sér dvelst hann sér til hress- ingar nærri Cádiz, á sveitasetri vinar síns, Se- bastiáns Martínez, listunnanda sem safnar bókum, málverkum og svartlistarverkum. Heyrnardeyfan veldur því augljóslega að hann fjarlægist hinn ytra heim og hneigist greini- lega til aukinnar sjálfskoðunar. Sé litið til list- sköpunar Goya stuðla þessar aðstæður að því að hann snýr sér markvisst að teikningu og svartlist sem falla einkar vel að þörf hans á þeim tíma fyrir að skapa sér fjarlægð. Í bréfi sem skrifað er 1794 til skáldsins og dæmi- sagnahöfundarins Tomás de Iriarte nefnir listamaðurinn við hann áhuga sinn á mynd- verkum þar sem hann geti frjálst og óháð nýtt sér „kenjar og hugvit“. Annar viðburður sem einnig olli straum- hvörfum í lífi hans átti sér stað sumarið 1796 meðan hann dvaldist í höll hertogafrúarinnar af Alba í Sanlúcar de Barrameda, við mýrlend- ið og flæðiengin í grennd við fljótið Guadal- quivir. Í hlýju og munaðarlegu umhverfi Andalúsíu þarna við strendur Atlantshafsins, í fylgd hertogafrúarinnar og ungra hirðmeyja hennar, setur Goya á blað fjölda teikninga sem lýsa andrúmslofti þrungnu ástleitni og munúð. Þannig verður til bókin þekkta, Albúm de San- lúcar. Eftir ævintýrið í höllinni við Doñana- flæðiengin hleypur snurða á þráðinn milli hans og hertogafrúarinnar. Í lok ársins 1796 er hann í Cádiz, veikist enn á ný en byrjar þar nýja teikningabók, Álbum de Madrid, þar sem eru myndir með augljóslega gagnrýnu inni- haldi og þar er talsvert um háðskar skop- myndir sem taldar eru endurspegla þá bölsýni sem var að búa um sig í þungum huga lista- mannsins. Í báðum þessum teiknibókum er að finna drög að hugmyndum að Kenjunum. Þeg- ar hann er að vinna fyrstu plöturnar í mynd- röðinni, í kringum 1797, hefur hann mikil sam- skipti við Fernández de Moratín, sem þá er nýkominn frá London, og ætla má að þeir beri saman bækur sínar um bresku stjórnmála- skopmyndirnar. Allir þessir þættir hafa sín áhrif á rammann um sköpun Kenjanna, þar sem saman koma fagurfræðilegar hugmyndir sóttar út fyrir hið venjubundna, veikindin, vonbrigði í ástum og áhrif skoðana hins upplýsta minnihluta. Þar af leiðandi þurfti Goya að gera myndröð úr kop- arstungum sem gæfi margbreytileg svör við nýnæmum skilningi hans á listinni, vaxandi einangrun hans, vantrausti á manninum og þjóðfélagslegum áhyggjum hans, runnum af rótum upplýsingarinnar. Rétt er að viður- kenna skuld Goya við upplýsingarsinna og endurbótahug þeirra í lok átjándu aldarinnar, enda þótt mikil kreppa, bæði líkamleg og til- finningaleg, hefði áhrif á rökræn viðhorf hans. Framsetning listamannsins sem heimspekings hefur skipt afar miklu fyrir viðhorf gagnrýn- enda til Kenjanna. Í raun skilja menn mynd- röðina sem túlkun á þankagangi upplýsing- arsinna, hún er gegnsýrð hugmyndafræði og mætti lýsa sem sjónrænni túlkun á hreyfingu sem er í eðli sínu allt í senn heimspekileg, stjórnmálaleg og menningarleg. Með því að festa í sessi skilgreininguna um listamanninn sem heimspeking er litið á Goya sem málara með víðtækan menningarlegan bakgrunn, enda umgekkst hann suma lærð- ustu menn sinnar tíðar. Af því leiðir að heim- ildir sem taldar eru liggja til grundvallar myndmáli koparstungnanna eru mjög margar. Sem kjörið dæmi um háðsádeiluhugmyndir átjándu aldar hafa Kenjarnar verið tengdar spænskum bókmenntum, evrópskum skop- teikningum sem og listhefðum og tungutaki al- þýðunnar. Goya kann þannig að hafa haft í huga mismunandi háðsádeiluhefðir, sumar af menningarlegri toga, aðrar alþýðlegar, allt frá skrifum hinna upplýstu vina sinna til þeirra dæma sem finna mátti í vísum og viðlögum, málsháttum, þjóðlegum hátíðum og alþýðleg- um leiksýningum, auk aðlagaðra táknrænna heimilda og háðsádeilumynda innfluttra frá öðrum hlutum Evrópu. Að því er varðar efnislega niðurröðun Kenj- anna, er um að ræða ferli, framvindu frá al- þýðlegu myndunum og þeim sem lýsa yfir- stéttardaðri yfir í gróteskar sýnir norna og púka. Áherslupunkturinn, þar sem umskiptin verða, er einmitt í myndinni Ef vitið sofnar vakna ófreskjur. Það að þessi mynd sé höfð sem eins konar innri forsíða bendir til tvískipt- ingar innan verksins; fyrri hlutinn saman- stendur af háðsádeilusenum þar sem for- dæmdir eru lestir og öfgar spænsks þjóðfélags við lok átjándu aldar – hagsmunahjónabönd, smjaður, vændi, menntunarskortur, ónytj- ungsháttur forréttindastéttanna – en honum lýkur með asnastrika-röðinni og við tekur ægi- vald hins óraunverulega umhverfis svefns og nætur þar sem allt hverfist um nornir, púka og djöfla er dvelja í myrkraheimum. Textarnir sem fylgja Kenjunum eru afar áhugaverðir þættir verksins. Varðveist hefur fram á okkar dag talsverður fjöldi athugasemda og ýmissa texta, þar á meðal myndatextar og skrifaðar athugasemd- ir um margar frumteikningar, titlar eða heiti sem grafin eru á myndplöturnar, áritanir skráðar á ýmis drög fyrir prentun, tvær aug- lýsingar um sölu myndraðarinnar og nærri tuttugu handskrifaðar athugasemdir. Ein um- deildasta spurningin er enn sem fyrr hverjum þessir textar verði eignaðir. Þetta skiptir miklu, meðal annars vegna þess að túlkun hinna duldu skilaboða Kenjanna hefur sam- kvæmt hefðinni verið grundvölluð á innihaldi myndatextanna, auglýsingarinnar og hand- skrifaðra athugasemdanna. Frá aðferðafræði- legu sjónarmiði gæti verið réttlætanlegt að treysta textunum fyllilega og byggja skilning á hinni dýpri merkingu myndanna á þeim, ef Goya væri höfundur þeirra. En á því virðist ekki leika nokkur vafi að altént einn maður annar en Goya sjálfur eigi þar hlut að máli og reyndar hefur verið talið að bæði auglýsingin um söluna sem og sumar þekktustu handskrif- uðu athugasemdirnar séu eftir Leandro Fern- ández de Moratín. Handskrifuðu textarnir eða athugasemdirn- ar eru hefðbundið tæki til túlkunar á kop- arstungunum. Þekktastir þeirra eru textarnir sem geymdir eru í Prado-safninu og í Þjóð- arbókhlöðunni (Biblioteca Nacional) í Madrid sem og sá texti sem tilheyrði leikskáldinu Ló- pez de Ayal, sem Viñaza greifi kom á framfæri árið 1887 og nú er ekki vitað hvar er að finna. Á grundvelli þessara texta voru gerð fjöl- mörg afrit sem falla innan skýrt afmarkaðra ramma. Textar Ayal og Þjóðarbókhlöðunnar hallast að því að gera grein fyrir einstakling- unum að baki þeim persónum sem Goya dreg- ur upp og tengja þær raunverulegum sögu- legum persónum sem uppi voru á sama tíma og listamaðurinn. Texti Prado-safnsins er ekki eins beinskeyttur og róttækur í dæmum sín- um og er því engan veginn eins áhættusamur höfundi sínum. Persónunum eru ekki léð nein kennsl sem færð séu yfir á svið sögunnar, þeim er alltaf haldið innan marka skáldskaparins. Þessi texti er eignaður Goya. Sölugengi Kenjanna var lítið. Koparplöt- urnar áttatíu lét Goya af hendi við konung árið 1803 gegn lífeyri til handa syni sínum og voru þær afhentar sama ár hinu Konunglega svart- listasafni (Real Calcografía) til varðveislu. Síðan hafa verið gerð fjölmörg þrykk af plötunum. Verðmætust er fyrsta útgáfan, sú eina sem gerð var meðan listamaðurinn var enn á dögum, sem gefin var út 1799. Kop- arstungur fyrstu útgáfunnar varðveita fylli- lega þróttmikla línuna í ætingunni og ríkuleg blæbrigði flataætingarinnar. Vegna safnvarð- veislugildis verksins tók Svartlistasafn Spánar (Calcografía Nacional) þá afar skynsamlegu ákvörðun að láta ekki gera fleiri koparstungur eftir plötum Goya. Vegna forms síns og inntaks Kenjanna, tæknimáls þeirra og hvassrar gagnrýni – vegna þess hve tímalausar þær eru og algildar – eru þær höfuðverk spænskrar svartlistar allra tíma og teljast til þeirra verka sem mest áhrif hafa haft á heimslistasöguna. Sonja Diego þýddi. Aðeins örfá frumþrykk af Kenjunum eftir einn helsta myndlistarmann 18. aldar, Spánverjann Francisco de Goya, eru til í heiminum, en þau telja áttatíu myndir og voru gerð árið 1799. Svart- listasafn Spánar í Madrid varðveitir allar upprunalegu koparplöturnar og í dag verður opnuð sýning á þrykkjum Goya sjálfs í Listasafninu á Akureyri. Í þessari grein er fjallað um verkin. KENJAR FRANCISCO DE GOYA „Þarna fer það.“ „Ef vitið sofnar vakna ófreskjur.“ E F T I R J AV I E R B L A S Höfundur er forstöðumaður Svartlistasafns Spánar (Calcografía Nacional).

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.