Lesbók Morgunblaðsins - 15.05.2004, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 15.05.2004, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. MAÍ 2004 11 Hvað er dómsdagur kristinna manna? SVAR: Kenning kirkjunnar um dómsdag kall- ast á erlendum málum eschatology (þýsku Eschatologie) sem þýða mætti sem kenn- inguna eða orðræðuna um hina hinstu atburði eða endalok tímanna. Á latínu er ekki rætt um hina hinstu heldur hina nýjustu (de novissimis) atburði. Það und- irstrikar að ekki er reiknað með endalokum allra hluta heldur endurnýjun þeirra. Inntak þessara fræða kemur fram í báðum helstu trúarjátningum kirkjunnar. Í lok Postullegu trúarjátningarinnar segir þannig: „Ég trúi á ... fyrirgefningu syndannna, upprisu holdsins (mannsins í nýrri þýðingu) og eilíft líf.“ Í lok Níkeujátningarinnar segir aftur á móti: „Ég ... vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.“ Hvernig er dómsdegi spáð í kristinni trú? Með orðfæri Nýja testamentisins er dómsdagsspáin sett fram almennt með þeim hætti að upp muni renna loka- dægur þessa heims, hinn efsti dagur eða dómsdagur. Þá muni Kristur stíga aftur niður til jarðarinnar, ekki í gervi líðandi þjóns eins og áður fyrr, heldur sem alls- herjardómari er dæmi menn eftir verkum þeirra. Benda má á ýmsa ritningarstaði í þessu sambandi. Matteusarguðspjalli lýkur til dæm- is á orðunum: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“ (Matt. 28: 20). Þarna er greinilega reiknað með endalokum tímanna. Dómsstefið kemur hins vegar skýrt fram í 25. kap. (v. 33-46) sama guðspjalls þar sem rætt er um að hafrarnir (hinir illu) verði skildir fá sauðunum (hinum góðu) og hvorum um sig goldið að makleikum. Það rit Nýja testamentisins sem öllum öðr- um fremur fjallar um þessa hluti er þó Op- inberunarbók Jóhannesar, síðasta rit Nýja testamentisins sem lýsir á nákvæman en tákn- rænan hátt hvernig þessi heimur muni líða undir lok og nýr heimur, Guðs ríki, ganga í garð. Lengst af hefur verið litið svo á að hér sé um hreina framtíðarsýn að ræða. Þó eru ýmsir ritningarstaðir sem láta annan skilning í ljós, eins og þann að ríki Guðs sé þegar orðið að veruleika og hinir síðustu dag- ar því upp runnir. Er þá vísað til þess ástands sem Kristur kom á hér í heimi með fæðingu sinni, lífi, starfi, boðun, dauða og upprisu. Er þá gjarnan vísað til þess að um innri veruleika sé að ræða (sjá til dæmis Lúk. 17.21). Þá má benda á orð Jesú í Matteusarguðspjalli (12:28) þar sem hann segir að svo fremi sem hann berjist gegn hinu illa i Guðs nafni sé „guðsríki komið yfir“ áheyrendur sína og mannkyn allt. Hugmyndir manna um dómsdag eru sam- slungnar hugmyndum okkar um dauðann. Margir líta svo á að þegar á dauðastundinni mæti einstaklingurinn dómara sínum og fram- tíð hans ráðist þá af gjörðum hans í lífinu. Aðrir líta svo á að eftir dauðann „sofi“ allir þar til þeir mæta dómara sínum sameiginlega á efsta degi eða dómsdeginum. Með kenning- unni um hreinsunareldinn lítur kaþólska kirkjan með vissum hætti svo á að hvort tveggja þetta eigi sér stað. Þá má benda á að í Gamla testamentinu merkir sál lífvera al- mennt en ekki einhver sérstakur andlegur þáttur hennar. Því má líta svo á að enginn veruþáttur mannsins lifi af dauðann heldur deyi maður allur en rísi síðan upp til nýs lífs í Guði og þá á dómsdegi, samanber orð trúar- játninganna. Í upphafi væntu menn að Kristur mundi snúa aftur til jarðarinnar að skömmum tíma liðnum og setja dóm sinn. Þeir sneru því baki við veraldlegu lífi, til dæmis vinnu, og væntu guðsríkisins. Síðar varð ljóst að nýrrar túlk- unar væri þörf. Á ýmsum tímum hafa þó kom- ið fram einstaklingar eða vakningarhópar sem spáð hafa fyrir um dómsdag – annað tveggja í náinni framtíð eða að einhverjum tíma liðnum, sem oft er tiltekinn nákvæmlega. Á síðari öld- um er upphaf Aðventistakirkjunnar dæmi um slíka vakningu þótt áherslur hennar hafi breyst síðan. Veit páfinn hvenær dómsdagur kemur? Fullyrða má að páfi veit ekki hvenær né hvernig dómsdagur muni verða og ber að gjalda varhug við öllum sem nefna séstakar tímasetningar í því efni eða telja sig hafa glögga vitneskju um hvað muni bíða okkar í framtíðinni. Textar Biblíunnar um þessi efni eru allt of óljósir til að sagt verði fyrir um það með nokkurri vissu. Á nútímamáli má ef til vill segja að „eskató- lógían“ feli í sér þá staðhæfingu að eitt sinn muni sérhver einstaklingur gerður ábyrgur fyrir lífi sínu og breytni. Hin siðræna afleiðing þess er síðan sú að hverjum og einum beri að lifa þannig á hverjum tíma að hann eða hún geti mætt þessum „dómi“ með hreinni sam- visku. Þessi vitneskja ætti raunar að nægja okkur og draga úr gildi spurninganna um hvernig eða hvenær dómsdagur muni verða. Víddirnar „hér“ og „nú“ eru þær sem máli skipta varðandi samband okkar við Guð, sem og hamingju og heill í jarðnesku lífi. Það „inni- hald“, hugsanir, orð og gjörðir, mun síðan fylgja okkur inn í hina óræðu framtíð. Hjalti Hugason prófessor í guðfræði við HÍ. HVAÐ ER DÓMS- DAGUR KRIST- INNA MANNA? Hvaðan er orðið rasismi komið, hvernig verða ós- hólmar til, mun einhvern tíma gjósa aftur í Heima- ey og er Lagarfljótsormurinn til? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum og hægt er að lesa svörin á slóðinni www.visindavefur.hi.is. VÍSINDI Reuters Fullyrða má að páfi veit ekki hvenær né hvern- ig dómsdagur muni verða, segir í svarinu. 1903: PENINGARNIR SÓTTIR HEIM „Að tilhlutan Oddfellow- reglunnar hér í bænum hef- ur Landsbankinn afráðið að gefa bæjarbúum þeim er þess kynnu að óska kost á að fá keypta í bankanum sparibauka (Saving- box) er menn geta lagt í heima hjá sér pen- inga er fara eiga í sparisjóðsdeild bankans. Bankinn lætur síðan sækja peningana heim til manna einu sinni í mánuði eftir því sem ná- kvæmar verður ákveðið, eigendum þeirra að kostnaðarlausu,“ sagði í auglýsingu í Þjóðólfi 15. maí 1903. Í blaðinu kom fram að bauk- arnir væru ætlaðir til að safna í þá smáupp- hæðum. „Auðvitað taka baukarnir einnig alls konar peninga, silfur, gull og seðla, en ekki kemst eigandinn sjálfur í þá og enginn nema sparisjóður sá eða banki er tekur að sér að ávaxta fé það sem í þá er látið.“ Þess var get- ið að slíkir baukar hefðu reynst vel í Ameríku. „Þeir geyma vel það sem þeim er fengið.“ 1910: TORFBÆIRNIR ÓDÝRASTIR „Það er talinn einn hinn mesti framfaravottur ef sagt verður um heila sveit að þar sé komið timburhús svo að segja á hverjum bæ. Og svo mikill er framfarahraðinn að nú þegar er kviknaður kurr á móti timburhúsunum. Nú þykir allt ónýtt nema steinhús; steinhús á hverjum bæ – það er nú viðkvæðið. Torfhúsin eru dauðadæmd. Í hvínandi flaustri og æð- andi hugsunarleysi hefur þjóðin dæmt í út- legð þá húsagerð sem hér hefur tíðkast síðan á landnámstíð.“ Þannig var upphaf greinar eftir G. Björnsson í Skólablaðinu 15. maí 1910. Niðurlagið var svohljóðandi: „Öll hús, torfhús, timburhús, steinhús, eru ill og óholl til íbúðar á vetrum ef þau eru ekki vermd, en sé kostur á eldsneyti til að ofnhita þau þá geta þau orðið góð og holl íbúð, torfbæir engu síður en timburhús eða steinhús. En torfbæj- unum fylgir sá mikli kostur að þeir eru lang- ódýrastir.“ 1937: FIMM BÖRN TÝNDUST „Flutningar voru töluvert miklir hér í bænum í gær og af kunnugum álitnir heldur meiri en vant er. Vörubíla- stöðin gat ekki fullnægt eft- irspurn eftir bílum, enda þótt nær allir bílar hennar væru í gangi við flutningana,“ sagði í Morgunblaðinu 15. maí 1937, en þá var enn hefð fyrir því að samningar um húsnæði mið- uðust við 14. maí, krossmessu og vinnuhjúa- skildaga. „Töluvert mun bera á því að fólk minnki við sig húsrúm, enda er slíkt algengt um sumarmánuðina. Mun nú vera meira framboð á íbúðum en eftirspurnin er.“ En eitthvað varð undan að láta í öllum asanum: „Lögreglan fékk tilkynningar um fimm börn sem höfðu týnst í flutningunum, en á stuttum tíma tókst að hafa uppi á þeim öllum.“ 1946: AÐ KAFNA Í RYKI „Það er fleira sem minnir okkur á sumarið en krían og blíðviðrið,“ sagði Víkverji í Morgunblaðinu 15. maí 1946. „Hin björtu vorkvöld, gróðurinn í görðunum, laufguð tré og síðast en ekki síst göturykið. Allt er að kafna í ryki ef það kemur þurrkstund. Bannsett rykið er plága sem enn hefur ekki tekist að finna ráð við og hverfur ekki fyrr en allar götur og veg- ir hafa verið steyptir eða malbikaðir, og þó við leggjum milljónir króna til vega og gatna- gerðar þá er enn langt í land þar til við losn- um við rykið.“ 1954: GANGIÐ EKKI Á GRASINU Tíminn sagði frá því 15. maí 1954 að Fegrunarfélagið í Reykjavík ætlaði að efna til svonefndrar umferðarviku til að freista þess að kenna unglingum „að ganga ekki yfir grasbletti, skemma ekki girðingar og vegamerki og krota ekki á rúður, hús og veggi“. Blaðið sagði að erfiðlega gengi að venja börn á að „taka á sig smákróka fyrir grasbletti og mat- jurta- og blómagarða. Þó hefur orðið í þessum efnum stórvirðingarverð breyting til batnaðar hin síðari árin“. 1971: SEM MEST AF DRASLI Í Velvakanda í Morg- unblaðinu 15. maí 1971 var sagt að í nýrri hverfum höf- uðborgarinnar virtust sumir íbúanna „telja það óyfirstíg- anlegan fylgifisk nýbygginga að hafa sem mest af drasli í kringum húsin, þó að allt kapp sé lagt á að koma sem flestu í lag innandyra“. Sagt var að ýmsir húseigendur í Fossvogs- hverfi stilltu „mismunandi ryðguðum rusla- tunnum beint fyrir framan aðaldyrnar hjá sér og kannski úti á sjálfum götunum við húsin“. Einnig var minnst á bílflök sem víða blöstu við og spurt: „Hvernig væri að flytja burt allt járna- og timburdraslið?“ 1987: NÝ TÆKNI TIL SAMSKIPTA „Sambandsfrystihúsin taka nýja samskiptatækni í þjón- ustu sína.“ Þannig hljóðaði fyrirsögn í Tímanum 15. maí 1987. Í fréttinni var sagt að á aðalfundi Sambands fiskframleiðenda hefði verið tekin ákvörðun um að frystihúsin yrðu hið fyrsta „búin telefaxtækjum, en það eru tæki sem senda ritað efni símleiðis. Með þess- ari nýju tækni verður öll dreifing upplýsinga um framleiðslu- og markaðsmál hraðari og skilvirkari. Talið er að sending gagna í pósti muni að verulegu leyti falla niður.“ Fram kom að notkun póstfaxþjónustu hefði aukist veru- lega og að takmarkið væri að hún yrði í all- flestum póst- og símastöðvum á landinu. T ÍÐARANDINN Á TUTTUGUSTU ÖLD MEÐAL VIÐ HÓSTA OG HÆSI J Ó N A S R A G N A R S S O N T Ó K S A M A N Í Morgunblaðinu Reykjavík 15. maí 1909 var auglýst danskt maltöl sem var „framúrskarandi hvað snertir mjúkan og þægilegan smekk“ og hafði „fengið meðmæli frá mörgum mikilsmetnum læknum. Besta meðal við hósta, hæsi og öðrum kælingarsjúkdómum.“ Fjórum árum síðar hóf Ölgerðin Egill Skallagrímsson framleiðslu á maltöli í kjallara Þórshamars við Templarasund

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.