Lesbók Morgunblaðsins - 03.07.2004, Blaðsíða 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 3. júlí 2004
!
Fólk hefur alltaf flust milli landa
í leit að betra lífi, hvort sem það
leitar að betri efnahag, friði, ást-
inni, þekkingu eða einfaldlega
ævintýri.
Það fer ekki fram hjá neinum
að hér á landi býr fólk sem ekki
getur rakið ættir sínar til Snorra
og Egils. Það dugir að skoða brosmild
andlit í skrúðgöngum niður Laugaveg 17.
júní, veifandi íslenskum fánum. En hvað á
þetta fólk frá öllum heimshornum sem
hefur einhverra hluta vegna numið land
hér á klakanum, alveg eins og norsku vík-
ingarnir forðum, sameiginlegt? Og hvað á
það sameiginlegt með af-
komendum víkinganna?
Eiga Pólverji og Taílend-
ingur sem búa í Reykjavík
eitthvað meira sameig-
inlegt en Pólverji og Íslendingur sem
vinna saman eða Taílendingur og íslensk-
ur nágranni hans? Búa hér í þessu fá-
menna landi nokkrar þjóðir? Það er stað-
reynd að fólk sem hefur flust hingað á
síðustu áratugum er oft öðruvísi í útliti,
kemur með ný tungumál og framandi mat-
arvenjur. En útlit og tungumál hindrar
ekki þetta fólk að tengjast böndum við Ís-
land og finnast að þau tilheyri íslensku
samfélagi, af því að Ísland er heimaland
þeirra.
„Þú ert orðin svo mikill Íslendingur,“ er
stundum sagt við mig. Þegar ég heyrði
þetta í fyrsta sinn tók ég því ekki sem
hrósi eins og það var meint. Mér fannst ég
hafa tapað persónuleika mínum, svikið
minningu foreldra minna, afneitað fortíð
minni. Ég sem hafði aldrei þörf fyrir að til-
heyra neinum þjóðarhópi. Mér sárnaði yf-
irgangurinn í íslenskri vinkonu minni sem
sagði þetta, að hún skyldi ekki hafa borið
virðingu fyrir mér og uppruna mínum.
Þurfum við endilega að gerast Íslendingar
ef við setjumst hér að? Hvenær hættir
maður að vera nýr Íslendingur eða
„nýbúi“? Þegar ég byrjaði að velta þessari
spurningu fyrir mér reyndi ég að finna at-
riði sem gera mig frábrugðna þeim sem ég
taldi vera sanna Íslendinga. Ég fæddist í
útlöndum og á annað móðurmál. En, hvað
með Íslendinga sem hafa fæðst í Svíþjóð
eða Bandaríkjunum, á meðan foreldrar
þeirra voru þar við nám og störf og sögðu
fyrstu orðin sín á sænsku eða ensku? Velta
þeir sömu spurningum fyrir sér? Eða er
íslenskt þjóðerni meðfæddur eiginleiki?
Ég var engu nær og ákvað að telja upp
atriði sem ég átti sameiginleg með Íslend-
ingum. Börnin mín læra sömu aðferðir í
stærðfræði eins og ég gerði, koma úr skól-
anum hamingjusöm og segja að það sé svo
gott að búa á Íslandi af því að hér sé frið-
ur. Það fyllir þau öryggistilfinningu og
þakklæti að geta lifað hér óáreitt. Þegar
ég var á þeirra aldri, á áttunda áratugn-
um, lærði ég það sama um landið mitt í
skólanum mínum, í heimaborginni minni í
Júgóslavíu. Ég lærði að fjöllin okkar væru
fallegust í heimi, vatnið hreint og loftið
ómengað, alveg eins og íslensk börn læra
um Ísland. Þurfa menn endilega að velja á
milli, hvaða lambakjöt sé best? Svarið er
nei. Maður þarf ekki endilega að afneita
fortíð sinni bara af því að nútíðin lítur
öðruvísi út. Ef spurningin er annaðhvort-
eða er svarið bæði-og. Það er í lagi að hafa
tvö eða fleiri heimalönd. Og Ísland hlýtur
að vera heimaland þeirra sem hér búa.
Ég segist vera frá Íslandi þegar ég fer
heim til Belgrad. Svo sný ég aftur heim til
Reykjavíkur. Þegar flugfreyjan ávarpar
farþegana um leið og hjól flugvélarinnar
snerta blautt og grátt malbikið á Keflavík-
urflugvelli með því að segja: „Dear pass-
engers, welcome to Iceland“, og þýðir
setninguna ekki, heldur segir: „Góðir far-
þegar, velkomin heim“, þá líður mér vel af
því ég er komin heim. Og flugfreyjan
ávarpar ekki bara þá sem hægt er að finna
í ættfræðigrunninum og eru skyldir öllum
vinnufélögum sínum í sjöunda legg. Ég
sæki töskurnar mínar og arka út í vindinn,
sveiandi eins og aðrir Íslendingar: „Alltaf
sama rokið hér.“
Ubi bene, ibi patria. Þar sem gott er að
vera, þar er heimaland. Njótið sumarsins.
Þjóðarvitund
Íslendings
Eftir Tatjönu
Latinovic
tlatinovic
@ossur.com
Tatjana Latinovic er frá fyrrverandi Júgóslavíu,
nánar tiltekið Króatíu, en hún hefur verið búsett
á Íslandi í tíu ár. Hún starfar hjá Össuri hf. í
þróunardeild, auk þess sem hún vinnur sjálfstætt
sem túlkur og þýðandi, bæði úr serbnesku og kró-
atísku. Tatjana situr í stjórn Alþjóðahúss.
Dagana áður en kvikmynd MichaelsMoore Fahrenheit 9/11 var frum-sýnd í Bandaríkjunum um sein-ustu helgi, varð vart við töluverð-
an skjálfta í fjölmiðlum þar í landi.
Lesendabréfum rigndi yfir dagblöð, einkum
vefsíður þeirra, sjónvarpsstöðvar fjölluðu ít-
arlega um Moore og feril hans, og fulltrúar
ólíkra sjónarmiða voru látnir takast á um
nýju myndina án þess að hafa séð hana.
Í vefútgáfu dagblaðsins The Boston Globe
mátti lesa óteljandi
haturs- og níðbréf
frá svörnum and-
stæðingum kvik-
myndagerðarmanns-
ins þar sem
orðbragðið var tíðum mun svakalegra en
nokkurn tíma sést eða heyrist í íslenskri
stjórnmálaumræðu. Einn flokksbróðir Bush
yngri og kunnur fréttaskýrandi líkti Moore
við Göbbels, hann væri lygari og áróð-
ursmeistari auk þess sem enginn með fullu
viti gæti tekið mark á heimskum, feitum,
hvítum manni með hafnaboltahúfu og háls-
bindi, en andmælandi hans brást ókvæða
við. Samtal þeirra snerist upp í innantómt
karp um hvað sá fyrrnefndi ætti við.
Margir tóku undir hvatningu Moores um
að menn skyldu sjá myndina áður en þeir
gagnrýndu hana. Þeir sem skrifuðu les-
endabréfin hvöttu Bandaríkjamenn til þess
að sniðganga kvikmyndina vegna þess að
Moore væri föðurlandssvikari. Aðrir hvöttu
landsmenn til þess að sjá myndina þegar um
frumsýningarhelgina vegna þess að gott
gengi í upphafi myndi tryggja betri dreif-
ingu hennar, en myndin var ekki frumsýnd
nema á níunda hundrað kvikmyndatjalda
sem þykir heldur lítið vestra. Það var þann-
ig orðið að pólitískri athöfn að fara eða fara
ekki í bíó þessa helgi. Michael Moore þótti
þetta ekkert leiðinlegt allt saman, en varð
miður sín vegna þess að Ray Bradbury, höf-
undur framtíðarskáldsögunnar Fahrenheit
451 kvaðst afar ósáttur við að bók hans
skyldi bendluð við myndina með vísun í tit-
ilinn. Afstaða Bradburys hlaut reyndar lít-
inn hljómgrunn og The Boston Globe benti
honum á að sennilega yrði mynd Moores til
þess að skáldsagan kæmist í endurnýjun líf-
daga.
Ég sá Fahrenheit 9/11 í kvikmyndahúsi
við Boston Common síðastliðinn laugardag.
Í mannþrönginni tókst mér ekki að telja
hversu mörg tjöld í húsinu birtu myndina en
þarna eru ríflega 20 salir. Hvert einasta
sæti var skipað klukkan fjögur síðdegis
þrátt fyrir að sólin skini glatt úti.
Skemmst er frá að segja að myndin er
mjög áhrifamikil og hefur margt af því sem
góða mynd má prýða; fyndni, ósvífni, átök,
harmleik einstaklinga og þjóðar, óborganleg
augnablik og tilsvör, en ekki síst drama-
tíska, klassíska byggingu sem sýnir hrylling
og vekur samúð, og skipar Moore á bekk
með helstu sagnamönnum hvíta tjaldsins.
Viðbrögð áhorfenda voru forvitnileg; það
var hlegið og klappað en líka mátti heyra
andköf og sárar stunur. Fyndnin í myndinni
er margvísleg og felst oft í klippingunni, en
ekki síður í texta Moores. Þegar hann taldi
upp hin „staðföstu“ ríki sem studdu innrás-
ina í Írak um leið og viðeigandi myndskreyt-
ingu var brugðið upp var mest hlegið þegar
sjá mátti gamalt og slitið svart-hvítt mynd-
skeið af víkingum á siglingu til að minna á
Lýðveldið Ísland sem fór í þennan hernað.
Átakanlegasti kafli myndarinnar er seinni
hlutinn, einkum saga konunnar frá Flint í
Michigan sem fór í gegnum afar sársauka-
fullt endurmat á stjórnmálaskoðunum sínum
þegar hún missti son sinn í Írak. Grafar-
þögn ríkti lengi í salnum uns heyra mátti
snökt; sú saga fékk marga til að fella tár. Þá
var og konan sem sagði staffírug upp í opið
geðið á syrgjandi mæðrum í Washington að
málstaður þeirra væri bull og byggðist á
lygi, en áttaði sig og muldraði um leið og
hún gekk burt að fólk væri hvort eð er alltaf
að deyja! Lokaandartakið í myndinni er
sprenghlægilegt og sýnir þegar Bush yngri
tekst engan veginn að botna alkunnan máls-
hátt en reynir samt. Forsetinn verður
aumkunarverður, lítill sætur bangsi sem
hefur villst að heiman. Í stærra samhengi
segir niðurlagið okkur að forsetinn getur
engan veginn botnað það stríð sem hann hóf
en reynir samt.
Með háan hita
Fjölmiðlar
Eftir Árna
Ibsen
aibsen@internet.is
’Einn flokksbróðir Bush yngri og kunnur fréttaskýrandilíkti Moore við Göbbels, hann væri lygari og áróðurs-
meistari auk þess sem enginn með fullu viti gæti tekið
mark á heimskum, feitum, hvítum manni með hafna-
boltahúfu og hálsbindi …‘
Hin eindregna nútímakrafa markaðarins um langa skáldsögu er hins vegarnokkur ráðgáta. Ekki er hægt að segja að lestur fari almennt vaxandi og les-hungur almennings kalli á langar bækur. Bent hefur verið á aðra skýringu á
þessari kröfu, nokkuð skynsamlega: Að það sé í samræmi við tíðarandann, neyslu-
hyggju og sífelldan hagvöxt að meta hluti eftir stærðinni.
Ágúst Borgþór Sverrisson
Kistan | www.kistan.is
Lesendur eru ekki fífl!
Er sú virkilega raunin? Er hægt að fullyrða þetta án þess að hika? Þarf ekki að staldra
aðeins við og íhuga hvað í þessari athugasemd felst? Til að byrja með rak mig í roga-
stans við hina eindregnu nútímakröfu markaðarins. Er rétt að við lesendur sættum
okkur ekki við stuttar skáldsögur? Er það svo að slíkar bækur seljast ekki? En hvar
eru mörkin dregin, hvað er stutt skáldsaga og hvað er löng? Í grein sinni nefnir Ágúst
Samúel eftir Mikael Torfason og fylgir sú frásögn að bókin hafi verið kölluð ’alltof
stutt, tveggja kvölda lestur’. Er þá hin almenna krafa að skáldsögur séu lengri en 200
blaðsíður? Eða þarf ’góð’ skáldsaga að vera jafnvel enn lengri?
Þessi eindregna nútímakrafa markaðarins um staðlaða lengd fæst ekki staðist. Og
ástæðan er einföld: Lesendur eru ekki fífl!
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Kistan | www.kistan.is
Fyrirlitning á hinu stutta
Það vakti mér ánægju að sjá svargrein við grein minni, 3 mínútur – 300 blaðsíður, eftir
rithöfundinn unga og efnilega, Þorstein Mar Gunnlaugsson. Ég vona að bjartsýni hans
um fjölbreyttan smekk bókamarkaðarins eigi við rök að styðjast. Hinu er ekki að neita
að í umfjöllun minni studdist ég við raunveruleg dæmi, þ.e. inngang Johns O’Hara að
nóvellusafni sínu, útvarpsþátt Hallgríms Thorsteinssonar og fordóma gagnvart verki
Sjóns, Skugga-Baldri, sem raunar birtust ekki á prenti. Ég hefði getað nefnt margfalt
fleiri dæmi sem því miður sýna að fyrirlitning á ljóðum, smásögum og stuttum skáld-
sögum fer vaxandi hjá vel menntuðu fólki sem ætti að vita sínu viti.
Ágúst Borgþór Sverrisson
Kistan | www.kistan.is
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Línurnar lagðar …
Eru lesendur fífl?
I Í Laxdælu er talað um að dreita menn inni.Átt er við að sitja fyrir húsi óvinarins þannig
að hann komist ekki út að ganga örna sinna.
Um síðir hlýtur viðkomandi að gefast upp
vegna þess að ólíft er í húsum. Þetta er frum-
leg herkænska, og líklega séríslensk. En nú
er spurt: Getur verið að bandarísku samtíma-
listamennirnir Jason Rhoades og Paul
McCarthy hafi lesið
Laxdælu? Þeir sýna nú
verk í galleríi Kling og
Bang við Laugaveg sem er búið til úr sauða-
fitu, lút og ullarlögðum. Verkið heitir „Sheep
Plug“ eða Sauðatappar en þeir eru að forminu
til uppstækkaðir þarmatappar, „butt plugs“,
eins og gagnrýnandi Morgunblaðsins kemst
að orði í Lesbók í dag. Hann segir sauðatapp-
ana svipaða þeim sem listamennirnir notuðu í
umdeilda sýningu árið 2002 í Hauser & Wirth
í Þýskalandi sem þeir kölluðu „Shit plug“.
„Voru mótin þá fyllt með úrgangi listgagnrýn-
enda, listamanna og listunnenda sem safn-
aðist í útihúsum á stórsýningunni Documenta
XI í Þýskalandi.“ Fýlan í galleríi Kling og
Bang er svakaleg um þessar mundir og list-
unnandinn hlýtur að spyrja sig: Er það ætlun
samtímalistarinnar að dreita okkur inni með
menningarsögulegum úrgangi?
IIHugtakið „ruslmenning“ hefur stundumverið notað um dægurmenningu samtím-
ans. Hún hefur þó sennilega ekki nýtt sér úr-
gang og afganga ýmiss konar í jafn bók-
staflegum skilningi og til dæmis sumir
myndlistarmenn í gegnum tíðina. En það er
eitthvað við dægurmenninguna sem gerir það
að verkum að sumum þykir hún lágkúruleg.
Kannski er hún það bara samkvæmt skil-
greiningu. Sé hún skoðuð gaumgæfilega má
sjá að hún vinnur stöðugt að því að færa út
þolmörk fólks, hún leitast ef til vill ekki síður
við að dreita okkur inni í stöðnuðu hugarfari
en samtímalistin.
III„Fuck It“ heitir lag sem tók að klifra uppvinsældalistana snemma á þessu ári.
Undirtitillinn er „I don’t want you back“ en í
laginu syngur hipphopparinn Eamon um
framhjáhald kærustunnar sinnar. Hann virð-
ist niðurbrotinn en ber sig vel og hreytir í
sína fyrrverandi ókvæðisorðum í tilskildar
þrjár mínútur toppslagarans: „Fuck what I
said, it don’t mean shit now.“ Nokkrum vikum
eftir að lagið sló í gegn sendi Frankee, sem
sennilega er umrædd kærasta, frá sér andlag
við „Fuck It“ sem nefnist einfaldlega
„F.U.R.B.“ en það er skammstöfun á orð-
unum „Fuck You Right Back“. Þar sakar
Frankee Eamon um að vera óspennandi elsk-
hugi og lúsugur.
IVÍ Ensk-íslenskri orðabók er „fuck“ sagt„óviðurkvæmilegt“ orðalag. Þrátt fyrir
það verður vart sagt að þessir tveir ástar-
söngvar séu lágkúrulegir. Þvert á móti verður
að segja að þetta sé ákaflega áhugaverð og
raunar hjartnæm uppákoma. Í opinberuninni
felst djúpstæð þrá eftir því að lofta út úr
innstu skúmaskotum.
Neðanmáls
Lesbók Morgunblaðsins Kringlunni 1, 103 Reykjavík, sími 5691100. Útgefandi Árvakur hf. Umsjón Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar sími 5691111
netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Árvakurs hf.