Lesbók Morgunblaðsins - 17.07.2004, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 17.07.2004, Blaðsíða 6
Þ egar hái ljóshærði Keltinn Tugdual Manchec, eða Tual eins og hann var kallaður, steig enn óstöðugum fótum yfir þröskuld- inn, leiddur og studdur af Kötu, varð hann að beygja sig í dyr- unum sem voru hlægilega lágar og þröngar. En íslensk híbýli eiga í vök að verjast gegn snjó, vindi og þoku; þau víggirða sig því eins og best þau geta gegn þessum óvinum fyrir utan og láta þeim eftir til innrásar eins litla smugu og frekast er unnt. Rétt til að hleypa inn svo- litlu lofti og birtu. Þannig var bær Jörundar Egilssonar, svolítil grjóthleðsla með torfi á burstaþökum, þar sem grasi vaxinn hallinn bylgjaðist í vorgolunni eins og reglulegur akur. Þetta var í þriðja sinn síðan Tual var lagður á sjúkrabeð í þessum reykmettuðu, afskekktu hýbýlum í Fífufirði að hann komst út í sólina – föla sólarglennu sem braust með erfiðismunum fram á þessari norðlægu breiddargráðu. Heim- skautsnóttin nálgaðist. Aðeins nokkrir dagar eftir og dauf skíma hennar mundi umvefja Ísland í sjö mánuði: handan sjóndeildarhringsins voru þorskveiðiskúturnar að snúa til heimahafna: Með því að loka aug- unum gat Tual séð fyrir sér glæsilegan segla- búnað þeirra bera við bretónska perlumóðu- birtu himinsins úti fyrir Paimpol, Dahouet og Binic. Þrjár þeirra svöruðu ekki kalli, einmitt þrjár frá Paimpol, sem nú hvíldu eftir sama ofsa áhlaupið í votri íslenskri gröf nokkrar míl- ur út af Vestra-Horni, sem aðskildi Fífufjörð frá þessari framandi hættulegu Hornvík. Meðal þessara þriggja var gólettan hans, Etoile-d’Arvor. Meðan hin skipin í fiskiflot- anum leituðu í hlé handan tangans, höfðu Etoile-d’Arvor, Marjolaine og Aimée- Augustine tafið af fífldirfsku í miklum afla á miðunum og tóku ekki eftir því að straumurinn bar þau ógnvænlega nær landi. Það varð þeim að aldurtila. Þegar skúturnar ætluðu að forða sér út á rúmsjó var stormurinn orðinn svo mik- ill að ekki var hægt að koma upp nokkru segli. Alda braut stýrið á Etoile-d’Arvor; önnur kom þvert á skipið og sendi það veltandi á grýttan tangann þar sem það sökk. Slysið gerðist svo skyndilega að enginn komst af annar en Tual. Stór alda kastaði hon- um á rúðuramma sem skar af vinstri kálfanum á honum inn að beini, en honum tókst þó að hanga með léttadrenginn alla nóttina á mastr- inu og halda dauðahaldi í hliðarstagið. Ískalt myrkrið, öldurnar og sjávarúðinn sem gengu yfir vesalings skipbrotsmennina ollu því brátt að léttadrengurinn missti meðvitund og hefði fallið í sjóinn ef Tual hefði ekki haldið honum í fangi sér þennan þriggja stunda þrautatíma. Sjálfur fann hann að kraftar hans voru á þrot- um. Útlimirnir voru stokkbólgnir og meiðslin á vinstra fæti ollu honum óþolandi kvölum. Á út- fallinu komu loks upp úr rif svo hann gat stigið niður frá mastrinu án þess að eiga á hættu að sjórinn tæki hann. Fjaran í kring um hann var stráð líkum. Hann gat ekki komið auga á nokk- urn mannabústað og af ótta við að deyja úr þorstra og hungri eftir að hafa bjargast frá drukknun dróst hann upp á land í leit að hjálp. Ekki munaði miklu að hann hlyti ennþá skelfilegri dauða en félagar hans. Á þessum hluta strandarinnar, með jarðvegi frá árframburðinum, hafði undir fjallsrananum út frá Öræfajökli myndast gríðarmikið kvik- syndi, allt að tuttugu kílómetrar á lengd. Hátt grasið með dálítilli héluskán blekkti svo að frá ströndinni sýndist þetta vera valllendi. Yfir þessu kviksyndi sveimaði urmull svartra fugla líkt og yfir fjöldagröf. Af þeim hafði dýið dreg- ið þetta ógnvekjandi nafn, Dalur hrafnanna eða Hrafnafen. Tual hætti sér út á þetta ótrygga land en hafði ekki stigið nema þrjú skref þegar hann var sokkinn upp undir mitti. Svo veikburða sem hann var og eftir mikinn blóðmissi átti hann litla von um að geta bjargað sér. Hann rak upp örvæntingaróp og leið út af. Seinna vissi hann að Jörundur Egilsson í Fífufirði, sem var að vitja um gildrur sínar, hafði heyrt þetta neyðaróp, fetað sig skríðandi til Tuals og brugðið kaðli undir handarkrika hans. Tókst þannig að draga hann á þurrt land. Tual andaði enn. Íslendingurinn þurfti ekki annað en blístra milli fingra sér til að kalla á hesta sína tvo, sem voru þarna skammt frá. Enginn bær á Íslandi er svo fátækur að þar gefi ekki að líta þessa litlu dálítið luralegu hesta með stálfætur, sem eru uppistaðan í skepnuhaldi íbúanna. Þeir eru ótrúlega þurft- arlitlir, lifa hálft árið á þangi og þurrum fiski, og eru í tilbót vitrir og gæddir óviðjafnanlegu fjöri. Þegar þeim hefur einu sinni verið beint á rétta stefnu – og til þess duga mismunandi flautmerki – þá renna þeir áfram í einni skorpu á vegalausu landi með skorningum og lausa- grjóti, og víkja aldrei af vegi eða stansa fyrr en í áningarstað. Margar skipreika áhafnir okkar eiga líf sitt þessum þrekmiklu litlu skepnum að launa, og það gerði Tual líka. Jörundur gamli hafði hysjað honum upp á sinn stæðilegasta hest og stokkið á bak fyrir aftan hann. Nokkrum mínútum síðar kom hann honum með hjálp Kötu dóttur sinnar inn í bæinn handan við hæðina, þar sem skyndi- umbúðir, hlýjan frá eldinum og rækilegt nudd rifu hann upp úr meðvitundarleysinu. En það tók slasaða sjómanninn langan tíma að ná sér. Brjósthimnubólga herjaði líka á hann. Bær Jörundar var eina byggðin í Fífufirði og til að ná til læknis hefði þurft að fara 50–60 mílna leið. Sem betur fer var Tual fílhraustur. Heilsufar hans og e.t.v. líka jurtaseyði Kötu, ásamt sálm- unum og fallegu augunum hennar, urðu til þess að gestgjafarnir höfðu ekki eins miklar áhyggj- ur af sjúklingnum. Hann komst á fætur. Meðan Jörundur gamli var að vitja um eða leggja gildrur sínar hjálpaði Kata Tual að klæða sig og stíga fyrstu skrefin. Hún hafði hann með sér í skálann þar sem hún verkaði skinnin af veiði- dýrum föður síns, otrum, mörðum, minkum, hvítum refum og blárefum, sem hún fór einu sinni á ári með á markað til sölu á Akureyri, ríð- andi örugg í söðli í fallegasta vaðmálsbún- ingnum sínum með flauelsleggingum og á höfð- inu hátíðarfaldinn, sem er nokkurs konar keila, sveigð í endann eins og stafn á gondóli. Hvers- dagslega var hún í pilsi og peysu úr þykkri ull, kræktri að framan, og höfuðfatið lítil flöt svört húfa með skotti sem gekk gegn um málmhólk og slóst ýmist út á aðra öxlina eða hina. Hún var mittismjó, með langar, ljósar hárfléttur, sem héngu niður á bakið, augun skær, græn eins og sjávarþang, hátt ennið slétt og húðin hvít. Eftir að hafa ung telpa verið send í vist hjá danska kaupmanninum sem seldi sjómönnum í land- legum brennivín, kunni hún nógu mikið í frönsku til að gera sig skiljanlega við sjúkling- inn. Hún var alvarleg en virtist ekki ómann- blendin. Hún forðaðist ekki snertingu. Kvölds og morgna kyssti hún Tual á munninn. Það þykir gestrisið á Íslandi að húsmóðirin færi gesti sem guð ber að hennar garði mjólk í skál, sem hún hefur dreypt vörunum í áður en hún ber hana upp að vörum hans til að drekka. Áhrifin af þessari nýju tilveru létu Tual smám saman gleyma unnustunni sem beið hans í Bretagne og myndinni sem hafði hangið í ramma úr grenikönglum við höfðalagið á koju hans, en hvíldi nú á margra faðma dýpi út af Vestra-Horni, ásamt skipsskokknum af l’Etoile-d’Arvor… * * * Þennan fagra dag var Tual í einstaklega ljúfu skapi. Hann var einn heima með Kötu. Jörundur gamli var farinn til að vitja um gildrurnar sínar og ekki von á honum aftur fyrr en um kvöldið, svo dóttir hans hafði nægan tíma til að útbúa handa honum graut úr fjallagrösum og sneið af reyktum laxi, sem var hans daglega fæða. Þótt sólin væri lágt á lofti náði hlýjan frá henni að verma sjúklinginn. Æðarfuglinn á firðinum lætur dúninn og undir dúnsænginni sem þau sátu á voru enn í blómabreiðunni villtar fjólur og mýrarsóleyjar í blóma eins og á sumardegi. En Kata var ennþá fallegri en fjólurnar og sóleyjarnar og það var hún sem hafði fangað hjarta Tuals. Hann hafði tekið um hendur hennar og hún gerði enga tilraun til að draga þær til sín. Stillt og blíð sýndist þessi íslenska stúlka ekki annars sinnis en gestur hennar. Og Tual, sem af skyldurækni við Jörund gamla hafði fram að þessu haldið aftur af sér, herti nú upp hugann og strauk yfir brjóst Kötu þar sem það bungaði svolítið út í ullarvaðmálið. Hún brosti við sjúklingnum og sagði: – Hamingjan sanna! Ég sé að þér er batnað. Þessi orð túlkaði hann sem uppörvun og síð- asti samviskuvotturinn hvarf út í veður og vind, svo hann greip á sinn gamla hispurs- lausa sjómannshátt um mittið á Kötu. Mót- staða ungu stúlkunnar kom honum á óvart. Þessi íslenska stúlka var miklu sterkari en hann hafði haldið og sjálfur hafði hann ofmetið sinn eigin styrk. – Ah! sagði hann svolítið sár um leið og hann sleppti Kötu, hefði ég bara ekki verið svona veikburða! – Ef þú hefðir ekki verið svona veikur, svar- aði Kata um hæl, þá værirðu núna heima hjá þér, innan um þína eigin landsmenn. Faðir minn hefði sett undir þig einn af hestum sínum og þú riðið í áföngum til Akureyrar eða Reykjavíkur, þaðan sem þú hefðir verið sendur heim … Hefðirðu ekki verið veikur mundirðu varla vita lengur hvað ég heiti… Þessu reyndi Tual að mótmæla. Í fátinu sagði hann að henni skjátlaðist og að hann elskaði hana of mikið til þess að geta nokkurn tíma gleymt henni. – Er það satt? sagði hún. Skildirðu ekki eftir konu heima eða unnustu? Hann leit undan til að láta hana ekki sjá að honum var brugðið. – Heima telja allir mig nú af. Konan mín, ef ég ætti þá nokkra, yrði ekki lengi ekkja, og unnusta mundi giftast ein- hverjum öðrum. Kata gleypti ekki við þessu undanbragði í svarinu … Enfremur þekkti hún tregafulla og kvika lund Bretónanna. – Þú ert gestur hjá okkur fram á næsta vor, sagði hún við Tual. Kannski elskarðu mig þangað til, en þegar þú ferð aftur að sjá skút- urnar að heiman þá muntu ekki standast það að setjast að hjá okkur. Þá ferðu þína leið… – Og ef ég verð nú kyrr? spurði Tual. – Ef þú verður kyrr! hrópaði Kata upp yfir sig og gætti efasemda í röddinni, því hún elsk- aði Tual líka. – Já, mér líður vel hér … Þegar ég verð al- veg búinn að ná mér mun ég fara með Jörundi á veiðar, hann getur kennt mér … Eða þá að ég fer á sjó að draga þorsk og lúðu meðan hann vitjar um gildrur sínar. Ég yrði ekki lengi að smíða mér bát úr brakinu úr Etoile-d’Arvor. Þá færðu að sjá hvað ég er góður fiskimaður! Og við skiljum aldrei framar, Kata. – Brátt fæ ég að vita hvort þér er alvara, sagði þá stúlkan. Hún reis á fætur og hann fylgdi henni að brekku, þar sem hann hefði ekki reynt að komast á eigin spýtur. En Kata hélt honum uppi á erfiðasta kaflanum. Þegar hann var kominn á hæðina, sá hann undir lág- um himni handan fjarðarins geysimikla flekk- ótta sléttu, þakta stargresi og stöku ryðrauð- um dvergtrjám, þar sem sveimuðu yfir hópar af svörtum fuglum… Íslenska stúlkan Upp úr þessari smásögu frá 1908 samdi bretónski rithöfund- urinn Charles Le Goffic (1863–1932) textann fyrir óperuna Le Pays eftir tónskáldið Joseph-Guy Ropartz, sem fékk mikið lof í Frakklandi á árunum fyrir 1914. Hlutar úr henni verða frum- fluttir á Íslandi í konsertformi á Frönskum dögum á Fáskrúðs- firði 23. júlí og á Hornafirði 24. júlí, þar sem Sigrún Hjálmtýs- dóttir syngur hlutverk Kötu, Bergþór Pálsson Jörund bónda og Gunnar Guðbjartsson franska sjómanninn Tual við píanóleik Helgu Bryndísar Magnúsdóttur. Þar hlýtur óperan nafnið Fóst- urlandsins freyja. Söguna þýddi Elín Pálmadóttir, sem hefur sýnt fram á að hún er byggð á sannsögulegum atburði frá frönsku strandi við Vestra-Horn árið 1873, þar sem stýrimaðurinn slasaði dvaldi í 6 mánuði og var sárt grátinn af ungri íslenskri stúlku á bænum þegar hann var sóttur. Smásaga Eftir Charles Le Goffic 6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. júlí 2004

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.