Lesbók Morgunblaðsins - 17.07.2004, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 17.07.2004, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. júlí 2004 G ott. Þetta er komið,“ segir leikstjórinn Bern- ardo Bertolucci við tökumann sinn á tökustað í París árið 1972. Upptökur á kvikmyndinni Síðasti Tangó í París (Last Tango in Paris) eru hafnar og nýbúið er að skjóta fyrsta myndskeiðið með Marlon Brando, aðalleikara myndarinnar. Þegar leikstjórinn skipar tökuliðinu að und- irbúa næsta skot, stynur tökumaðurinn vandræðalega upp úr sér að upptakan hafi mistekist, hann hafi gleymt að láta vél- ina rúlla. Afsakandi hvíslar hann að Bertolucci: „Þegar ég sá Brando í gegnum linsuna, varð ég líkt og lamaður. Ég starði bara á hann í leiðslu.“ Þessa dæmisögu sagði Bertolucci í viðtali sem tekið var við hann eftir fráfall kvikmyndaleik- arans hinn 1. júlí síðastliðinn, en með Brando er ekki aðeins horfin ein af stóru kvikmyndagoðsögnum 20. aldarinnar, heldur einnig leikari sem margir telja þann besta sem bandarísk kvikmyndagerð hefur átt. Líkt og Bertolucci bendir á var Brando þegar orðinn lifandi goðsögn eftir fyrstu glæstu árin á leikferli sínum, en hann veitti fersku blóði inn í bandaríska kvikmyndagerð, með hinum svokallaða „aðferðar“-leikstíl (method acting) sem margir virtir leikarar og leikstjórar tóku upp á komandi árum. Ólíkt stjörnum á borð við James Dean og Marilyn Monroe, fékk goðsögnin Marlon Brando nægan tíma til að „lifa sjálf- an sig“ í gegnum óteljandi aukakíló, sjálfskipaða einangrun á eyju sinni í Kyrrahafinu, mistæk leikhlutverk og stormasamt einkalíf. Áður en yfir lauk hafði Brando farið í gegnum nokk- ur hjónabönd og eignast 11 börn með hér um bil jafn- mörgum konum. Og nú þegar Brando er genginn keppast leikir og lærðir við að ráða í það púsluspil sem líf hans var. Ein útgáfa ævisögu leikarans hljóðar á þá leið að hann hafi verið holdgervingur sóaðra hæfileika, fórnarlamb frægðar sem náði hámarki allt of fljótt og huldi sláandi fegurð sína með því að safna á sig aukakílóum. En þeir sem sjá hlutina skýrari augum hafa bent á að Marlon Brando hafi einfald- lega neitað að lifa lífinu sem sú goðsögn sem aðrir sáu í hon- um, og neitað að taka fyllilega þátt í þeirri glamúrveröld, sem hann þó sjálfur kaus að spreyta sig innan. Brando hafi fyrst og fremst verið venjulegur, breyskur maður, sem nýtti sér þá eiginleika í því sem hann gerði best, þ.e. að leika öfgakenndar og tvístraðar tilfinningaverur, sem fólk gat speglað sig í. Og inn á sviðið steig Stanley Kowalski … Marlon Brando átti erfiða æsku, þar sem hann ólst upp í dauðyflislegu umhverfi í Mið-Vesturríkjum Bandaríkjanna, með foreldrum sem áttu við áfengisvandamál að stríða. Fer- ill Brandos hófst í leikhúsinu árið 1944, en hann hélt 19 ára gamall til New York og hóf að læra leiklist undir leiðsögn Stellu Adler hjá leikaraskólanum Actors Studio. Brando hafði aðeins verið í þrjú ár á sviðinu er hann hreppti hlut- verk Stanleys Kowalskis í Broadway-uppfærslu á leikriti Tennessee Williams, Sporvagninn Girnd (A Streetcar Nam- ed Desire). Brando var þá 23 ára gamall, og vakti gríðarlega athygli fyrir hráa og tilfinningalega magnaða túlkun sína á hinum stjórnlausa og dýrslega Kowalski. Frammistaða Brandos færði leikhúsinu eitthvað sem ekki hafði sést áður, en síðar lýsti gagnrýnandi frammistöðu leikarans, með þeim orðum að aldrei fyrr hefði sést viðlíka túlkun hrottalegrar karllegrar fegurðar á bandarísku leiksviði. Eftir leik sinn í Sporvagninum sneri Brando baki við leik- húsinu og hélt til Hollywood þar sem kvikmyndaferill hans tókst á loft. Í fyrstu kvikmynd sinni, Mennirnir (The Men) sem út kom árið 1950, steig leikarinn fyrst fram í hlutverki hins þungbrýnda og þjakaða uppreisnarseggs sem hann gerði ódauðlegan í kvikmyndaleik sínum. Ári síðar birtist Brando á ný í hlutverki Stanleys Kowalskis í kvikmynda- uppfærslu leikstjórans Elia Kazan á Sporvagninum og í þetta sinn lék hann á móti stjórstjörnunni Vivien Leigh. Þar endurtók Brando leikinn frá því á Broadway, og er óhætt að segja að sú kynferðislega spenna sem þau Brando og Leigh mögnuðu fram í hlutverkum Kowalskis og Blanche DuBois hafi verið djarfari en dæmi voru um í Hollywood-kvikmynd- um á þessum tíma. Í kjölfarið fylgdu uppreisnarseggs- kvikmyndir á borð við Lifi Zapata! (Viva Zapata!, 1952) og Villingurinn (The Wild One, 1953) og sama ár lék Brando á móti John Gielgud í kvikmyndauppfærslu á Júlíusi Cesar eftir Shakespeare. Það var síðan undir handleiðslu Elia Kaz- an sem Brando fór með hlutverk hafnarverkamannsins Terr- ys Malloys í kvikmyndinni Við höfnina (On the Waterfront) og skipaði sér formlega í röð eins frægasta og virtasta kvik- myndaleikara síns samtíma. Brando hlaut Óskarsverðlaunin sem leikari í aðalhlutverki í Við höfnina, en áður hafði hann hlotið fjölmargar verðalaunatilnefningar. Yfir ævina hlaut Brando alls 8 Óskarstilnefningar og tvenn verðlaun fyrir leik í aðalhlutverki, auk fjölda annarra verðlauna. Þegar kom fram á sjöunda áratug aldarinnar tók glæstur leikferill Brandos mjög að fölna. Eftir stór hlutverk í kvik- myndum á borð við Gæja og píur (Guys and Dolls) tók við röð hlutverka í stórum Hollywood-kvikmyndum sem hann hlaut dræmar viðtökur gagnrýnenda fyrir. Árið 1972 ávann Brando sér hins vegar virðingu á nýjan leik með leik sínum í hlutverki mafíuforingjans Don Vito Corleone í kvikmyndinni Guðfaðirinn (The Godfather, 1972). Sama ár lék hann á móti Mariu Schneider í hinni kynferðislega opinskáu kvikmynd Bernardos Bertoluccis, Síðasti Tangó í París. Þó svo að Brando hafi mestmegnis birst í aukahlutverkum það sem eft- ir lifði ferils hans minnast hans margir fyrir óhugnanlega magnaða túlkun á hlutverki Kurz ofursta í Dómsdagur nú (Apocalypse Now), samtímavæddri kvikmyndaútfærslu Francis Ford Coppola á sígildri skáldsögu Josephs Conrads, Innstu myrkur. Síðasta leikhlutverk Brandos var síðan í spennumyndinni Verkefnið (The Score) árið 2001, þar sem kappinn birtist í öllum sínum hátt á tvöhundruð kílóum, og lék á móti „lærisveini“ sínum og einlægum aðdáanda, Robert De Niro. Tilfinningaleg óþreyja Marlon Brando var ekki fyrsti kvikmyndaleikarinn sem nýtti sér „aðferðar“-leikstílinn svonefnda sem kenndur var í Act- ors Studio í New York og byggðist á hugmyndafræði braut- ryðjandans Stanislavskís um að nota minni og reynslu sem kveikju í tilfinningalegri leiktúlkun. Leiklistarkennarar á borð við Lee Strasberg, Stanford Meisner og Stella Adler þróuðu áfram hugmyndir Stanislavskís sem urðu allsráðandi í leikhúsinu í New York á fimmta áratugi 20. aldar. Marlon Brando varð hins vegar fyrstur til þess að sýna hversu magnaður hinn nýi leikstíll gat orðið á kvikmyndatjaldinu, væri rétt með hann farið. En Brando hafði líka fleira til að bera, sem gerði það að verkum að hann hitti í mark og varð nokkurs konar táknmynd nýrra og stormasamra tíma 6. ára- tugarins í Bandaríkjunum. Hann sameinaði fágaðan og merkingarhlaðinn leikstíl við óræða tjáningu á innri óróleika sem kallaðist e.t.v. á við mótsagnir tímanna sem í hönd fóru. Hann bjó sjálfur yfir tilfinningalegri óþreyju sem hann lét skína í í leik sínum, en lagði einnig mark sitt á tilveru hans alla. Tvístraðar tilfinningaverur Með fráfalli Marlons Brandos er horfin ein af stóru kvikmyndagoðsögn- um 20. aldarinnar. En Brando var líka maður sem þurfti að lifa eigin goðsögn, og varð fyrir vikið að nokk- urs konar ráðgátu sem túlkuð hefur verið á ólíkan hátt. Hér er stiklað á stóru í ferli og arfleifð leikarans. AP Marlon Brando í hlutverki Stanleys Kowalskis í kvikmyndinni A Streetcar Named Desire frá árinu 1951. Sagt er um Brando að ásýnd hans hafi verið svo sláandi hrjúf og fögur að hann hafi sjálfur reynt að flýja áhrifamátt hennar með því að safna á sig aukakílóum. „Guðfaðirinn“ eða mafíuforinginn Don Vito Corleone er líklega sú kvikmyndapersóna Brandos sem síðari kynslóðir þekkja best. Reuters „Ég hefði getað orðið einhver …“ Þessi fleygu orð mælti Brando í mótleik við Rod Steiger í hlutverki hafnarverkamannsins og upp- gjafaboxarans Terrys Malloys í kvikmyndinni On the Waterfront. Eftir Heiðu Jóhannsdóttur heida@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.