Íslendingaþættir Tímans - 07.03.1984, Blaðsíða 5

Íslendingaþættir Tímans - 07.03.1984, Blaðsíða 5
Oddný Sigurrós Sigurðardóttir Fædd 30. september 1890 Dáin 15. janúar 1984 Oddný Sigurrós Sigurðardóttir, fyrrum hús- móðir í Bakkakoti í Skagafjarðarsýslu, andaðist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hinn 15. janú- ar og var kvödd hinstu kveðju frá Akureyrarkirkju 21. sama mánaðar. Þann dag var bjart og fagurt veður, sem mjög var í samræmi við lífsviðhorf og andlegt atgervi þessarar látnu merkiskonu. Lífið hafði ekki alltaf farið um hana mjúkum höndum, en þrátt fyrir ýmsan mótgang, áföll og sorgir hafði hún aldrei látið bugast, heldur varðveitt sálarstyrk sinn og trú á hið góða til síðustu stundar. Henni hafði verið gefið mikið þrek sem entist henni vel og lengi. Vinnudagurinn varð líka langur og því var hvíldin orðin kær, er hún féll frá nokkuð á 94. aldursári sínu. Oddný Sigurrós var vestfirsk að ætt og uppruna. Hún fæddist á Sæbóli á Ingjaldssandi 30. septem- ber 1890 og var fyrsta barn foreldra sinna, sem voru hjónin Dagbjört Helga Jónsdóttir, ættuð úr Dýrafirði, og Sigurður Ólafsson, ættaður frá Breiðafirði. Yngri börn þeirra hjóna voru Rafn Alexander, lengi skipstjóri á Kötlu og fleiri skipum, ogÓlafía, lengi húsmóðir á Sauðárkróki. Þau Dagbjört Helga og Sigurður voru fremur fátækt fólk, en bráðdugleg og útsjónarsöm við að bjarga sér og sínum. Þau dvöldust í húsmennsku framan af, en bjuggu síðan búi sínu á Ketilseyri í nokkur ár. Sigurður stundaði löngum sjó, svo sem títt var þar vestra, og lá hvergi á liði sínu. Dagbjört var þá heima með börnin, sem snemma reyndust samhent, dugleg og mannvænleg. En brátt dundi yfir reiðarslag, er heimilisfaðirinn drukknaði af skipi sínu árið 1906. Lauk þá brátt búskap fjölskyldunnar á Ketilseyri og fluttist Dagbjört með börnin til Þingeyrar, þar sem auðveldara var um atvinnu. Oddný Sigurrós fór að vinna fyrir sér frá barnsaldri og dvaldist á ýmsum stöðum í nágrenni móður sinnar, þar til hún réðst í vist til kaup- mannshjóna norður á Sauðárkróki. Dvaldist hún þar í nokkur ár og undi vel hag sínum. Móðir hennar og systir fylgdu brátt eftir og settust líka að á Sauðárkróki. í Skagafirði kynntist Oddný jafnaldra sínum, Hjálmari Jónssyni frá Bakkakoti í Vesturdal, hinum ágætasta manni. Þau felldu hugi saman og gengu í hjónaband árið 1917. Hófu þau síðan búskap í Bakkakoti, þar sem foreldrar Hjálmars höfðu áður búið, þau Helga Hjálmars- dóttir frá Bakkakoti og Jón Jónsson frá Tungu- hálsi. Vegnaði þeim Oddnýju og Hjálmari vel um skeið, enda samhent og dugleg í besta lagi. Þau eignuðust fjögur börn. Einn som misstu þau ungan, en upp komust Sigurður Helgi, húsasmiður á Akureyri, Helga, húsmóðir á Akureyri, og Jón ÍSLENDINGAÞÆTTIR Rafnar, sem var skólastjóri í Skógum og er nú fræðslustjóri á Suðurlandi. En eftir góðan búskap í Bakkakoti í nokkur ár, sóttu veikindi og aðrir erfiðleikar að þessum ungu hjónum. Loks veiktist Hjálmar hastarlega af lungnabólgu, sem í þá daga, var oft banvæn, og andaðist hann eftir skamma legu vorið 1922. Oddný stóð þá ein uppi með þrjú ung börn og átti úr vöndu að ráða. Hún ákvað að freista þess að halda búskapnum áfram og hafa börnin hjá sér. Til hennar réðst þá Stefán Jóhannesson, mikill öðlingsmaður, sem reyndist henni vel í hvívetna. Þau gengu í hjónaband sumarið 1923. Börn eignuðust þau fimm. Tvö dóu ung, en upp komust Hjálmar Alexander, húsasmiður í Kópavogi, Aðalbjörg Sigrún og Dagbjört Hrefna, sem báðar eru húsmæður í Reykjavík. Með Stefáni kom og í heimilið móðir hans, Guðrún Björg Guðmunds- dóttir frá Geirmundarhóli. Þau Oddný og Stefán bjuggu síðan í Bakkakoti samfleytt til 1938, en dvöldust við vinnu á ýmsum stöðum í Skagafirði næstu ár. Lengst af áttu þau þá heima á Hofi, sem var smábýli skammt frá Varmahlíð. Loks fluttust þau svo til Akureyrar árið 1949 og eignuðust þar eigið húsnæði bráðlega. Einnig þar var haldið áfram við margvísleg störf, meðan þrek framast leyfði. Til Akureyrar sóttu þau gjarna heim börn og barnabörn sem og aðrir ættingjar og vinir af fjarlægari slóðum. Þá nutu þau hin síðari ár sérstakrar umhyggju og umönnunar þeirra barna sinna, sem á Akureyri dveljast, og venslafólks þeirra. Verður sú aðstoð seint metin að verð- leikum. Þegar Oddný Sigurrós var komin yfir nírætt, fór þrek hennar að dvína og heilsu að hraka, svo að hún gat ekki lengur haldið eigið heimili. Fór hún þá á Elliheimilið í Skjaldarvík ásamt Stefáni vorið 1982. Þar leið henni, eftir atvikum vel, þótt ekki festi hún verulegt yndi á þeim stað. Skömmu eftir síðustu áramót fór hún á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og þar andaðist hún eftir skamma dvöl. Nú þegar Oddný Sigurrós er horfm okkur sjónum yfir móðuna miklu, lifir eftir minningin um hana sem einstaklega glæsilega og heilsteypta konu. Hún var sérstaklega vel af guði gerð í alla staði, dugmikil, glaðvær og bjartsýn. Aldrei lét hún bugast, þótt á móti blési, heldur varðveitti heiðríkju hugans og óbilandi sálarstyrk til hinstu stundar. Hún var alla tíð áhugasöm við vinnu og verkhög með afbrigðum. Þá var hún orðhög í besta lagi og lágu orðtök og spakmæli henni létt á tungu. Ljóðelsk var hún og kunni mikið af kvæðum, sem hún fór gjarna með. Þá las hún jafnan mikið í góðum bókum, þegar næðisstundir gáfust. Létt var henni líka um að skrifa og ritaði til dæmis fyrir nokkrum árum ágætar endur- minningar frá æskuárum, sem birtust í Tímaritinu Heima er best. Þannig lagði hún gjörfa hönd á fjölmargt og reyndist í hvívetna traustur fulltrúi þeirrar aldamótakynslóðar, sem með elju og atorku lyfti þjóðinni og færði flest til betri vegar í landi okkar. Við sem þekktum þessa merku konu minnumst hennar með sérstakri virðingu og þakklæti. Eink- um minnumst við margra ánægjulegra samfunda með henni, er hún heimsótti okkur í Skógum við fermingar og önnur tækifæri. Slíkar stundir voru okkur jafnan dýrmætar og munu jafnan í endur- minningunni sveipaðar fegurð og birtu, er lýsir leiðir um ókomin ár. Við sendum Stefáni afa innilegar samúðarkveðjur og þökkum ógleyman- leg kynni við ömmu á Akureyri. Guð blessi minningu hennar. - Systkinin frá Skógum. Þeir sem skrifa minningar- eða afmælisgreinar í íslendingaþœtti, eru vinsamlegast beðnir um að skila vélrituðum handritum 5

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.