Íslendingaþættir Tímans - 07.03.1984, Blaðsíða 8

Íslendingaþættir Tímans - 07.03.1984, Blaðsíða 8
Guðlaug Narfadóttir Ég var þá á ferð hér syðra og lenti í afmælishófi sem verkakvennafélagið Framtíðin hélt. Guðlaug bjó þá í Dalbæ en hún var boðin í afmælið sem heiðursgestur þar sem hún var einn af stofnendum félagsins og átti sæti í fyrstu stjórn þess. Enn man ég sumt úr ræðu þeirri sem Guðlaug flutti þar, og var það þó ekki löng ræða. En hún tók af kappi og þrautseigju þátt í baráttu verkakvenna í Hafnarfirði fyrir rétti sínum. Það fann ég þá strax að fyrir Guðlaugu var sú barátta fyrst og fremst um réttindi og hagsmunir voru í öðru sæti þó að þetta fylgdist að og færi saman. Baráttufélagar Guðlaugar í Hafnarfirði voru yfirleitt Alþýðuflokksmenn. Hún vissi að ég fylgdi Framsóknarflokknum, og því brá hún mér á pintal svo að hún gæti rætt flokksmál við mig. Allt hjálpast þetta að til að gera mér stundina og konuna ógleymanlega'. Og allt var þetta í samræmi við nánari kynni síðar. Næst hitti ég Guðlaugu 9. október 1947. Ég vann þá hjá Tímanum og Daníel Ágústínusson sagði mér að hitta Guðlaugu og tala við hana fyrir Tímann vegna fimmtugsafmælis hennar. Hún var þá flutt til Reykjavíkur. Pessi ferð mín leiddi til þess að ég fór að taka þátt í starfi templara í Reykjavík og að því hef ég búið síðan eftir því sem ástæður hafa leyft. Og þá er komið að þeim félagsmálaþættinum sem hæst ber í sögu Guðlaug- ar Narfadóttur þar sem bindindismálin eru. Guðlaug Narfadóttir naut trausts og virðingar samherja sinna svo sem maklegt var því að hún gekk að starfi af fullum heilindum og miklum áhuga. Hún gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og bindindishreyfinguna. Hún átti sæti í áfengisvarnaráði og áfengisvarna- nefnd kvenna og er mikil saga af starfi hennar þar, þó að ég kunni ekki að rekja, enda væri þar frá ýmsu að segja sem ekki er borið á torg. Að bindindismálum vann hún þegar hún var í Gaulverjabæjarhreppnum, stofnaði þar undir- stúku og barnastúku og var um skeið þingtemplar Árnesinga. Hún vann linnulaust að bindindismál- um allt frá bernsku er hún gekk í barnastúku í Hafnarfirði. Félagsmálasaga Guðlaugar er ekki tæmd með þessu því ógetið er kvenfélaganna. Mér er sá þáttur miður kunnuren samt nóg til að vita að þar naut hún líka trausts og virðingar. Hún fór m.a. sem fulltrúi landssambandsins á fundi héraðs- sambanda. Þessi minningarorð eru næsta fátækleg og mun svo finnast öllum þeim sem áhuga Guðlaugar og tilfinningahita þekktu. Áhuga sínum hélt hún til hins síðasta. Hjarta hennar kólnaði aldrei. Til hinstu stundar vildi hún vinna að heilbrigðri lífsstefnu, réttlæti og samvinnu. Því er okkur minning hennar dýrgripur sem við erum þakklát fyrir að hafa eignast. H.Kr. t 8 Löngum æviferli er lokið. Gagnmerk störf heyra sögunni til. Heilsteypt dugnaðarkona kveð- ur sér ekki framar hljóðs á mannfundum og hvetur til dáða. Guðlaug Narfadóttir er í val fallin á 87. aldursári. Alþingi á sérstakar þakkir skildar fyrir hvert mannval það hefur jafnan kjörið til starfa í Áfengisvarnaráði. Frú Guðlaug Narfadóttir átti sæti í því frá stofnun þess 1954 til ársloka 1971 er hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Að henni horfinni er Kjartan J. Jóhannsson læknir einn á lífi þeirra sem fyrst voru kosnir í áfengisvarnaráð. Frú Guðlaug vann vel að hverju því sem hún tók sér fyrir hendur. Hún hafði mikinn áhuga á að kvennasamtökin þekktu sinn vitjunartíma í vímu- efnamálum. Hún ferðaðist löngum um landið, flutti erindi á kvennafundum og lagði jafnan áherslu á að konur héldu vöku sinni. Frú Guðlaug Narfadóttir var hrcinskilin. Tvískinnungur var eitur í beinum hennar. Hún gerði sér þann sannleika Ijósan að víma kallar á vímu og það er engra hagur nema þeirra sem maka krókinn á eymd annarra að mæla með neyslu einnar tegund- ar vímuefna fremur en annarrar. - Af hyggjuviti sínu hélt hún fyrir löngu fram þeim hugmyndum sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur nú líkleg- ast að stemmt geti stigu við vímuefnaáþjáninni ef stjórnmálamenn fengjust til að fara eftir þeim. Og ekki hefði hún lagt sig niður við að fjargviðrast út af neyslu ólöglegra fíkniefna einna meðan áfengi kálar þrjátíu sinnum fleira fólki árlega hér á landi en öll önnur vímuefni samanlagt. Ung hreifst Guðlaug Narfadóttir af hugsjónum Góðtemplarareglunnar um bræðralag meðal al- gáðra manna. Þeim hugsjónum brást hún í engu og fyrir þær barðist hún ótrauð meðan kraftar entust. Hún kvikaði aldrei frá því sem hún vissi sannast og réttast. Hugsjónaeldar æskuáranna kulnuðu ekki í brjósti hennar. - Þess vegna dó hún ung í anda og baráttuglöð þó að árin væru mörg að baki. Áfengisvarnaráð minnist frú Guðlaugar Narfa- dóttur með virðingu og þökk. Ólafur Haukur Árnason t Guðlaug er farin yfir móðuna miklu eftir mikið og fórnfúst starf og langan starfsaldur því hún var fædd 1897 í Hafnarfirði og ólst þar upp. Guðlaug var tvígift, fyrri eiginmaður hennar var Halldór Backmann Jónsson járnsmiður og eignuðust þau tvo syni, Ólaf Backmann sem er raffræðingur og býr ásamt konu sinni, Huldu Hafliðadóttur ættaðri úr Biskupstungum, í Kali- forníu. Hinn sonurinn er Halldór Backmann vélmeistari á Akureyri kvæntur Önnu Guðmunds- dóttur ættaðri frá Reyðarfirði. Mann sinn missti Guðlaug 1921 en giftist öðru sinni 1926 síðari eiginmanni sínum, Hirti Níelssyni frá Bjarneyjum á Breiðafirði. Þau Guðlaug og Hjörtur eignuðust fimm börn: Guðjón verksmiðjustjóra á Álafossi, Magnús bifreiðastjóra, Narfa kaupmann, Ingveldi Ástu húsmóður og Sigurþór rafvirkja. Síðari mann sinn missti Guðlaug 1970. Þetta er mikil upptalning og því mikið starf húsmóðurinnar og margri konunni væri nóg að annast það sem öllu þessu fylgdi sem nú hefur verið skráð, en Guðlaug var sterk dugnaðarkona og ein af þeim sem alltaf áttu nægan tíma til alls, sem hún tók sér fyrir hendur en það var margvís- legt. Hún starfaði mikið að bindindismálum og fleiri voru félagsmálin sem hún tók þátt í og svo mörg að ég kann ekki upp að telja, en hún var þessi sérstaki persónuleiki sem gekk að hvaða starfi óskipt og virtist aldrei skorta tíma, sem við nútímamenn skiljum hæpið með allt okkar stress og tímaleysi. Ég átti því láni að fagna að kynnast Guðlaugu því ég trúlofaðist hennar ágætu dóttur, Ingveldi Ástu og eignuðumst við einn dreng, Richard Heimir, hver drukknaði á barnsaldri og var það okkur Ingveldi mikil sorg, en þar hefur tregi Guðlaugar ekki verið minni því að hún var tilfinningakona. Ég sagði það hér fyrr að ég hefði haft þeirri hamingju að fagna, að kynnast Guð- laugu, en þá var það svo eins og er oft um mætar konur og karla, að maður er of unggæðislegur og þykist vita allt betur heldur en eldra og reyndara fólk. Ég skildi ekki þá, að hún vissi meira um ofdrykkju, sem aldrei hafði sjálf drukkið áfengi, en ég sem þá var orðinn ofdrykkjumaður, þó ég gerði mér varla fulla grein fyrir því, en þetta vildi verða leiðinlegur ágreiningur hjá okkur. En svo er Guði fyrir að þakka þó að seinna yrði, að við áttum eftir að sættast að fullu á þessum misskilningi og var það fyrir tilefni sem Guðlaug átti frumkvæði að og mér entist líf til að kunna að meta hana að verðleikum. Verkalýðsmál lét hún líka til sín taka og hún var bóndakona í sveit í mörg ár, já alltaf nógan tíma, meira að segja til að létta geðið með því að setja saman vísur því að mínu mati var hún hagyrðingur góður og kjarkurinn hefur snemma sagt til sín því það hefur þurft kjark fyrir unga stúlku að ráðast í riti á móti Sigurði Nordal og var hún þá að verja íslenskar sveitakonur og fór hún af hólmi með meiri glæsibrag en hann. Eitt var það í fari Guðlaugar, að hún var mjög dulræn kona en ég ætla mér ekki að fara nánar út í það. Hér ætla ég að enda þessi fátæklegu orð mín þó svo að mikið væri meira hægt að segja um Guðlaugu, en ég mun alltaf bera þakklæti í brjósti fyrir að hafa fengið að kynnast henni. Það eru verðmæti sem ekki er hægt að mæla í peningum og ég bið Guð að blessa ættingja hennar og sendi þeim mínar samúðarkveðjur. Guð blessi okkur öllum minningu hennar og hvíli hún í friði. Ásgeir H.P. Hraundal ÍSLENDINGAÞÆTTIR

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.