Lesbók Morgunblaðsins - 14.08.2004, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 14.08.2004, Blaðsíða 11
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 14. ágúst 2004 | 11 SKÁLDSAGAN Vernon G. Little er frumraun D.B.C. Pierre og hefur reynst eitt af umdeildari bókmenntaverkum síðasta árs á Bretlandseyjum. Bókin hlaut hin virtu Booker-verðlaun í fyrra en skömmu áður en verðlaunin voru afhent flettu breskir fjölmiðlar ofan af leyndardómsfullri fortíð höfundarins (sem heitir réttu nafni Peter Finlay) og kom þar ýmislegt ókræsilegt í ljós. Finlay, sem búið hefur í Ástralíu, Mexíkó og nú síðast á Írlandi, á að baki langan feril sem svikahrappur, fjár- hættuspilari og eiturlyfjafíkill og situr hann nú víst í skuldasúpu sem verðlaunaféð mun að einhverju leyti greiða niður. Sagan af því hvernig hann hlunn- fór vin sinn með því að selja undan honum íbúð og stinga af með upphæðina hefur til dæmis gengið ljósum logum milli blaðagreina og sjónvarpsþátta sem er í sjálfu sér ekki skrítið þar sem bakgrunnur sem þessi er harla óvanalegur í bókaheimum. Lífs- stíll höfundar ætti þó ekki að skyggja á bók Pierre sem íslenskum lesendum gefst nú kostur á að njóta í þýðingu Árna Óskarssonar. Þegar lestur hefst kemur í ljós að skáldsagan þarf ekki á gauragangi höfundar á að halda til að ýfa fjaðrir og vekja eft- irtekt. Umfjöllunarefnið sjálft nægir til þess en sagan, sem gerist í smábæ nokkrum í Texas, hefst þremur dögum eftir að harmleikur á sér stað sem ber allnokkurn keim af atburðinum sem skók borg- ina Littleton í Colorado-fylki fyrir fáeinum árum. Tveir unglingspiltar komu í skólann gráir fyrir járnum og myrtu á annan tug samnemenda sinna og hefur skólinn, Columbine High, í kjölfarið orðið eins konar samnefnari fyrir atburði af þessu tagi. Hér er það besti vinur titilpersónunnar, Jesus Navarro, sem gengur berserksgang og fellir sextán samnemendur þeirra Vernons áður en hann sviptir sig lífi. Enda þótt Vernon hafi ekki tekið þátt í fjöldamorðunum beinast augu bæjarbúa að honum, grunsemdir vakna um að hann hafi verið vitorðs- maður og ekki virðist Vernon leggja eigin málstað lið þegar hann flýr til Mexíkó. Setja mætti bók þessa í samhengi við nýlega kvikmynd Gus Van Sant, Elephant, sem greinir frá aðdraganda skóla- morða sem einnig svipa til atburðanna í Littleton, en skáldsaga Pierre hefur í senn bæði grimmilegra og kaldhæðnislegra yfirbragð auk þess sem að- dragandi harmleiksins er lengst af dularfull eyða í miðju frásagnarinnar, en eftirköstin hljóta þeim mun meiri athygli. Vernon er lokaður og frekar bitur unglings- piltur, skammsýnn og sjálfhverfur, og vandræða- gangurinn sem fylgir misheppnuðum tilraunum hans til að snúa sig út úr glæparannsókninni er rauði þráðurinn í bókinni. Fleiri morð bætast við og brátt er Vernon orðinn eftirlýstasti glæpamaður landsins, frægur fyrir að hafa slegið met fjölda- morðingjans John Wayne Gacy aðeins fimmtán ára að aldri. Fjölmiðlafárið sem við tekur er einn kostu- legasti þáttur verksins. Lally, fréttamaður CNN sem hefur yfir lítilli sem engri siðferðiskennd að búa, leikur mikilvægt hlutverk í framvindunni og holdgerir miðlægasta boðskapar bókarinnar, en það er hvernig skammlausir fjölmiðlar draga al- menning á asnaeyrunum og móta veruleikann í gegnum hlutdrægan og hagsmunamiðaðan frétta- flutning. Margt er athyglisvert við bókina, kannski ekki síst sú mynd sem dregin er upp af Bandaríkjunum en segja má að bókin sé öll vörðuð ákveðinni tor- tryggni í garð bandarísks samfélags. Skólamorðin í Columbine voru að sjálfsögðu heimsfréttir en at- burðurinn birtist hér eins og höfundur sjái hann fyrir sér sem einhvern veginn táknrænan fyrir bandarískan veruleika, veruleika sem þá er ataður blóði og hverfist um fjarstæðukennd og nær óskilj- anleg ofbeldisverk. Gagnrýnisbroddurinn, eða öllu heldur skrípamyndin sem dregin er upp af litla samfélaginu í heimabæ Vernons er á stundum heldur ofstækisfull, en kannski ekki vanhugsuð og heimilisaðstæður sögumannsins unga eru stór- skondnar, dálítið eins og freudísk lexía um tilurð hins refsandi súper-egós. Helst fipast höfundi þeg- ar hann dregur hvatann að ofbeldisverknaðnum í skólanum saman í snyrtilegan pakka. Orsakakeðj- an er þar ósennileg vegna þess að hún útskýrir of mikið, engin vafaatriði eru skilin eftir, ólíkt því sem hlýtur að vera þegar harmleikur af þessu tagi á sér stað. Hins vegar er heilmikill kraftur í allri sögunni, Vernon er forvitnilegur sögumaður þótt óskaplega nærsýnn sé, og blótsyrða- og slangurflaumurinn sem einkennir málfar hans er ein af ástæðunum fyrir því að sagan hefur yfir sér ákveðinn veru- leikablæ og virðist að mörgu leyti trúverðug innsýn í hugarheim misskilins unglingspilts, og á þar þýð- andi hrós skilið. En þetta er með öðrum orðum óvenjuleg skáldsaga, áhrifarík og skemmtileg og bregður upp dálítið gróteskri spegilmynd af sam- tíma okkar sem maður hálfpartinn óttast að sé samt ekki svo fjarri sanni. Eftirlýstur fjöldamorðingi BÆKUR Skáldsaga eftir D.B.C. Pierre skáldsaga Árni Óskarsson íslenskaði. Bjartur. Reykjavík. 2004. 329 bls. VERNON G. LITTLE (Vernon God Little) Reuters Vinningshafi Booker-verðlauna síðasta árs, D.B.C. Pierre stillir sér hér upp með bókina Vernon G. Little, sem jafnframt er frumraun hans sem rithöfundar. Björn Þór Vilhjálmsson Bók Nic Kelman Girls, eða Stelp-ur eins og heiti hennar gæti út- lagst á íslensku, nær að vera djörf og kjarklaus á sama tíma að mati gagnrýnanda Daily Telegraph. Bókin hefur þegar vakið umtalsverða athygli vest- anhafs, en Kelm- an fjallar í þessari fyrstu skáldsögu sinni í smáat- riðum um losta eldri manna til táningsstúlkna. Þannig draga slælegir akademískir skýringakaflar inn á milli frásagna bókina nokkuð niður, að mati blaðs- ins, sem segir lýsingar Kelmans annars virka svo raunsannar að flestir karlmenn í hópi lesenda geti ekki annað en kannast við sig. Kven- fólk í hópi lesenda eigi hins vegar efalítið eftir að finna til þunglyndis og jafnvel reiði við lesninguna, sem reynist hins vegar lesendahópnum í heild sinni aldrei leiðinleg. Guardian segir Girls líka fulla af hugmyndum sem bjóða samtímaþjóðfélaginu birginn fyrir að hafa kynþokkafullar ímyndir táningsstúlkna í hávegum.    Viðfangsefni nýjustu skáldsöguNicholson Baker, Checkpoint, er að þessu sinni áætlun um að myrða forseta Bandaríkjanna. Efni- viðurinn hér hrópar á athygli líkt og fyrri verk Baker, en að mati gagn- rýnanda New York Times nær leit höfundarins að athygli nýjum hæð- um í Checkpoint. Þannig segir blaðið áhuga Bakers á þessu viðfangsefni sínu virðast of sannfærandi, auk þess sem sagan nálgist raunveruleikann óþægilega mikið. Checkpoint er sett upp sem afrit af samræðum tveggja manna á hótelherbergi í Washington í maí á þessu ári. Þar hefur Jay, óhamingjusamur maður sem finnst hann hafa fátt að lifa fyrir, kallað á Ben, vin sinn, til að útskýra fyrir honum framkvæmdina sem hann ætlar að ráðast í og er að eigin áliti mannkyninu öllu til góða. Bókin rek- ur svo samræður þeirra tveggja þar sem Ben reynir að fá vin sinn ofan af þessari brjálæðislegu áætlun.    Nýjsta bók Janet Morgan kannað virka reyfarakennd á les- andann, en þar segir frá mynd- arlegum ungum hefðarmanni, njósnaforingj- anum Bruce, sem kemur á fót njósnaneti í París. Ritarinn sem hann ræður er falleg, ung hefð- arkona og í stríðs- lok nær ástin yf- irhöndinni og þau giftast. The Secrets of Rue St. Roch: Intelligence Operations Behind Enemy Lines in the First World War er engu að síður sönn saga sem segir frá því hvernig húsmóðir sem elskar súkkulaði, sérvitur Belgi og breskur liðsforingi áttu sinn þátt í sigri bandamanna í heimsstyrjöld- inni fyrri. Að sögn gagnrýnanda Guardian er bókin líka áhugaverð lesning og ekki aðeins fyrir þá sem hafa áhuga á hernaðarsögu, heldur býr hún einnig yfir skemmtilegum lýsingum á óvenjulegum hliðum stríðsins.    Einstein og Freud eru viðfangs-efni nýjustu bókar Richard Panek The Invisible Century, eða Ósýnilega öldin. Bókin er að mati gagnrýnanda New York Times bæði heillandi og ergileg um leið, hún tek- ur á afstæðiskenningum Einsteins sem og árunum er Freud lagði grunninn að sálgreiningum. Panek afgreiðir efnið um margt vel, ekki síst í hugmyndum höfundarins um ósýnileika. Bendir Panek þannig á að Einstein og Freud hafi ekki gjör- breytt menningarsögu með því að túlka sönnunargögn líkt og vís- indamenn eiga að gera, þess í stað hafi þeir varla litið á þau og sett fram eigin með huglægum tilraunum og athugunum á eigin hugarstarfsemi. Nic Kelman Erlendar bækur Janet Morgan Á UPPVAXTARÁRUM þeirra Sveins, Péturs og Bjarna Benedikts- sona á fyrri hluta síðustu aldar spurði Guðmundur Finnbogason föð- ur þeirra eitt sinn: „Hvernig er það, Benedikt, lesa synir þínir ekki mikið orðabækur?“ Það býr margt í þessari spurningu en það sem blasir við flest- um, fyrir utan hið kynbundna sjón- arhorn sem gleymir systrunum og við hnjótum að sjálfsögðu um á vor- um dögum, er að það er ekki út- breidd iðja að liggja í lestri orðabóka. Flestum lesendum hentar fremur að styðjast við þær sem uppflettirit. Allt aðra sögu er að segja um þær orða- og uppflettibækur sem Sölvi Sveins- son hefur sent frá sér. Frábærlega skemmtilegar handbækur hans um málshætti og orðtök eru einmitt til þess fallnar að börn og unglingar, ekki síður en fullorðið fólk, geti sökkt sér niður í lestur þeirra og haft mikla skemmtun af. Sama má segja um þá nýju bók sem Sölvi hefur nú saman setta. Fyrirmyndina sækir hann til alþýðlegra danskra og sænskra rita og lesendur Morgunblaðsins kannast við sumt af því sem hér er komið á bók úr greinum sem Sölvi hefur ritað í Lesbók blaðsins. Sölvi skrifar stuttar ritgerðir um einstök orð sem hann hefur valið með tilliti til skemmtigildis. Og er sá mælikvarði helsta ástæða þess hvað bókin er læsileg. Hér er ekki farið breitt yfir hið fræðilega svið og reynt að gera grein fyrir þróun indóevr- ópskra mála frá öndverðu, eða taka skipuleg dæmi frá ólíkum menning- arskeiðum tungunnar til að sýna þá sögu sem orðaforðinn geymir. Orð eins og ‘túlkur’, ‘torg’ og ‘fíll’ rata til dæmis ekki inn hjá Sölva, en þau eru oft höfð til marks um forn tengsl nor- rænna mála við slavneskar tungur og arabísku á dögum víkinga. Í staðinn er lögð mikil áhersla á nýyrði ým- iskonar, slangur og orð sem hafa ekki notið sérstakrar virðingar í rituðu máli en eru þó á hvers manns vörum. Farin er sú leið að gera grein fyrir merkingu orðanna og rekja síðan hvernig skyld orð eru í nágranna- málum okkar um leið og merking einstakra orðhluta er rakin og hvern- ig þeir birtast á víð og dreif í indóevr- ópskum málum. Þannig er dregin upp hin flókna og áhugaverða mynd af merkingarvef tungumálanna sem ætti að duga flestum til að hafa mikla ánægju af lestrinum – eins og Sölvi sjálfur hefur augljóslega haft af skrifunum. Hann er hressilegur í framsetn- ingu, skýtur inn persónulegum at- hugasemdum og er greinilegt að hann sækir í drjúgan reynslusjóð af því að miðla þessum fræðum í kennslu sinni. Það er svo verkefni fræðanna að kafa dýpra ofan í merk- inguna í einstökum atriðum. Af fornmálum tekur Sölvi oft dæmi af grísku og latínu og gætu hrekklausir lesendur stundum freist- ast til að halda að þau orð sem fjallað er um væru ættuð þaðan. Stundum er það að vísu raunin en þeir sem vita ekki betur hefðu mátt fá meiri stuðn- ing við þá meginhugsun að þessi fornmál sýna oft birtingarmynd orða sem eiga sér sameiginlegar rætur með okkar íslensku orðstofnum langt aftur í indóevrópskri fortíð. Enda þótt þetta blasi við í málvísindum hefur það stundum viljað brenna við í öðrum fræðum að menn hafa haldið að uppruna sagna og hugmynda mætti rekja eftir þessari leið, frá grísku til latínu og síðan íslensku, vegna þess að margt af hinum sam- eiginlega indóevrópska hugmynda- og sagnaarfi var fyrst skráð á grísku og latínu. Og gá þá ekki að því að hin varðveittu rit birta okkur aðeins sýn- ishorn af þeim fjölbreytta menning- ararfi sem mannkynið hefur varð- veitt í minni sínu, siðum og venjum. Sá arfur hefur síðan ratað á bækur á ólíkum tímum í ólíkum löndum og reynist þá oft vera furðu líkur því sem hefur verið skráð löngu áður allt annars staðar án þess að rit- unarsagan skipti nokkru máli við að skýra líkindin. Á dögum zetudeilunnar miklu, þegar landsmenn skipuðust í póli- tískar fylkingar með og á móti því að rita zetu í íslensku (til viðbótar við fylkingar með og á móti bjór, hunda- haldi og her í landi – allt mál sem hafa fengið eða eru að fá farsælan endi), var það ein helsta röksemd zetumanna að sá bókstafur væri sér- lega vel til þess fallinn að halda vak- andi áhuga og þekkingu manna á uppruna orðanna. Til þess að læra að skrifa zetu á réttum stöðum þyrftu börn að vita hvernig orðin væru mynduð. Andstæðingum zetunnar veittist auðvelt að sýna fram á ósamræmi í tungumálinu að þessu leyti og and- legur leiðtogi þjóðarinnar, Halldór Laxness, hæddist að þessum mál- flutningi. Benti á að orðsifjafræði væri háskólafag fyrir málfræðinga og að ekki þyrfti að leggja drjúgan hluta af íslenskukennslu ungra barna undir stafsetningaræfingar sem byggðu á þeirri fræðigrein. Nú hefur Sölvi Sveinsson fyllt ágætlega upp í það tómarúm sem zetan skildi eftir á þessu sviði. Hin nýja bók hans vekur lifandi áhuga á tungumálinu og þeim merkingarblæbrigðum sem hafa velkst um á tungum í þjóðanna kyn- lega blandi. Og hentar mun betur til þess en zetan. Saga orðanna er skrif- uð af íþrótt og augljósri færni við að miðla flókinni þekkingu og fræðum til nýrra lesenda um leið og hún er hreinasti yndislestur fyrir alla áhugamenn um tungumál. Lesvæn orðabók BÆKUR Málfræði Höfundur Sölvi Sveinsson. Iðunn 2004. SAGA ORÐANNA Gísli Sigurðsson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.