Lesbók Morgunblaðsins - 11.09.2004, Qupperneq 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. september 2004 | 3
Þ
egar bækurnar Faðir og móðir og
dulmagn bernskunnar og Eins
og steinn sem hafið fágar birtust
1997 og 1998 lokaðist viss hring-
ur. Ekki aðeins á lífsferli Guð-
bergs Bergssonar, en fyrri bókin
hefst svo: „Ég er ekki staddur í herbergi móður
minnar [...] Aftur á móti er ég kominn aftur í
húsið sem var áður hús foreldra minna“ – held-
ur hefur þorpið sjálft einnig snúið aftur, sjáv-
arbyggðin er lesendur kynntust fyrst í Músinni
sem læðist (1961) og var meginsögusvið Tanga-
sagnanna svokölluðu sem birtust
fyrir um 30 árum.
Hvað er á seyði hér? Finnur
þessi sjóaði skelmir skjól í
bernsku sinni eða skyldi hér fremur mega
greina nýjan sjónarhól? Finnur heimsborg-
arinn hér staðfestu á tímum hnattvæðingar? Er
þetta í senn hans Gunnarshólmi og Hlíðarendi,
þar sem hann vill una ævi sinnar daga og undr-
ast jafnframt enn á köldum söndum, eins og
skáldið forðum, að hægt sé að sigra ólma ógna-
bylgju?
Ég er ekki frá því að íslenskir lesendur hafi
margir talið þetta endurnýjaða þorp hugljúfara
en þann Tanga sem Guðbergur skapaði fyrir
alllöngu, allt eins þótt enn velti kringlóttar
vambir um sögusvið. Kannski fylgdu áður
drungalegir kviðverkir þeirri sterku kennd að
Tangi væri Ísland; hann var mynd af íslenskri
veröld, íslensku lífi. En lesanda léttir nú að sjá
að þessi veröld er þarna enn, í verkum sem höf-
undur kallar „skáldævisögu“. Með þessu ný-
yrði, þessu nýja hugtaki, skilgreindi Guðbergur
skáldlega afstöðu til þess að draga ævina saman
í texta, í lífssögulega merkingarheild sem æv-
inlega er tilbúningur, þótt æviatriðin kunni að
vera „rétt“. Eins og Gunnþórunn Guðmunds-
dóttir ræddi í grein í Lesbók Morgunblaðsins 7.
ágúst sl. hefur undanfarið borið mikið á íslensk-
um verkum sem beinlínis vinna á þessum mörk-
um ævisögu og skáldlegrar textagerðar. Um
mörk ævi og listar í þessum sem og öðrum
verkum Guðbergs hefur Birna Bjarnadóttir
einnig fjallað í doktorsritgerð sinni Holdið hem-
ur andann (2003).
En skáldævisaga Guðbergs kann einnig að
vera tímanna tákn að því leyti sem í íslenskum
bókmenntum hefur um skeið farið fram allmikil
leit að Íslandi. Það er því ekki aðeins að aukin
áhersla á samgrip textans og hinnar ein-
staklingsbundnu vitundar (sjálfsins) setji mark
sitt á mörg verk, heldur ekki síður áleitnar
spurningar um tengsl sjálfsins og staðarins sem
er sögusvið þess. Þann stein sem hafið fágar má
lesa sem sögusjálf Guðbergs og jafnóðum þó
sem heimaklett hans, og gæti sá steinn verið í
senn þorpið hans og eyjan í úthafinu. Það er svo
lesandans að meta hversu mikil kaldhæðni
leynist í slíkri mynd af grjóti sem vegna stöð-
ugrar ágjafar verður ávalt og rennilegt; er það
ef til vill að umbreytast í djásn? – Í huganum
hljóma aftur orð Jónasar um Gunnarshólma,
„skrauti prýddan“, þótt undirleikurinn komi
sem úr öðrum heimi.
Freistandi er að velta því fyrir sér hvort hin
afmarkaða landfræðilega staða Íslands, og sú
sérstaða og þó jafnframt samfella í máli og sögu
sem oft er talin móta íslenska menningu, end-
urspeglist í sköpulagi bókmenntaverka í meira
mæli en raunin er í stærri samfélögunum. Þetta
þarf ekki að þýða að í sérhverri íslenskri skáld-
sögu megi til dæmis finna útlínur eyjar (þótt
þetta sé oft raunin) heldur að í sköpunar-
mynstri, einkum frásögnum, bókmenntaverka
megi bera kennsl á vissa grunnþætti í sjálfs-
mynd eða sjálfskilningi Íslendinga, þætti sem
eru nátengdir staðarvitund. Þetta geta að vísu
verið varasamar slóðir í bókmenntatúlkun, því
tilhneigingin til að lesa verk sem dæmisögur
eða allegóríur getur leitt til blindu. Þannig hef-
ur atriðið í Njálu þegar Gunnar snýr aftur oft
verið lesið á þjóðernislegum nótum: Hlíðarendi
verður Ísland. En jafnvel þeir sem vísa slíkum
lestri á bug gætu átt erfitt með að neita því að
Gunnarshólmi Jónasar sé Ísland, enda tengir
skáldið sjálft hinn lága hólma við „hnípna þjóð“.
Túlkun á sumum helstu skáldsögum Halldórs
Laxness hefur oftar en ekki byggst á því að
sögusvið þeirra séu þjóðfélagið í hnotskurn. Og
öll þau bókmenntaverk á 20. öld sem fjalla um
það hvernig persónur rífa sig upp úr sveita-
samfélaginu og flytjast í þéttbýli endurspegla
vissulega þá „þjóðflutninga“ sem áttu sér stað í
raun. Frá hreinrökrænum sjónarhóli mætti
jafnvel segja að slík verk séu allegóríur um það
hvernig sögusvið íslenskrar menningar, og þar
með bókmenntanna, flyst úr sveit í borg.
En þar komum við aftur að takmörkunum
allegóríunnar að því leyti sem hún er talin línu-
leg dæmisaga. Sögusvið og skynheimar bók-
menntanna myndast síður en svo eingöngu sem
rökrænar afleiðingar samfélagslegrar búsetu
heldur verða þeir til sem heimsmynd í flóknu
samspili margra þátta. Staðarvitund tengist
þar tilfinningu fyrir tengslum fortíðar og sam-
tíðar og mótast einnig af hugmyndum um þjóð-
erni, náttúru (þar á meðal náttúru borg-
arinnar), tækni og aðra nútímavæðingu, sem og
um tengsl heimabyggðar við fjærliggjandi um-
hverfi. Síðast en ekki síst litast hún af öllum
þeim arfi frásagna, texta, tóna og mynda sem
berast frá fyrri kynslóðum.
Íslensk sögusvið
Sögusviðum á Íslandi má í einfölduðu yfirliti
skipta í fernt: sveit, óbyggð náttúra, þorp (og
kaupstaðir) og borg. Ef til vill er ástæða til að
telja hafið sérstakt sögusvið og jafnframt er
það ein af ferðaleiðunum milli staða. En frum-
samdar bókmenntir eru ekki einbundnar Ís-
landi, þær fjalla einnig um ferðir milli Íslands
og annarra landa og hafa gert svo frá öndverðu,
sem og um mannlíf á erlendri grund. Þar mæta
þær gríðarstórum flokki bókmennta sem „ger-
ist“ allajafna í senn á erlendri grund og í ís-
lensku máli, þ.e.a.s. þýðingum.
Öldum saman, allt fram á síðustu öld, var
sveitasamfélagið ráðandi sögusvið í frum-
sömdum íslenskum bókmenntum. En þótt
Reykjavík væri um miðja 20. öld orðinn efna-
hagslegur og lýðfræðilegur segull, viss mið-
punktur, borg að verða til, þá varð hún ekki um-
svifalaust hin nýja viðmiðun íslenskrar
heimsmyndar. Bókmenntirnar stökkva ekki inn
í alskapaða borg; í mörgum nýstárlegustu verk-
um þriðja aldarfjórðungsins er hún einmitt
frekar „borg að verða til“. Hjónin í Leigjand-
anum (1969) eftir Svövu Jakobsdóttur leigja
íbúð, en ekki reynist það tryggur dvalarstaður
né heldur húsið sem þau ljúka við að byggja og
þótt konan leggi þar hönd að vegg og finnist
blóð sitt renna um húsið, þá er hún í heimilisleit
söguna á enda. Tónskáldinu í Farðu burt
skuggi (1971) eftir Steinar Sigurjónsson tekst
að leigja sér íbúð en kemst aldrei þar inn með
hljóðfæri sitt og heldur áfram að ráfa heim-
ilislaus um borgina. Tómas í Tómasi Jónssyni
metsölubók (1966) eftir Guðberg Bergsson
minnist þess hvernig hann tvísté „um nakin
hurðalaus herbergin“ í nýsteyptri kjallaraíbúð
sinni; „snerti húsið og dreg fingurna niður
vegginn hrjúfan og þægilegan undir fing-
urgómunum á hendi minni sem gránar af sem-
entsdufti. Og ég prenta fingraför mín á rúð-
urnar með þessu gráa dufti“ (bls. 159).
En þótt þannig sé á táknrænan hátt reynt að
festa sjálfsmyndina á hina nýreistu borg, verð-
ur hún ekki umsvifalaust sá staður þar sem vit-
undin býr. Thor Vilhjálmsson sneiddi að mestu
hjá Reykjavík í verkum sínum á þessum árum
(sem og reyndar fyrr og síðar) og hélt á vit
borgarlífs á meginlandi Evrópu; hann setti les-
endur sína í svo magnað sjónrænt samband við
þann vettvang að myndirnar í hinu nýja svart-
hvíta sjónvarpi voru sem skuggaflökt í þeim
samanburði. Steinar og Guðbergur dvöldu
heldur ekki mikið við Reykjavík á þessum ár-
um, því hið íslenska sjávarþorp virtist fyrir
þeim fremur vera staður þar sem klófesta
mætti íslenska heimsmynd. Og þorpið hefur æ
síðan verið áleitið sögusvið íslenskra höfunda,
eins konar „vinnustofa“ þar sem leitað er að
samastað íslenskrar menningar. Titillinn á
einni þessara þorpssagna, Átt þú heima hér?
(1978) eftir Úlfar Þormóðsson, segir margt um
þessa leitandi sviðsetningu, sem rekja má allt
til þessa dags og takmarkast ekki við bók-
menntirnar, eins og staðfestist í einni áleitnustu
íslensku kvikmyndinni sem gerð hefur verið,
Nóa albínóa (2002).
En eftir að hin íslenska vitund – að því marki
sem við getum notað það orðalag um leiðandi
heimsmynd – flosnaði upp úr sveitinni virðist
hún þó ekki hafa tekið sér fasta bólfestu í þorp-
unum, enda margt þar með verbúðarbrag, þótt
„allir þekki alla“ eins og sagt er. Skáldin eru á
ferð og flugi í leit að staðfestu og finna hana
kannski bara í andhverfunni, staðleysunni,
ekki-staðnum þar sem aðeins er staldrað við.
„Staðarskáli er Ísland“ segir Þórarinn Eldjárn
í samnefndu ljóði, „einhver þétting / í andrúms-
lofti veldur þeirri staðreynd“ (Ort, 1991, s. 29).
Þetta er ekki fráleit lýsing á stað þar sem vit-
undin býr og hið sama á við um fleiri línur í ljóð-
inu: „Í skurðpunkti þessum skerast allar línur /
og skýrt er þar í einni sjónhendingu / hvernig
okkar lífi í þessu landi / er lifað og í raun og
sanni varið.“ Að vísu mætti ætla að hér sé
hreinræktuð kaldhæðni á ferðinni, og endur-
ómur frá áðurnefndu ljóði Jónasar Hallgríms-
sonar virðist í fyrstu staðfesta það: „Hér vil ég
una ævi minnar daga / innst í skoti bíða veiting-
anna / átekta og halla mímishöfði / hógvær und-
ir flatt og nema allt þetta.“ Þegar nánar er að
gáð er þessi magnaði ljóðmælandi tvöfaldur í
roðinu; hann er hinn íslenski ferðamaður og
neytandi, en hann er líka skáldið sem nemur og
man og kortleggur. Nokkrum árum síðar er
hins vegar Jónas þarna á ferð, Þorbjarnarson
þó, og fjallar í ljóðinu „Sjálfsmynd“ um ferðir
sínar norður og suður sem hafa staðið árum
saman, þannig að ferðaslóðirnar verða sem
andlit hans, „förin dýpka“; „förin suður, norður
/af nefinu, Staðarskáli miðjan / í sjálfsmynd-
inni“ (Hliðargötur, 2001, s. 47).
Ísland – sækjum það heim
Hvað er að gerast – hefur Staðarskáli tekið við
af Þingvöllum sem hjarta landsins? Jú, í vissum
skilningi er því svo farið. Þjóðin er á ferð og
flugi og áningarstaðurinn er eins konar „þétt-
ing“ þess millibilsástands; miðja sem er tóm en
líka viss rannsóknastaður sjálfsmyndar og
heimsmyndar. Og þetta er ástand íslenskra
samtímabókmennta og í það ástand sækja þær
mikið af lífskrafti sínum og honum er jafnframt
varið, eins og áður sagði, í leitina að Íslandi.
Hvaða líf getum við kallað íslenskt í samtíma
heimsins? Hvar á íslensk menning heima? Þessi
leit endurspeglast í ýmsum bókartitlum, ekki
aðeins í Leitinni að landinu fagra (1985) eftir
Guðberg Bergsson, heldur líka í Gulleyjunni
(1985) eftir Einar Kárason, Íslenska draumn-
um (1991) og Íslandsförinni (1996) eftir Guð-
mund Andra Thorsson; í Góðir Íslendingar
(1998) eftir Huldar Breiðfjörð, þar sem segir af
vetrarferð höfundar um hið „framandi land“ ut-
an Reykjavíkur; í Myndinni af heiminum (2000)
eftir Pétur Gunnarsson, þar sem komið er að
landinu frá víðu sjónarhorni heimssögunnar og
þá man maður líka eftir ljóðabókinni Hnattflug
(2000) eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur.
Nú kunna sumir að segja að ný miðja lands-
ins hafi verið „fundin“ í öðrum bókum frá síð-
ustu árum, bókum sem taki fyrst og fremst mið
af samtímanum, og þetta megi sjá glöggt í
skáldsögunni Dís (2000) eftir Birnu Önnu
Björnsdóttur, Oddnýju Sturludóttur og Silju
Hauksdóttur. Í þeirri sögu er miðpunktur Ís-
lands 101 Reykjavík, eins og Hallgrímur Helga-
son hafði áður lagt áherslu á með titli sam-
nefndrar bókar (1996). Ef við hugum að
samspili heimsmyndar og sjálfsmyndar, þá
vaknar sú spurning hvort Íslandssagan sé hér
ef til vill að hefjast að nýju, því söguhetja Hall-
gríms, Hlynur Björn, er um margt eins og núll-
ið í „101“. Ennþá áleitnari mynd af slíkum
„frummanni“ fáum við þó í skáldsögum Braga
Ólafssonar, Hvíldardagar (1999) og Gæludýr-
unum (2001), þar sem söguhetjurnar eru sem
streinrunnar í hundraðogeinum og í síð-
arnefndu sögunni er sögumaður eiginlega kvik-
settur undir eigin rúmi.
Jafnvel sú persóna mótast þó einnig af kynn-
um sínum af öðrum borgum og þótt Bragi dragi
sögu sína saman í vissan kyrrpunkt (miðju
sjálfsmyndarinnar?), sýnir hann jafnframt
hvernig hin íslenska borg er menningarlega
samvaxin öðrum borgum, en þetta útfærir
Ragna Sigurðardóttir á táknrænan og fant-
asíukenndan hátt í skáldsögu sinni Borg (1993).
Margir íslenskir höfundar hafa á liðnum árum
sýnt hvernig staðfesting íslenskrar heims-
myndar „truflast“ af tengslum við útlönd; hér
mætti nefna, auk Thors Vilhjálmssonar, þau
Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, Rúnar Helga Vign-
isson, Sigurð Pálsson, Ólaf Jóhann Ólafsson og
nýlegar sögur Vigdísar Grímsdóttur; það er
semsé talsvert af „aðfluttu landslagi“ í íslensk-
um bókmenntum, svo ég noti mér ljóðabók-
arheiti Sveins Yngva Egilssonar (1983).
Stundum leitar raunar á mann sú hugsun að
Reykvíkingar beri margir skýrara skynbragð á
tengsl borgarinnar við „útlönd“ heldur en
tengslin við heiminn „úti á landi“. En hin síð-
arnefndu tengsl eru þó engan veginn horfin úr
bókmenntunum; öðru nær. Íslendingar búa
ekki aðeins í borg, heldur líka „undir eldfjalli“
eins og Svava Jakobsdóttir kemur snilldarlega
til skila í titilsögu bókar sinnar Undir eldfjalli
(1989) og fleiri höfundar hafa í verkum sínum
dregið fram að íslensk heimsmynd sé samsett
fyrirbæri, þar sem borgin er vissulega viðmið-
unarpunktur, en „hjartastaðurinn“ kann að
vera annars staðar, svo vísað sé til samnefndrar
skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur (1995),
og það liggja ýmsir þræðir til þorpa, sveita,
óbyggðrar náttúru, sem og inn í ævintýraheima
sem ekki verða mældir af vegagerðar- og virkj-
unarmönnum. Í höfundarverki sínu hefur Gyrð-
ir Elíasson tengt alla þessa heima saman í vef
sem er samtímalegur og ber þó oft með sér
keim af liðinni tíð.
Þessi síðustu orð minna á einn þátt íslenskra
bókmennta sem ekki verður litið fram hjá þeg-
ar maður athugar heimsmynd samtíma-
bókmennta út frá sögusviðum og staðarvitund.
Fyrir aldarfjórðungi eða svo hafa vafalaust
margir talið að liðin væri sú tíð þegar sögulegar
skáldsögur gátu talist í fararbroddi bókmennta-
sköpunar. Nú mætti hins vegar ætla að öldin sé
önnur; hver höfundurinn af öðrum skrifar sögu-
legar skáldsögur og spannar viðfangsefni
þeirra allt frá forsögulegri tíð til tiltölulega ný-
liðins tíma. Búa þessar sögulegu skáldsögur yf-
ir sýn á líðandi stund? Hvar staðsetja þær sig í
samtímanum? Þetta eru stórar spurningar sem
hljóta að leita á bókmenntagagnrýnendur. Í bili
verður látið nægja að segja að slík verk minna
okkur á að við leitum ekki aðeins að stöðum, til
dæmis Íslandi, í rými, heldur líka í tíma; við leit-
umst við að staðsetja okkur í sögunni.
Samastaður í sögunni
Endurspeglast hin afmarkaða landfræðilega
staða Íslands, og sú sérstaða og þó jafnframt
samfella í máli og sögu sem oft er talin móta
íslenska menningu, í sköpulagi bókmennta-
verka í meira mæli en raunin er í stærri sam-
félögunum? Hér er athugað hvort greina
megi vissa grunnþætti í sjálfsmynd eða sjálfs-
skilningi Íslendinga í bókmenntum samtím-
ans, þætti sem eru nátengdir staðarvitund.
Morgunblaðið/Magnús Gíslason
„Staðarskáli er Ísland“ segir Þórarinn Eldjárn í samnefndu ljóði, „einhver þétting / í andrúmslofti veldur þeirri staðreynd.“
Eftir Ástráð
Eysteinsson
astra@hi.is
Nokkrar
glæfralegar
athuganir
Höfundur er prófessor í almennri
bókmenntafræði við Háskóla Íslands.