Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 16.10.2004, Qupperneq 10

Lesbók Morgunblaðsins - 16.10.2004, Qupperneq 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 16. október 2004 H ann kom að slysi á Suður- landsveginum og stöðvaði sendiferðabílinn sinn. Lög- reglan hafði lagt þversum yfir veginn. Hann hélt fyrst að flutningabifreið hefði misst haug af járnarusli af pallinum en þegar hann gekk nær sá hann að svo var ekki. Hann kom auga á mannshöfuð sem stóð út úr rusla- bingnum. Höfuðið hvíldi á götunni. Það sem honum hafði sýnst vera járnahrúga var jeppi á hvolfi sem hafði ekið framan á vörubíl. Lög- regluþjónn kom til móts við hann og stuggaði honum burt. – Hvenær er líklegt að ég kom- ist yfir brúna? spurði Jakob með augun á mannshöfðinu. – Það verður ekki nærri strax. Við erum að bíða eftir krana og bíl með klippur. Fólki er bent á að fara um Heiðmörkina. Jakob leit um öxl. Bílar voru byrjaðir að safnast í lest fyrir aftan sendiferðabílinn. Hann ók aftur í áttina til Reykjavíkur. Það tíndist jafnt og þétt í bílalestina. Hann dró niður framrúðuna vegna þess að honum var ómótt eftir að hafa horft á mannshöfuðið en þó var hann strax byrjaður, án þess að hafa fyllilega hemil á hugsunum sínum, að setja höfuðið í mynd. Hann heyrði í lögreglubíl. Þeir komu tveir á móti honum og í þann mund sem hann beygði út af veginum við Rauðhóla þutu tveir sjúkrabílar hjá með miklum hávaða. Á leiðinni gegnum Heið- mörkina mætti hann töluverðri umferð og kom aftur út á Suðurlandsveginn ekki langt frá Hólmsárbrú þar sem slysið hafði orðið. Við sinn hvorn brúarendann voru lögreglu- bílar með blikkandi ljósum. Það sást til krana sem kom frá bænum. Líklega stóð til að lyfta bílhræinu ofan af manninum. Hann hlaut að vera löngu dauður. Þetta hefði verið mótíf fyrir Francis Bacon, þann meistara afbak- aðra andlita, hugsaði Jakob. Jakob var listmálari. Og hann hafði verið á leiðinni til Heklu til þess að mála fjallið. Hann ætlaði að halda sýningu eftir mánuð og hafði hugsað sér að sanna sig í eitt skipti fyr- ir öll. Það hafði ríkt tómlæti í kringum list hans og hann ekki fengið þá viðurkenningu sem honum þótti sér bera. – It’s the asshole story of the human race, hafði amerískur málari sagt þegar þeir drukku saman á hóteli í Berlín nótt eina all- mörgum árum áður og minnugur þeirra orða hafði Jakob reynt lengi að láta biturðina ekki ná tökum á sér. Nú sá hann allt í einu fyrir sér einn list- gagnrýnandann ganga inn í galleríið þar sem sýningin átti að vera. Hann stóð útskeifur á glansandi parketinu og Jakob þurfti ekki annað en horfa í augu hans eitt andartak til þess að vita að dómurinn yrði vondur, aftaka slæmur. Hann gat séð fyrirsögnina fyrir sér: Jakob Hafsteinsson verður að gjöra svo vel að hafa endaskipti á list sinni ef hann ætlar sér annað og meira en að verða þriðja flokks Kjarval. Þessir fábjánar halda að nýja málverkið, eða það eitt að fara upp á Esjuna og dúka þar borð og éta kjúkling, þeir halda að það sé málaralist, sagði Jakob við sjálfan sig. Svo láta þeir taka af sér ljósmynd og skíra hana: Hænsnfugl étinn til fjalla. Hvað hefði Ensor sagt? Eða þá van Gogh? Nei, mestu íslensku málararnir voru Jón Stefánsson, Ásgrímur og Kjarval. Og það var til þess upphafs sem íslenska málverkið varð að leita á nýjan leik. Kjarval, aldrei ætlaði hann að geta losað sig undan ofurvaldi hans. Hann hafði í eitt skipti hitt sjálfan meistarann. Jakob var þá ungur maður í Myndlistar- skólanum og á leið upp Laugaveginn. Skyndi- lega snaraðist Kjarval út úr leigubíl. Hann hélt á sviðakjamma og var að sneiða upp í sig með vasahníf. Um leið og hann kom auga á Jakob, sagði hann: Viltu bita, góði? Já, takk, sagði Jakob og fékk væna flís og stakk henni upp í sig. Hann ætlaði að skiptast á nokkrum orðum við meistarann en Kjarval var kominn inn í verslun Kristjáns Siggeirssonar áður en hann gat kyngt eða stunið upp orði. Engrar manneskju hafði hann litið jafn mikið upp til og Jóhannesar Kjarval. Alltaf síðar meir þegar honum varð hugsað til þessa fundar dauðskammaðist hann sín fyrir að hafa kiknað í hnjáliðunum. Hann var þá á öðru ári í Myndlistarskólanum og það eina sem háði honum var að vera ekki Jóhannes Kjarval. Honum þótti sem öll önnur málverk en málverk Kjarvals væru skökk. Með þessu var honum grimmilega strítt jafnt af kenn- urum sem öðrum nemendum. Hann var kall- aður Kobbi Kjarval og eftir að hann hélt sína fyrstu einkasýningu höfðu þessi orð loðað við hann; Hann! Hann stælir nú bara Kjarval! „Ég hélt ég væri að villast,“ hafði einn gagnrýnandi sagt í dómi um næstu sýningu. Ég hélt ég væri á sýningu hjá Jóhannesi Kjarval þar til ég minntist þess að meistari Kjarval er látinn fyrir þremur árum. Nú! hafði Jakob sagt við sjálfan sig þegar hann las dóminn. Duga myndirnar mínar til þess að vera handverk sjálfs meistarans! Við drykkju með nokkrum félögum úr málara- stétt hafði hann hampað þessari meinloku í umsögninni en hætti því fljótlega því það var bara hlegið að honum. Hann fór hjá Litlu kaffistofunni. Aldrei gat hann málað annað en sýn annars manns. Hann hélt áfram að ergja sig með því að láta hugann reika um feril sinn. Sérstæður einfari í íslenskri samtímalist hafði ein umsögnin orðað það. Og í sömu opnu var mynd af fólki á samkomu í Nýlista- safninu sem beið eftir því að suða kæmi upp á hraðsuðukatli. Og þegar vatnið sauð og ketill- inn slökkti á sér var hámarki hinnar skapandi stundar náð. Jakob komst í gott skap við að hugsa um þetta og teygði sig í hanskahólfið, náði sér í sígarettu og lagði í stæði efst í Kömbunum og reykti. Hann hafði lengi haft í bígerð hvernig hann ætti að hrista af sér klafa Kjarvals. Hann ætlaði að sameina landslagið sögu Ís- lands. Þau málverk yrðu myndir líkt og van Gogh og Ensor hefðu málað þær saman. Van Gogh með sína skelfilegu reiði og ofsa. Ensor með sínar dásamlegu grótesku fígúrur í ver- öld sem var eins og endalaus kjötkveðjuhátíð. Hann drap á bílnum og virti fyrir sér land- ið og morgunsólina glitrandi á sjónum. Bíll ók hjá, að öðrum kosti var enginn á ferli. Hann gat séð vinnu dagsins fyrir sér, eða öllu held- ur fundið fyrir henni. Nú var að koma sér til Heklu. Hann var búinn að hangsa nógu lengi. Svo var að stilla trönunum upp úti í hrauni og fara þar næst hamförum með pensilinn. Hann lét bílinn renna í gang og fór hjá Hveragerði og um Selfoss. Þegar hann sá til Heklu vissi hann hvert var verkefni dagsins. Árið 1510 átti Eysteinn úr Mörk leið hjá Heklu með konu sinni og fylgdarmanni. Þau lentu í eldgosi. Eysteinn, sem var heljar- menni og hafði átján vetra varið Lénharð fóg- eta gegn ofurefli, tróð konu sinni undir mold- arbarð og leysti klyfjar af hestum þeirra til þess að skýla henni fyrir brennandi gjallinu. Fylgdarmaðurinn flúði á hesti sínum og hross þeirra hjóna hurfu í eimyrjuna. Klæði og hár Eysteins voru brunnin þegar hann komst til byggða. Hann sneri aftur sama dag með fylgd til þess að sækja konuna. Hún var á lífi. Fylgdarmaður þeirra fannst síðar dauður í gjótu. Hestarnir fundust á lífi en svo illa brunnir að þeim varð að lóga. Hetjuskapur Eysteins úr Mörk skyldi á einhvern hátt verða efniviður myndverksins sem hann málaði í dag. Hann sá tvö hross fyrir sér á veginum. Þau hlupu sitt hvorum megin við bílinn og stóðu í björtu báli. Síðan hurfu þau í gjallstorminn sem honum þótti dynja á framrúðunni. Hann fór hjá Næfurholti og þar næst slóð- ann upp að Bjöllum. Hér hafði hann tjaldað áður. Skammt undan fór hraunið kamb af kambi í átt að fjallsrótunum. Loftið var tært að sjá á tindi eldfjallsins. Hann opnaði aft- urdyrnar og fleygði tjaldinu í sandinn en tók trönurnar út með varúð og umhyggju. Fyrst var að tjalda og koma öllu fyrir. Strigann hafði hann þegar strengt á blindrammann. Bílinn var rauður Benz af stærstu gerð. Hann hafði fengið bílinn fyrir slikk og hann var nánast ódrepandi. Þegar hann hafði reist tjaldið kveikti hann á prímus til að hita sér pakkasúpu. Það var aldrei gott að mála saddur en beinlínis skað- legt ef maður var banhungraður. Þá gátu formin í málverkinu tekið á sig mynd girni- legs matar. Suðan kom upp og hann hrærði súpuduftið út í vatnið. En úr varð kekkjótt gutl sem hann þeytti í sandinn eftir nokkra sopa. Vindgjóstur kom ofan af fjallinu þar sem ský fóru skyndilega um með ofsa. Hann sótti lita- kassann sinn og spjaldið, stillti trönunum upp og byrjaði að mála. Láta litina vaða hér og hvar. Hann bað til Guðs að úr yrði gott verk sem hann yrði full- sæmdur af. Mynd sem hann þyrfti ekki að skammast sín fyrir. Málverk sem tæki hann í tölu mikilhæfra málara. Nei, málverk sem gerði úr honum meistara, nýjan Titian, Bruegel, Tintorettó, meistaraverk! Nú var að sjá hvernig myndin þróaðist. Hann vissi í raun og veru alls ekki hvar best var að byrja. Rauður litur hér, grænn þar – kambur í hrauninu, kryppan á Heklu. Hestur fór að taka á sig mynd, hann var logandi, á svörtum fleti sá í hófana á öðru hrossi. Átti hann að reyna til við Eystein úr Mörk og konu hans? Kjarval hafði verið meistari í teikningu, þó ekki jafn mikill og Picasso sem var þeirra allra mestur. Jakob málaði hátt á annan klukkutíma og það var orðið heitt og vindinn hafði lægt án þess hann yrði þess var. Hann vatt sér úr peysunni og skyrtunni og fleygði frá sér. Allt í einu var orðið heiðskírt á fjallstindinum. Hann leit í kringum sig og sá landið í huga sínum umhverfast í gjallregn. Þrír hestar komu hlaupandi út úr mekkinum, á einum þeirra sat maður, föx, granir og lendar log- uðu og Eysteinn úr Mörk var að troða konu sinni undir moldarbarðið. Áður en Jakob vissi af hafði hann málað afskræmt andlit undir tagli eins hestsins. Skyndilega var eins og Francis Bacon hefði gripið inn í og gætt myndina lífi. Hann fann fyrir svölun og sælu- kennd þess myndlistarmanns sem veit að hann er á réttri leið. Hér var eitthvað til þess að moða úr. Þetta var að verða mögnuð mynd! – Það er bara staðið úti í hrauni og verið að mála eins og meistari Kjarval, heyrði hann allt í einu sagt fyrir aftan sig. Hann snerist á hæli. Að baki honum stóðu hjón á miðjum aldri í göngugöllum og á gönguskóm og með broddstafi. Jakob kom upp engu orði. Var hvergi stundarfriður? Átti þessi Kjarvals-heimska að hundelta hann alla ævi. – Nú, hvernig þá? tautaði hann úrillur. – Nú, stóð hann ekki alltaf úti í hrauni og málaði hér og þar um landið? sagði konan. – Það veit ég ekkert um, svaraði Jakob snefsinn. – Hvað heitir málarinn? spurði maðurinn. – Jakob Hafsteinsson, sagði Jakob og kom örlítill stoltshreimur í röddina þegar hann kynnti sig hvernig svo sem hann reyndi að leyna því. – Ég held við höfum bara aldrei komið á sýningu hjá þér, sagði maðurinn. – En þetta er nú góð mynd hjá honum, sagði konan og horfði upp á hið hálfkláraða meistaraverk um heljarmennið Eystein úr Mörk. – Henni er ekki lokið, tautaði Jakob. Hann var að vona að fólkið færi að koma sér í burtu. – Jæja, við skulum drífa okkur, sagði mað- urinn. – Við erum að tefja listamanninn. Við stöndum ekki á Heklutindi háum í dag með þessu drolli! – Hvar ertu með vinnustofu ef við lítum inn hjá þér og viljum kaupa málverk til jólagjaf- ar? spurði konan. – Á Bíldshöfða 18, sagði Jakob og bragg- aðist heldur. Það var alltaf gott að eiga sölu í vændum. – Ja, við vorum þá helst að hugsa um eitt- hvað ódýrt, sagði konan. – Ódýrt, svaraði Jakob styggur. – Ja, þá skuluð þið fara annað en til mín. Hann stóð frammi fyrir fólkinu, ber ofan í mitti og fannst hann vera eins og skrípamynd af Kirk Douglas að leika Vincent van Gogh. Hann hafði þrjú ár um fimmtugt og augljóst var að fólkið hafði aldrei heyrt hann nefndan, vissi á honum engin deili. Þegar konan sagði „eitt- hvað ódýrt“ varð honum ljóst að andlit hans hafði hrunið af sárindum. Og áður en hann vissi af hafði hann sagt: – Viljiði drulla ykkur burt, helvítis pakkið ykkar! Þau störðu á hann. Loks sagði maðurinn undarlega fastur fyrir líkt og hann hefði allan tímann verið reiðubúinn til illinda: – Við höf- um sama rétt á því að vera hér og þú! Þetta landsvæði er þjóðlenda og eign allra Íslend- inga. – En ég kom hingað fyrst! grenjaði Jakob sjálfum sér sárreiður fyrir heimskulegt til- svarið. Maðurinn glotti og leit á myndina og sagði: – Aldrei hefði Kjarval látið mannshöfuð … – ganga niður af hrossi, bætti konan við. Jakob tók upp hraunsteina í báðar hendur og gerði sig líklegan til þess að grýta fólkið. Þau flýttu sér hlið við hlið í áttina að Heklu, dálítið spaugileg með göngustafina sína og litu af og til um öxl. Jakob sleppti steinunum. Honum var orðið kalt þrátt fyrir sólarhitann svo að hann klæddi sig í skyrtuna sína og peysuna og lagðist inn í tjald. Hann heyrði að önnur afturhurðin á bílnum hreyfðist fyrir vindi og það ískraði í hjörunum. Aldrei hefði Kjarval málað svona mynd hafði fólkið sagt. Honum varð allt í einu sérkennilega létt í sinni. Það var langt síðan honum hafði liðið jafnvel. Kjarvalsmyndin Höfundur er rithöfundur. Smásaga eftir Ólaf Gunnarsson Jóhannes Kjarval Hekla, máluð 1947.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.