Morgunblaðið - 26.08.2004, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 26.08.2004, Blaðsíða 18
MINNSTAÐUR 18 FIMMTUDAGUR 26. ÁGÚST 2004 MORGUNBLAÐIÐ AUSTURLAND LANDIÐ Hólmavík | Alexandra Hilf frá Hannover í Þýskalandi fer ótroðnar slóðir í mastersnámi sínu við Eberswalde-háskólann í Þýskalandi. Hún dvelur nú á Hólmavík í vettvangsnámi á þriðju önn og stundar rannsóknir á menningar- og viðskiptalegum áhrifum Galdrasýningar á Ströndum á samfélag og ferðaþjón- ustu. Alexandra er 29 ára gömul og er líffræðingur að mennt, en stundar mastersnám við Eberswalde-háskólann sem er í ná- grenni Berlínar. Það er fremur fámennur háskóli á þýskan mæli- kvarða og þar stundar hún nám í stjórnun sjálfbærrar ferðaþjón- ustu. Námið er nýtt af nálinni og er því enn í mótun. „Það gefur meira svigrúm til að velja sér óvenjuleg viðfangsefni.“ Alexandra segir að verkefnið sé þó ekki mastersverkefni sitt, því hún sé á þriðju og næstsíðustu önninni, sem byggist á vettvangsnámi. Á fjórðu önninni verður hins vegar unnið að lokaverkefni og mun hún þá venda kvæði sínu í kross og fjalla um stórt ferðaþjónustu- fyrirtæki í Þýskalandi. Meðal viðfangsefna í vettvangsrannsóknum Alexöndru eru viðhorf ferðamanna til Galdrasýningar á Ströndum. Hún leggur könnun fyrir gesti sýningarinnar, innlenda jafnt sem erlenda, og spyr m.a. um viðhorf þeirra til sýningarinnar og hvort þeir hafi áhuga á að sjá þá hluta sýningarinnar sem áformað er að koma upp víðar á Ströndum. Viðbrögð þeirra sem hafa svarað könn- uninni hingað til eru afar jákvæð og telur hún að viðhorfið í sam- félaginu sé það líka. „Mér skilst að þeir sem höfðu efasemdir í upphafi hafi líka skipt um skoðun, enda er hér ekkert illt eða ljótt á ferðinni, heldur er verið að segja merkilega sögu.“ Verkefnið vinnur Alexandra í náinni samvinnu við Strandagaldur og Sigurð Atlason sem hún segir afar hjálplegan og hugmyndaríkan. „Hugmyndin er líka þeirra og þeir munu vonandi njóta góðs af þessari vinnu og geta notað eitthvað úr skýrslunni minni til hlið- sjónar við áframhaldandi uppbyggingu á starfseminni. Ég mun líka taka viðtöl við fólk sem starfar við ferðaþjónustu á Strönd- um og kynna mér áhrif Galdrasýningarinnar á samfélagið í við- skiptalegu og menningarlegu samhengi. Þá ætla ég að skoða hvernig verkefni Strandagaldurs standa nú, hvað má betur fara og hvernig skynsamlegt sé að halda uppbyggingunni áfram.“ Fékk verkefnið fyrir tilviljun Aðspurð segir Alexandra að það hafi ekki verið áhugi á göldr- um eða nornaeðli sem dró hana alla leið til Stranda norður á Ís- landi, því hafi tilviljun ráðið. „Vinkona mín og skólasystir ætlaði að vinna þetta og hafði mikinn áhuga en átti ekki heimangengt. Þegar hún forfallaðist hugsaði ég af hverju ekki ég og bauðst til að taka þetta að mér.“ Þótt Alexandra hafi aðeins dvalið hér í stuttan tíma hefur hún farið mikið um Strandir með Sigurði og m.a. skoðað þá staði sem áformað er að geymi seinni áfanga Galdrasýningar á Ströndum í Bjarnarfirði og Trékyllisvík. Einnig hefur hún verið kynnt fyrir nokkrum ferðaþjónustuaðilum sem hún hyggst ræða við og er það allt saman hluti af verkefninu, ásamt því að starfa við sýn- inguna. Alexandra segir að ættingjum og vinum hafi almennt fundist það uppátæki hennar að fara til Íslands spennandi. „Það voru all- ir heillaðir, og margir sögðu við mig að þá hefði alltaf langað að koma til Íslands og vildu gjarnan heimsækja mig hingað. Kannski kemur systir mín í heimsókn. En þetta eru ekki nema nítján vikur. Tíminn flýgur áfram. Ég verð komin heim fyrir jól. Amma er sú eina sem er lítið um þetta gefið, henni er ekki vel við að ég sé að þvælast svona.“ Alexandra segist þegar vera búin að gera flest það sem dæmi- gerðir túristar á Ströndum gera og notar til að mynda sundlaug- ina óspart. Hún á reyndar eftir að fara á hestbak og ef til vill kemst hún í smalamennsku. Ísland þekkti Alexandra nokkuð af afspurn, enda hafa for- eldrar hennar ferðast hingað með skemmtiferðaskipi, en aðeins séð Reykjavík og Akureyri. „Ég vissi líka að Íslendingar væru vingjarnlegt fólk, en samt hefur það komið mér mest á óvart hvað fólkið hér er ótrúlega vingjarnlegt og opið. Allir heilsa öll- um og eru til í að spjalla. Ég kann mjög vel við það.“ Alexandra er meðal annars búin að fylgjast með þegar Sig- urður Atlason, í gervi galdramanns af Ströndum, kveður niður draug með bölvi og ragni og dyggri aðstoð sýningargesta. „Það stóð lítil stúlka við hliðina á mér og aðstoðaði galdramanninn, hún var afar hugrökk, en það munaði engu að ég hlypi út því ég var hálfhrædd.“ Einnig hefur Alexandra kynnst hröfnunum sem hafa haldið til við sýninguna í sumar. „Þær koma hér daglega eða annan hvern dag, hvor í sínu lagi reyndar, þær Galdra-Manga og Galdra-Imba. Þær hafa tekið ástfóstri við Sigurð, eru meira segja búnar að uppgötva hvar hann á heima. Þær geta verið mjög stríðnar og stela öllu steini léttara. Reyndu meira að segja að stela gólfmottunni í anddyri Galdrasýningarinnar í gær en hún var of þung. Þær eru samt skemmtilegar, ekki síst fyrir börnin, og skapa andrúmsloft sem minnir á galdra,“ segir Alex- andra Hilft. Háskólanemi frá Þýskalandi rannsakar áhrif Galdrasýningar á samfélag og ferðaþjónustu Allir ánægðir nema amma Morgunblaðið/Kristín Sigurrós Galdrar: Alexandra Hilft í viðeigandi umhverfi á galdrasýn- ingunni á Hólmavík þar sem hún hefur starfsaðstöðu í sumar. VERKFRÆÐISTOFA Austurlands hélt á dögunum upp á 25 ára starfsafmæli í nýju húsnæði við Kaupvang 5 á Egilsstöð- um. Er stofan flutt í gamla rjómabúið sem svo er kallað, sem einnig hefur hýst bak- arí og handverkshús gegnum árin. Óli Grétar Metúsalemsson, einn eig- enda Verkfræðistofu Austurlands, sagði að eitt stærsta verkefnið hefði verið hönn- un hitaveitunnar á Egilsstöðum. „Hún er 25 ára í ár og því jafngömul stofunni,“ sagði Óli Grétar. „Svo skemmtilega vill til að stærsta verkefni stofunnar nú er hönn- un hitaveitu á Eskifirði. Þá erum við með fjöldann allan af stærri og smærri verk- efnum.“ Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði 6 verkfræðingar og eru þeir eigendur, tækniteiknari og mælingamaður auk ný- útskrifaðs verkfræðings. Verkfræðistofa flyst í rjómabú TÍÐNI og kostnaður vegna sigl- inga og flugs á milli Íslands og Grænlands eru óviðunandi, að mati samgönguráðherra Norður- landanna. Þetta var meðal þess sem rætt var á tveggja daga löngum samráðsfundi ráðherranna á Egilsstöðum, en honum lauk á þriðjudag. Á fundinum var lögð fram skýrsla, sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lét vinna og fel- ur í sér úttekt á samgöngum milli Íslands, Færeyja og Grænlands. Sturla sagði í samtali við Morg- unblaðið að helstu niðurstöður út- tektarinnar væru að mikil og vax- andi samkeppni virtist vera í siglingum á milli Færeyja og Ís- lands og kæmi það ekki á óvart. „Þörf er á tíðari flugsamgöngum milli Færeyja og Íslands, en hins vegar eru siglingar og flug milli Grænlands og Íslands með þeim hætti að talið er algerlega óviðun- andi,“ sagði Sturla. „Ótrúlegur kostnaður er á flugi milli þessara tveggja landa og ljóst að það haml- ar aukningu í ferðamennsku. Farið verður frekar ofan í þessi mál, ekki síst höft á flugi til Grænlands, en ekki er frelsi í flugi á milli Íslands og Grænlands. Við Íslendingar lögðum á ráðherrafundinum áherslu á að þetta yrði opnað þann- ig að væri með sama hætti og á milli landanna á hinu evrópska efnahagssvæði.“ Skuggagjald á umferðarmannvirki Norrænu samgönguráðherrarn- ir fjölluðu einnig um samgöngu- áætlanagerð og fjármögnun sam- göngumannvirkja á Norðurlöndunum. „Hjá okkur er bygging samgöngumannvirkja, svo sem vega, jarðganga og brúa nán- ast eingöngu unnin fyrir skattfé,“ sagði Sturla. „Við ræddum hvaða möguleikar eru á Norðurlöndum til að hraða framkvæmdum með sér- stakri gjaldtöku fyrir notkun um- ferðarmannvirkja, sérstaklega vega. Þetta er svokallað skugga- gjald sem gengur út á að samið er við fjárfesta um byggingu sam- göngumannvirkja og síðan greitt fyrir eftir notkun. Það var sam- dóma álit okkar að afar mikilvægt sé að hraða uppbyggingu sam- göngumannvirkja og leita allra leiða til að fjármagna þau þannig að hægt sé að hraða uppbyggingu í þágu umferðaröryggis og meiri af- kastagetu, einkum vegakerfisins.“ Dauðaslys og alvarleg slys óviðunandi Samgönguráðuneytið hefur yfir- tekið umferðaröryggismál frá dómsmálaráðuneyti og tók sam- gönguráðherra nú í fyrsta sinn þátt í umræðu norrænna kollega sinna um þann málaflokk. Hann segir einhug meðal ráð- herranna um að dauðaslys og al- varleg slys í umferðinni séu óvið- unandi með öllu. „Alvarlegustu ástæður slíkra slysa á Norðurlönd- um öllum eru hraðakstur, ölvunar- akstur og að menn nota ekki bíl- belti. Nú settum við af stað vinnu embættismannahóps, sem mun samræma aðgerðir í umferðarör- yggismálum til að sporna við þess- um alvarlegu slysum, því umferð er vaxandi á vegum og getur leitt til þess, ef ekki er farið varlega, að umferðarslys stóraukist.“ Reglur um tilkynningu flugatvika Á fundi ráðherranna var jafn- framt lögð fram skýrsla um meng- un frá flugi og rætt um að settar verði reglur fyrir norræn flugfélög um tilkynningu flugatvika sem ekki eru þess eðlis að rannsökuð séu af flugöryggisnefndum. Hug- myndinni var vel tekið en ráðherr- arnir telja vænlegra að slíkar regl- ur séu á víðari grunni, þ.e. samevrópskum eða á heimsvísu. Málið verður rætt í nefnd ráð- herranna í framhaldinu. Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir Norrænir samgönguráðherrar luku tveggja daga fundi sínum á Egilsstöðum með því að fara í skoðunarferð í Kárahnjúkavirkjun. Fundur um samgöngur við Grænland og umferðaröryggismál Vilja afnema höft á flugi til Grænlands MÖÐRUSVARMI heitir þessi tegund fiðr- ildis, sem Kjartan Einarsson og Svein- björn Valur Jóhannsson fundu í húsi Björgunarsveitarinnar Héraðs, á Egils- stöðum fyrr í sumar. Afar sjaldgæft er að finna þessa tegund hér á landi. Líklegt er, að sögn Erlings Ólafssonar dýrafræðings, að fiðrildið hafi borist hingað til lands með annaðhvort vindum eða varningi. Möðrusvarmi lifir m.a. í norðanverðri N-Ameríku og Mið- og S-Evrópu. Hann fannst fyrst hér á landi árið 1972 en þá fundust tveir sama dag, að því er fram kemur í Náttúrufræðingnum. Ljósmynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir Möðrusvarmi á Egilsstöðum ♦♦♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.