Morgunblaðið - 26.08.2004, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 26.08.2004, Blaðsíða 28
MINNINGAR 28 FIMMTUDAGUR 26. ÁGÚST 2004 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Karl TheódórSæmundsson fæddist á Akranesi 29. september 1909. Hann lést 15. ágúst síðastliðinn. Foreldr- ar hans voru Sæ- mundur Sæmunds- son Guðmundsson, f. í Kolsholtshelli í Vill- ingaholtshreppi Ár- nessýslu 3. ágúst 1873, d. 9. desember 1955 og Matthildur Helgadóttir, f. á Flat- eyri við Dýrafjörð 14. september 1886, d. 11. júní 1959. Systkini Karls eru: Soffía Dórothea, f. 19. september 1906, d. 28. ágúst 1907, Oktavían- us Ágúst, f. 30. ágúst 1908, d. 26. ágúst 1992, Magnús Ásgeirsson, f. 2. apríl 1912, d. 2. júní 1947 (ætt- leiddur), Eiríkur Frímann, f. 1. september 1915, Sólveig, f. 27. september 1917 og Camilla, f. 20. október 1918. Sammæðra eru Helga Eysteinsdóttir MacGregor, f. 24. júlí 1921, d. 3. febrúar 2001, Fanney Eysteinsdóttir, f. 25. maí 1924 og Helgi Ingólfur Eysteins- son, f. 30. maí 1925. Karl kvæntist 25. desember 1938 Helgu Jónsdóttur frá Unhól í Þykkvabæ, f. 26. júní 1915, d. 19. maí 1971. Foreldrar hennar voru Jón Benediktsson, f. 7. febrúar 1862, d. 1940 og Marín Gísla- dóttir, f. 2. október 1876, d. 23. janúar 1955. Börn Karls og Helgu eru: 1) Jón Ævar kennari, f. 21. október 1939, kvæntur Önnu Mar- íu Snorradóttur sjúkraþjálfara, þau eiga tvo syni, þeir eru: a) Örn verkfræðingur, f. 1. júlí 1966, kvæntur Steinunni H. Theodórsdóttur kennara og eiga þau tvo syni, Marel Snæ, f. 4. jan- úar 1996 og Jón Steinar, f. 17. október 2000. b) Helgi læknir, f. 21. maí 1971, kvæntur Helgu Magneu Þorbjarnardóttur iðju- þjálfa. 2) Auður Edda, f. 17. des- ember 1948, giftist Sigurgeir Ólafssyni 1976, þau slitu samvist- um 1979, sonur þeirra er Andri Þór sjúkraþjálfari, f. 13. desem- ber 1976. Útför Karls verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 15. Elsku afi, það er undarleg tilfinn- ing að sitja hér og skrifa þessi orð. Alla mína tíð hefur þú verið í vest- urbænum, en nú ertu farinn. Ein fyrsta minning mín af þér er þegar þú komst í heimsókn í Hraunbæinn. Eins og svo oft varstu með Smarties í jakkanum. Þú sendir okkur bræð- urna að sækja það. „Það er nokkuð í vasa mínum.“ Ég man er við bræð- urnir gistum hjá þér og þú fórst með okkur í fjöruferð og við tíndum sam- an sjóbarðar steinvölur. Þú gerðir mynd úr þeim sem þú sýndir okkur seinna. Ég man er þú gerðir heiðar- lega tilraun til að mála okkur. Mér er til efs að við höfum verið nógu stilltir á meðan (a.m.k. ekki ég). Ætli mynd- in hafi ekki verið hreyfð. Ég man þegar þú bjóst til snjókarl í inn- keyrslunni. Þú gerðir það ekki eins og flestir aðrir, með þremur misstór- um snjókúlum og steinum í andlitið. Þú skófst út mann með múrskeið, fætur, hendur, andlit, skó og svei mér ef það voru ekki reimar líka. Ég hafði aldrei séð svona snjókarl áður, og hef aldrei séð síðan. Hann bar glöggt vitni um listræna hæfileika þína. Ég minnist líka málverkasýninga þinna. Sérstaklega þeirrar sem þú hélst í Bogasalnum á Þjóðminjasafninu. Þú laumaðist með okkur og sýndir vax- myndastyttur í einhverju skuggalegu bakherbergi. Hálfsúrrealísk minn- ing. Ég minnist líka vinnustofu þinn- ar í bílskúrnum á Reynimelnum. Hún var full af dóti, smíðavélum og mál- aragræjum sem maður smeygði sér framhjá. Þú varst iðulega í slopp þeg- ar þú „bardúsaðir“ í skúrnum. „Rúg- brauðið“ var inni í bílskúr, eitt af þeim allavega. Þú áttir nokkur. Ég mun aldrei horfa á „rúgbrauð“ án þess að minnast þín. Ég verð þó að viðurkenna að undir það síðasta var mér stundum um og ó að sitja í því með þér. Þú áttir það til að hverfa eitthvert án þess að láta nokkurn vita. Nokkrum dögum seinna kom- umst við að því að þú hafðir verið úti á landi eða uppi á fjöllum, að mála eða taka myndir. Jafnvel úti í Surtsey. Göngurnar og ferðalögin voru líka órjúfanlegur hluti af þér. Mér leidd- ist aldrei að spyrja þig út í ferðalögin þín. Hvort heldur var innanlands eða utan. Þér leiddist heldur ekki að segja frá. Þú hafðir upplifað svo ótal- margt á langri ævi. Þú kynntist harð- ræði en líka væntumþykju sem þú aldrei gleymdir. Nú hefurðu fengið hvíldina sem þú beiðst eftir. Elsku afi, við vorum ekki alltaf sammála um allt, en við gátum samt hlegið saman. Kímnigáfa þín var rík og oft innsiglaðir þú meiningu þína með smellnum vísum. Nú sit ég og óska þess að ég myndi eitthvað af þeim. Þar til Guð gefur að við sjáumst aftur, segi ég bless á meðan. Helgi. Mætur maður, Karl T. Sæmunds- son, hefur kvatt þetta jarðlíf. Hans er sárt saknað af mörgum og er ég ein af þeim. Elskulegur vinur er horfinn sjónum, en hlýlegheit hans í minn garð og sonar míns Örvars Omrí, vin- áttan og brosið hans milda mun geymast í minningunni svo lengi sem mér endist minni og aldur. Allt frá því að ég er lítil táta, minn- ist ég hans sem góða „frændans“ og þannig var það fram til hinstu stund- ar. Síðasta dag hérvistarlífs hans, heimsótti ég hann. Hann sat uppi í rúminu og var að borða kvöldmatinn sinn. Þegar hann sá mig breiddi hann faðminn á móti mér og brosti út að eyrum og spurði strax hvernig mér liði í höndunum mínum. Ég undraðist minni hans og svaraði honum að slæmt exemið á höndunum væri mun betra, hann gladdist yfir því. Og svo röbbuðum við saman um heima og geima. Ofarlega í huga hans var ferð- in til Þingvalla, sem hann hafði farið með syni sínum þennan sama dag, í undurfögru veðri. Gleðin yfir því var fögur og sönn. Ég trúi því að þakk- lætið og gleðibrosið, sem breiddist yfir andlit hans yfir minningunni um þessa góðu ferð, hafi fylgt honum þegar hann kvaddi þetta jarðlíf nokkrum klukkustundum síðar. Athafnamaður mikill og ferðalang- ur, sem naut þess að skoða undur veraldar og furður íslenskrar nátt- úru, er horfinn sjónum, listamaður af Guðs náð, sem festi þau undur og furður á verðlaunaljósmyndir og í málverk. Eftir stendur minningin um góðan mann og góðar samverustund- ir, þær samverustundir munu halda áfram að vera til í verkum hans. Aðrir munu fjalla um athafna- manninn Karl T. Sæmundsson (Kalla), fjölbreytilegt og ríkt líf hans, en ég vil hinsvegar þakka hlýjuna, vináttuna og allar góðu stundirnar með honum og fjölskyldu hans, bless- aðri frænku minni og börnum þeirra og eftir lát hennar áframhaldandi vináttu og hlýju, sem aldrei verður fullþökkuð. Guð blessi minninguna um Karl T. Sæmundsson. Megi börn- in hans, barnabörn og aðrir ástvinir finna nærveru Guðs og styrk á erfiðri stund. Þökk fyrir gengna tíð. Marín Sjöfn Geirsdóttir (Marsí). Látinn er í hárri elli Karl F. Sæ- mundsson, byggingarmeistari, oftast nefndur Kalli Sæm af þeim sem best þekktu. Hugurinn hvarflar til ársins 1942 er ég hitti hann fyrst; þá yfirmann bygginga fyrir Bretana, þar sem nú er Reykjalundur. Fátt var um lærða smiði. Ýmsir gáfu sig fram sem lagna menn, voru kallaðir gervismiðir en anzi misjafnir. Ég sótti um vinnu hjá Kalla sem slíkur, þá 17 ára. Hann sagði orðrétt: ,,Ég skal prufa þig í 2–3 daga.“ Þeir dagar voru ekki liðnir þegar hann bauð mér að gerast lær- lingur. Ég gat ekki þegið þetta góða boð; þurfti að hjálpa til heima í sveit- inni þar sem faðir minn dó frá hópi barna en móðir mín bjó áfram. Um sumarið kom Kalli til mín vestur í Dali og endurnýjaði boðið: ,,Þú kem- ur bara til mín þegar þú þarft ekki að hjálpa meira til heima hjá þér. Boðið stendur alltaf.“ Hinn 19. maí 1944 byrjaði ég sem nemi hjá Kalla og var þar fjögur ár. Hann var mér afar góður öll þessi ár, kenndi mér vel og lét mig oftast nær í öll hin vandasömustu verk; fylgdist vel með mínum störfum, enda af- burðasmiður og mikill listamaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Ég nefni teikningar, málaralist, ljósmynda- og kvikmyndatöku. Mér er sérlega minnisstætt þegar hann var að kvikmynda Heklugosið 1947: Þá hélt ég í hann til hann félli ekki of- aní rennandi hraunstrauminn, enda náði hann frábærum myndum. Kalli var mikill ferðagarpur um fjöll og firnindi bæði hér heima og erlendis. Það var næsta sama hvað hann snerti. Allt var vandað og snyrtilegt. Kalli átti frábæra konu, Helgu Jóns- dóttur, sem skapaði þeim og börnum þeirra fallegt og einstaklega alúðlegt heimili. Ég varð þeirrar gæfu aðnjót- andi að vera heimilisvinur og ævin- lega velkominn. Helga lést langt um aldur fram. Hún var sannur sólar- geisli í lífi allra er henni kynntust. Ég þakka af alhug hvernig þú bjóst mig undir ævistarfið og tryggð og vináttu sem ég naut hjá þér alla tíð. Við hjónin kveðjum þig og biðjum þér blessunar í síðustu ferðinni. Börnum þínum og öðrum afkomendum send- um við samúðarkveðjur. Kristinn Sveinsson og Margrét Jörundsdóttir. Látinn er í hárri elli Karl Sæ- mundsson, húsasmíðameistari og kennari við Iðnskólann í Reykjavík. Þeim fækkar nú ört kennurum sem lögðu grunn að verklegri kennslu tré- iðnaðarmanna en Karl er sá þriðji sem fellur í valinn af þessum hóp á rúmlega ári. Karl var umsvifamikill byggingar- meistari og tók þátt í stofnun stórfyr- irtækja í mannvirkjagerð og sjávar- útvegi áður en hann hóf störf sem kennari í iðngrein sinni við Iðnskól- ann en þar starfaði hann í tuttugu ár frá 1960 til 1980. Við kennarar sem hófum störf sem ungir menn við hlið hans minnumst sérstaklega þeirrar virðingar og samviskusemi sem hann sýndi jafnan iðngrein sinni. Þau áhrif lifa enn og búa jafnt samkennarar og nemendur að þeirri mótun. Hann var frumkvöðull í verklegri kennslu húsasmiða og nemendur hans sem flestir eru nú rosknir iðn- aðarmenn eru æðimargir og óhætt er að segja að víða í íslenskum mann- virkjum sjáist sú verkþekking sem hann innrætti nemendum sínum vel og þau standa sem bautasteinn um minningu hans. Ferðalög og ljósmyndun voru ein helstu áhugmál hans og þessi áhuga- mál tengdi hann saman og lagði á sig löng og ströng ferðalög oft í tvísýnu til að ná í gott myndefni. Hann ferðaðist bæði innan lands og utan og naut sín jafnvel á íslensk- um fjöllum í frumstæðu tjaldi og á glæsihótelum um heim allan. Oft var gaman í kaffitímum að hlusta á ferðalýsingar hans og ferðast þannig með honum í hugan- um. Karl var óvenju hraustur fram eft- ir öllum aldri og lét ekki Elli kerlingu aftra sér frá því að koma á mannamót eða fara í ferðalög og alltaf bar hann sig vel þegar við fyrrum starfsfélagar hittum hann á ólíklegustu stöðum oft- ar en ekki akandi. Öllum er gefinn ákveðinn tími hér á jörðinni og nú er Karl Sæmundsson lagður af stað í sína síðustu ferð. Blessuð sé minning um góðan dreng. Samstarfsmenn í Iðnskólanum í Reykjavík. Þú varst minn vetrareldur. Þú varst mín hvíta lilja, bæn af mínum bænum og brot af mínum vilja. Við elskuðum hvort annað, en urðum þá að skilja. Ég geymi gjafir þínar sem gamla helgidóma. Af orðum þínum öllum var ilmur víns og blóma. Af öllum fundum okkar slær ævintýraljóma. Og þó mér auðnist aldrei neinn óskastein að finna, þá verða ástir okkar og eldur brjósta þinna ljós á vegi mínum og lampi fóta minna. (Davíð Stefánsson.) Hvíl í friði, kæri vinur, Kolbrún. Góðvinur minn og göngufélagi til margra ára, Karl Theodór Sæmunds- son, hefur nú kvatt þetta jarðlíf en kannar í þess stað nýja heima. Ald- urinn var orðinn hár, hartnær 95 ár og þrekið farið, eftir stóð sterkur vilji og dirfska til að gera það sem hann taldi sér vera skylt að annast áður en að endalokum kæmi. Daginn fyrir andlátið fór hann síðustu ferðina í sumarbústaðinn á Þingvöllum, með góðri aðstoð Jóns Ævars sonar síns, til þess að líta einu sinni enn fegurð Þingvallavatns og fjallahringinn sem umvefur það. Karl var alla ævi mikill útilífsmað- ur. Allt frá fullorðinsárum og fram til efri ára lagði hann stund á fjallgöng- ur, bæði vetur og sumar. Hann var þaulkunnugur á hálendi Íslands. Um árabil var hann leiðsögumaður inn- lendra og erlendra ferðamannahópa. Hann tók mikinn þátt í starfi Ferða- félags Íslands og margan skála þess annaðist hann um að smíða og reisa á staðnum. Hann var félagi og í stjórn Surts- eyjarfélagsins og hannaði og reisti skála þess í Surtsey. Karl var afar listrænn. Hann hafði næmt auga fyrir myndefni náttúr- unnar. Hann tók ógrynni af ljós- myndum á ferðalögum sínum um landið og hafa margar þeirra birst í blöðum. Þá lagði Karl fyrir sig mál- aralist og hefur hann haldið allmarg- ar sölusýningar á verkum sínum. Þegar horft er til baka og safn minninganna skoðað kemur margt upp í hugann. Margar voru þær ferð- ir um landið sem við fórum saman ásamt konum okkar. Norðurlandið, á Flateyjardal, í Fjörður, í Náttfara- víkur við Skjálfanda, Þeistareykir. Austurlandið, í Herðubreiðarlindir, Öskju, Hvannalindir, Kverkfjöll. All- ir þessir staðir og fleiri til mynda þau perlubönd sem varðveitast í minning- unni. Þá eru ótaldar þær fjölmörgu gönguferðir okkar um nágrenni Reykjavíkur, allt ofan úr Hvalfirði og suður á Reykjanes. Þær ferðir stund- uðum við allt árið, þó mest frá hausti til vors. Í öllum þessum ferðum var Karl frumkvöðullinn, fræðarinn og veitandinn en ég einungis þiggjand- inn. Hann hafði margoft farið þessar leiðir áður og kunni skil á hverju því sem fyrir augu bar. Karl var prýði- lega hagmæltur en flíkaði því lítt. Mörg varð vísan til á þessum ferðum og því miður ekki allar skráðar niður. Á jólakorti til mín 1980 er eftirfar- andi staka og vísar hún til ferðalaga okkar á næstliðnu sumri: Eftir vetrar illviðrið ófærð og vegaleysu, endurtaka ættum við aðra slíka reisu. Konu sína Helgu Jónsdóttur missti Karl 19. maí 1971. Það varð honum mikið áfall og hafði áhrif á allt hans líf til lokadægurs. Heimili þeirra á Reynimel 22 var í senn glæsilegt og menningarlegt þar sem gestrisni, glaðværð og hlýtt viðmót sátu í önd- vegi. Ferðin mikla er hafin. Hennar hafði Karl beðið lengi og hann beið tilbúinn í ferðafötunum. Við leiðarlok þakka ég og fjöl- skylda mín hjálpsemi alla, vináttu og órofa tryggð. Aðstandendum öllum sendum við samúðarkveðjur. Þorkell Skúlason. Þegar ég skrifa þetta erum við fjórir saman á ferð austur Flóann og ætlum að skreppa upp í Tindfjöll, já, sömu leið og við fórum saman í fyrra- sumar þegar við hittum hann Magn- ús í Miðdal og hann dró upp fyrstu gestabók hússins þar sem þú hafðir ritað inngangsorðin fyrir hálfri öld. Það var einmitt svona dagur, nema ennþá bjartari. Moggaspá hans var sú glæsilegasta sem ég hefi séð. Full- ar sólir á Suðurlandi og það gekk eft- ir allan daginn. Þetta varð eftirminni- legur dagur. Við höfum rifjað hann oft upp síðan og farið hugferðum sömu stórkostlegu leiðina á kvöldum. Nú erum við að fara yfir Ytri- Rangá. Jú, jú, sagðirðu, leiðin að fossinum er hérna aðeins vestar, og það var nákvæmlega þannig, rétt eins og svo margt annað sem þú sagð- ist hafa löngu gleymt og ekkert vita lengur. Í Inn-Hlíðinni förum við nú hjá Háamúla. Þar tókstu myndirnar fyrir 60 árum þegar þið gistuð þar í krapa- ferðinni miklu þegar hestarnir lágu dýpra en á kviði og allt varð vindandi í vetrarnóttinni. Erfið ferð en indæl endurminning um gestrisna húsráð- endur og svo auðvitað að lokum, enn eina frábæra Tindfjallapáska. Ofan við brekkurnar í Fljótsdal komum við á skíðalöndin. Forðum var hér ekkert hlemmiskeið fyrr en snjórinn var lagstur yfir. Þá var hér svifið yfir og sungið í skála. Þá voru margir fastir gestir í ferðahópum sem nú hafa misst sinn síðasta mann. Með mönn- unum hverfa minningarnar, þær sem hvergi eru skráðar, líkt og sú sem Friðgeir Grímsson rifjaði upp á ní- ræðisafmælinu þínu. Þar lýsti hann því þegar þið tveir genguð Lónsöræf- in og norður á Fljótsdal: Þegar við loksins klöngruðumst upp á efstu brúnirnar og horfðum niður yfir Eyjabakkana mælti Karl fram þessa vísu: Er nú sleppir urð og grjóti eygjum við græna hagana. Nú er það bara niðrí móti næstu fjóra dagana. Við skruppum norður á hálsana til að horfa til Heklu í blíðviðrinu en komum svo að efsta skálanum sem þú varst við að hanna og reisa og bjóst í á hverjum páskum um áratuga skeið. Við tókum af okkur mynd núna, rétt eins og við gerðum í fyrra. Að þessu sinni förum við þó ekki sömu heim- leiðina. Eftir nokkra stund erum við komnir aftur niður í Fljótsdal og svo inn að Gilsá við Hellisvelli og horfum til Eyjafjallajökulsins eins og stund- um áður þegar við komum vestur yfir Markarfljótið. Já, ég var hrifinn af myndinni sem þú hafðir málað héðan við hlýbjarta snemmmorgunsól. Hugurinn skreppur að skoða þínar listilegu ljósmyndir. Ég dáðist að auga þínu fyrir myndefni, eins og þegar við ókum fram á ræksni af brú í heiðinni. Stansaðu hérna, sagðirðu og tókst mynd sem ég þóttist viss um að ynni aldrei til verðlauna því ég sá þar ekkert efni. Svo sá ég síðar þessa fínu mynd og mér var ljóst að þú sást allt annað en ég og svo leiftursnöggt, þótt sjónin væri farin að daprast um of til að aka bíl. Við ökum frá Gilsá inn fyrir Laus- ölduna. Ekki sakar að svipast um eft- ir vaði á Fljótinu. Það brýtur sig álit- lega. Eftir klukkutíma hafa allir álarnir verið gengnir og brotin vaðin. Við reynumst heppnir því við finnum ágæt vöð. Ég kalla þau Karls-vöð að þessu sinni, en eðli allra vaða á Mark- arfljóti er að breytast ört og byltast og áður en varir eru þau ekki lengur, rétt eins og önnur spor okkar í tilver- unni skolast út í ekki neitt þegar tímar líða fram og þeir hverfa sem mundu. Ég sakna þín, ferðavinur, þótt ég gleðjist yfir þinni hvíld og lausn frá þessu síðasta algjöra ferðahelsi. Inni- leg samúðarkveðja til fjölskyldunnar. Gísli Ólafur Pétursson og Ragna Freyja Karlsdóttir. KARL THEÓDÓR SÆMUNDSSON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.