Lesbók Morgunblaðsins - 08.01.2005, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 08.01.2005, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 8. janúar 2005 N ú í vikunni lýsti Guðmundur Steingrímsson, pistlahöf- undur þáttarins Víðsjár á Rás 1, kjöri sínu á „hugtaki ársins“. Sigurvegarinn var „staðfesta“ og í skýringum dómnefndar kom fram að umrætt orð hefði leikið mikilvægt hlutverk í máli og orðræðu ís- lensku ríkisstjórnarinnar á árinu; það hefði sýnt af sér gríðarlega fjölhæfni og ótvíræða hæfileika þegar kom til þess að leika tveim skjöldum í þágu þess sem hafði orðið. Íslendingar sýna staðfestu af því að þeir standa keikir á listanum yfir þær þjóðir sem réðust inn í Írak (og þá skiptir minna máli að enginn Íslendingur var með í innrásinni í Írak og staðfestan hafi því ef til vill eilítið holan hljóm). Úrslitum réð þó sjálfsagt sá eiginleiki orðsins að bera með sér alvöruþunga og fela í sér dulinn en baneitraðan ásökunarbrodd sem beinst getur að hverjum þeim sem á hlýðir. Hér er mikill galdur á ferð. Hvernig getur eitt lítið orð verið svona ríkt og máttugt? Er ekki eitthvað bogið við það að veita hugtaki verð- laun? Hér á eftir verður rætt um orð og verk, verkun orða og virkni þeirra, ekki síst í með- förum ráðamanna. Verklaus orð og orð í verki Algeng er sú skoðun, manna á meðal, að orð séu lítils verð ein og sér. Þeim verður að fylgja athöfn; það er ekki nóg að tala (sitjandi, sjálf- sagt) heldur verða menn að koma sér á fætur og gera eitthvað: láta verkin tala. Með öðrum orðum: orðin gera ekkert af sjálfu sér – annað en að flæða, þau eru hávaði sem ferðast inn um hlustir og eftir taugum og inn í heila – og svo út aftur hinum megin, ef ekkert er að gert. Þegar við tölum notum við orð, en orðin mega ekki vera ein (um að tala), án meðfylgjandi verka eru þau „tómt mál“... og hversu mörg orð á ekki íslenskan til að lýsa holum hljóm orðanna! Orðagjálfur, innantómt snakk, blaður, kjaft- æði, málæði, kjaftavaðall, að ekki sé minnst á alþjóðaorðið blablabla. Að sumra dómi er vaðallinn kannski líkastur jökulfljóti á aurum: rennur í mörgum kvíslum sem ýmist greinast sundur eða koma saman og eru því misjafnlega aflmiklar að sjá eftir því hvenær að er gáð. Stundum er vaðallinn mest- ur meðal stofnana skrifræðisins, stundum er hann verstur í æðri menntastofnunum, stund- um hefur hann lagt leið sína niður á Alþingi eða í ráðuneytin þar sem æðstu embættismenn þjóðarinnar sitja. Stjórnmálamenn almennt talað, og ráðherrar sérstaklega, verða auðvitað að kunna þá list að koma fyrir sig orði þegar nauðsyn krefur: drepa málum á dreif, bægja hættum frá, kveða niður orðróm – til dæmis í því skyni að halda hlífiskildi yfir hinu við- kvæma blómi efnahagslífs og kauphallar. En þessi „hreina“ beiting orðsins nægir ráða- manninum sjálfsagt – væntanlega – ekki til lengdar: fyrr eða síðar verður hann að láta til skarar skríða og grípa til aðgerða. Annars verður hann meinfýsnum úrtöluröddum að bráð, fær á sig nafnbótina „froðusnakkur“, tapar baklandi sínu og nær ekki endurkjöri. Engu að síður er langt því frá að allt orða- gjálfur ráðamanna leiði til beinna aðgerða þeg- ar öllu er á botninn hvolft. Stundum er orðræð- an nefnilega aðgerð í sjálfri sér. Hvernig má það vera? Hvernig geta orð verið athöfn? Mál- ið reynist flóknara en það virtist í fyrstu. Í ljós kemur að orð geta vissulega haft áhrif. Þetta hafa fræðimenn, svo dæmi sé tekið, vitað að minnsta kosti frá því að breski heimspeking- urinn J.L. Austin sendi frá sér (árið 1962) bók nokkra sem heitir því grípandi nafni How to do things with words – og segir það ekki allt sem segja þarf? Austin fjallar þar í löngu máli um það sem hann kallar „framkvæmandi yrð- ingar“, það er yrðingar (eða „málgjörðir“) sem gera ofur einfaldlega það sem þær segjast gera – setningar þar sem orðin eru verkið. Meðal þeirra dæma sem Austin tekur þessu til staðfestingar eru yrðingar á borð við „Já“ (við altarið), „Ég fyrirgef þér“, „Ég skíri þig Hall- dór“. Sum orð ráðamanna eru af þessum toga, til dæmis orð forseta Íslands á liðnu sumri þegar hann neitaði að staðfesta fjölmiðla- frumvarpið: þegar hann sagði, í beinni útsend- ingu, „ég synja frumvarpinu staðfestingar“, þá synjaði hann þar með frumvarpinu staðfest- ingar. Bankað á skeljar Ef til vill eru fleiri dæmi um það en margur hyggur að orð, innantóm orð, hafi áhrif á líf okkar; orð sem hafa yfir sér mikilúðlegt og hálfheilagt yfirbragð en reynast síðan, ef til þess kemur að hug- eða fífldjarfur riddari mannlífsins tekur það að sér að banka á þeirra ytri skel, hafa holan hljóm eða fela jafnvel eitt- hvað allt annað en yfirborðið gaf til kynna. Þetta er sér í lagi bagalegt þegar um er að ræða orð sem ráðamönnum eru töm og gegna jafnvel lykilhlutverki í stjórnlist þeirra, leynt eða ljóst. Eitt hlutverk andófsmanna í hvaða stjórnkerfi sem vera skal – og þar eru ríki sem þóknast að kenna sig við lýðræði engan veginn undanskilin – er að banka í slíkar skeljar. Segja má að sá frægi heimspekingur Friedrich Nietzsche hafi rutt brautina fyrir barsmíð af þessum toga – var það ekki hann sem boðaði að stunda ætti heimspeki með hamri? Eitt helsta hornið í síðu Nietzsches var kristindómurinn, sem hann taldi einn allsherjar blekkingarvef, til þess eins fallinn að sjá til þess að vesæll lýð- urinn eyddi dögum sínum í hljóðri og tillærðri ánægju með ríkjandi ástand – í nægjusemi, iðjusemi og eilífri bið eftir því að eitthvað betra taki við, að óveðrinu sloti, táradalurinn breyt- ist í paradís og sólin fái að skína í hádegisstað. Hið sanna líf var handan grafar, en í þessu lífi bar mönnum að hafa hægt um sig, ybba ekki gogg – eða, með orðalagi kirkjunnar, það er að segja valdhafans: syndga ekki. Orð Nietzsches um þetta volduga, voðalega og valdamikla hug- myndakerfi var þrælasiðferði. Undanfari Nietzsches var sá mikli fríþenkj- ari og mannvinur Baruch Spinoza, sem setti til dæmis á blað eftirfarandi greiningu á sam- bandi valds og trúarbragða: „Stærsta leynd- armál einveldisstjórnar, og dýpsta hagsmuna- mál hennar, er að blekkja þegnana með því að klæða í dulargervi, og kalla trúarbrögð, óttann sem ætlunin er að halda þeim í; og tilgang- urinn er sá að fá þá til að berjast fyrir þræl- dómi sínum líkt og sæluvist þeirra væri í húfi.“ Að mati Spinoza eru trúarbrögðin í reynd ekk- ert annað en kerfi hugmynda – hugtaka, orða – sem haldið var að fólki með skipulegum hætti í því skyni að ræna það viljanum til að láta til sín taka í heimi hér. Með öðrum orðum leitast trúarbrögðin, að mati Spinoza (og í endursögn franska heimspekingsins Gilles Deleuze), við að innræta okkur þá skoðun, og kalla hana sið- ferði, að „líf okkar [sé] ekkert annað en þykj- ustuleikur“, og ein afleiðingin af þessu verður þá sú að „við hugsum ekki um annað en að komast hjá því að deyja, og gjörvallt líf okkar er ekkert annað en tilbeiðsla dauðans.“ Til að bæta gráu ofan á svart koma trúarbrögðin því svo fyrir að hinir sanntrúuðu, tilbiðjendur dauðans, láta sér ekki nægja að bíða með hend- ur í skauti heldur halda þeir af stað og taka hreinlega að berjast fyrir þessari óttablöndnu og þrælslegu afneitun lífsins – í nafni eigin sæluvistar. Þrælsóttinn blómstrar meðal þegnanna og valdhafarnir fá nægan frið til að stjórna: púkar á fjósbita sem fitna í skjóli ótt- ans sem þeir halda þegnunum í. Hin heilaga sátt Nú við upphaf 21. aldar er það sjálfsagt ekki lengur svo, að minnsta kosti ekki í flestum þeim ríkjum sem kenna sig við frjálslynt lýð- ræði, að trúarbrögðin þjóni valdhöfum á þann hátt sem Nietzsche, Spinoza og Deleuze lýsa. Þar með er auðvitað ekki verið að halda fram þeirri fásinnu að trúarbrögðin séu úr sögunni, né heldur að tengsl þeirra við ríkjandi valdhafa og ráðandi öfl hafi verið að eilífu rofin. Saga Bandaríkja Norður-Ameríku á 21. öld er til dæmis órækt vitni um hið gagnstæða, og eng- inn þarf að ganga þess gruflandi að þar í landi geisar hatrömm styrjöld þar sem forsend- urnar eru af meiði trúarinnar, vopnin eru orð og tekist er á um verk sem varða mannlegt hold: líkami konu sem orðið hefur þunguð gegn vilja sínum getur til dæmis orðið hinum stríð- andi fylkingum að vígvelli. Enginn er að vísu á móti henni, allir eru með einhverju: sumir eru fylgjandi lífinu (pro-life), aðrir eru fylgjandi sjálfræði fólks (pro-choice). En hvað sem þessu líður má alltént halda því fram að það sé orðið sjaldgæfara en áður að hugtökin sem notuð eru í opinberri umræðu, og þá ekki síst þeim hluta hennar sem ættaður er frá valdhöf- unum, séu sveipuð dularklæðum trúarbragð- anna. Þar með er að vísu ekki sagt að hugtökin séu, á þessum síðustu og bestu tímum, öll þar sem þau eru séð. Fjarri fer því: um þessar mundir engu síður en fyrr á öldum eru ráða- menn lúsiðnir við að halda að þegnunum mátt- ugum en eilítið þokukenndum töfraorðum, sveipuðum dulúðugum og hálfheilögum blæ, sem eiga að skýra sig sjálf; þau þarfnast engr- ar umræðu. Í kennaraverkfallinu á liðnu ári var einu slíku töfraorði óspart beitt til að kæfa í fæð- ingu hvers kyns óskir kennara um hærri laun. Sá góði heimspekingur Guðmundur Stein- grímsson vakti máls á þessu í Víðsjárpistli: orðið var þensla. Kennarar máttu ekki fá hærri laun vegna þess að þá slyppi óhjákvæmilega úr fjötrum ægileg ófreskja sem hetjur fyrri ára höfðu mátt hafa sig alla við að temja: þenslan tæki að ríða húsum. Hver vill bera ábyrgð á því að siga slíku illyrmi á okkur? Þetta eina orð með undarlegan hljóm dugði til að gera mál- stað kennara tortryggilegan. Var tilgangur þeirra að kollvarpa samfélaginu? Að gera að engu það sem áunnist hefur á liðnum árum og áratugum? Að rjúfa sáttina? Sáttin: þar er komið annað töfraorð sem ætíð reynist ráðherrunum notadrjúgt þegar vinna þarf á þreytandi tilburðum þegnanna til sjálfræðis. Sáttarhugtakið kom til dæmis að góðum notum í úlfaþytinum um fjölmiðlamálið, sér í lagi þegar umræðan beindist að þeim möguleika að forsetinn neitaði að staðfesta lögin: það er óhugsandi, sögðu þá sumir, for- setinn getur ekki rofið sáttina. Þá fer allt í bál og brand. Hann vill ekki bera ábyrgð á því. Sáttin í þjóðfélaginu er of mikils virði til þess. Á móti hefði mátt spyrja, bláeygur eins og barn: er öllu fórnandi fyrir sáttina? Hvað er svona hættulegt við að vísa máli til þjóð- arinnar? Hvað stendur anda lýðræðisins nær en að leyfa borgurunum, hverjum fyrir sig og öllum í sameiningu – þessum borgurum sem eru, þrátt fyrir allt, hinir endanlegu valdhafar í lýðræðinu – að skera úr um eitt lítið álitamál? Hvað gæti hugsanlega verið lýðræðislegra? Sáttin? Sátt um hvað? Að ríkjandi valdhafar fái að drottna í friði fyrir lýðnum? En hvað er þá orðið um lýð-ræðið, stjórnarfarið þar sem lýð- urinn ræður? Lýðræði og átök Eru allir sáttir? Er sáttin markmið lýðræð- isins? Eða er hún forsenda þess? Ef til vill er hún hvorugt. Hugsast getur að hugtakið um sáttina geymi ekkert annað undir sinni holu skurn en lítinn miða sem á er letruð hin fróma ósk valdhafans um vinnufrið og þögult sam- þykki þegnanna. Enginn þarf þó að efast um virkni þessa orðs, hversu innantómt sem það kann að reynast: umkvörtunarefni þegnanna, hagsmunamál þeirra – óskir þeirra um betra líf, meira réttlæti og betri heim þeim sjálfum og öðrum til handa – verða tortryggninni að bráð um leið og sáttin beinir spjótum sínum að þeim. En í lýðræðisríki þar sem þegnunum leyfist (ennþá) að ræða málin sín á milli – að minnsta kosti að því marki sem orð þeirra hafa ekki truflandi áhrif á valdhafana – hlýtur að vera óhætt að spyrja: liggur ekki í augum uppi að þessi beiting sáttarhugtaksins er með öllu ólýðræðisleg? Lifandi lýðræðisríki hlýtur að eiga þann kost vænstan að viðurkenna að inn- an þess hljóti alltaf að þrífast átök, og að sáttin sé ekki upphaf þess og endir; eða, með orðum heimspekingsins Chantal Mouffe: „viðureignir um ágreining eru alls ekki ógn við lýðræðið, heldur sjálf lífsskilyrði þess“. Renni upp sú stund að ráðamenn jafnt sem óbreyttir borg- arar gangast við þessum skilyrðum, glaðir í bragði og lausir við ólund hinna valdagírugu og hugsunarlötu, kemst ævintýri lýðræðisins nær því að verða að veruleika en nokkru sinni fyrr. Öðrum kosti verðum við áfram ofurseld, leynt eða ljóst, valdi hins sterka: þess sem ræður í krafti auðs, ofbeldis eða einberrar hefðar.  Tilvitnanir í Spinoza og Deleuze eru teknar úr grein þess síðarnefnda, „Hvernig Siðfræðin greinir sig frá hvers kyns siðferði“, sem birtist í Hug 2004 (s. 177 og 178). Tilvitnun í Chantal Mouffe er úr grein hennar „Til varnar ágreinings- líkani um lýðræði“ sem einnig birtist í Hug 2004 (s. 59). Frá orðum til átaka Sáttin „… þar er komið annað töfraorð sem ætíð reynist ráðherrunum notadrjúgt þegar vinna þarf á þreytandi tilburðum þegnanna til sjálfræðis …“ Hver er munurinn á orðum og verkum? Er nóg að tala til að hafa áhrif eða geta verkin ein talað? Málið reynist flóknara en það virt- ist í fyrstu. Í ljós kemur að orð geta vissulega haft áhrif, ekki síst í meðförum ráðamanna. Eftir Björn Þorsteinsson bjorntho@hi.is Höfundur leggur stund á doktorsnám í heimspeki. Morgunblaðið/Sverrir

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.