Lesbók Morgunblaðsins - 02.04.2005, Side 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 2. apríl 2005
!
Eitt sinn var ég staddur einn
míns liðs norður á Akureyri og
gekk inn á kaffihús. Úti var
hríðarbylur og snjóþungt eins
og stundum er fyrir norðan á
veturna. Ég man þetta skýrt
þótt raunar hafi ég oft komið
inn á þetta kaffihús bæði fyrr
og síðar við sambærilegar kring-
umstæður, það er líklega svipuð upp-
lifun fyrir alla sem koma inn á Kaffi
Karólínu. Í horninu sátu nokkrir ein-
staklingar sem ég
hafði séð áður þarna
og gerði mér í hug-
arlund að væri menn-
ingarmafían á Ak-
ureyri. Mafían horfði nokkuð stíft á
mig, aðkomumanninn, ég gat valið um
að túlka augnaráð hennar sem forvitni
eða tilmæli um að hypja mig út. Líklega
var það hófleg blanda af hvoru tveggja.
Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að
fá mér latte og arka út í hríðina en ég
fann að það var ekki kaffiþorsti heldur
áfengisþorsti sem hrjáði mig, hafði setið
við skriftir allan daginn og eins og allir
vita sem það hafa reynt er það þegar
upp er staðið fyrst og fremst leiðinlegt.
Allavega verður maður að standa upp.
Ég leit á menningarmafíu Akureyrar og
svo á þjónustustúlkuna, svo aftur á
menningarmafíuna, hún var ekki
árennileg. En mig langaði í bjór, ég
pantaði einn stóran og settist með hann
við borð nálægt menningarmafíunni.
Sérstakt samband er milli ókunnugra
sem finnst að þeir eigi að þekkjast en
þekkjast þó ekki. Fólk sem er samferða
í strætisvagni daglega kinkar kolli hvað
til annars en engin ástæða er þó til að
rjúfa þögnina sem á milli þess ríkir.
Það þekkist en þó ekki. Það ímyndar
sér allskonar vitleysu hvað um annað,
jákvæða og neikvæða, og orðin sem
gætu byggt brýr eru ekki félagslega
heimil, ekki í íslenskum strætisvögnum.
Eða segjum söguna af manninum á
bílnum sem sprakk undir á þjóðveg-
inum og hafði engan tjakk. Hann ákvað
að ganga að næsta bæ og biðja um
tjakk að láni; en á leiðinni fór hann að
hugsa að kannski ætti bóndinn ekki
tjakk eða það sem verra væri, hann
ætti tjakk en vildi ekki lána hann. Um
þetta hugsaði hann sífellt meira á leið-
inni og svo var komið í þankagangi
hans þegar hann knúði dyra á bænum
að hann hrópaði formálalaust að bónd-
anum: „Þú getur bara átt þinn helvítis
tjakk sjálfur!“
Líklega höfum við hugsað eitthvað
svipað hvor um sig, ég og menningar-
mafía Akureyrar. Að hitt gæti átt sinn
helvítis tjakk. Í mannshugann er inn-
byggð tortryggni sem er forsenda þess
að maðurinn lifi af. Hann eigrar um völ-
undarhús og bíður þess að ærast þegar
hann lítur sitt Mínotárskrímsli. Þó fór
það raunar svo að þegar ég hafði lesið
blaðið og fengið mér annan bjór hóaði
menningarmafía Akureyrar á mig og
spurði hvort ég vildi ekki setjast hjá
sér. Ég gerði það og spjallaði við þessa
menn sem ég man satt að segja ekki
hvað heita. Þeir áttu með mér sameig-
inlega einskonar útþrá. Við töluðum um
bókmenntir og um leið og ég nefndi í
einhverju samhengi að ég þekkti Sigfús
Bjartmarsson hafði ég lagt fram mitt
salvaconducto, mitt lausnarbréf sem
gerði mér alla vegi færa. Það var gam-
an að tala við þessa menn, þeir voru
skemmtilegir og lausir við allt froðu-
snakk, er ekki eins og landsbyggðin
gefi persónuleikanum meira rými? Áður
en ég vissi af hafði ég drukkið ansi
marga bjóra og var leiddur yfir götuna
í partý því kaffihúsinu var lokað eins og
gerist með kaffihús. Allavega var allt í
drasli handan götunnar og einhver setti
í gang segulband með Dylan, það var
boðið upp á meiri bjór, einn mannanna
hafði unnið árum saman í vita, annar
flutti ljóð eftir sig, ég man það ekki efn-
islega en andblærinn var ógleyman-
legur, það fjallaði um veðrið. Mikið
fjandi var þetta gaman!
Ég gæti látið mér koma til hugar að
þessi litla saga væri dæmisaga og kaffi-
húsið tákn um íslenska menningu. Væru
þá ekki skilaboðin eitthvað á þá leið að-
komumanni fari betur að fitja ekki upp
á trýnið og arka út í hríðina með latte
to go heldur fá sér bjór og slappa að-
eins af?
Froðubjór
Eftir Hermann
Stefánsson
hermannstefans-
son@yahoo.com
Það er aðeins einn fjölmiðill á Íslandinógu framsækinn til að skilja gildiþess að halda úti sérstakri síðu helg-aðri kóngafólki. Í „Díönu og dregl-
inum“ fá lesendur DV vikulegar fréttir af
sorgum og sigrum konungborinna um víða
veröld. Við lesum að Zara Phillips sé ekki trú-
lofuð, en það sé aftur á móti Sayako prinsessa
Japana, að Camillu Parker-
Bowles sé enn úthýst, en að
Mary krónprinsessa Dana
standi sig með prýði (DV,
23.3.). Eflaust er tilgang-
urinn að baki þessu sá að beina augum ís-
lenskrar alþýðu að glæstum fyrirmyndum ut-
an landsteinanna. Við Íslendingar eigum
okkar stjörnur og fágað yfirstéttarfólk, en af
tilkomumikilli reisn erlendra fyrirmanna má
alltaf mikið læra eins og blaðamennirnir á DV
hafa löngum vitað.
Þó eru blikur á lofti. Allir vissu að skarð Ill-
uga Jökulssonar ritstjóra, sem lét af störfum
fyrr á þessu ári, yrði seint fyllt og að vanda
yrði til valsins. Blaðið þurfti framsækinn hug-
myndafræðing sem hefði hugrekki til að hrista
upp í íslenskri blaðamennsku og leiða inn eitt-
hvað nýtt og ferskt. Hinn nýráðni ritstjóri
blaðsins, Jónas Kristjánsson, hefur ítrekað
lýst því yfir að honum líki vel við djarfan og
frumlegan samfélagsskilning blaðsins sem sé í
anda þess sem tíðkaðist hjá bresku götupress-
unni á árunum eftir síðari heimsstyrjöld þegar
hann var ennþá ungur.
Eins og áður sagði eru blikur á lofti því að
margt bendir til þess að blaðamennirnir á DV
muni í framtíðinni líta íslenska yfirstétt krít-
ískari augum en venja er hér á landi. Í leiðara
blaðsins frá 22. mars segir ritstjórinn nýi, Jón-
as Kristjánsson, gamlar siðareglur blaða-
manna tilheyra niðurlægingartíma stétt-
arinnar. Á þessum áratugum vildi
blaðamannastéttin að mati Jónasar „vera
memm með yfirstéttinni, hélt pressuböll með
yfirstéttinni og skoðaði sjálfsmynd sína í
spegli yfirstéttarinnar. Hún hafði veika sjálfs-
mynd og setti sér siðareglur til að njóta álits
yfirstéttarinnar“. Af Jónasi má ráða að þetta
sé nú liðin tíð á DV og að dreglinum verði nú
kippt undan Díönum þessa heims hvenær sem
færi gefst. Jónas er hættur að vera memm.
Nú í vikunni lýsti Bergljót Davíðsdóttir
blaðamaður á DV því einnig yfir að hún ætlaði
ekki lengur að vera memm. Í leiðara blaðsins
segir Bergljót ljóta sögu af starfsmanni hjá
Baugi Group sem brást illa við því að vera
myndaður fyrir framan Royal Albert Hall síð-
astliðinn skírdag, en þá héldu Stuðmenn tón-
leika í höllinni. Bergljót segir nýríka samlanda
sína hegða sér eins og „stjörnurnar úti í hinum
stóra heimi“. Þetta fólk hafi skorið upp herör
„gegn fólki með myndavélar“ í krafti skjót-
fengins gróða, en svona láti bara „litlir karlar,
sem halda að þeir séu stórir“ (DV, 29.3.).
Bergljót er búin að fá nóg af drambi íslenskrar
auðstéttar. Þó er henni einnig hlátur í huga:
„okkur þykir þetta innilega hallærislegt og við
hlæjum að nýríka þotuliðinu í London. Enn
meira hlæjum við að litlu köllunum sem halda
að þeir tilheyri hópnum vegna þess að þeir eru
í vinnu í London hjá þeim nýríku. Það er
aumkunarvert að fylgjast með þessum litlu
gæjum.“ Lokaorðin í pistli Bergljótar eru
óvenjuþung og gefa til kynna að breytingar
séu í vændum á blaðinu: „Það hefur aldrei þótt
fínt að berast á. Og það þykir heldur ekki fínt
að vera nýríkur. Það eru aðeins þeir sem ekk-
ert annað hafa til unnið en að eiga peninga
sem svona hegða sér. Þeir eru aðhlátursefni
venjulegra Íslendinga.“
Eitthvað vantar á að þessi nýja ritstjórn-
arstefna hafi verið kynnt á DV því að þar eru
blaðamennirnir ennþá memm sem aldrei fyrr.
Aðeins páskablað DV kom út dagana milli leið-
aranna tveggja, og þar er þjóðin upplýst um að
„ríkasta barn Íslands“ hafði fæðst á sjúkra-
húsi í miðborg Lundúna. „ÞAÐ VAR STRÁK-
UR!“ segir og undirfyrirsögnin hljóðar svo:
„16 merkur og á ekki að heita Björgólfur“.
Vangaveltur um nafn litla drengsins halda svo
áfram á forsíðunni: „Ekki hefur enn verið
ákveðið hvað drengurinn á að heita nema allir
virðast sammála um það eitt að skýra hann
ekki Björgólf. Hitt er líklegra að nafnið verði
sótt í móðurfjölskylduna og gæti hann þá heit-
ið Ólafur Thor.“ Inni í sjálfu blaðinu er svo
opnuumfjöllun um fæðinguna þar sem ættir
snáðans eru raktar og hugað að auðæfum
hans. Annars staðar í blaðinu er svo tveggja
síðna „DV Nærmynd“ í svipuðum stíl, en hún
fjallar um Hreiðar Má Sigurðsson forstjóra
KB banka. Hreiðar fær þau einkunnarorð að
vera „yndislegur pabbi og milljarðamær-
ingur“. Svona stéttabundin sléttmæli benda
ekki til þess að menn séu hættir að vera
memm.
Ég gæti leitað skýringa á þessum augljósu
þversögnum blaðsins í því að samfélagskrítík-
in á DV risti grunnt, og að þarna séu tækifær-
issinnar við stjórnvölinn sem ýmist lofi eða
lasti eftir því hvað henti hverju sinni. En sú
niðurstaða skilar ansi takmörkuðum skilningi
ef greina á dagblað sem segist taka þjóðfélags-
málin til raunverulegrar umræðu. Ég hef áður
rakið þær hugmyndir sem bandaríski menn-
ingarfræðingurinn Mark Edmundson setur
fram í bók sinni Nightmare on Main Street, en
hann segir bandaríska nútímamenningu ala á
ótta við vald, um leið og allt í fjölmiðlunum
snúist um þær stjörnur sem hæst hafa náð –
valdamestu, ríkustu og frægustu einstak-
lingana. Þeir sem temja sér þessa nútímalegu
veruleikasýn þurfa á glamúr að halda, en um
leið hljóta þeir að vantreysta áhuganum sem
nærir þá. Edmundson segir þessa einstaklinga
á róttækan hátt klofna í viðhorfi sínu til valds-
ins.
Þessi þversagnakennda hugsun um auð,
frægð og völd kemur ekki síst fram í orðum
Bergljótar Davíðsdóttur sem gerir grín að
brenglaðri veruleikasýn nýríkra Íslendinga
sem haga sér eins og þeir séu stjörnur sjái þeir
ljósmyndara nálgast. Í blaðinu þar sem leiðari
Bergljótar birtist voru 3 fréttir um tónleikana
á jafnmörgum síðum, skreyttar 28 ljós-
myndum. Daginn eftir birtust 6 fréttir af tón-
leikunum með 7 myndum. Á niðurlæging-
artímum íslenskrar blaðamennsku hefðu
flestar myndirnar verið af hljómsveitinni.
Myndirnar í DV voru nær allar af gestunum.
Er nema von að menn ruglist svolítið í ríminu?
Niður með auðvaldið!
’Af Jónasi má ráða að þetta sé nú liðin tíð á DV og aðdreglinum verði nú kippt undan Díönum þessa heims
hvenær sem færi gefst. Jónas er hættur að vera memm.‘
I Í grein Hildar Halldórsdóttur um H.C.Andersen í Lesbók í dag er imprað á rit-
dómi Gríms Thomsens frá 1855 um danska
ævintýraskáldið. Andersen segir í ævisögu
sinni Mit Livs Eventyr að ritdómurinn hefði
verið fyrsta viðurkenningin sem hann fékk í
Danmörku sem mikið skáld en þar væri
fjallað um verk hans eins
og gert væri í Þýskalandi
og Englandi. Þessi yfirlýsing Andersens
hefur í gegnum tíðina farið nokkuð fyrir
brjóstið á Dönum en þá sögu rekur Kristján
Jóhann Jónsson í grein sem birtist í Hrafna-
þingi, ársriti íslenskukennara við Kenn-
araháskólann, í fyrra.
II Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður skrifaðigrein árið 1898 þar sem hann hélt því
fram að Grímur hefði kennt Dönum að meta
H.C. Andersen og Richard Beck prófessor í
Kanada tók í sama streng í bók um íslensk
skáld árið 1950. Steingrímur J. Þorsteinsson
prófessor í bókmenntum við Háskóla Ís-
lands taldi hins vegar að Danir hefðu ekki
þurft neina hjálp við að skilja Andersen og
Daninn Martin Larsen fyrrverandi lektor
við Háskólann taldi fráleitt að Íslendingar
hefðu kennt Dönum að lesa Andersen.
Larsen taldi að ekkert hefði verið að marka
það sem Andersen sagði um dræmar und-
irtektir við verk sín í Danmörku, þeim hefði
víst verið vel tekið. Kristján Jóhann segir í
grein sinni að allt fram á þessa daga telji
Danir ekki að grein Gríms kunni að hafa
haft raunverulegt gildi í huga Andersens.
III Kristján Jóhann kemst hins vegar aðþeirri niðurstöðu að líklega hafi rit-
dómur Gríms haft talsverða merkingu í aug-
um Andersens. Vafalaust hafi Andersen not-
ið nokkurrar hylli meðal almennings en í
ritdómi Gríms hafi falist viðurkenning
menntamanna. Andersen vildi vera við-
urkenndur sem snillingur eða útvalið skáld
og þá viðurkenningu veitti Grímur honum.
Andersen og Grímur höfðu sama rómantíska
skilninginn á hlutverki skáldsins, segir
Kristján Jóhann: „Sá snillingur sem Grímur
lýsir í grein sinni er sá snillingur sem H.C.
Andersen vildi vera.“ Með rómantískri hugs-
un sinni telur Kristján Jóhann að þeir And-
ersen og Grímur varpi ljósi hvor á annan og
þess vegna verði að virða grein Gríms.
IV En grein Gríms er gleymd í Dan-mörku. Þar er enn fjallað um viðtökur
H.C. Andersens án þess að minnast á hana.
Kristján Jóhann bendir þó á að í nýrri ævi-
sögu um skáldið, Hans Christian Andersen,
The Life of a Storyteller eftir Bretann Jack-
ie Wullshclager (2001), sé sagt frá því að
það hafi þurft íslenskan rithöfund, Grím
Thomsen, til þess að skrifa fyrstu viðamiklu
fræðigreinina um ritstörf Andersens. Þar er
samt ekki skoðað hvað Grímur hafði í raun
að segja um Andersen. Það er auðvitað svo-
lítið fyndið að Danir skuli enn ekki vera
búnir að jafna sig á þessu með glöggskyggni
Gríms en, eins og Kristján Jóhann bendir á,
þá skiptir kannski meira máli hvað það var í
ritdómi Gríms sem kveikti svona í And-
ersen.
Neðanmáls
Í tilviki „Grasaferðar“ má með góðum vilja leggja táknræna merkingu í þá iðju að tína
fjallagrös, álykta sem svo að hún sé að einhverju leyti hliðstæð við starf rithöfundarins. Í
ljósi annarra hliðstæðna milli höfundarins og hins unga sögumanns er athyglisvert að ár-
angur af starfi hans á grasafjallinu veltur á Hildi. Hún saumar meðal annars fyrir peysu
drengsins til að flíkin gagnist undir grös þegar grasapokarnir eru orðnir fullir. Helga
Kress varpar skemmtilegu ljósi á þetta samband frændsystkinanna sem skiptast stöð-
ugt á um að vera í hlutverki gefanda og þiggjanda, höfundar og viðtakanda. Enda þótt
Hildur segi skömmustulega að það hafi aldrei þótt prýði á kvenfólki að fást við skáldskap
þá er hún ótvírætt í hlutverki skáldskapargyðjunnar í sögunni.
Dällenbach bendir á að mise en abyme sem endurspegli táknkerfið geti m.a. falið í sér
fagurfræðilega kenningu, deilur um fagurfræði eða manifestó. Lærðar samræður þeirra
Hildar og sögumanns um ólíkar aðferðir við ljóðaþýðingar, í kjölfar fyrsta kvæðisins, eru
skemmtilegt dæmi um þetta en þar eins og oftar leggur Hildur línurnar þegar hún segir
að æskilegast sé að halda bæði bragarhættinum og efninu: „Þegar snúið er í annan brag-
arhátt, fær skáldskapurinn oftast nær annan blæ, þó efnið sé reyndar hið sama; og víst
er að þetta kvæði hefur dofnað, ég veit ekki í hverju; það er nokkurs konar indæl og
barnaleg angurblíða í öllu frumkvæðinu og hennar sakna ég mest hjá þér, frændi minn!
enda tekstu of mikið í fang að reyna þig á öðrum eins skáldskap og þessi er.“
Túlkun „Grasaferðar" með hliðsjón af hugmyndum Dällenbachs er vonandi til þess
fallin að dýpka enn frekar skilning lesenda á þessari mögnuðu og margræðu sögu og
setja hana í nýtt bókmenntasögulegt samhengi. Enn er þó margt óskýrt. Ég hef til dæm-
is enn ekki fengið botn í hvers vegna systirin unga í kvæði drengsins hleypur þegar
hreppstjórinn „finnur hana á förnum vegi“.
Jón Karl Helgason
Kistan www.kistan.is
Mise en abyme
Fjölmiðlar
Eftir Guðna Elísson
gudnieli@hi.is
Morgunblaðið/ÓmarSkarfaþing.