Lesbók Morgunblaðsins - 04.06.2005, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 04.06.2005, Blaðsíða 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. júní 2005 Á seinni hluta 20. aldar fóru heimspekingar og lista- menn að beina sjónum sínum með nýjum hætti að hlutverki náttúrunnar sem uppsprettu verð- mæta – hins góða og hins fagra. Og síðan þá hefur áhugi þeirra á náttúrunni farið sívaxandi. Endurkoma náttúrunnar Hugtakið „náttúra“ var eitt af grundvallar- hugtökum í heimspeki Forn-Grikkja en segja má að á síðari öldum hafi það vikið til hliðar sem heimspekilegt hugtak. Náttúran varð fremur viðfangsefni vísinda og tækni, og þá jafnan sem uppspretta þekkingar eða sem hráefni sem hægt var að umskapa til að bæta mannlegt líf. Á þessu voru að vísu mikils- verðar undantekningar, t.d. fjallaði þýski heimspekingurinn Immanuel Kant um náttúr- una sem uppsprettu fagurfræðilegra upplif- ana og fyrirmynda (paradigm) allrar listsköp- unar. En jafnvel hjá honum var náttúran frekar í hlutverki umgjarðar eða ytri skilyrða en sjálfstæðrar uppsprettu verðmæta. Hugsuðir miðalda lögðu áherslu á tvíeðli náttúrunnar. Adam og Eva voru rekin út úr Paradís, hinum guðdómlega aldingarði út í hina villtu náttúru, þar sem illviljaðir andar og óargadýr bjuggu. Mörk hins ytra og hins innra voru augljós og allsráðandi og blasa enn við í klausturbyggingum og hallargörðum, táknrænni náttúru miðalda sem er bæði tamin og nytsamleg. Skynjun mannsins á hinu illa í náttúrunni, því villta og ógnvekjandi, var Ís- lendingum hins vegar lengi nærtæk, enda var náttúran löngum uppspretta þjáninga frekar en fegurðar og gleði. Með tilkomu fagurfræðinnar á 18. öld gerðu heimspekingar og listamenn tilraun til að skil- greina fegurð náttúrunnar í þríeininguna; hið fagra, háleita og pittoreska, eða myndræna. Hið fagra er sú tilfinning sem vaknar með manninum þegar hann horfir á hið friðsama og harmóníska í umhverfinu, spegilslétt haf, gróin tún og aflíðandi hæðir. Hið háleita er til- finningin sem vaknar þegar horft er á hið stórbrotna í náttúrunni, þverhnípta tinda, úfin hraun, einmanalegt stöðuvatn á heiði eða foss sem fellur fram af hvössum klettum. Breski heimspekingurinn Edmund Burk (1729–97) tengdi hið háleita við „hluti sem eru gríðar- lega stórir, framandlegir og hræðilegir, og vekja upp tilfinningar sem gefa mönnum kraft og lyfta huganum“ (…things that are huge, obscure, or terrible, and arouse feelings that invigorate and elevate the mind… Edmund Burk, Philosophical Enquiry into the Origin of Our Ideas of the Sublime and Beautiful, 1757.) Hið pittoreska, eða myndræna, vísar hins vegar ekki til tilfinningar, heldur til fyrir- myndar sem túlkar það sem er yfirstíganlegt og náið í umhverfinu, eins og fallegt rjóður við bæjarlækinn. Eins og skáldskapurinn er landslagsmál- verkið milliliður sem hefur mótað náttúrusýn flestra með þeim afleiðingum að mörgum reynist erfitt að leggja sjálfstætt fagurfræði- legt mat á náttúruna. Listamenn skópu ímyndir af náttúrunni, túlkuðu tilfinninguna fyrir því háleita í myndum af vatnsföllum, fjallaskörðum og eldfjöllum, gerðu náttúruna að tákni, ýmist í formi myndar eða skrúð- garða. Að baki þessari sýn liggja sögulegar skýringar. Nærtækast er að vísa til þess hvernig íslenskir ljósmyndarar og listmálarar skópu þjóðernislega ímynd af landinu á 20. öld. Íslenska þjóðin þurfti að eiga sér fagur- fræðilega hugmynd um eigið land. Þannig hefur náttúran fyrst og fremst verið metin fagurfræðilega í gegnum milliliði, rit- aðan texta, ljósmyndir og málverk, ýmist í pólitískum tilgangi eða vegna þess notagildis sem hún hefur sem ferðamannastaður. Nátt- úrutúlkun í listum var nánast samstiga þeim áhuga sem hófst á 18. öld fyrir ferðalögum og ferðamennsku. Elstu ferðamannastaðirnir í svissnesku og ítölsku Ölpunum búa einmitt yfir þessum stóru, náttúrulegu fyrirbærum; vatnsföllum, fjallaskörðum og snæviþöktum tindum, sem „vekja upp tilfinningar sem gefa mönnum kraft og lyfta huganum“. Líklega var breski listmálarinn J.M.W. Turner (1775–1851) sá listamaður sem túlkaði náttúruskynjun nútímamannsins á hvað tær- astan hátt með því að stilla saman annars veg- ar þeim náttúrufyrirbærum sem maðurinn ræður ekki við og hins vegar sköpunarverki mannsins, þeirri náttúru sem maðurinn býr til. Þegar hann málar gufuskip í snjóbyl, þá er hann ekki að mála myndefnið „skip í sjávar- háska“. Hann er heldur ekki að mála háleita upplifun sína af óveðri, heldur raunverulega hráa náttúru og þá spennu sem á sér stað á milli hins náttúrulega og hins manngerða. Þannig byggði Turner hugmyndafræðilega brú frá kyrrstæðri fagurfræðilegri skynjun 18. aldar að margbrotinni náttúrunálgun þeirrar tuttugustu. Náttúran sem uppspretta, hráefni, staður og ferli Á tuttugustu öld snerust fagurfræðileg tengsl listamanna við náttúruna um það að nálgast náttúruna, rannsaka sjálfstæð fyrir- bæri hennar og brjóta niður í einingar í stað þess að líkja eftir henni. „Við höfum glatað hæfileikanum til að sjá náttúruna; þess í stað sjáum við endalausar myndir af náttúrunni sem hafa hlaðist upp í huganum,“ skrifaði franski málarinn Cezanne árið 1902, og óskaði þess að geta horft á umhverfið með augum ný- fædds barns. Það varð dagskrá sporgöngu- manna hans, post-impressjónistanna, að reyna að gleyma öllum myndhefðum og reyna að SJÁ náttúruna, horfa á síbreytileik hennar og leysa hana upp í ljós, liti, lykt og hljóð – gera hana nánast að snertanlegri upplifun. Um 1960 urðu þáttarskil í listsköpun á Vesturlöndum þegar nokkrir evrópskir og bandarískir listamenn umturnuðu hefðbundn- um aðferðum og endursköpuðu ríkjandi mód- erníska afstöðu til listsköpunar. Tilraunir þeirra fólust m.a. í einskonar landkönnun á opnu rými náttúru, umhverfis og líkama. Loft og vatn er öllum aðgengilegt og enn var land frjálst til athafna víða í Evrópu. (Bandarískir listamenn urðu reyndar oftast að kaupa eða leigja landið sem þeir unnu á). Sumir þessara listamanna innlimuðu landið í verk sín, notuðu náttúruna sem hráefni, eða gerðu náttúruferli og náttúrufyrirbæri að virkum þáttum verka sem flest voru hverful og jafnvel óaðgengileg áhorfandanum. Listathöfnin, listsköpunin sjálf, samtalið við náttúruna, lýsir sterkri þrá eftir samruna og vilja til að yfirstíga eða end- urskilgreina skilin á milli manns og náttúru. Robert Smithson (1938–1974), einn áhrifa- mesti listamaður síðari hluta 20. aldar, lýsti markmiði sínu þannig: „Ég er fyrir list sem tekur tillit til beinna áhrifa náttúrufyrirbær- anna eins og þau sjálf eru frá degi til dags óháð því hvernig þau birtast. („I am for an art that takes into account the direct effect of the elements as they exist from day to day apart from representation.“) Höfuðverk hans Spiral Jetty (1970) hvarf smátt og smátt í vatn. Fáir List, náttúra og verðmæti Spiral Jetty „Ég er fyrir list sem tekur tillit til beinna áhrifa náttúrufyrirbæranna eins og þau sjálf eru frá degi til dags óháð því hvernig þau birtast“, segir listamaðurinn, Robert Smithson, um verk sitt sem nýverið kom aftur í ljós eftir að hafa verið á kafi í vatninu frá því skömmu eftir að það var skapað. Hreinn Friðfinnsson Verkið Untitled, 1999-2000. Sumir fást við náttúrulega náttúru, og umbreyta henni í verk með mannlegri tækni, aðrir við tilbúna náttúru.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.