Lesbók Morgunblaðsins - 09.07.2005, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 09.07.2005, Blaðsíða 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 9. júlí 2005 G læpasagan hefur alltaf átt hjarta myndasöguhöfundarins Franks Millers. Á rúmlega þrjátíu ára ferli hefur hann skrifað glæpasögur í ýmsu formi, þótt þær ættu lengi ekki upp á pallborðið í heimi myndasögunnar. Um miðjan áttunda áratug síðustu aldar gekk hann árangurslaust milli útgefenda í New York því ofurhetjurnar ríktu þá einar á markaðnum. Út- gefendur höfðu The Comics Code Authority að leiðarljósi – alræmda ritskoðun siðapostula sem hófu nornaveiðar á sjötta áratugnum – svo Miller þurfti krókaleiðir til að vinna úr efninu sem heillaði hann frá barnæsku. Þegar hann blés nýju lífi í myndasöguser- íuna Daredevil: The Man Without Fear undir lok áttunda áratugarins og endurskilgreindi hetjuímynd Batman í bókunum The Dark Knight Returns (1986) og Batman: Year One (1986–1987) lagaði hann ofurhetjuheiminn að áhugasviði sínu og skap- aði nýjan og myrkan heim í anda gömlu vas- areyfaranna sem hann ólst upp við. Í heimi þar sem flestir höfundar hafa lagt áherslu á hið yfirnáttúrulega eða stórkostlega hefur Miller jarðtengt ofurhetjuna við undirheima sam- félagsins og leikið sér með ævintýralegar sög- ur sem eru jafnframt raunsæjar. Undir lok ní- unda áratugarins var hann viðurkenndur sem einn af róttækustu höfundum myndasögu- formsins og fékk loks að skapa sinn eigin heim og sínar eigin ofurhetjur – myrkrið tók við af litríkinu og glæpasagan gekk laus um stræti Basin City. Sin City Fyrsti hluti myndasöguseríunnar Sin City var gefinn út af Dark Horse Comics í þrettán tölu- blöðum árin 1991–1992 sem hluti af safnblöð- unum Dark Horse Presents. Seinasti hluti serí- unnar, Hell and Back: A Sin City Love Story, kom út í níu blöðum árin 1999–2000 en óvíst er hvort serían er liðin undir lok. Í heild sam- anstendur Sin City af sjö bókum – fimm skáld- sögum, einni nóvellu og einu smásagnasafni. Miller skrifar og teiknar með aðstoð Lynn Var- ley sem sér um einstaka liti. Enginn annar kemur að sköpunarferlinu – Miller hefur hér full völd í fyrsta sinn. Serían er teiknuð í svart- hvítu að undanskildum ákveðnum litum sem prýða tilteknar persónur og sjöunda kafla Hell and Back sem er eini full-litaði hluti seríunnar. Forsíður einstakra blaða og bóka eru oftast í lit. Teikningar Millers byggjast alfarið á and- stæðum svartra og hvítra myndflata þar sem engan gráan lit er að finna í seríunni. Miller hefur reynt að draga úr notkun línuteikninga og byggir myndir sínar þess í stað upp með svörtum blekflötum á hvítum grunni (eða öf- ugt). Hann vinnur mikið með negatíft rými til að gefa hugverkum sínum myndræna dýpt og lætur persónur og hluti gjarnan mótast af sam- spili ljóss og skugga. Myndefnið kemur því oft fram sem skuggamyndir á andstæðum litfleti eða sem dökkar útlínumyndir. Persónur renna saman við bakgrunninn og hverfa inn í myrkrið og hluti myndefnis getur auðveldlega staðið fyrir heildina þar sem lesendum gefst tækifæri á að fylla í eyðurnar. Notkun Millers á svart-hvítum andstæðum er áhugaverð í ljósi þess að því fer fjarri að hægt sé að skipta persónum Sin City í tvo jafn- ólíka flokka – þvert á móti er ein af aðal- áherslum bókaflokksins sú hversu gráar þær eru í raun. Hetjur Miller eru iðulega mestu ruddar og óþjóðalýður sem gætu rétt eins passað í hlutverk illmennis samkvæmt siðferð- islegum stöðlum samfélagsins og lesandi fær jafnvel á tilfinninguna að sagan sem verið er að segja sé aðeins stutt tímabil hjá hetjunni þar sem hún hagar sér sem göfugmenni í annars skuggalegu ævistarfi. Allir eiga beinagrindur í skápnum – sumir fleiri en aðrir – en engu að síður má finna nokkur skýr atriði sem greina á milli hetjunnar og illmennisins og tengjast hugmyndum um vináttu, trúfestu og heiðar- leika. Ruddalegar glæpasögur Sin City geymir hreinræktaðar glæpasögur sem snúast allar að einhverju leyti um morð. Þó ekki í hefðbundnum skilningi morðsögunn- ar eða „hver-gerði-það-gátunnar“. Lesendur Sin City taka ekki þátt í rannsókn aðalpersón- unnar á morðgátu eða reyna að finna út hver framdi ódæðisverkið heldur fylgja þeir aðal- persónunni á grýttum vegi hefndarinnar þar sem takmarkið er að finna illmennið sem trón- ar efst í valdapýramídanum og geldur fyrir á sem hryllilegastan hátt. Þannig sver Miller sig frekar í ætt við harðsuðuskáldskap Raymonds Chandlers, Dashiells Hammetts og Mickeys Spillanes en morðgátur Agöthu Christie. Per- sónur lenda oftast óviljandi í vandræðum og færast vélrænt áfram eftir því sem fléttan hleð- ur ofan á sig þar til lausnin er fundin – sem fel- ur gjarnan í sér dauða aðalpersónunnar í anda gömlu „noir“-kvikmyndanna. Þessar ruddalegu sögur eiga sér allar stað í ímyndaðri borg nútímans, Basin City, og ger- ast á sama tíma og myndasögublöðin voru gef- in út, ef marka má ýmsar menningarlegar til- vísanir í tíunda áratuginn. Engu að síður er sögusvið borgarinnar nokkurs konar hliðstæð- ur veruleiki við heim lesenda og á sinn hátt tímalaus vegna órjúfanlegra tengsla við fimmta og sjötta áratug tuttugustu aldar. Fantasía Millers er ekki tengd yfirnáttúruleg- um eða vísindaskáldsögulegum þáttum heldur rótgróin raunveruleikanum. Miller blandar hefðbundnum þáttum glæpasögunnar og glæpakvikmyndar miðrar síðustu aldar við samtímaveruleika myndasöguseríunnar – hetj- Eftir Gunnar Theodór Eggertsson gthe@hi.is Sin City. Rodriguez gerir kvikmyndina að myndasögu: Hartigan situr bak við lás og slá í That Yellow Bastard. Myndirnar sýna upprunalegan mynd- ramma úr bók Millers og endurskapaðan ramma kvikmyndauppfærslunnar. Kvikmyndin Sin City er á hvíta tjaldinu um þessar mundir, var frumsýnd fyrir tveimur dögum. Höfundur teiknimyndasaganna sem kvikmyndin byggist á ætlaði sér aldrei að leyfa kvikmyndun á þeim, en lét undan þrá- beiðni leikstjórans Roberts Rodriguez, sem sannfærði hann um að markmiðið væri alls ekki að gera myndasögurnar að kvikmynd – heldur að gera kvikmyndina að myndasögu. Greinarhöfundur segir hér frá tilurð bæði teiknimyndasögunnar og kvikmyndarinnar. Skuggamyndir í svart-hvítri veröld

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.