Lesbók Morgunblaðsins - 09.07.2005, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 09.07.2005, Blaðsíða 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 9. júlí 2005 ! Ég hitti Lou Reed í Genúa fyrir réttu ári. Hann var mættur með fríðu föruneyti á Alþjóðlegu ljóðahátíðina í Genúa en borgin var þá menn- ingarborg Evrópu – eins og Reykjavík hér um árið. Nema hvað, Lou Reed var manna leiðinlegastur á þessari hátíð, og er þá ekki endilega átt við upplestur hans heldur framkomu almennt og viðmót. Til dæmis: Herra Reed var sóttur í loftkældri límósínu til Mílanó og á miðri leið hringdi aðstoðarkona hans í hátíðarhaldara með eftirfarandi kröfur: Við komuna vill Lou Reed fá aðgang að sundlaug, líkams- ræktarsal og nudd- ara og á hótelher- berginu skal vera til reiðu rjúkandi kvöldmatur og Monte Carlo-vindill. Allt fór í panikk í herbúðum skipu- leggjanda, á miðborgarhótelinu dýra sem pantað hafði verið fyrir hinn fræga gest var engin sundlaug og því síður nuddari. Kölluð var út ung nuddkona, sem skömmu síðar gekk titrandi um gólf í lobbýinu meðan hún beið komu Reeds, tuldraði að hún hefði aldrei nuddað svo frægan mann og vinir hennar ítrekuðu hughreystandi: Hey! Ímyndaðu þér að hann heiti John Smith! John Smith! Ég flæktist inn í þennan undirbúning því ég tók að mér að hlaupa út í tób- aksbúð með hátíðarhöldurum og kaupa Monte Carlo-vindilinn. Hvaða stærð? spurði karlinn í búðinni og það höfðum við ekki hugmynd um. Glatað að klikka á smáatriðum. Úff. Ekki tók betra við í leikhúsinu, sem fylltist af fólki þótt Lou Reed væri ekki mættur með hljómsveit til þess að spila, heldur einn með ljóðabók sína, The Raven, til upplestrar. Hann harð- bannaði allar myndatökur og tilkynnti: Ef ég sé svo mikið sem eitt leifturljós geng ég út! Og honum var trúandi til þess eftir fúllynda byrjunina. Vildi heldur ekki snæða með okkur hinum hátíðarupplesurunum á veitingahúsi Napóleons, settist alltaf við sérborð. Gott og vel, frægari en við, ókei. En að hátíðarhaldarar þyrftu að skrópa á marga af viðburðum sinnar eigin hátíð- ar, til þess að redda fáránlegum hlutum fyrir Lou Reed, var bara einum of. Ég meina, þetta var ljóðahátíð – óþarfi að hjakka svona í rokkmýtunni. Mér finnst Perfect Day víðáttufallegt lag, mér finnst Lou Reed syngja Sweet Jane fantavel, mér fannst hann skemmtilegastur karaktera í Blue in the Face … ég vildi að ég hefði ekki hitt hann í Genúa og þurft að kaupa handa honum tilgerðarlegan vindil. Nei, menn skyldu ekki halda að snill- ingar á listrænu sviði séu alltaf stór- brotnir persónuleikar. Sumir eru meira að segja fífl, segja mér kunnugir í þess- um bransa. Vinur minn tók einu sinni viðtal við Thom Yorke, sem ber uppi hina mögnuðu sveit Radiohead, og sagðist aldrei hafa orðið fyrir viðlíka vonbrigðum. Og þið sjáið hvað Michael Jackson virðist eitthvað rislágur miðað við töfrum slungnar tónsmíðarnar. Menn skyldu fara varlega með sama- semmerkin. Þeir skyldu jafnvel vara sig á því að fullyrða að allar kven- persónur í samtímalögum Bubba Morthens heiti Brynja. Kannski er hann stundum að syngja um ástina sjálfa, stundum allar konur, stundum um móður sína, frænkur eða minn- ingar. Maður veit aldrei. Ljóðmæland- inn er ekki endilega ljóðskáldið sjálft. Ójá. Þetta heitir á fræðimáli að hafna ævisögulegri greiningu, þetta heitir strúktúralismi, þetta heitir póststrúkt- úralismi, höfundurinn er dauður þótt hann lifi. Ég veit ekki hvað þetta heitir. Ég veit bara að Lou Reed hélt fína tón- leika í Laugardalshöll mánuði síðar og mér skilst að þá daga hafi hann verið hvers manns hugljúfi. En í Genúa … æi, úti í Genúa. Alveg glataður snillingur Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is Fyrstu fréttir sem gáfu raunsæjamynd af hryllingi stríðsátaka ogbárust almenningi fyrir tilstilli fjöl-miðla voru í formi fréttaljósmynda af borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum og frá Krímstríðinu. Þá fékk fólk í fyrsta sinn myndir af hryllingi vígvallarins heim í stofu til sín. Talsverð fjarlægð var þó á milli lesenda þess efnis og sjálfra atburðanna, ekki síst vegna þess að töluvert langur tími var liðinn frá því at- burðirnir áttu sér stað. Allt frá þeim tíma hefur fréttaflutningur af átök- um, ófriði og stríðsrekstri verið drjúgur þáttur í áhrifamesta fréttaflutningi fjölmiðla; stríðs- fréttaritarar og -ljósmyndarar hafa fært fólki heim sanninn um það með óyggjandi hætti hversu átakanlegur heimurinn er þar sem slíkar kringumstæður ríkja. Óttinn, umkomu- leysið og hryllingurinn sem umlykur fólk í að- stæðum þar sem vegið er að lífi þess og heims- mynd er því nokkuð sem allir þekkja í dag – jafnvel þótt þeir hafi aldrei verið í slíkum spor- um sjálfir. Næstu tímamót í flutningi fjölmiðla á stríðs- fréttum er Víetnamstríðið. Það var það stríð sem fyrst bar fyrir augu almennings á dag- legum grundvelli í gegnum sjónvörpin á heim- ilunum. Vegna þess hversu fréttirnar bárust fljótt gat fólk samsamað sig ákveðnum mál- stað, hugsjónum og lífsgildum í daglegri fram- vindu fréttanna. Heimurinn skiptist í tvennt eftir því með hverjum var haldið og í þeim skilningi náði styrjöldin langt út fyrir landa- mæri Víetnam – áróðursstríðið var háð um heim allan. Auðvelt er að líta svo á að þriðju tímamótin á þessu sviði hafi verið árásirnar á tvíbur- aturnana í New York 11. september 2001. Þá fylgdist heimurinn – í það minnsta hinn tækni- væddi heimur – með því í beinni útsendingu er ráðist var á eina mestu stórborg veraldar- innar. Sú reynsla lét engan ósnortinn. Áróð- ursstríðið sem fylgdi í kjölfarið varð þó enn og aftur til þess að skipta heiminum í tvennt og skapa gríðarlega spennu meðal Vestur- landabúa og þeirra í heimi múslima sem hugs- anlega gætu talist óvinir þeirra. Undanfarnir tveir dagar hafa enn og aftur skekið heimsbyggðina. Áhrifin af árásunum sem gerðar voru í Lundúnum sl. fimmtudag eru gríðarleg og þáttur fölmiðlanna er stór á slíkum stundum. Kraftur fjölmiðlanna færir ókunnugt fólk nær hvert öðru; allir líta upp úr sínum persónulega heimi til að taka þátt í ör- lögum annarra að svo miklu leyti sem það er hægt úr fjarlægð. Heimsbyggðin leggur ágreining um „smáatriði“ til hliðar og þjappar sér saman í garði nágrannans til að deila hlut- skipti hans þegar á reynir. Á slíkum stundum gegna fjölmiðlar göfugu hlutverki; þeir skipta máli og enginn getur án þeirra verið. Þegar athyglin sem fjölmiðlarnir fá á slíkum stundum er jafn óskipt og hún hefur verið á síðustu árum er meðalvegurinn vandrataður. Engu má skeika til þess að fréttaflutningur sem veldur samstöðu og samhygð á yfirborð- inu verki ekki þannig á stóran hluta heimsins að hann upplifi hatur og heift. Á tímum sem eru jafn alvarlegir og þeir sem heimurinn hef- ur verið að upplifa undanfarna tvo sólarhringa eru alhæfingar óneitanlega áhrifaríkt tæki til þess að vekja athygli heimsins á örlögum fórn- arlambanna sem einstaklinga. En þær eru einnig ótrúlega árangursríkt tæki til að má út einstaklingseinkenni þeirra sem bera raun- verulega sök þannig að allir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi og þeir, sömu trúarbrögðum eða sama þjóðerni séu gerðir tortryggilegir. Á stundum eins og þessum verða fjölmiðlar að axla þá ábyrgð er fylgir áhrifamætti þeirra með því að kynda ekki undir hatri og hleypi- dómum. Í fréttaskýringarþætti sem undirrituð hlustaði á í BBC-útvarpinu sl. fimmtudag var aldraður maður spurður hvort hann teldi að Lundúnaborg myndi breytast í kjölfar þessar árása – hvort árásirnar yrðu til þess að stía annars tiltölulega samstíga brotum fjölmenn- ingarsamfélags Bretlands í sundur. Hann benti á að Lundúnir hefðu orðið fyrir sprengjuárásum reglulega í hálfa öld. Fyrst frá hendi Þjóðverja og síðan um þrjátíu ára skeið af völdum írska lýðveldishersins. Í þau þrjátíu ár hefði fæstum Lundúnabúum dottið í hug að hata alla Íra eða líta með óvild til írskra nágranna sinna; þeir vissu sem var að hryðju- verkamennirnir voru einstaklingar sem töluðu ekki fyrir munn alls fjöldans. Hann lauk orð- um sínum á þeirri áminningu að þannig væri því einnig farið nú. Samstaða og samhygð eða heift og hatur ’Á stundum eins og þessum verða fjölmiðlar að axla þáábyrgð er fylgir áhrifamætti þeirra með því að kynda ekki undir hatri og hleypidómum‘ Eftir Fríðu Björk Ingvarsdóttur fbi@mbl.is I Það er ekkert nýtt að einn miðill taki á sigmynd annars í listum. Sú þróun hefur verið ein birtingarmynda samtímans í nokkra ára- tugi, en vekur alltaf þegar vel til tekst jafn mikla eftirtekt. Þannig er því einmitt farið með kvikmyndagerð teiknimyndasögunnar Sin City, sem sagt er frá í Lesbók í dag. Í grein Gunnars Theo- dórs Eggertssonar kemur fram að ólíkt því sem yfirleitt er þegar bækur eru færðar í búning kvikmyndanna og sniðnar að lög- málum kvikmyndaheimsins, þá vildi leikstjór- inn í þessu tilfelli, Robert Rodriguez, heim- færa lögmál teiknimyndasagna yfir á kvikmyndamiðilinn. Margir telja að hér sé brotið blað í listrænum skilningi, því oft á tíð- um hafa kvikmyndir sem gerðar eru upp úr teiknimyndasögum misst marks sem slíkar og einungis orðið að útvötnuðu Hollywood- drama þar sem búningarnir mynda helstu tengslin við upprunalegu söguna. II Einn helsti frumkvöðull kvikmyndasög-unnar, Orson Welles, er einnig til umfjöll- unar í Lesbók í dag, en hann gerði þá ógleymanlegu mynd Borgari Kane, sem er án efa eitthvert helsta stórviki kvikmyndasög- unnar. Ný bók um líf hans og verk leiðir að því líkur að höfundarverk hans hafi ekki fengið að standa eins og hann ætlaði því. Hugmyndir hans þóttu m.ö.o. ekki nægilega söluvænar – sem í dag mætti túlka sem svo að áhorfendum hafi ekki verið treyst nægi- lega vel – og því var hugmyndafræði Welles þröngvað í stakk sem hann hafði ekki valið sjálfur. Umræða um helstu jöfra kvikmynda- sögunnar og endurmat á verkum þeirra er auðvitað mikilvægt; því þótt kvikmyndir eigi sér tiltölulega stutta hefð í sögunni miðað við flest önnur listform hafa þær haft gríðarleg áhrif á heimsmenninguna. Lestur sumra skáldverka er til að mynda með þeim hætti að augljóst er að þau hefðu aldrei getað verið skrifuð áður en kvikmyndin kom til sögunnar, kröfurnar til lesenda eru með þess eðlis. Það má velta því fyrir sér upp að hvaða marki upplifun lesenda við lestur á textum er háð þekkingu þeirra á öðrum miðlum en bók- menntunum sjálfum – án þess að þeir geri sér grein fyrir því. III Í ljósi þess hversu kvikmyndir eru stór-kostlegur miðill er ekki nema rökrétt að spyrja af hverju svo lítið ratar hingað til lands af bitastæðum myndum nema þegar kvikmyndahátíðir eru í gangi? Sumartíminn er eins og eyðimörk hvað þetta varðar – þótt nú megi auðvitað bregða sér á Sin City eða Fullorðnar manneskjur Dags Kára – og vand- séð hverju það sætir. Er ekki fólk að leita sér að afþreyingu á sumrin líkt og yfir vetrartím- ann? Neðanmáls Við horfum á heiminn, m.a. í gegnum fréttaljósmyndir. Viðhöfum ekki tækifæri til þess að berja ástandið augum sjálfen höfum hugmyndir um það. „Við“ erum hér, með blaðið í fanginu eða skjáinn fyrir augunum – „þau“ eru þarna hinum meg- in, í hringiðu átaka, hörmunga og heimurinn er vondur þá stundina og „við“ erum fegin að vera okkar megin. Fréttamyndir móta skilning okkar. Þær eru ómótuð afstaða þar til fréttin sjálf myndar samhengi þeirra. „Narratives can make us understand. Photo- graphs do something else: they haunt us,“ skrifar Susan Sontag. Ljósmyndir geta samt haft meiri áhrifamátt en orð, aðstæður eru síður véfengdar. Þess vegna voru myndirnar úr Abu Ghraib áhrifa- meiri heldur en orðrómur um misbeitingu valds. Og myndirnar hverfa ekki, þær svífa fyrir hugsskotssjónum okkar þegar þær hafa á annað borð öðlast gildi. Að baki þeim býr einnig grunurinn um það sem aldrei var fest á filmu eða minniskubb, ósögðu sög- urnar. Sú skaddaða ímynd sem fólk hefur nú af framkomu banda- rískra hermanna er ekki hvað síst lituð af því sem gæti hafa gerst fremur en því sem raunverulega hefur fengist staðfest eða fólk hefur verið dæmt fyrir. Líkt og minningar kallast ljósmyndir á og samtíminn sem hefur sínar flæðandi tilhneigingar grundvallar einhvern sameiginlegan skilning á þeim myndum sem birtast í blöðum og tímaritum. Sum- ar myndir eru kunnuglegri en aðrar. Sem dæmi um slíkar eru myndirnar sem birtar eru frá Afríku. Kynslóðin mín sem ólst upp við fréttir af hungursneyð í Eþíópíu hefur líklega enn steríótýpíska hugmynd um heimsálfuna Afríku, m.a. vegna þess að fréttaflutn- ingur þaðan er mjög einsleitur. Kannski svipar ástandinu til þess þegar Bandaríkjamenn tala um að ferðast til Evrópu. Núna sveima þessar myndir af þjáningu barnanna í Afríku aftur fyrir hugskots- sjónum mínum. Það á aftur að rokka fyrir Afríku, Live 8 er um helgina en myndirnar af sveltandi börnunum með flugurnar í aug- unum ásækja mig aftur. Ég vil ekki gera lítið úr þjáningu barnanna í Afríku, en verndartollar og spilltir ráðamenn myndast ekki jafn vel og börn. Kristrún Heiða Hauksdóttir kistan.is Fréttir og fréttamyndir Morgunblaðið/Jim Smart Í sundi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.