Lesbók Morgunblaðsins - 06.08.2005, Síða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 06.08.2005, Síða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 6. ágúst 2005 | 5 menn hamingjusama? Matthías Jochumsson spurði í ljóði sínu Söngtöfrar: Hvað ertu tónlist? Hann var ekki sá eini til að spyrja þessarar spurningar og svörin eru orðin æði mörg. Árni Kristjánsson píanóleikari sagði t.d. að tónlistin lýsti „…ekki atburðum og orðnum hlutum. Hún er „skáldskapur loftsins“, líf, án efnis, ævarandi. Hún byggist á fjarstæðum, – ekki veruleika.“ Á svipuðum nótum var Victor Hugo, sem hélt því fram að tónlistin væri um eitthvað sem ekki væri hægt að segja með orðum, en væri heldur ekki hægt að þegja yfir. Tilgangslausar útskýringar Sum tónlist er þó að mínu mati óttalega merkingarlaus. Sí- byljumúsík á borð við megnið af ruslinu í Evró- visjónkeppninni, sem samanstendur af heilalausum end- urtekningum og klisjum, er í þeim flokki. Önnur tónlist, svo sem Hammerklaviersónata Beethovens, Es-dúr píanótríó Schuberts, A-dúr fiðlusónata Brahms, sellósónata Rachm- aninoffs eða Serena Leifs Þórarinssonar, er hinsvegar ávallt fersk og er manni stöðug opinberun. Þar er eitthvað sem er þrungið meiningu, anda og lífi, en samt er ómögulegt að út- skýra hvað það er. Og allar tilraunir til þess eru yfirleitt fáránlegar. Eins og það sem stundum er að finna í tónleikaskrám, eitthvað á þessa leið: „Tónverkið hefst á dramatískum bjölluhljómum sem mynda leiðslustef í gegnum verkið, umvafið stormum fiðlanna og þrumum slagverksins. Grátur óbósins í miðkafla verksins lýsir þeim sálarkvölum sem tónskáldið var í og áleitnar klarinettuhendingar undirstrika nærvist dauðans. Verkið endar samt á angurværum dúrhljómi – enn er von; tónskáldið, sem hefur verið á myrkum krossgötum í gegnum allt verkið eygir ljós í fjarska.“ Sömuleiðis er hún orðin þreytt gamla klisjan að fyrstu fjórir tónarnir í fimmtu sinfóníu Beethovens séu táknrænir fyrir örlögin að berja á dyr hins heyrnarlausa tónskálds. Það er miklu meira spunnið í þá en það. Gárungar hafa reyndar bent á að mjög svipaðir tónar heyrast í fjórða píanókonsert- inum eftir Beethoven, og hafa að vonum spurt hvort eitthvað annað en örlögin hafi þar verið að banka upp á hjá honum. Eða þá að örlögin hafi verið að berja á dyr einhvers annars. Þetta sýnir hve allar útskýringar á innihaldi tónlistar sem ekki er sungin, og ekki er svonefnd prógramtónlist, eru til- gangslausar. Það er ekki hægt að útskýra andann – eða andagiftina. Þegar það er reynt kemur það kjánalega út. Sér- staklega þegar afstrakt fyrirbæri á borð við innblásna tónlist er annarsvegar. Snillingurinn leikur sér Myndlistarmaðurinn Alfreð Flóki gerði þó eitt sinn tilraun til að skilgreina andagiftina með því að segja: „Talentið streðar; séníið leikur sér.“ Þetta er ekki alls kostar rétt; Brahms, sem var óumdeilanlega snillingur, var hvorki meira né minna en tuttugu ár að streða við að semja fyrstu sinfóníu sína. Hann var samt ekki bara að fást við hana á þessum tuttugu árum, hann samdi líka margt annað. En hann var ekkert að leika sér; hann þurfti virkilega að hafa fyrir því að koma snilld- arverkum sínum í endanlega mynd. Sömu sögu er að segja um Beethoven og marga aðra. Þrátt fyrir þetta er munur á talenti, þ.e. þess sem hefur hæfileika, og innblásnum snillingi. Flóki sjálfur var snill- ingur, og hafði ekki mikið fyrir teikningum sínum. Kannski var hann líka að hugsa um Mozart þegar hann greindi á milli snillings og talents – Mozart virtist a.m.k. ekki hafa þurft að streða við að semja tónverk. Ef einhver hefur leikið sér að því að búa til sinfóníur, þá var það hann. Hann sagði sjálfur að hugmyndir sínar kæmu eðlilega, og hann þyrfti ekki – né gæti neytt þær fram. Stundum reyndi hann meira að segja að fá frið fyrir innblæstrinum! Þá spilaði hann billiard eða eitt- hvað annað, en það dugði oft ekki til. Mozart gat ekki varpað skýru ljósi á eðli innblásturs og hvaðan hann kemur. Hann bara fékk hugmyndirnar, og ef honum líkaði það sem hann heyrði innra fyrir sér, þá lagði hann tónlistina á minnið. Svo óx hún og áður en varði var tón- verkið svo til fullsamið í huga hans. Hann gat þá „séð“ verkið í heild; hann gat heyrt það allt í einu, á sama augnablikinu þó það væri langt. Þá var bara handavinnan eftir – að skrifa það niður á blað. Einu sinni stundi hann upp úr sér að hann upp- lifði innblástur eins og einstaklega skýran draum. Lengra fór hann ekki í lýsingum sínum, en það má gera sér í hugarlund að hann hafi verið í einhverskonar leiðsluástandi þegar hann samdi tónlist. Sumir hafa meira að segja haldið að það hafi verið af yfirskilvitlegum toga. Mozart nefndi þó aldrei Guð er hann var að lýsa þessu, en hann þakkaði samt Guði fyrir hæfileika sína. Virka galdrarnir? Í ljósi alls þessa er ekki að undra að enn sé talað um töfra- heim tónlistarinnar og að fólk sjái í henni rödd hins yf- irskilvitlega og telji að innblástur komi frá Guði. En ef tónlist er töfrakennd þá hlýtur maður að spyrja hvort galdurinn virki. Galdrar eru sagðir umbreyta, hafa áhrif á kring- umstæður og atburði; hverju hefur tónlistin áorkað? Sumir segja að þrátt fyrir tal um annað breyti listirnar aldrei samfélaginu en það er ekki alveg rétt, til eru dæmi um listaverk sem einmitt hafa valdið miklum breytingum. Sýn- ing óperunnar La Muette de Portici eftir Auber í Brussel hinn 25. ágúst árið 1830 kom af stað byltingu gegn yfirráðum Hollendinga þar í landi og skáldsagan Kofi Tómasar frænda eftir Harriet Beecher Stowe er talin ein af orsökum Þræl- astríðsins. Í báðum þessum listaverkum voru ákveðnar hug- myndir settar fram á kraftmikinn hátt og kveikti það í púð- urtunnum í samfélaginu. Hrein tónlist, þ.e. tónlist sem er ekki í tengslum við kvik- mynd, leikrit eða ljóð, hefur ekki endilega þennan mátt, því merking hennar er ekki sjálfgefin. Eins og áður sagði fullyrti Victor Hugo að tónlist fjallaði um eitthvað sem ekki er hægt að tjá með orðum en er ekki heldur hægt að þegja yfir. Hrein tónlist tjáir hið ósegjanlega og merking þess er háð túlkun hvers og eins. Máttur hreinnar tónlistar á tilfinningar hlust- andans er samt óumdeilanlegur, ef viðkomandi á annað borð hrífst af henni. Áhrif hennar á annað eru óljósari, þó stund- um sé öðru haldið fram eins og þegar sagt er að tónlist og tónlistarnám geri manninn greindari. Það er ósannað, a.m.k. segir á Vísindavef Háskóla Íslands að: „…hvorki [sé] hægt að staðfesta né alfarið hafna þeim möguleika að tónlistarnám geti leitt til aukinnar færni á afmörkuðum sviðum vitsmuna- starfsemi svo sem rýmdarhugsunar (spatial thinking). Ekk- ert hefur hins vegar komið fram sem réttlætir jafn afgerandi ályktun og þá að tónlistarnám auki almenna greind fólks…“ Skiptir það kannski ekki máli? Hér í lok þessarar löngu greinar er rétt að draga saman það sem fram hefur komið að ofan. Í örstuttu máli hef ég spurt hver sé uppspretta innblásturs og hverjir séu töfrar tónlist- arinnar. Eins og sjá má hef ég ekki getað svarað því – og í rauninni verður hver og einn að svara því fyrir sjálfan sig. Samt er nauðsynlegt að spyrja; innblásin tónlist er langt frá því að vera sjálfsögð í heimi verksmiðjupopps og síbylju. Hvort sem töfrar tónlistarinnar eru bara huglægs eðlis eða hvort þá megi mæla á nákvæman hátt, þá er a.m.k. ljóst að tengsl tónlistar við heim töfra og trúar verða ekki rofin í bráð. Þau eru ævaforn og alheimsleg. Þess vegna er alveg öruggt að tónleikar munu áfram vera haldnir í kirkjum um ókomna tíð, jafnvel þó hér rísi margar tónleikahallir. Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur hélt því fram í grein sem birtist fyrir nokkru hér í Lesbókinni að trú- hneigðin sé manninum í blóð borin. Hvort heimur trúarinnar er óskhyggja eða ekki er svo auðvitað umdeilanlegt og skipt- ir kannski ekki máli í þessu samhengi. Ég persónulega held að sum tónlist SÉ innblásin af æðri máttarvöldum, en það er að sjálfsögðu huglægt mat, byggt á eigin tilfinningu. Hið eina sem hægt er að staðhæfa er að á meðan maðurinn trúir munu töfrar tónlistarinnar halda áfram að storka náttúrulögmál- unum, jafnvel þó það sé aðeins í huga þess sem hlustar.  Heimildir: Abell, Arthur M. (1955): Talks With Great Composers; Árni Kristjánsson (1986): Hvað ertu tónlist?; Bowers, Faubion (1970): Scriabin; Deren, Maya (1953): Divine Horsemen: The Living Gods of Haiti; Headington, Christopher (1987): Saga vestrænnar tónlistar; Jón Karl Helgason: Fyrirlestrar í sam- tímagreiningu í mennta- og menningarstjórnun við Viðskiptaháskólann á Bif- röst; Kerst, Friedrich og Krehbiel, Henry Edward, ritstj. (1964): Beethoven: The Man and the Artist, As Revealed in His Own Words; Matthías Viðar Sæ- mundsson (1992): Galdrar á Íslandi; Nína Björk Árnadóttir (1992): Ævin- týrabókin um Alfreð Flóka; Pleasants, Henry (1989): Opera in Crisis; Ruther- ford, Ward (1986): Shamanism; Scheidegger, D. A. (1988): Tibetan Ritual Music, A General Survey with Special Reference to the Mindroling Tradition (Opuscula Tibetana); Storr, Anthony (1976): The Dynamics of Creation; Wil- helm, Richard (1980): The I Ching or Book of Changes; Vefsetur Encyclopædia Britannica http://search.eb.com; Gagnasafn Morgunblaðsins á Netinu http:// www.mbl.is/mm/gagnasafn; Vísindavefur Háskóla Íslands http://visinda- vefur.hi.is Tunglhrif eftir Alfreð Flóka „Sama var uppi á teningnum er geðsjúklingar voru annars vegar. Slíkir einstaklingar voru „lúnatískir“ – fengu brjálæðislegar hugmyndir sínar frá útgeislun Lúnu, þ.e.a.s. mánans – eða hreinlega frá djöflum.“ ’Eitt nærtækasta dæmið um tengsl tónlistar við heim hins yfirskilvitlega er sú staðreynd að tónlist er ómissandi hlutiaf helgihaldi kirkjunnar. Og það er ekkert nýtt; í Mesópótamíu fyrir um fimm þúsund árum voru reist musteri helguð náttúruguðum sem varð að friðþægja með viðeigandi söng- og hljóðfæraleik. Egyptar til forna, sem voru þeirrar skoð- unar að mannsröddin væri máttugasta tækið til að ákalla guðina, þjálfuðu hofpresta sína vandlega í söng; Babýlóníu- menn notuðu tónlist við trúarathafnir sínar og Konfúsíus áleit að tónlist túlkaði „samhljóman himins og jarðar“. Í hinni ævagömlu Bók breytinganna, I Ching, er minnst á forna konunga sem léku tónlist með viðhöfn fyrir „hinn æðsta guð og buðu forfeðrum sínum að vera viðstaddir“. ‘ Höfundur er tónlistargagnrýnandi við Morgunblaðið.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.